föstudagur, apríl 28, 2006

Það er gott að helgarblað DV haldi sér enda er það prýðilegt. Virka daga var fréttastefna blaðsins oft skelfileg en stundum heppnaðist hún vel. Við missum jafnframt af góðri íþróttaumfjöllun og daglegri menningarumfjöllun við það að dagleg útgáfa leggst niður. En nú getur fólk farið að stunda sjálfsfróun aftur og senda hvert öðru dónalegt sms án þess að eiga á hættu að lenda á forsíðu blaðsins.

Annars: njótið sólarinnar. Veit ekki hvort ég nenni að blogga um helgina.

Gengur vel. Ekki þreyttur, ekki gamall. Þið sofið, ég skrifa.

Hvenær er maður orðinn of gamall til að geta skrifað eftir fullan vinnudag, 6 kílómetra skokk, klukkutímaaðstoð við heimaverkefni barna, uppvask og þvottan hengdan upp úr tveimur vélum. - Það kemur í ljós á eftir hvort ég er orðinn of gamall til þess nú þegar.

Ég læt ykkur vita upp úr miðnætti.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Að skipta um útgefanda

Ég efast ekki um að þeir höfundar sem hafa skipt um útgefanda undanfarið hafa gert það af gildum ástæðum. En af því tilvikin eru orðin svona mörg eru líkur á að til hafi orðið trend, þ.e. að nú eigi einhverjir eftir að skipta um útgefanda af því það er komið í tísku og til þess að vekja á sér athygli. Nei, ég segi svona.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060426/FRETTIR01/60426017 Er ekki nokkuð ljóst að annaðhvort verður flugvöllurinn þarna áfram eða innanlandsflugið flyst til Keflavíkur? Ég styð síðari kostinn en ber virðingu fyrir þeim sem vilja óbreytt ástand. Aðrar tilllögur eru hundakúnstir og ávísun á fáránlegan og óþarfan kostnað.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item70352/ Ég hef auðvitað mjög takmarkað vit á efnahagsmálum, rétt eins og margir þeir sem nú tjá sig fjálglega um þau. Reynslan hefur hins vegar kennt mér að óhætt sé að treysta því sem þessi maður og kollegar hans undanfarin 11 ár segja. En vill fólk annars að stjórnvöld fari aftur að stýra efnahagsmálum með handafli, eins og í gamla daga. Þarf ekki ansi margar lagabreytingar áður? Og hver var árangurinn af því hér áður fyrr?

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Er ekki nokkuð ljóst að eftir næstu kosningar fáum við annaðhvort borgarstjórn flokka sem svíkja kosningarloforðin sín eða flokka sem munu hækka skattana okkar? Annað gengur ekki upp miðað við málflutninginn í kosningabaráttunni og þar virðist enginn undanskilinn. Má ég frekar byrja um lægri skatta en lúxus eins og ókeypis leikskóla sem hvort eð er verður fjármagnaður með hærri sköttum.

En hvernig er það annars í þessu endalausa skattrifrildi. Gera menn ekki greinarmun á auknum skatttekjum og hærri skattheimtu? Þetta tvennt þarf alls ekki að fara saman. En ég hef svo sem ekki reiknað dæmin.

Ég las undarlegan smáspistil í Fréttablaðinu í nótt, einn af þeim sem myndskreyttir eru með blýantsteiknuðum andlitsmyndum af blaðamönnunum. Umræddur blaðamaður, sem er ötull lesandi þessarar síðu, segir þar að rauðvínsdrykkja hafi sambærileg ofskynjunaráhrif á sig og LSD-neysla hafði á Jim Morrisson. Síðan lýsir hann ofboðslegum en þó um leið óttalega klisjukenndum ofskynjunum sem rauðvínið veldur honum. Það sem gerir þetta ennþá sérkennilegra er að viðkomandi blaðamaður var síðast þegar ég vissi yfirlýstur óvirkur alki og þar með bindindismaður þannig að líklega er þetta allt saman skáldskapur. Hann lýkur síðan greininni á því að lýsa því yfir að hann sé þunglyndur. - Það getur kannski verið dálítið varasamt að hafa óheftan og óritskoðaðan aðgang að mest lesna blaði landsins.

