Meðal ungmenna
Ég skilaði BA-ritgerðinni minni í heimspeki í vikunni. Ég held að þetta sé ekki mjög þung lesning svo vel má vera að ég birti hana hér.
Tilfinningin var dálítið eins og að fermast þegar maður er orðinn fullorðinn. Eða missa sveindóminn á miðjum aldri. Eða drekka fyrsta bjórinn á fertugsafmælinu. Eða eitthvað.
Ég kláraði jafnframt síðasta smásagnakennslukvöldið mitt á þessu misseri. Ég er nokkuð viss um að sú starfsemi heldur áfram.
Áðan var ég í 4 klukkustunda fyrirspurna- og prófatíma í þýskum málvísindum. Samnemendur mínir voru ýmist ófæddir eða slefandi í leikgrind þegar ég var að ljúka stúdentsprófum. Samt fínn félagsskapur. Sérstaklega í hléinu þegar við sóttum okkur kaffi út í Þjóðminjasafn. Aldur er bara eitt af því sem getur aðskilið fólk. Svo eru margir fleiri þættir og þegar maður er með fólki sem hefur áhuga á Þýskalandi, tungumálum, bókmenntum, tónlist, kvikmyndum og fótbolta, þá er aldursmunurinn kannski ekki mikið mál.
Ég er búinn að vera afar afkastamikill á þessu misseri. Tek meira en fullt nám í háskólanum, hefur unnið ýmis launuð verkefni og auk þess haldið nokkuð góðum dampi í skriftum. Er í prófum til 12. maí og eftir þann tíma mun ég nánast helga mig skriftum fram á haust.