föstudagur, maí 20, 2005

Ég var að hugsa um það áðan hvað það væri skelfilegt ef ég þekkti bara listamenn. Ég hef að miklum hluta alltaf verið í öðru umhverfi, á svæði sögupersóna minna. Í sjálfu sér hefði verið æskilegt og komið sér vel að ég þekkti aðeins fleiri listamenn og menningarfrömuði, svona í gegnum tíðina, en engu að síður, hitt væri skelfilegra: Ef allir sem ég þekkti væru rithöfundar, trúbadorar, myndlistarmenn, útgefendur, heimspekingar, listfræðingar, umboðsmenn; ég ætti mörg hundruð svoleiðis vini og þekkti ekkert annað fólk og allt mitt félagslíf snerist um listaverk og listviðburði, allar mínar samræður snerust meira og minna um af hvaða kynslóðum ég, þessi og hinn værum, og svo framvegis og svo framvegis. - Og þannig hefði það verið allt frá unglingsaldri.

Um hvað ætti maður að skrifa? Bara um listamannalíf? Eða bara um það að skrifa um listamannalíf? Um isma? Um fólk sem talar um isma? Ismasamræður - nýtt smásagnsafn.

Þetta er hræðileg tilhugsun sem verður aldrei veruleiki, sem betur fer.

Upphafssetningar og lokasetningar eru gríðarlega mikilvægar, jafnt í löngum sögum sem stuttum. Nýja tilvitnunin er endir sögunnar Afmælisgjöfin. Þessi endir féll ekki öllum í geð en ég er hæstánægður með hann. Mér finnst hann í anda Chekhovs þó að ég vilji ekki að öðru leyti líkja mér við þann meistara. Ekki strax.

Að vera á mörkunum

Stórgóð forsíða DV í dag: FRÆGIR OG FEITIR TIL VARNAR LILJU. - Feitt og frægt fólk tekur upp hanskann fyrir feitu konuna sem synjað var leyfi til ættleiðingar vegna ofþyngdar. Þá varð mér hugsað til þess að líklega væri ég hvorki nógu feitur né nógu frægur til að slást í hópinn. Það vantar örfá kíló (sérstaklega af því ég er búinn að missa 3 það sem af er mánuðinum) og líka nokkur frægðardesibel.

En ég sendi þó hér með stuðningsyfirlýsingu frá þessari bloggsíðu.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Háskóla dauðans

Ég tók ekki með mér Who í vinnuna í dag og þess vegna hlakka ég til að hlusta á þá þegar ég kem heim. Uppvask og þvottahús, get ekki beðið eftir öskrum í eyra.

http://www.krreykjavik.is/?kr=spjall&yid=5585 Hér eru færðar meintar sönnur á að boltinn hafi aldrei farið inn fyrir línuna í umdeildu atviki í leiknum þar sem því hefur verið haldið fram að mark hafi veri haft af Fylki.

DV leiðir þetta hjá sér í dag, sem betur fer. Fjallar um Kristján Finnboga sem hefur verið umdeildur út af samstuði í leiknum. Ég hef ekkert út á hann að setja, hann bjargaði okkur frá tapi. KR og Fylkir eru að verða alvöru höfuðandstæðingar, hálfgerð fjandlið.

Kosturinn við blogg er sá að engin takmörk eru fyrir því hvað hægt er að skrifa þar um lítilfjörleg efni. Samt virkar það. Í kvöld ætlaði ég að skrifa færslu um rautt kápubelti en af einhverjum dularfullum ástæðum langar mig frekar að skrifa útvarpspistil um það. Það hljómar ekki vel en spennandi verður að sjá útkomuna.

