Í fyrsta skipti í mjög langan tíma, það skiptir líklega árum, langar mig í bíó. Áður hef ég nefnt Capote en mig langar líka á Blóðbönd og Good Night and Good Luck (er ekki viss um að ég fari rétt með nafnið). Ég verð hins vegar líklega svo lengi að koma mér í bíóstellingar að það verður hætt að sýna þær allar áður en ég kem mér af stað.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, mars 03, 2006
miðvikudagur, mars 01, 2006
Ég er að komast upp á lag með að lesa John Updike. Ég hef einhvern veginn aldrei haft smekk fyrir honum þar til núna, og hef þó gert nokkrar adrennur í gegnum árin. Um daginn fann ég loksins smásagnasafn eftir V. S. Pritchett en sú bók hefur ekki gripið mig, eru þetta þó hans bestu sögur. Ég er viss um að ég þarf bara að gefa honum tíma. Jafnvel menn eins og ég geta þurft langan tíma til að meta góða höfunda. Hvernig í ósköpunum er það þá með annað fólk? Ég veigra mér t.d. oftast við að mæla með Alice Munro sem lesningu, óttast alltaf að fólk kunni ekki að meta hana. Það er hins vegar gott að eiga lestrarfélaga á borð við Rúnar Helga, maður er aldrei í neinum slíkum vandræðum með hann.
Ég er þakklátur fyrir hið óvænta innslag í Víðsjá í dag. Ég tek bara auðmjúkur ofan fyrir þessu og segi: "Kærar þakkir." Þarna átti líka afskaplega vandaður og snjall maður í hlut. Ekki spillti Who-lagið í lokin fyrir.
þriðjudagur, febrúar 28, 2006
Ég fékk þennan tölvupóst í morgun:
Sæll Ágúst Borgþór.
Nú stendur yfir endurskipulagning á ritstjórn Blaðsins, sem einnig tekur til fjármála. Af þeim sökum þarf ég að binda enda á samstarf þitt og Blaðsins hvað kaup á efni varðar. Ástæðan er ekki ónægja með þín skrif, öðru nær, þeim hefur verið vel tekið innan og utan ritstjórnar. En breytt forgangsröðun er nauðsynleg á ritstjórninni sem m.a. hefur þetta í för með sér. Mér þykir það leitt og læt í ljós þá von að frekara samstarf verði mögulegt í framtíðinni.
Um leið og ég þakka þér störf þín fyrir Blaðið sendi ég þér góða kveðju.
-Ásgeir Sverrisson
Ritstj.
----------
Ég sé ekki betur en hér hafi skapast tækifæri fyrir aðra og betur stæðari fjölmiðla. Ég kem frá mér nokkuð auðveldlega 2-3 pistlum í mánuði. Á hinn bóginn er líka alltaf þægilegt að vera laus við pistlaskrif, það fylgir þeim ákveðið álag.
Allt um það eru uppsagnir alltaf óþægilegar, þó að þessi teljist með þeim vægari. Þegar ég var úti í Darmstadt í janúar tók ég að ímynda mér eitt kvöldið að þegar ég kæmi heim yrði ég búinn að missa bæði konuna og starfið. Ef mönnum er sagt nógu víða upp þá eru þeir ekkert lengur. Þá er ekkert eftir nema að standa á nánast mannlausu Hlemmtorginu og góla vitfirrtur út í loftið.
mánudagur, febrúar 27, 2006
http://bokinogbladid.blogspot.com/ Ég sé að hann Binni, Brynjólfur Þór, er með ágætt blogg. Mæli með því.
Töluvert mannval á Hressó í hádeginu. Þorsteinn frá Hamri heilsaði upp á mig og við ræddum stuttlega saman. Hið sama gerðist með Jón Atla Jónasson. Rúsínan í pylsuendann var hins vegar Eyjólfur Sveinsson sem sat þarna á e-k viðskiptafundi. Hann kom síðan til mín og heilsaði með handabandi. Við röbbuðum aðeins um auglýsingabransann og hann virtist þekkja vel til vinnuveitenda minna. Eyjólfur er dálítið feitur en leit samt vel út. Spennandi verður að sjá hvort meira taki að bera á honum á næstu misserum. Hann var næstum búinn að gleyma að borga þegar hann yfirgaf staðinn.
sunnudagur, febrúar 26, 2006
Ég kláraði nýjan pistil í Blaðið í dag og er hann í raun lengri útgáfa af færslunni á konudag. Erla fór fram á að lesa hann yfir áður en hann yrði sendur til birtingar en eftir lesturinn gerði hún engar athugasemdir við efnið. Ég skrifaði síðan helminginn af öðrum pistli.
Auk þess endurskrifaði ég kafla úr skáldsögunni í anda allrar nýjustu úgáfunnar sem er nánast öll óskrifuð: meiri sviðsetningar, minni endursögn, fleiri smáatriði, færir hugsanir. Með þessari aðferð á að uppræta meinsemdirnar í verkinu. Það er ákveðin hætta á að sagan verði á endanum löng smásaga en ekki stutt skáldsaga. Ef svo fer er ég með efni í ótal aðrar sögur um skylt efni.
Skömmu eftir að ég vaknaði í morgun fékk ég tilefni til að gera heiftarlega árás hér á síðunni og byrjaði þegar að brýna vopnin. En fljótlega rann upp fyrir mér að ég nennti því ekki og stundum er þögnin betri.
Hef ákveðið að gera tilraun til að vinna heima í dag. Ég þarf að skrifa pistil í Blaðið og síðan er það skáldskapurinn. Ef ég fer upp í vinnu mun ákveðið mál þar sem þarf að leysa og útskýra byrja að trufla mig svo ég sleppi því líklega í dag.
Rúnar Helgi færði mér Ekkert slor í gærkvöld, fyrstu skáldsöguna sína, sem ég hef ekki lesið en hef verið nokkuð forvitinn fyrir. Auk þess er ég að lesa John Updike, V.S. Pritchett og endurlesa Alice Munro. Ég kláraði Túrista fyrir þónokkru síðan og er sammála Páli Ásgeiri um að hún sé mun betri en umfjöllun um hana fyrir jólin gaf til kynna. Furðulegar bækur eiga ekki lengur upp á pallborðið á jólamarkaðnum, það er nokkuð ljóst.