laugardagur, apríl 22, 2006

Kosningaáróður er til þess fallinn að drepa niður áhuga manns á kosningunum í vor. Flokkurinn sem maður hefur stutt breytir sér í félagshyggjuflokk til að reyna að vinna kosningarnar. En varla fer maður að kjósa manninn sem heldur á barninu sínu. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ein auglýsingin frá Birni Inga og kó er ansi snjöll. Þið megið geta hver hún er. En engan misskilning: ég kýs ekki Framsókn í vor.

Við Erla fórum á útsölumarkað í Faxafeni í dag. Þar voru fatahrúgur á borðum og heilmikið af konum í flíspeysum að versla. Ósvikið mannlíf og mér leiddist ekki eina sekúndu þarna inni. Við fórum síðan í göngutúr um mitt svæði, þ.e. Þingholtin nálægt Íslensku auglýsingastofunni. Bannsett gluggaveðrið spillti nokkuð ánægjunni af þessu en þegar hlýnar langar mig í annan túr með Erlu um litlu huggulegu stígana, Válastíg, Haðarstíg og fleiri. - Við settumst síðan inn á Te og Kaffi og ég var þar með útsýni yfir Laugaveginn. Það gæti orðið skemmtileg kaffihúsastemning í miðbænum í sumar ef það hlýnar almennilega. Ég held eftir einhverju af sumarfríinu mínu út árið og stefni á tvær vikur í Frankfurt í janúar. Það er því engin ástæða til að reyna að rembast við að klára bókina í sumar en kannski negli ég hana endanlega í byrjun næsta árs. Ég veit hins vegar fátt skemmtilegra en að eyða sumarkvöldum og jafnvel sumarnóttum í skriftir niðri á vinnustaðnum.

Ég ólst upp við Kolbeinsmýrina og af þeim sökum minnir kynlíf mig alltaf dálítið á mýri. Ég tiplaði þarna um ókynþroska en varð oft holdvotur: þurrt yfirborð en skyndilega sprettur fram raki þegar maður kafar dýpra. - Hm. Er þetta dónaskapur eða erótík? Skiptir það máli?

Nú hleyp ég og hleyp og fæturnir eru sílúnir. Það læðist að mér sá grunur að ég eigi samt ekkert eftir að grennast meira og framundan sé varnarbarátta eftir ævilangt ofát. Það verður að koma í ljós.

Pál Kr. Pálsson segir í viðtali við Fréttablaðið að smásagnagerð sé skorpuvinna en að skáldsögum þurfi að vinna jafnt og þétt. Þetta kann að vera ástæðan fyrir því að mér hefur gengið svo vel að skrifa smásögur en yfirleitt lent í vandræðum við skáldsagnagerð. Ég vinn alltaf fullan vinnudag og síðan er dálítið til í orðum eins vinnufélaga míns sem sagði við mig rétt fyrir helgina: "Þú átt ekki til örðu af þolinmæði."

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Ég tók þá ákvörðun skömmu fyrir páska að stunda einhverjar íþróttir fimm sinnum í viku. Ég hef verið laus við ofát nánast alveg síðan í október, fyrir utan örfáar hálfbakaðar undantekningar, en ég léttist ekkert. Það er svo sem ekki sjálfgefið að maður á fimmugsaldri sem hefur lést og þyngst á víxl allt of oft yfir ævina léttist þó að hann liggi ekki í ofáti. Einnig er vert að hafa í huga að ég er við prýðilega heilsu, með lágan blóðþrýsting og í góðu þolformi þó að líkami minn teljist líklega haugamatur í augum manna á borð við Gilzenegger. En mig langar til að komast niður fyrir 100 kílóin, til dæmis til að verða betri skokkari. Mér finnst ekki fýsilegt að fara að borða eins og lítil og nett kona, jafnvel þó að það yrði tímabundið og því hef ég ákveðið fyrst um sinn að auka hreyfinguna og sjá hvort það virkar. Skokkið var dottið niður í 2-3 sinnum í viku í allan vetur og datt reyndar alveg upp fyrir í kuldakastinu í byrjun þessa mánaðar. Ég býst við að þetta verði mestan part skokk og eitthvert fótboltaspark með Kjartani og vinum hans. Þó að það virðist ekki mikil líkamsrækt að spila fótbolta við litla krakka þá nota ég slíkar æfingar til hlaupaspretta og hamagangs og er oft þreyttari eftir þær en eftir skokk. Ég hef staðið við þetta prógramm núna í tæpar tvær vikur og ætla að gera það áfram. Hins vegar varð ég um tíma gjörsamlega aðframkominn af þreytu um páskana á Vopnafirði og satt að segja tekur það einhvern tíma að venja skrokkinn á þetta álag. En það verður gaman að uppskera í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst ef áætlunin gengur upp.