Annað: Skyndilega flaug mér sú staðreynd í hug að mér líkar vel við unglinga. Mér hefur í rauninni líkað afar vel við þá lengi án þess að hugsa út í það. Maður hugsar nefnilega ekki um unglinga frekar en kettina sem spígspora um Þingholtin. En mér líkar bæði vel við ketti og unglinga. Mér þykir, held ég, vænt um unglinga, en það gefur til kynna að ég sé að verða gamall.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Æ Æ Æ Æ Æ

Ég kvíði fyrir því að opna DV á morgun. Vonandi er ég að mikla það fyrir mér. En fyrst blaðið er komið í málið er alveg eins gott að ég segi frá því hér.

Það gerðist dálítið á Fylkir-KR í gær, frekar óæskilegt en ekkert stórmál þó. Í fyrra lagi var framkoma lukkudýrs Fylkis óviðeigandi. Það tók sér nokkrum sinnum stöðu fyrir framan áhorfendahóp KR og var með ögrandi táknmál við KR-áhorfendur. - Í síðara lagi: Eftir leikinn gerðist eftirfarandi: Á leiðinni að útganginum gekk einn Fylkismaður með trommu í höndunum að KR-ingi og þrýsti trommunni að höfði hans. Þetta var ekki högg og líklega ekki sárt en mjög ögrandi. Af þessu hlutust einhver orðaskipti en Fylkismennirnir (þarna var lukkudýrið, búið að taka af sér tígishöfuðið og e-r Fylkistrommarar) drógu sig þó strax í hlé.

Þar sem slagsmál mega aldrei verða möguleiki á fótboltaleikjum hér á landi og Fylkir er gott félag sem er vant að virðingu sinni (en auðvitað eru íbúar hverfisins misjafnir eins og annars staðar) þá sendi ég kurteislegt skeyti til varaformanns Fylkis í gærkvöld. Hann svaraði mér að bragði mjög kurteislega og sagðist ætla að kanna málið.

En auðvitað var ekki hægt að þagga þetta niður því menn fóru að ræða þessi tvö atvik (lukkudýrið og trommarann) á spjallrás KR, ég blandaði mér í þær umræður, og andartaki síðar var DV búið að hringja í mig.

Ég vildi sem allra minnst segja, enda hafði ég lofað Fylkismönnum trúnaði, en stundi því útúr mér í lokin að þetta hefði mátt kalla tveggja sekúndna stympingar sem til allrar hamingju hættu undir eins. Samt óvanalegt á íslenskum knattspyrnuvelli.

Nú óttast ég að sjá sjálfan mig á forsíðunni á morgun í þessari óstöðvandi ágengu pressu sem er eins og norsku og dönsku hádegisblöðin og fylgir ströngum siðareglum, og er þess vegna alltaf í heilögum rétti; og risastór fyrirsögn: BLÓÐUG ÁTÖK Á FYLKISVELLI - RITHÖFUNDUR KEMST UNDAN VIÐ ILLAN LEIK.

Nei, kannski er ég að ýkja DV. Kannski verður þetta ekki svona. En þið sem lesið þetta hér: Í sjálfu sér var þetta ekki neitt neitt, engu að síður óviðeigandi og óæskileg framkoma lykilsstuðningsmanna sem ég veit að Fylkismenn fyrirbyggja að gerist aftur.

Jón Atli Jónasson hringdi í mig í gær og bauð mér á rennsli á Rambó 7 sem frumsýnt verður á fimmtudagskvöld. Ég ætla að taka Erlu með mér. Kominn tími til að drulla sér í leikhús. Ég held að Jón Atli sé alltaf að reyna að skrifa um eitthvað sem skiptir máli, en það er kominn tími til að kynna sér það.

þriðjudagur, maí 17, 2005

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=41685 Tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins eru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Helsti munurinn á þessum flokkum er sá hvað Samfylkingin er svakalega leiðinleg. Allt sem hún gerir verður hryllilega langdregið og leiðingjarnt. Þið getið rétt ímyndað ykkur ástandið ef Ingibjörg Sólrún verður forsætisráðherra í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Endalausar umræður og óákveðni; engar aðgerðir. Vaxandi eftirlitsiðnaður. Endalaus, gjörsamlega botnlaus fjölmiðlaumfjöllun um form. Óendanleg leiðindi.

