Ég hef óneitanlega áhyggjur af þeim tveimur knattspyrnuliðum sem ég held mest með: KR og þýska landsliðinu. KR hefur varla unnið leik undanfarið en þó er enginn skaði skeður því enginn leikjanna skiptir máli. Alvaran hefst þann 14. maí. Vonandi springa menn út.
Þjálfari brasilíska landsliðsins telur Þjóðverja sigurstranglega á HM. Aðrir telja að liðið komist ekki einu sinni upp úr riðlinum. Það er gaman að velta því fyrir sér hvað mælir með og hvað mælir gegn góðum árangri Þjóðverja á HM í sumar. Það sem mælir gegn þeim:
1. Mannskapur Þjóðverja er mjög slakur miðað við aðrar stórþjóðir. Erfitt er að sjá fyrir sér menn á borð við Asamohah og Schneider (eins og hann spilar núna) komast í lið hjá t.d. Ítölum eða Hollendingum.
2. Þýska vörnin virðist léleg en Þjóðverjar hafa oftast spilað góðan varnarleik.
3. Þýska liðið er heilt yfir að líta ungt og fremur reynslulítið.
4. Stígandinn í leik Þjóðverja hefur eiginlega verið öfugur. Liðið lofaði ansi góðu í Álfukeppninni í fyrra en hefur undanfarið ekki komist í hálfkvisti við frammistöðuna þá.
5. Þjóðverjar stóðu sig ömurlega á síðasta stórmóti, þ.e. EM 2004.
Það sem mælir með góðri frammistöðu Þjóðverja:
1. Heimavöllur.
2. Gríðarleg hefð - Þýskaland hefur spilað 7 sinnum til úrslita um heimsmeistaratitilinn og unnið hann þrisvar.
3. Þjóðverjar voru ekki með gott lið á síðustu HM en komust samt í úrslitaleikinn.
4. Frábærir markverðir.
5. Nokkrir reynslumiklir leikmenn sem spiluðu á síðustu HM virðast vera að ná toppformi, aðallega Miroslav Klose og Oliver Neuville.
6. Þýska liðið á einn stórkostlegan ungan leikmann, efni í algjöran snilling, Lukas Podolski. Hann er þó ekki mjög þekktur og gæti orðið leynivopn í keppninni.
7. Undirbúningur þýska liðsins fyrir HM virðist meiri en flestra annarra liða.
Svo er bara að byrja að telja niður fyrir HM.