laugardagur, desember 03, 2005

Iðandi sjálfsgagnrýni

Hvern fjandann var ég að hnýta í Iðu í fyrra? Ég held að það hafi verið af óheilbrigðum hvötum, ótta og minnimáttarkennd, ég sá fyrir mér bókabúð í yfirborðslíki þar sem bara metsölubækur yrðu á borðum og meistarar smásögurnar ættu ekki upp á búðarborð. Því fer hins vegar fjarri, Iða stillir upp með áberandi hætti hinum fjölbreyttustu bókmenntum og sýnir upplestrarviðleitni mikinn vinskap. Þá eru þarna þokkalegar myndlistarsýningar, kaffistofan er góð og starfsfólkið þar yndislegt. Í Iðu mætir bókmenningin ólíkum sviðum á nútímalegan hátt. Ég veit svo sem ekkert hvernig þetta gengur en það er gott að koma á þennan stað sem er til sóma. - Litli, vænisjúki rausari, segi ég við sjálfan mig þegar ég rifja upp fyrri skrif mín um staðinn.

Og þá er það frá.

föstudagur, desember 02, 2005

Núna er tímabært að skríða með söguna inn í helli. Næstu mánuði les ég ekki úr henni fyrir vini mína, set ekki fleiri kafla á Rithringinn og ekki fleiri tilvitnanir hér.

Næst þegar ég viðra hana verður hún komin á það stig að hún er að lukkast.

Um helgina er jólahlaðborð hjá Íslensku.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Lystisemdir lífsins eru meðal hindrana á vegi rithöfundarins. Í kvöld kem ég heim með hálfa skáldsögu (eða meira, eftir því hvernig á það er litið) í tölvunni minni, en ég hlakka líka til að skokka og það tekur upp undir klukkutíma. Auk þess er ég með nýjan Who hljómleikadisk og það er líka leikjatölva heima og ég er nýfarinn að geta unnið tölvuna í FIFA 06. Blackpool er síðan þrælgóður breskur þáttur á dagskrá sjónvarpsins og þegar líður á kvöldið fæ ég konuna heita og mjúka heim úr nuddi í World Class. - Töluverða sjálfsafneitun þarf til að þrífast sem rithöfundur í þessari gósentíð. Annars veit ég ekki hvort það er rétta orðið - ég tengi afneitun alltaf við sjálfsblekkingu og ógöngur, það gera 12 spora pælingarnar.

Ég keypti The Who - Live in Boston. - Nýlegir tónleikar.

Alltaf langar mig að verðlauna mig á útborgunardegi. Á eftir er ég að hugsa um að hjóla upp í Skífu og kaupa eitthvert Who-dót. Til dæmis Who´s Next á DVD.

Valið stendur á milli þess að gista í Römerberg í Frankfurt eða í miðbænum í Darmstadt. Ég hef engan tíma til að spóka mig of mikið og gleypa í mig umhverfið á túristavísu en helst má staðurinn samt ekki vera of nöturlegur. Jón Óskar benti mér á Freiburg en hún er aðeins of langt í burtu frá Frankfurt. Ég vil geta notað allan tímann því þetta verður líklega afkastamesta ferðin mín til þessa, handritið stendur þannig að ég stefni að því að slá inn um 50 blaðsíður. Ég vil ekki þurfa að stressa mig á 3ja tíma lestarferð kvöldið áður en ég fer heim.

Ég er að lesa jólabækurnar en ég ætla að fara kannski dálítið varlega í dómunum. Byrjaði á Barnagælum í gærkvöld og ef hún er eins og mér líst á hana þá sleppi ég því að fjalla um hana hér. Ef hún reynist góð þá læt ég þess getið. Þráinn gaf mér Einhvers konar mig um daginn og Valkyrjurnar sínar. Valkyrjurnar les ég um jólin og líka Blóðberg. Mamma er að lesa hana núna og er stórhrifin. Ég er búinn með Höfuðlausn Ólafs Gunnarssonar en er enn að lesa Rokland. Í frostinu eftir Jón Atla er ég búinn með, líka Steintré Gyrðis og Nokkurs konar sögur eftir Hallberg Hallmundsson. Og Feigðarflan Rúnars Helga. Mig langar að lesa Hina sterku eftir Kristján Þórð og Sólksinshest Steinunnar Sigurðardóttur. Einhvern tíma les ég Argóarflísina eftir Sjón en ætla samt að leyfa henni að bíða.

Af nonfixjón bókum langar mig í Völundarhús valdsins og skrýtnu bókina um bókaverðina á Landsbókasafninu, hvað heitir hún, Afbrigði og útúrdúrar?