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=41675 Nýtt stef í umræðu frá því um daginn: Menn sem grunaðir eru um nauðgun eru hættulegir umhverfi sínu. Þeir eiga ekki að ganga lausir nema þegar og ef þeir reynast sýknir saka. Sama gildir um líkamsmeiðingar.

Það er engu líkara en hér á landi hafi aldrei verið til vinstri menn sem studdu Sovétskipulagið. Þannig bregðast menn við, t.d. á kommentakerfi hér. Er hægt að hugsa sér meiri afneitun?

mánudagur, maí 16, 2005

Skrapp með Jóni Óskari á Val-Grindavík áðan. Hann var óneitanlega kátur, blessaður karlinn, enda unnu hans menn öruggan sigur. Leikurinn var vel sóttur og m.a. var þarna slæðingur af forvitnum KR-ingum sem sáu Gumma Ben. eiga stórleik með Val. Það hefur áreiðanlega vakið blendnar tilfinningar.

Sá í Helgar-DV að ein spurningin í Gáfaðasti maður Íslands var: Hver skrifaði bókina Tvisvar á ævinni? - Ævar Örn vissi svarið en ekki Þórunn Sveinbjörnsdóttir. Hún fékk makleg málagjöld, steinlá fyrir Ævari. Það hefði ég reyndar gert líka.

Ég fékk vægt kvíðakast áðan, eitthvað sem fylgir of langri fríhelgi. Ég sá fyrir mér röð mistaka í prófarkalestri og vonlausra fyrirsagna og brauðtexta í vikunni. Óx allt í augum. Var líka hræddur við útvarpspistlana og að skáldsagan yrði misheppnuð. Ég lá þá uppi í rúmi, skjálfandi af kulda, því ég hafðí verið of illa klæddur á vellinum.

Stuttu síðar náði ég hrollinum úr mér og fór að setja í uppþvottavélina með Roger Daltrey öskrandi í eyrunum. Um leið var sjálfstraustið komið aftur og ég sá ekkert framundan nema góða skáldsögu, góða auglýsingatexta og glimrandi útvarpspistla. - Stundum er eins og sálarlíf manns og karakter sé ekkert nema einhver óskiljanleg og óviðráðanleg efnasúpa í heilanum.

3-3 og málið er dautt

http://bokabloggid.blogspot.com/2005/05/hugsjnadruslan-eftir-eirk-rn-nordahl.html

http://www.visir.is/?PageID=91&NewsID=41543 Íslendingar hafa lengi átt fullt af heimsklassaleikmönnum í handbolta. Við ættum fyrir löngu að vera búnir að krækja okkur í heimsmeistaratitil. En við höfum klikkað á grundvallaratriðinu: markmannsþjálfun og jafnvel varnarleik. Núverandi landsliðsþjálfari, sem ég fagnaði mjög ráðningu á, virðist lítið skynbragð bera á varnarleik, miðað við það sem ég hef séð. Eftir leikina við Pólverja um páskana virtist hann vera þokkalega sáttur við varnarleikinn. Þá hugsaði ég með mér: "Gústi, þú hefur ekkert vit á þessu, kannski var þetta bara o.k." En síðan kom viðtal við Sigfús Sigurðsson sem staðfesti það sem mér hafði sýnst: Vörnin var hörmuleg og það lak allur andskotinn í gegnum hana. Og Pólverjarnir voru lélegir, fjandakornið, í þessum leikjum.

Íslendingar eiga heima á toppnum í handbolta. Það gerist ekki fyrr en vörn og markvarsla verða í sama klassa og hjá öðrum toppþjóðum.

sunnudagur, maí 15, 2005

Jájá, ókei, en bara einu sinni í viðbót

http://bokabloggid.blogspot.com/2005/05/hugsjnadruslan-eftir-eirk-rn-nordahl.html

Látið svo manninn fá tölvuna sína. Ég gaf aldrei skipun um þetta. Hvers konar ómenni haldið þið að ég sé?

