föstudagur, júlí 30, 2004

Hildur Helga Sigurðardóttir hringdi í mig í kvöld og bauð mér að sitja í þættinum Í vikulokin á Rás 1 í fyrramálið. Auk mín verður þarna Valgeir Guðjónsson músíkant og einhverjir fleiri. Það voru skrif mín á þessa bloggsíðu sem vöktu athygli Hildar á mér. Vinur minn, Guðmundur Björgvinsson listmálari, hringdi hins vegar í mig rétt á eftir Hildi til að skamma mig fyrir bloggsíðuna. Taldi hana geta gert mig frægan að endenum og skaðað mannorð mitt enda stæðust þessi skrif engan samanburð við smásögurnar, væru trivial, snobbuð og barnaleg á köflum. Það er nú það. Blogg er annars eðlis en blaðagreinar. Ekki færi ég að skrifa grein í Moggann um að stelpurnar á Súfistanum hefðu ekki verið nægilega alúðlegar sumarið 2002. Þetta er annað form og kannski lágkúrulegt í eðli sínu.

Ég plögga svo væntanlega bók í fyrramálið. Frægðarsól mín rís á hálfum hraða, hefði ég tvo mannsaldra yrði ég frægur. Ég mun því væntanlega deyja hálffrægur og sáttur, þá kominn upp í 500 eintaka sölu á bók. Það verður toppurinn, svona svipað og staða Michaels Jacksons þegar hann gaf út Thriller.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Ég get ekki sagt að ég sé byrjaður að skrifa neitt þó að ein hugmynd og ein sögubyrjun sé í tölvunni minni. Ætti kannski frekar að nota tækifærið núna og lesa allan andskotann. Ég hef verið að viða að mér ýmsu skrýtnu og forvitnilegu, m.a. bókum Benjamíns Sigvaldasonar, en það er karl sem ég held að hafa dáið um 1970 og skrifaði nokkra tugi bóka fram að því. Allar sögurnar hans voru sannar eða áttu að vera það og greina frá ýmsum örlögum og forvitnilegu lífshlaupi fólks víðs vegar um landið, allt frá 18. öld og fram á daga Benjamíns. Hann er lipur penni og ég held að bækurnar hans geti verið hugmyndasjóður fyrir mig. Hann skrifar stutta en skemmtilega formála að þeim öllum þar sem hann oftar en ekki kvartar undan einhverju, ýmist fátækt sinni eða hroka Landsbókavarða.

Er líka að lesa minningarrit Jóns Óskars en finnst eins og ég hafi lesið það allt saman áður, man þó ekki hvar.

En ég held að mér sé hollt að hvíla mig aðeins á söguforminu og ná í innblástur frá öðru.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Þið munið þetta sem ég sagði um fílana í glugga húss í Þingholtunum í gær. Þegar ég gekk eftir Fálkagötunni í gærkvöld sá ég sex tóm Dunhill-píputóbaksbréf í einum glugganum. Það er auðvelt að verða var við mynstur og endurtekningar ef maður fer að veita einhverju tilteknu athygli.

Annars sendi ég handritið til útgefenda í gærkvöld og þar með búinn að klára bókina í þriðja eða fjórða sinn. Verður spennandi að byrja á einhverju nýju.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Ég hef eytt meiri peningum á kaffihúsum í gegnum árin en konan mín getur sætt sig við. Ég hef að vísu alltaf verið frekar vel stæður svo þetta hefur ekki komið að sök, henni finnst hins vegar grátlegt að eyða háum upphæðum á ársgrundvelli í slíkan lífsstíl.

En hvernig þjónustu hef ég fengið fyrir peningana?
Oft er afgreiðslufólkið lipurt og þar sem ég á það til að panta það sama dag eftir dag tekur það að kíma yfir gestinum og spyr hvort ég vilji fá það sama og vanalega. Veitingarnar skila sér hratt og örugglega. Ég er farinn að kannast við hjónin sem reka Café Roma á Rauðarárstíg og Kringlunni og nýja kaffibarinn á Lækjartorgi. Konan er fegurðardís, rétt rúmlega þrítug, maðurinn þögull og traustvekjandi ungskalli af Skaganum. Afar viðkunnanlegt fólk sem kann að reka kaffihús.