Þegar ég var barn átti ég enga vini sem gerði lífið að mörgu leyti einfalt og þægilegt. Vinskapur og kunningsskapur við stórmenni geta hins vegar stundum flækt tilveruna eins og gerðist í dag. Í morgun hringdi Jón Óskar Sólnes í mig og sagði mér að varast meil sem hann hefði sent mér þar sem hádegisverður var afboðaður. Hann kæmist þrátt fyrir allt. Ég fann hins vegar ekkert meil frá honum. Við ætluðum að hittast á kaffihúsinu ódýra og góða við Lækjargötu. Stuttu síðar sendi stjörnuþýðandinn Rúnar Helgi mér meil og bauð til hádegisverðar en ég sagðist vera að fara að hitta Jón Óskar og stakk upp á morgundeginum. Rétt fyrir klukkan 12 kemur síðan meil frá Jóni Óskari þar sem hann segist þrátt fyrir allt ekki komast í hádegisverð vegna anna. Ég taldi of seint að hafa samband við Rúnar Helga þar sem hann býr í Garðabæ og ákvað því að fara bara einn með tölvuna á Súfistann. Á leiðinni þangað hringdi Stefán Máni og spyr hvort ég sé á leiðinni á Súfistann, hann sé staddur þar.

Þegar ég er að panta mér á Súfistanum hringir Jón Óskar frá Lækjargötu og spyr hvað tefji mig. Kom nú á daginn að meilið sem mér barst frá honum laust fyrir 12 var gamla meilið sem hann hafði sent fyrr um morguninn og innihélt rangar og úreltar upplýsingar. Ég þurfti því að láta þennan önnum kafna fjögurra barna föður, sem kríað hafði út stund til að hitta æskuvin sinn, grípa í tómt.

Stefán Máni benti hnussandi á latte-bollann minn og sagði: "Þú þambar bara mjólkursull og þykist vera í megrun." - Berir handleggir hans voru vöðvastæltir og ógnvænlegir, alsettir húðflúri. Maðurinn var allur hinn illilegasti en sagði mér stórfréttir af sjálfum sér. Ég ætla að leyfa öðrum fjölmiðlum að birta þá frétt á morgun og sit á mér í dag.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Til hamingju, Rúnar Helgi!

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060423/FRETTIR01/60423028/1091

Þið munið þegar ég bloggaði um ræstingamanninn um daginn. Hann las það.

Ég hef óneitanlega áhyggjur af þeim tveimur knattspyrnuliðum sem ég held mest með: KR og þýska landsliðinu. KR hefur varla unnið leik undanfarið en þó er enginn skaði skeður því enginn leikjanna skiptir máli. Alvaran hefst þann 14. maí. Vonandi springa menn út.

Þjálfari brasilíska landsliðsins telur Þjóðverja sigurstranglega á HM. Aðrir telja að liðið komist ekki einu sinni upp úr riðlinum. Það er gaman að velta því fyrir sér hvað mælir með og hvað mælir gegn góðum árangri Þjóðverja á HM í sumar. Það sem mælir gegn þeim:

1. Mannskapur Þjóðverja er mjög slakur miðað við aðrar stórþjóðir. Erfitt er að sjá fyrir sér menn á borð við Asamohah og Schneider (eins og hann spilar núna) komast í lið hjá t.d. Ítölum eða Hollendingum.

2. Þýska vörnin virðist léleg en Þjóðverjar hafa oftast spilað góðan varnarleik.

3. Þýska liðið er heilt yfir að líta ungt og fremur reynslulítið.

4. Stígandinn í leik Þjóðverja hefur eiginlega verið öfugur. Liðið lofaði ansi góðu í Álfukeppninni í fyrra en hefur undanfarið ekki komist í hálfkvisti við frammistöðuna þá.

5. Þjóðverjar stóðu sig ömurlega á síðasta stórmóti, þ.e. EM 2004.

Það sem mælir með góðri frammistöðu Þjóðverja:

1. Heimavöllur.

2. Gríðarleg hefð - Þýskaland hefur spilað 7 sinnum til úrslita um heimsmeistaratitilinn og unnið hann þrisvar.

3. Þjóðverjar voru ekki með gott lið á síðustu HM en komust samt í úrslitaleikinn.

4. Frábærir markverðir.

5. Nokkrir reynslumiklir leikmenn sem spiluðu á síðustu HM virðast vera að ná toppformi, aðallega Miroslav Klose og Oliver Neuville.

6. Þýska liðið á einn stórkostlegan ungan leikmann, efni í algjöran snilling, Lukas Podolski. Hann er þó ekki mjög þekktur og gæti orðið leynivopn í keppninni.

7. Undirbúningur þýska liðsins fyrir HM virðist meiri en flestra annarra liða.

Svo er bara að byrja að telja niður fyrir HM.