Ég kvíði fyrir því að opna DV á morgun. Vonandi er ég að mikla það fyrir mér. En fyrst blaðið er komið í málið er alveg eins gott að ég segi frá því hér.
Það gerðist dálítið á Fylkir-KR í gær, frekar óæskilegt en ekkert stórmál þó. Í fyrra lagi var framkoma lukkudýrs Fylkis óviðeigandi. Það tók sér nokkrum sinnum stöðu fyrir framan áhorfendahóp KR og var með ögrandi táknmál við KR-áhorfendur. - Í síðara lagi: Eftir leikinn gerðist eftirfarandi: Á leiðinni að útganginum gekk einn Fylkismaður með trommu í höndunum að KR-ingi og þrýsti trommunni að höfði hans. Þetta var ekki högg og líklega ekki sárt en mjög ögrandi. Af þessu hlutust einhver orðaskipti en Fylkismennirnir (þarna var lukkudýrið, búið að taka af sér tígishöfuðið og e-r Fylkistrommarar) drógu sig þó strax í hlé.
Þar sem slagsmál mega aldrei verða möguleiki á fótboltaleikjum hér á landi og Fylkir er gott félag sem er vant að virðingu sinni (en auðvitað eru íbúar hverfisins misjafnir eins og annars staðar) þá sendi ég kurteislegt skeyti til varaformanns Fylkis í gærkvöld. Hann svaraði mér að bragði mjög kurteislega og sagðist ætla að kanna málið.
En auðvitað var ekki hægt að þagga þetta niður því menn fóru að ræða þessi tvö atvik (lukkudýrið og trommarann) á spjallrás KR, ég blandaði mér í þær umræður, og andartaki síðar var DV búið að hringja í mig.
Ég vildi sem allra minnst segja, enda hafði ég lofað Fylkismönnum trúnaði, en stundi því útúr mér í lokin að þetta hefði mátt kalla tveggja sekúndna stympingar sem til allrar hamingju hættu undir eins. Samt óvanalegt á íslenskum knattspyrnuvelli.
Nú óttast ég að sjá sjálfan mig á forsíðunni á morgun í þessari óstöðvandi ágengu pressu sem er eins og norsku og dönsku hádegisblöðin og fylgir ströngum siðareglum, og er þess vegna alltaf í heilögum rétti; og risastór fyrirsögn: BLÓÐUG ÁTÖK Á FYLKISVELLI - RITHÖFUNDUR KEMST UNDAN VIÐ ILLAN LEIK.
Nei, kannski er ég að ýkja DV. Kannski verður þetta ekki svona. En þið sem lesið þetta hér: Í sjálfu sér var þetta ekki neitt neitt, engu að síður óviðeigandi og óæskileg framkoma lykilsstuðningsmanna sem ég veit að Fylkismenn fyrirbyggja að gerist aftur.