laugardagur, júní 10, 2006

Ég hef misst bloggtaktinn undanfarið og ýmsan annan takt í lífinu en þó verið jafn hamingjusamur og endranær. Það sem helst hefur sett tilveruna úr skorðum eru raunar lítilfjörleg loftnetsvandræði vegna meintrar áskriftar að Sýn, Stöð 2 og Bíórásinni. Ég hef nú ákveðið að hætta við áskriftina og skila myndlyklinum, vegna þess að ég hef ekki áhuga á að láta einhverja sjónvarpsvirkja féflétta mig, en ég hef heyrt tölur eins 25 þúsund svart til að tengja mig við örbylgjuloftnetið uppi á þaki. Ég mun aldrei lifa þannig lífi að það borgi sig fyrir mig að hafa aðgang að öllum sjónvarpsstöðvum og nú þegar er ég búinn að sjá þrjá leiki á HM áskriftarlaus, sem er alveg jafnmikið og ég hefði hvort eð er horft á. - En ef einhver hefur áhuga á því að gera þetta fyrir mig fyrir minni pening og án þess að láta mig bíða of lengi, þá má hann alveg melda sig. Síminn er 692 6966.

Það gleður mig að í þeim fyrstu þremur leikjum sem ég séð hafa Þjóðverjar sýnt langbestu knattspyrnuna og virðast vera komnir með eitt skemmtilegasta lið Evrópu. Það hlýtur að koma nokkuð á óvart.

Það er afar ólíklegt að skáldsagan margnefnda komi út í haust. Þetta gengur vel í þeim skilningi að textinn sem ég skrifa er mjög góður, öfugt við hnoðið í fyrra, og ef ég færi í útlegð í þrjá mánuði, þá gæti ég eflaust klárað þetta á þeim tíma; en ég lifi ekki þannig lífi. Ég stunda mína vinnu, sinni minni fjölskyldu, horfi á minn fótbolta o.sfrv. og svo skrifa ég jafnt og þétt og þó andskoti hægt. - Þetta verður því í annað sinn í röð sem þrjú ár líða á milli bóka hjá mér og finnst mér það svo sem allt í lagi. Ég held ég geti lofað sjálfum mér og öðrum góðri bók haustið 2007, vonandi verð ég ennþá með útgefanda þá.

Zappa-tónleikarnir í Hafnarhúsinu voru stórkostlegir, í rauninni var þetta listviðburður sem verðskuldar umfjöllun langt út fyrir raðir rokkáhugamanna. Ég vona að einhverjir þungavigtarmenn í tónlistarlífinu hafi verið á staðnum.

Þyngd og skokk. Ekki hef ég minnst mikið á það. Þó hef ég stundað skokkið alveg jafngrimmt og í fyrra og ljóst er að við Erla munum bæði bæta tímann okkar áþreifanlega í 10 kílómetrunum í Reykjavíkurmaraþoninu. Þyngdin er hins vegar svipuð og í fyrra. Ég missti þessi 7-8 kíló þá og þau hafa aldrei komið aftur. Það er bæði gott og slæmt. Ég hef verið laus við ofát í allan vetur og ekki bragðað sætindi síðan í október. En ég borða of mikið til að geta lést, fæ mig ekki til að hrökkva í megrunargír og hungur. Við verðum bara að sjá til hvort eitthvað gengur á þetta í sumar.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Gula pressan er oft svo hræsnisfull. Núna er vefútgáfa Bild Zeitung farin að hneykslast á gömlum ástarlífsmyndum af fyrrverandi eiginkonu Pauls McCartney. En á þessum sama vef er hins vegar stunduð umfangsmikil klámmyndasala fyrir lesendur.

Ég hef átt í óskaplega leiðinlegu afruglaraveseni eftir að ég fékk mér áskrift í gær. Enn er myndlykillinn ekki búinn að finna neinar stöðvar og ég á von á heimsókn frá Mömmu (fyrirtækinu) á morgun, ja vonandi að þeir mæti.

Gaman á KR-leiknum í gær en svo bíður maður í ofvæni eftir HM. Það verður HM-partý hér í vinnunni á föstudag en opnunarleikurinn, Þýskaland - Kosta Ríka, hefst kl. 16.

Um kvöldið fer ég síðan á Zappa-tónleikana í Hafnarhúsinu.

Hverjum datt í hug að Guðni Ágústsson væri vandamál Framsóknar? Það eru menn eins og hann sem skaffa það fylgir sem á annað borð skaffast. Gamaldags dreifbýlismenn. Og þeir geta ágætlega unnið með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn. Það er ekkert að því fyrir Framsókn að Guðni verði formaður.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Mein Geld zurück

Það tók ekki nema nokkrar mínútur að leiðrétta þetta eftir símtalið.

sunnudagur, júní 04, 2006

Bankarán

Á fimmtudagskvöldið ætlaði ég að taka út peninga úr hraðbanka. Allt ferlið var með eðlilegum hætti allt þar til eftir tilmælin: Taktu peningana þína. - Það komu engir peningar og eftir töluverða bið kom upp melding um bilun í kerfinu.

Stuttu síðar tékkaði ég á einkabankanum á netinu og þar kom færslan ekki fram. Mér var létt.

En í dag kom hins vegar í ljós að færslan hafði skráðst daginn eftir. Í augnablikinu er ég því 20 þúsund krónum fátækari, þ.e. reikningurinn sýnir úttekt á peningum sem ég hef aldrei fengið.

Aldrei hefur mig órað fyrir því að ekki væri hægt að treysta hraðbönkum á Íslandi.

Ég þarf því að hringja í þjónustuverið á þriðjudaginn og fá botn í málið.

Hefur einhver lent í viðlíka? Getur einhver ráðið í framhaldið?

Eins og komið hefur fram les ég minna og hægar en oft áður. Núna er ég búinn að finna mér lestrar(verk)efni sem gæti dugað mér út sumarið. Við að fletta og lesa stóra safninu hennar Joyce Carol Oates, High Lonesome, uppgötva ég að hún hefur endurskrifað tvær af frægustu smásögum bókmenntasögunnar, þ.e. Konuna með hundinn eftir Chekhov og The Dead eftir James Joyce. Hún virðist hafa skrifað e.k. nútímaútgáfur af þessum sögum en ég á þær báðar til í íslenskum þýðingum (gæti að vísu orðið nokkuð lengi að leita að James Joyce bókinni). Gaman væri að lesa þetta allt með samanburð í huga á næstunni, jafnvel gaumgæfilega.

Þetta er sumar, íslenskt sumar, reykvískt sumar. Ekki bíða, njótið þess. Það verður ekkert betra. 10 stiga hiti og sólskin, golan svöl. En í miðbænum er skjólgott og sæmilega klæddum finnst manni vera sumarhiti. Frábær og drepfyndinn götulistamaður skemmti fólki á Lækjartorgi í dag. Hann heitir Wally og rakaði saman fé eftir vel heppnaða sýningu þar sem hann gerði grín að nánast öllum vegfarendum sem áttu leið um en þó mest sjálfum sér.

Allt er orðið grænt og börnin í götunni leika sér úti fram eftir kvöldi. Það gerist ekki betra. Njótið þess núna.