föstudagur, maí 01, 2009

Meðal ungmenna

Ég skilaði BA-ritgerðinni minni í heimspeki í vikunni. Ég held að þetta sé ekki mjög þung lesning svo vel má vera að ég birti hana hér.

Tilfinningin var dálítið eins og að fermast þegar maður er orðinn fullorðinn. Eða missa sveindóminn á miðjum aldri. Eða drekka fyrsta bjórinn á fertugsafmælinu. Eða eitthvað.

Ég kláraði jafnframt síðasta smásagnakennslukvöldið mitt á þessu misseri. Ég er nokkuð viss um að sú starfsemi heldur áfram.

Áðan var ég í 4 klukkustunda fyrirspurna- og prófatíma í þýskum málvísindum. Samnemendur mínir voru ýmist ófæddir eða slefandi í leikgrind þegar ég var að ljúka stúdentsprófum. Samt fínn félagsskapur. Sérstaklega í hléinu þegar við sóttum okkur kaffi út í Þjóðminjasafn. Aldur er bara eitt af því sem getur aðskilið fólk. Svo eru margir fleiri þættir og þegar maður er með fólki sem hefur áhuga á Þýskalandi, tungumálum, bókmenntum, tónlist, kvikmyndum og fótbolta, þá er aldursmunurinn kannski ekki mikið mál.

Ég er búinn að vera afar afkastamikill á þessu misseri. Tek meira en fullt nám í háskólanum, hefur unnið ýmis launuð verkefni og auk þess haldið nokkuð góðum dampi í skriftum. Er í prófum til 12. maí og eftir þann tíma mun ég nánast helga mig skriftum fram á haust.

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Vinjettuhöfundar framtíðarinnar

Ármann Reynisson, sem kalla mætti fyrrverandi innrásarvíking fremur en útrásar-, lýsir því hvernig meðferð hann fékk eftir gjaldþrot Ávöxtunar undir lok 9. áratugarins. Hann sat inni í rúmlega eitt ár og allar eigur hans voru gerðar upptækar.

Er þetta kannski uppskrift að örlögum útrásarvíkinganna?

Annars rótast Jóhannes í Bónus eins og naut í flagi í Helgar-DV. Fjárglæframennirnir eiga enn einhver ítök í fjölmiðlunum. Hversu brengluð var myndin og umræðan þegar þeir réðu þeim öllum nema RÚV?

miðvikudagur, apríl 29, 2009

Að afsala sér heiðri vegna þingmennsku

Ég ætlaði ekki að blogga um heiðurslaun Þráins Bertelssonar vegna þess að mér þykir sú umræða ósmekkleg, vildi ekki kynda undir henni og átti von á að hún lognaðist fljótt út af.

En það furðulega hefur gerst að þetta hefur verið eitt helsta umfjöllunarefni fjölmiðla undanfarið.

Að afsala sér heiðurslaunum vegna annarra starfa er áþekkt því og að afsala sér Nóbelsverðlaununum. Síðari heiðurinn er að sönnu ennþá meiri en annars er eini munurinn sá að Nóbelsverðlaunin eru greidd út öll í einu en heiðurslaunin mánaðarlega í litlum skömmtum.

Heiðurslaun listamanna eru allt annað fyrirbæri en starfslaun. Fyrir utan að vera töluvert hærri þá eru starfslaun veitt til ákveðinna verkefna. Ég fékk t.d. þriggja mánaða starfslaun sem samkvæmt umsókn minni eiga að duga til að fara langt með að ljúka skáldsögu. Sex mánuðir áttu að duga til að klára hana alveg. Ef ég ætla að eiga mér von um að fá aftur starfslaun þarf ég að vera búinn með svo mikið af bókinni í haust að aðeins sé eftir sirka þriggja mánaða vinna við hana.

Heiðurslaun fá nokkrir listamenn komnir fram yfir miðjan aldur fyrir fórnfúst ævistarf. Þau eru svo lág að þau eru engan veginn hugsað sem eina framfærsla listamannanna.

Fjölmörg dæmi eru um að listamenn á heiðurslaunum sinni öðrum störfum.

Fjölmörg dæmi eru um að þingmaður vinni aukavinnu.

Þráinn Bertelsson hefur verið mjög virkur rithöfundur undanfarin ár og fátt bendir til að hann hætti að skrifa þó að hann setjist á þing. Ritstörf verða væntanlega aukavinnan hans.

Fyrir utan að það skiptir ekki máli. Hann er búinn að vinna fyrir þessum launum. Þetta eru verðlaun. Núna vill fólk svipta hann verðlaununum í nafni misskilinnar og ofsafenginnar siðbótar, allt vegna þess að þjóðin vaknaði upp við bankahrun og áttaði sig á að margir þegnar hennar hafa verið siðspilltir í fjármálum undanfarin ár.

Um leið er reynt að sverta þann heiður listamannsins sem hann hefur áunnið sér fyrir löngu.

Mér finnst þetta til skammar.

Auglýsingabransinn

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/866627/

Auglýsingaheimurinn er sérkennilegur. Að minnsta kosti sá hluti hans sem snýst um hugmyndavinnu. Ég uppgötvaði fljótt að á því sviði eru öll gildi á floti og erfitt að festa hönd á nokkrum mælikvörðum um gott og slæmt. Í bókmenntum hef ég alltaf getað stuðst við nokkuð áþreifanleg viðmið. Í auglýsingaheiminum tók ég fljótt þá stefnu að halda mig innan þess sviðs að gera texta villulausa (það tókst reyndar ekki alltaf, ég gerði nokkur sorgleg mistök sem ég er enn að svekkja mig yfir þó að þau skipti engu máli í dag) og skrifa smekklegan og lipran texta þar sem við á (en jafnvel slík verk voru ekki alltaf hafin yfir afstæðan smekk annarra).