Hreyfing og mataræði

Ég er staddur á þeim tímapunkti í heilsuátaki mínu þegar vanalega fer að halla undan fæti og allt fer til andskotans. Ekki hef ég hugmynd um hvers vegna það hefur alltaf gerst en núna ætla ég að standa mig og þess vegna minni ég aftur á þetta annars lítt athyglisverða málefni. - Ég borða reyndar mikið en sæki kolvetnin að langmestu leyti í grænmeti, ávexti og mjólkurvörur. Ég hef aukið skokkið og stunda aðra hreyfingu flesta daga sem ég skokka ekki. - Vonandi drap ég engan úr leiðindum núna, en bloggsíðan er nýtt psykhólógískt megrunartæki.

Nú ætlar ÁBS að vera sanngjarn

http://bokabloggid.blogspot.com/2005/05/hugsjnadruslan-eftir-eirk-rn-nordahl.html Helsta ástæðan fyrir gleði minni yfir ritdómi ÚD um HD eftir EÖN var að ritdómarinn sagði nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa um bókina, en gerði það miklu betur en ég hafði gert. Andúð mín á bókum er ekki andúð á fólki. Fagurfræðileg viðhorf mín eru svo sterk að ég fyllist andúð á því sem stríðir fullkomlega gegn því sem ég vil kalla alvöru skáldskap, heiðarlegan og lifandi skáldskap. Ég viðurkenni að eftir lestur bókarinnar gramdist mér hvað höfundurinn var víða dreginn inn á hið viðurkennda landakort samtímabókmennta okkar. Mér fannst hann svo sannarlega ekki hafa unnið til þess. Mér fannst hann ekki hafa búið til neina sögu heldur hélt hann víða fram athyglisverðum viðhorfum sem sumir gagnrýnendur höfðu gaman af að henda á lofti og gleymdu því að skáldsaga er ekki grein á Kistunni.

Ýmsir kunningjar mínir eru hins vegar mun ánægðari með þessa bók. Ekki hef ég hugmynd um hvers vegna en þeir hljóta að vera jafndómbærir og ég.

Og eftir daglöng hátíðarhöld vegna dóms ÚD er sjálfsagt að birta andstæð viðhorf um, ja á maður að segja, umdeilda bók? Flestir eru nú eflaust að hugsa um eitthvað annað en HD í dag en segjum að hún sé umdeild á meðal okkar sérvitringa sem höfum alvarlegan áhuga á bókmenntum, sunnanlands og vestan.

Greinar Egils Helgasonar (sú nýjasta í DV í dag) og fleiri um glæpi Sovétmanna gagnvart eigin þjóð og öðrum þjóðum eru afar viðeigandi á þeim tímamótum þegar þess er minnst að 60 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við vitum afar margt um glæpi nasismans og því er það tímabært þegar heimstyrjaldalokanna er minnst að rifja upp og halda á lofti öðrum glæpum sem framdir voru um þetta leyti: hreinsanirnar í sovéska kommúnistaflokknum, fjöldamorð á menntamönnum, fjöldamorð og þrælahald í tengslum við þjóðnýtingu landbúnaðarins, fjöldamorð á pólskum liðsforingum, nauðganir og morð á Þjóðverjum í stríðslok, Berlínarmúrinn, hernámið í Eystrastaltslöndunum, o.s.frv. o.sfrv. - Ég skil ekki hvers vegna mannkynið á ekki að læra af glæpum kommúnismans rétt eins og glæpum nasismans og mér finnst óþolandi hvernig beint og óbeint er alltaf gert lítið úr þeim verkum og kaldastríðsstimpillinn settur á þá sem vilja rifja upp þennan hluta sögunnar. Enginn getur þó sett kaldastríðsstimpil á Egil Helgason. -