Ég hef misst bloggtaktinn undanfarið og ýmsan annan takt í lífinu en þó verið jafn hamingjusamur og endranær. Það sem helst hefur sett tilveruna úr skorðum eru raunar lítilfjörleg loftnetsvandræði vegna meintrar áskriftar að Sýn, Stöð 2 og Bíórásinni. Ég hef nú ákveðið að hætta við áskriftina og skila myndlyklinum, vegna þess að ég hef ekki áhuga á að láta einhverja sjónvarpsvirkja féflétta mig, en ég hef heyrt tölur eins 25 þúsund svart til að tengja mig við örbylgjuloftnetið uppi á þaki. Ég mun aldrei lifa þannig lífi að það borgi sig fyrir mig að hafa aðgang að öllum sjónvarpsstöðvum og nú þegar er ég búinn að sjá þrjá leiki á HM áskriftarlaus, sem er alveg jafnmikið og ég hefði hvort eð er horft á. - En ef einhver hefur áhuga á því að gera þetta fyrir mig fyrir minni pening og án þess að láta mig bíða of lengi, þá má hann alveg melda sig. Síminn er 692 6966.
Það gleður mig að í þeim fyrstu þremur leikjum sem ég séð hafa Þjóðverjar sýnt langbestu knattspyrnuna og virðast vera komnir með eitt skemmtilegasta lið Evrópu. Það hlýtur að koma nokkuð á óvart.
Það er afar ólíklegt að skáldsagan margnefnda komi út í haust. Þetta gengur vel í þeim skilningi að textinn sem ég skrifa er mjög góður, öfugt við hnoðið í fyrra, og ef ég færi í útlegð í þrjá mánuði, þá gæti ég eflaust klárað þetta á þeim tíma; en ég lifi ekki þannig lífi. Ég stunda mína vinnu, sinni minni fjölskyldu, horfi á minn fótbolta o.sfrv. og svo skrifa ég jafnt og þétt og þó andskoti hægt. - Þetta verður því í annað sinn í röð sem þrjú ár líða á milli bóka hjá mér og finnst mér það svo sem allt í lagi. Ég held ég geti lofað sjálfum mér og öðrum góðri bók haustið 2007, vonandi verð ég ennþá með útgefanda þá.
Zappa-tónleikarnir í Hafnarhúsinu voru stórkostlegir, í rauninni var þetta listviðburður sem verðskuldar umfjöllun langt út fyrir raðir rokkáhugamanna. Ég vona að einhverjir þungavigtarmenn í tónlistarlífinu hafi verið á staðnum.
Þyngd og skokk. Ekki hef ég minnst mikið á það. Þó hef ég stundað skokkið alveg jafngrimmt og í fyrra og ljóst er að við Erla munum bæði bæta tímann okkar áþreifanlega í 10 kílómetrunum í Reykjavíkurmaraþoninu. Þyngdin er hins vegar svipuð og í fyrra. Ég missti þessi 7-8 kíló þá og þau hafa aldrei komið aftur. Það er bæði gott og slæmt. Ég hef verið laus við ofát í allan vetur og ekki bragðað sætindi síðan í október. En ég borða of mikið til að geta lést, fæ mig ekki til að hrökkva í megrunargír og hungur. Við verðum bara að sjá til hvort eitthvað gengur á þetta í sumar.