Hvað gerir maður á sumardaginn fyrsta? Hvernig fagnar maður sumrinu? Svarið er einfalt: Maður fjarlægir upprennda fóðrið úr úlpunni sinni. Það gerði ég í dag. Úlpan er svört, tveggja ára gömul, keypt í Bandaríkjunum. Ég geng í henni yfir flauelsjakka, teinóttum jakka, gráum jakka, svörtum jakka. Helst vil ég ganga í svona úlpu til æviloka og þarf þá væntanlega að finna aftur þessa búð í San Diego þegar þessi verður ónýt.

Já, ég er að skrifa og þetta er bara nokkuð álitlegt þó að langt sé í land. Er að lesa Matthew Kneale og Pál Kr. og hvorugur er snillingur þó að báðir eigi góða spretti. Er ég að verða ónæmur fyrir bókmenntum? Skáldskaparlestur veitir mér ekki sömu ánægjuna og fyrr. Ég hef verið óvenju kresinn undanfarið. Kannski ég kaupi bráðum Saturday eftir McEwan. Atonement var frábær og ég las hana líka í frábærri þýðingu.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með bókakaup á þessu misseri. Smásagnasöfn eftir Sherman Alexie og Joy Williams stóðu ekki undir væntingum. Gamlar smásögur eftir Michael Chabon eru reyndar betri en hafa þó ekki heillað mig upp úr skónum. Eitthvað gengur mér líka illa að ná takti í Tolstoy bókinni frá Lafleur en það stendur líklega til bóta síðar. Hins vegar vonast ég til að hafa dottið í lukkupottinn með nýjustu kaupunum: Small Crimes in an Age of Abundance eftir Matthew Kneale lofar góðu. Kannast einhver við hana? - Þess má líka geta að nýtt smásagnasafn eftir Pál Kristinn Pálsson kemur út hjá JPV í næstu viku. Ég tékka örugglega á henni.

http://www.eclectica.org/v2n5/keegan_munro.html Skemmtileg grein um mörk smásagnasafna og skáldsagna.

Ég gleymi því oft að Vopnafjörður er prýðilega inspírandi staður fyrir mig. Ég átti virkilega góða páska þarna núna. Ég skrifaði inni í geymsluherbergi í kjallaranum þar sem allt er krökkt af gömlum bókum og tímaritum. Fermingarveislan sjálf var bráðskemmtileg, þar hitti ég m.a. ungt fólk sem hafði verið smábörn þegar ég byrjaði fyrst að koma hingað. Auk þess fór ég á ball og þá kom í ljós eins og vanalega að á Vopnafirði er ég ekki síst þekktur sem KR-ingur. "Hvað segja KR-ingar?" Þannig heilsuðu menn mér gjarnan og við tók fótboltaspjall. Alveg fullkomnir páskar og nú er ég kominn til baka, mér augljóslega með skáldsögu í smíðum og líklega á góðum rekspöl þó að haustútgáfa sé ekki meira en möguleiki.