En skuggahliðarnar þekki ég líka. Sumarið 2002 borðaði ég á Súfistanum í Máli og menningu sirka 4 sinnum í viku. Ég vann freelance um þetta skeið, við erfið og seinunnin verkefni, þýddi bækur sem ég hafði ekki áhuga á, tók viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk og ýmislegt fleira. Þegar ég hafði unnið mér í haginn tók ég til við smásögurnar mínar, allt þar til deadlinin voru farin að ógna mér á ný. Oft var gaman að fara með stílabókina á Súfistann, borða bragðgóðan og fitandi mat og rýna í bókaúrvalið í erlendu deildinni sem þá var ekki búið að breyta í reyfarasjoppu.
En afgreiðslustúlkurnar? Það var í sjálfu sér ekkert upp á þjónustuna að klaga, maturinn skilaði sér á borðið og það var gefið rétt til baka. En þó að ég væri þarna daglegur gestur í heilt sumar, áberandi sem ég er, hávaxinn og þéttvaxinn, myndarlegur og vel klæddur og afar kurteis, þá var alltaf eins og ég væri að koma þarna í fyrsta skipti. Afgreiðslustúlkurnar voru alltaf á svipinn eins og þær hefðu aldrei séð mig áður. Þetta er svona óaðfinnanleg leið til að gefa gjörsamlega skít í viðskiptavininn, án efa algjörlega ómeðvituð og ber vitni um dapran karakter fremur en slaka þjónustulund. - Ég er líka löngu hættur að fara á Súfistann því bókaúrvalið er hvorki fugl né fiskur lengur. Staðurinn heldur hins vegar vinsældum sínum því flestir gestanna glugga í tímarit sem nóg er af ennþá auk þess sem maturinn stendur fyrir sínu.

Fyrir hálfu ári bauð ég rithöfundi sem átti afmæli upp á afmæliskaffi á Sólon Íslandus. Rithöfundurinn hafði ekki borðað kvöldmat og var svangur en klukkan var orðin tíu. Hann gluggaði í matseðilinn og ætlaði að panta sér smárétt en þjónustustúlkan sagði að búið væri að loka eldhúsinu og matseðillinn því ekki í gildi. Við pöntuðum okkur því bara drykki. En stuttu síðar sáum við mann einn fá sér kökusneið og síðan rak ég augun í fjölda rétta í glerhillu undir afgreiðsluborðinu. Ég spurði þjónustustúlkuna hverju þetta sætti og hún svaraði því til að þessa rétti væri hægt að panta. EN HENNI HAFÐI EKKI DOTTIÐ Í HUG AÐ BENDA OKKUR Á ÞAÐ RÉTT ÁÐAN ÞEGAR HÚN SAGÐI AÐ ELDHÚSIÐ VÆRI LOKAÐ! Jesus fucking Christ! Ekki vildi ég hafa svona fólk í vinnu.

Í Þingholtunum og fleiri gömlum hverfum eru gluggar íbúanna til sýnis fyrir vegfarendur og raðað í þá samkvæmt því. Kjartan er með mér í vinnunni í dag og áðan gengum við út í sjoppu. Í stofuglugga lágreists steinhús voru ótal margir útskornir tréfílar. Við beygðum fyrir hornið og í öðrum glugga stóðu plastfílar. Í eldhúsglugganum voru síðan gríðarlega margir postulínsfílar. Í gluggum hússins eru líklega hátt í 100 fílar og engir aðrir hlutir.

mánudagur, júlí 26, 2004

Ég myndi helst vilja að Bandaríkjamenn réðust inn í Súdan og hertækju landið. Auðvitað þora þeir það ekki eftir Íraksstríðið. Þess vegna verður lífið murkað úr fólkinu þarna áfram. Sameinuðu þjóðirnar hafa fyrir löngu sannað vanmátt sinn í svona vandamálum. Þið munið Júgóslavíu 1995, þar hefði ekkert gerst að viti án Bandaríkjamanna.