Ég er nýbúinn að klára pistil þar sem ég held því fram að Arnaldur Indriðason sé ekki morðingi. Hann ætti að birtast í næstu viku.

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Hvað haldiði að hafi beðið mín þegar ég kom heim í kvöld? Barnagælur eftir Óttar Norðfjörð - orðlaus og nafnlaus sending frá Eddu. Gott mál hjá þeim, maðurinn er vekja athygli á slæmum dómi sem bókin hefur fengið, best að hann lesi hana og tjái sig síðan um hana. Og það skal ég gera, ég skal lesa hana fullkomlega fordómalaust og segja síðan kost og löst á henni.

http://rafauga.typepad.com/voff/2005/11/dmur_um_dm.html Hér er Barnagælum hælt og DV-dómi PBB hallmælt.

Það er grein eftir mig í Blaðinu í dag og svo önnur strax í næstu viku.

Miðvikudagsköldið 30. nóvember kl. 20:00 efnir bókaútgáfan Salka til útgáfugleði í Þjóðleikhúskjallaranum.
Höfundar og þýðendur lesa úr verkum sínum og á meðal þeirra sem stíga á stokk eru Ingibjörg Hjartardóttir, Guðlaugur Arason, Þóra Jónsdóttir, Kristian Guttesen, Hildur Hákonardóttir og Þórhallur Heimisson.
Auk þess mun Þórunn Clausen leikkona flytja eintal hinnar tragísku brúðar úr leikritinu Drauganet eftir Benóný Ægisson.
Kynnir verður Hlín Agnarsdóttir.

Látið þetta endilega berast áfram!
Með bestu kveðju,Kristian Guttesen.http://internet.is/guttesen

Ég hafði gaman af umræðunum við síðustu færslu, jafnvel það neikvæða var alveg innan markanna. Mér þóttu líka nokkur tíðindi að rekast á þessa fínu heimasíðu meðal kommentaranna, því yfirleitt eru þeir ekki með neinn tengil: http://www.bjarkibaxter.com/

Mæli með henni.

Það var troðfullt á útgáfukynningu Græna hússins á Súfistanum í gærkvöld. Rúnar Helgi sýndi ansi góða takta þegar hann las upp úr einum af skemmtilegustu köflum bókarinnar. Erla hafði verið að lesa kaflann kvöldið áður og um leið og henni varð ljóst að Rúnar ætlaði að lesa nákvæmlega þennan kafla hugsaði hún: Hvernig ætlar hann að fara að þessu? Kaflinn er nefnilega troðfullur af samtölum og svo er ein drepfyndin afmælisræða í honum. En Rúnari tókst bara prýðilega upp í því að breyta röddinni eftir því hver talaði og úr urðu einir 5 karakterar.

Litlu forlögin eru annars nokkuð áberandi núna, þ.e. lítil útgáfufyrirtæki sem eru með alvöru útgáfustarfsemi, gera hlutina eins og þau stóru, væntanlega með allri þeirri áhættu sem því fylgir: Uppheimar, Græna húsið, Ugla, Bókafélagið og satt að segja mörg fleiri sem ég man ekki nöfnin á í augnablikinu.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Ný tilvitnun

Eins og ég hef sagt þá er að færast hiti í leikinn.

Útgáfuhátíð Græna hússins

Hið nýstofnaða bókaforlag Græna húsið heldur sína fyrstu útgáfuhátíð á Súfistanum Laugavegi 18 þriðjudaginn 29. nóvember kl. 20. Rúnar H. Vignisson kynnir útgáfubækur forlagsins, Feigðarflan, Silfurvæng og Þetta snýst ekki um hjólið. Ennfremur flytja Rúnar Þórisson og Lára Rúnarsdóttir nokkur lög af nýútkomnum geisladiski Rúnars, Ósögð orð og ekkert meir.

Bækur Græna hússins verða á sérstöku útgáfutilboði í verslunum Pennans-Eymundsson af þessu tilefni.

Græna húsið
www.graenahusid.is

Höfundar Máls og menningar safna hauskúpum í DV. Nýjasta aftakan er Óttar Norðfjörð. Sú bók virðist vera hreinasta rugl. Hvað er eiginlega í gangi?

mánudagur, nóvember 28, 2005

Pistlunum mínum í Blaðinu mun fjölga á næstunni að ósk Blaðsins. Ég var að skila einum áðan (ætlaði að skrifa hann í kvöld en meistarinn missti þetta úr sér áðan eins og hvern annan þvagleka) og tveir aðrir fylgja í kjölfarið á næstu tveimur vikum. Þetta er allt borgað eins og að depla auga og auk þess fæ ég töluverða yfirvinnu greidda um þessi mánaðamót plús jólabónus. Hinir ríku verða ríkari og kannski engin furða þó að einhverjir vilji hafa hemil á fólki eins og mér, Flosa Ólafssyni, Björgúlfsfeðgum og Bónusarfeðgum.

