Það ríkir ákveðin kreppa í íslenskum stjórnmálum sem ég vona að vari sem lengst. Helsta orsök kreppunnar er nefnilega skortur á alvöruvandamálum. Við glímum við svokölluð "lúxusvandamál" eins og greint var frá í snjöllum áramótapistli á timinn.is um daginn. Kalda stríðið og efnhagsöngþveitið á síðari hluta síðustu aldar gat af sér mun meiri mælsku á Alþingi. Flestir þingmenn tala í klisjum og hafa fátt markvert fram að færa einfaldlega vegna þess að það er um svo lítið að tefla. Völd stjórnmálamanna hafa verið minnkuð stórkostlega og efnahagsvandi eins og við þekktum hann til skamms tíma er ekki lengur til.
Forsætisráðherrann nýi er afar óvinsæll vegna þess að hann þykir ekki nógu skemmtilegur. Segir það nú ekki ýmislegt um firringuna sem velmegunin og vandamálaleysið hefur skapað í þessu samfélagi? Forveri hans í embætti formanns Framsóknarflokksins var gríðarlega vinsæll forsætisráðherra, enda þótti hann mannlegur og spontant. Hins vegar var allt í kaldakoli hérna í efnahagsmálum þegar hann fór með völd. Megum við sem lengst búa við blómlegt efnahagslíf, tíðindalítil stjórnmál og litlausa stjórnmálamenn. Það er nóg til af öðrum skemmtikröftum.