Kosningaáróður er til þess fallinn að drepa niður áhuga manns á kosningunum í vor. Flokkurinn sem maður hefur stutt breytir sér í félagshyggjuflokk til að reyna að vinna kosningarnar. En varla fer maður að kjósa manninn sem heldur á barninu sínu. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ein auglýsingin frá Birni Inga og kó er ansi snjöll. Þið megið geta hver hún er. En engan misskilning: ég kýs ekki Framsókn í vor.
Við Erla fórum á útsölumarkað í Faxafeni í dag. Þar voru fatahrúgur á borðum og heilmikið af konum í flíspeysum að versla. Ósvikið mannlíf og mér leiddist ekki eina sekúndu þarna inni. Við fórum síðan í göngutúr um mitt svæði, þ.e. Þingholtin nálægt Íslensku auglýsingastofunni. Bannsett gluggaveðrið spillti nokkuð ánægjunni af þessu en þegar hlýnar langar mig í annan túr með Erlu um litlu huggulegu stígana, Válastíg, Haðarstíg og fleiri. - Við settumst síðan inn á Te og Kaffi og ég var þar með útsýni yfir Laugaveginn. Það gæti orðið skemmtileg kaffihúsastemning í miðbænum í sumar ef það hlýnar almennilega. Ég held eftir einhverju af sumarfríinu mínu út árið og stefni á tvær vikur í Frankfurt í janúar. Það er því engin ástæða til að reyna að rembast við að klára bókina í sumar en kannski negli ég hana endanlega í byrjun næsta árs. Ég veit hins vegar fátt skemmtilegra en að eyða sumarkvöldum og jafnvel sumarnóttum í skriftir niðri á vinnustaðnum.
Ég ólst upp við Kolbeinsmýrina og af þeim sökum minnir kynlíf mig alltaf dálítið á mýri. Ég tiplaði þarna um ókynþroska en varð oft holdvotur: þurrt yfirborð en skyndilega sprettur fram raki þegar maður kafar dýpra. - Hm. Er þetta dónaskapur eða erótík? Skiptir það máli?
Nú hleyp ég og hleyp og fæturnir eru sílúnir. Það læðist að mér sá grunur að ég eigi samt ekkert eftir að grennast meira og framundan sé varnarbarátta eftir ævilangt ofát. Það verður að koma í ljós.
Pál Kr. Pálsson segir í viðtali við Fréttablaðið að smásagnagerð sé skorpuvinna en að skáldsögum þurfi að vinna jafnt og þétt. Þetta kann að vera ástæðan fyrir því að mér hefur gengið svo vel að skrifa smásögur en yfirleitt lent í vandræðum við skáldsagnagerð. Ég vinn alltaf fullan vinnudag og síðan er dálítið til í orðum eins vinnufélaga míns sem sagði við mig rétt fyrir helgina: "Þú átt ekki til örðu af þolinmæði."