Ég gleymdi í prógramminu áðan að ég hitti Þráinn Bertelsson í hádeginu á morgun. Slík gleymska jaðrar við móðgun.

Best að fara aðeins yfir prógrammið:

Á eftir hitti ég Guttu á Mokka. Hún er eldgöml vinkona mín úr M.R. Við sóttum Mokka saman snemma á 9. áratugnum en önnur kaffihús þess tíma eru ekki til lengur.

Ég ætlaði að skokka eftir Guttu-fundinn en líklega nenni ég því ekki. Ég skokkaði fjórum sinnum í síðustu viku. Ég virðist vera að grennast án þess að léttast þessa dagana, lít fjandi vel út, fötin víkka og fólk tekur eftir þessu, en vigtin stendur í stað. Gildir einu.

Í kvöld skrifa ég grein í Blaðið og fer í Play Station við krakkana.

Á þriðjudagskvöld fer ég á útgáfukynningu hjá Græna húsinu á Súfistanum. Erla kemur með mér. Við skokkum á undan.

Á miðvikudagskvöld fer ég á OA-fund en að öðru leyti stendur til að taka mikla skorpu í skáldsögunni þá.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Ég átti stutt en notalegt spjall við Krissrokk í Máli og menningu í hádeginu á föstudaginn. Þegar ég var síðan kominn í vinnuna stuttu síðar mundi ég allt í einu eftir því að ég hef hvað eftir annað lent í karpi við hann á netinu. Óneitanlega vaknaði sú spurning í huga mér hvort blogg og vefumræður séu ekki í neinu samræmi við raunveruleikann utan netsins.

Á ég kannski að halda áfram að skjóta á Krissrokk og lenda í heiftarlegum deilum við hann um ekki neitt? Halda jafnframt áfram að spjalla við hann á vinsamlegum nótum í Máli og menningu.

Upplestrar

Ég ætla að mæta á útgáfukynningu hjá Græna húsinu á Súfistanum á þriðjudagskvöld. Þar verður bæði upplestur og músík í boði. Sama kvöld er raunar áhugaverður upplestur hjá Skáldaspírunni þar sem Benni stillir sér upp við hliðina á Hallgrími Helgasyni eins og sjá má í eftirfarandi fréttatilkynningu:

Spútnik Skáldaspírukvöld nr. 47 nk. þriðjud.29.nóv. í Iðu, kl. 20.00:
Benedikt S. Lafleur og Hallgrímur Helgason lesa báðir úr nýútkomnum
skáldsögum:
Benedikt S. Lafleur ríður á vaðið og les úr nýrri sakamálasögu með heimspekilegu ívafi og hlaðin þjóðfélagsgagnrýni, sem ber titilinn:
Brotlending. Þá kynnir hann jafnframt barnasögu sína: Dýrasögur fyrir börn á öllum aldri.
Eftir stutt hlé les Hallgrímur Helgason úr annarri skáldsögu sem einnig er full af samfélagsádrepu: Rokland heitir hún.
Hægt verður að spjalla við skáldin að lestri loknum og hafa með sér hressingu að ofan í bókahornið gula og fræga.
Hressandi kvöld, þar sem tekist er á við grundvallarspurningar mannlegrar tilveru - á Íslandi. Þar sem rokið og skammdegið taka völdin af borgaralegum smásálum...

Ný tilvitnun

Er eitthvað til í þessari skoðun sögupersónu minnar?

Ég er farinn að sjá þess merki að erfitt mun reynast að sannfæra suma anonymusa um að þessi saga sé ekki um sjálfan mig. Allt í þessari skáldsögu verður uppspuni, nákvæmlega allt. En sumir trúa því einfaldlega ekki að rithöfundar geti búið til sögur og persónur, kannski af því þeir geta það ekki sjálfir. En það er líka allt í lagi. Það svo sem ekkert leiðinleg rýniaðferð að líta á þetta sem táknræna sögu um fyrrverandi ástarsamband mitt við ísskápinn á nóttunni, eins og einhver var að reyna að gera í kommentakerfinu. Skemmtilegt væri að sjá hvert sú greining leiddi ef henni væri fylgt í gegnum alla söguna.

Er sögupersónan t.d. komin á þá skoðun þarna að ísskápurinn sé hættur að bera virðingu fyrir honum?