Hugmyndavinnan þótti mér vera súrrealískur frumskógur sem ég hætti mér ekki inn í. Þar er að finna gáfað fólk og fífl í bland. Engir eru sammála. Það virðist vera dyggð að vera aldrei sammála hugmynd næsta manns og hrósa aldrei neinu því hver og einn þarf að vera klárastur. Kannski eru auglýsingar þannig í eðli sínu að menn geta aldrei verið sammála um þær og það gildir þá jafnvel líka um þá sem koma að gerð þeirra. Þegar kemur að hugmyndavinnu eru 3-4 aðilar innan auglýsingastofu með mismunandi skoðanir á hvaða leið eigi að fara og síðan kannski jafnmargir aðilar frá viðskiptavininum. Viðskiptavinurinn ræður auðvitað þegar upp er staðið og hann er alltaf að skipta um skoðun. Að sjálfsögðu eru síðan bæði fífl og gáfað fólk meðal viðskiptavinanna, rétt eins og á stofunum.

Oft er niðurstaðan fín auglýsing. Oft hefur hún kostað mikil leiðindi og margar uppákomur en í lokin eru allir glaðir. Stundum er hins vegar eins og mestu fíflin hafi fengið að ráða. Niðurstaðan dýr og stórfurðuleg, grátbrosleg mistök. Hér er stórfenglegt dæmi um slíkt.

Tek fram að þess auglýsing kemur þeirri stofu sem ég vann á ekkert við og reyndar man ég ekki eftir jafnhrikalegum afglöpum þar. En það er aukaatriði því þetta er auglýsing frá einni stærstu stofu landsins.

Hann heldur áfram að skandalísera

http://www.visir.is/article/20090428/FRETTIR01/389866068

Mér hefur fundist svo merkilega hljótt um ÓRG undanfarið.
En það gat ekki varað að eilífu ...

mánudagur, apríl 27, 2009

Lipur penni


Ólafur Arnarson er gamall bekkjarbróðir minn úr M.R. Ég hef aldrei leitt hugann að því hvort hann gæti skrifað bækur eða ekki en í sjálfu sér ætti það ekki að koma á óvart þar sem hann hefur starfað sem fréttamaður. Eftir að hafa lesið fyrstu 50 blaðsíðurnar í Sofandi að feigðarósi og einhverja aðra kafla á víð og dreif er hins vegar ljóst að hann er mjög lipur penni. Ég kem tæpast til með að mynda mér sérstaka skoðun á bankahruninu eftir lestur bókarinnar en les hana af forvitni og með opnum huga. En frá fyrstu setningu er ljóst að höfundur hefur gert sér far um að halda athygli lesenda og það án allra öfga. Hann hefur þetta í sér.


Hér er eitt lýsandi dæmi: "Hinn 23. september sat Lárus Welding fimm tíma fund í Abu Dhabi. Heimamenn héldu Ramadan í heiðri og í samræmi við trúarsiði múslíma voru engar veitingar á fundinum - ekki einu sinni blávatn."


Nú skiptir engu máli um staðreyndir þeirra mála sem hér eru reifuð hvort Lárus Welding fékk eitthvað að drekka á fundinum eða ekki. Höfundur sem hirðir bara um efnisstaðreyndir hefði leitt svona smáatriði hjá sér. Hins vegar er þessi fundur setinn á tíma mikils umróts og Lárus Welding er að verða miðpunktur í hringiðu örlagaríkra atburða. Það er mikil spenna í lofti. Að sjá hann fyrir sér á fimm tíma fundi í fjarlægu landi þar sem hann fær ekki að væta kverkarnar (vitandi það að auki að þetta er maður sem eflaust hefur sjaldan neitað sér um munað) gerir frásögnina líflegri en ella. Og þannig er allur textinn sem ég er búinn að lesa hingað til. Höfundurinn er aldrei með útúrdúra, hann heldur sig við efnið en með atriðum eins og þessum glæðir hann frásögnina lífi.


Hér er gott dæmi um spennuna sem höfundur hleður í textann:
"Undir kvöld á sunnudag var Össur Skarphéðinsson kallaður úr leikfimisal til að koma í síma. Á línunni var formaður Samfylkingarinnar sem talaði af sjúkrabeð í New York, Ingibjörg Sólrún tjáði Össuri að hann yrði að fara rakleiðis í Seðlabankann. Síðan hringdi hún sjálf beint í Jón Þór, aðstoðarmann Björgvins G. viðskiptaráðherra, og bað hann að fara líka. Loksins hafði viðskiptaráðuneytinu verið kippt inn úr myrkrinu. Þetta var kl. 18 á sunnudag og hvorki Össur né Jón Þór vissu nákvæmlega erindi sitt út í Seðlabanka."
Spennandi og fróðleg lesning. Þessi á eftir að rjúka út.





sunnudagur, apríl 26, 2009

Ísland sækir um aðild að ESB í maí

Niðurstöður kosninganna gera þetta óhjákvæmilegt.

Samfylkingin skuldar sínum nýju kjósendum að standa við þessi fyrirheit.

Þetta er nefnilega að hluta "lánsfylgi Evrópusinnanna" eins og Sigmundur Davíð orðaði það svo vel.

Annaðhvort gefa Vinstri grænir eftir í ESB-málinu eða við fáum þriggja flokka Evrópustjórn:
S-B-O