Hef verið hálfþunnur í dag eftir upplesturinn í gærkvöld, þó varð ég aldrei fullur, rétt fann á mér. Og þar að auki skrifaði ég í tvo klukkutíma eftir að heim kom og náði að leggja síðustu hönd á lagfæringar á sögu í handritinu, þá slökustu, sem nú er orðin boðleg. Upplesturinn var skemmtilegur.
Hef verið að glugga í bókina hans Eiríks Guðmundssonar og líkar vel. Hann er skáld. Einu gildir hvort menn skrifa skáldsögur, smásögur, ljóð, ádeilupistla, ævisögur - það er tónninn og sýnin sem skapar listina. Eiríkur er stíllisti, hefur hið hárnæma auga skáldsins fyrir smáatriðum og athuganir hans eru djúpar.
Hitti hann í Vesturbæjarlauginni þar sem ég var að lesa bókina hans (þ.e. við hittumst í afgreiðslunni). Við höfum ekki talast við áður en það var óhjákvæmilegt fyrst hann kom að mér með bókina hans í höndunum.
Fékk að vita í dag að Bjartur myndi lesa og gefa út álit á handritinu mínu á næstu vikum.