laugardagur, mars 19, 2005

Chelsea - Bayern München - Undarlegt verður að sitja fyrir framan breiðtjaldið á kjaftfullum Gauknum og halda með Bæjurunum en ekki Eiði Smára.

Einhvern tíma gerði ég grín að barnalegum texta við skemmtilegt lag með The Who, Little Billy. - Af og til hef ég verið að velta því fyrir mér hvers vegna hljómsveitin lét svo naívískan texta við svona gott lag, hafandi í huga að textar sveitarinnar eru yfirleitt metnaðarfullir og Pete Townshed var um skeið útgefinn rithöfundur. Ég fann skýringuna áðan fyrir tilviljun: Þetta lag var assignment, þ.e. samið sérstaklega fyrir herferð gegn reykingum.

föstudagur, mars 18, 2005

Ungur maður sendi mér sögu í tölvupósti og bað mig auðmjúklega um að leggja dóm á hana.
Mér leist vel á beiðnina. En um leið og ég leit yfir fyrstu síðuna var minnst á ferð til Ísafjarðar og þá runnu á mig tvær grímur: Er verið að plata, hæða og spotta meistarann? Eru virkilega svo miklir iðjuleysingjar í Nyhil-klíkunni að þeir leggi þetta á sig? Á ég að biðja manninn um að hafa nánara samband við mig svo ég fái þetta á hreint? Er þessi paranoja athyglissýki í mér? - Gildir einu. Plat eða einlægni, ég les bara söguna og sendi hana til baka við tækifæri.

http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=34725 Egill Helga hittir naglann á höfuðið í tali sínu um svokallaða verðleikaumræðu sem oft kemur upp þegar tilteknar konur eru orðnar nógu hæfar til að gegna hæstu embættum. Þá er sú röksemd notuð til að halda konum niðri að ekki megi velja þær til æðstu metorða aðeins af því þær eru konur. Slík umræða er síðan komin út í yztu öfgar þegar röksemdir af þessu tagi eru notaðar á Ingibjörgu Sólrún Gísladóttur, sem hefur verið borgarstjóri í tíu ár. Ég yrði ekki glaður ef Ingibjörg Sólrún yrði næsti forsætisráðherra, ekki nema það yrði þá í nýrri viðreisnarstjórn (sem er borin von, m.a. af því flokkarnir eru samanlagt orðnir allt of stórir), en hún gæti hæglega orðið það, og það væri gjörsamlega fáránlegt að halda því fram að hún næði því takmarki vegna þess að hún er kona. - Rétt í þessu varð kona kjörinn háskólarektor, alveg örugglega ekki af því hún er kona, heldur þrátt fyrir það. Vafalaust er hún framúrskarandi hæf.

Sjálfum finnst mér orðið tímabært þegar að beita kynjakvótum, a.m.k tímabundið, við embættisveitingar og ráðningar í stjórnunarstöður hjá hinu opinbera. Staðreyndirnar eru nefnilega þær að tölurnar standa í stað, þróunin til kynjajafnréttis á þessu sviði hefur nánast stöðvast.

Ég botna lítið í yngri hluta intelligensíunnar. Nú skilst mér, skv. henni, að eina skilyrði þess að bókmenntaþáttur sé góður sé það að gáfaðir tvíburar með þykk gleraugu komi ekki fram í honum. Þannig að uppskriftin að því að hirða Eddu-verðlaunin næst er sú að sleppa þessu eina kryddi. Einhver þykist m.a.s. hafa fjallað um þetta í fyrirlestri. Hvers konar fyrirlestur ætli það hafi verið? Margt þykir mér verra í sjónvarpi en gáfaðir tvíburar, jafnvel þó að annar þeirra sé Vinstri grænn (eða báðir?).

Dóttir vinar míns var að bjóða Freyju í afmælið sitt sem haldið verður í almenningssundlaug. Það er ansi góð hugmynd þó mér skiljist hún sé ekki splunkuný. Eftir að við höfðum haldið upp á afmælið hennar Freyju síðast vorum við úrvinda af þreytu og ekki bætti úr skák að hún á afmæli í miðju jólaatinu. Gaman væri að brjóta þetta upp næst og óneitanlega hef ég augastað á Árbæjarlauginni. Ég ætla að fá nákvæma skýrslu hjá Freyju um leiki og veitingar þegar þetta er afstaðið.

Nýja tilvitnunin hér að ofan er úr sögunni Sektarskipti sem birtist í nýjustu bókinni, Tvisvar á ævinni. Spennandi saga um barnfaðernismál. Ég ætla að fara að skipta um tilvitnanir úr sögunum mínum reglulega á næstunni. Þegar ég verð orðinn leiður á því set ég aftur inn "hverfa út í heiminn"- setninguna.

www.krissrokk.blogspot.com Krissrokk er með ágæta færslu um svokallaða ritdeilu okkar í febrúar. Hann massar þetta eiginlega núna. Það er nefnilega ekkert hægt að ritdeila við rokkara, á endanum taka þeir mann bara á rokkinu. Ég ætti kannski að tékka á hljómsveitinni hans. Hafa þeir ekki gefið út plötu? Hvað heitir hún? Ekki færi ég að rífast við Brian Wilson. Ég hlusta bara á plötuna hans.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Gerhard Schröder boðar 6% lækkun skatta á fyrirtæki til að sporna við langvarandi og vaxandi atvinnuleysi í Þýskalandi. Geta fróðir menn sagt mér hve háir fyrirtækjaskattar eru almennt í Þýskalandi og hefur þýskum vinstri mönnum ekki dottið þetta í hug áður?

Þegar ég vann á Kleppi í gamla daga kynntist ég nokkuð mikið ólánsömum ungling sem þar var
sjúklingur og hafði gjörsamlega staðnað í þroska. Hann leit ágætlega út og var fremur greindarlegur útliti en hitt. En í samskiptum og samræðum var hann alveg eins og rispuð plata. Hann spurði mig daglega að því hvort ég héldi að hann ætti eftir að ná sér og spjara sig í lífinu. Það voru þungbærar og erfiðar spurningar og ekki bætti úr skák að augnaráð hans var stingandi. Líklega hef ég sjaldan verið eins óhreinskilinn við nokkurn mann, þó reyndi ég að gefa honum ekki of miklar falsvonir en umfram allt gat ég skýlt mér á bak við það að ég var ómenntaður á þessu sviði, réttur og sléttur gæslumaður.

Löngu seinna, líklega í kringum 1997, hitti ég hann í strætó. Hann virtist lítið hafa skánað, þó var hann farinn að vinna hluta úr degi á vernduðum vinnustað. Hann spurði mig nákvæmlega sömu spurningarinnar og áður á Kleppi: Hvort hann ætti ekki eftir að ná sér og spjara sig.

Á veitingastað í hádeginu í dag sá ég mann sem var býsna líkur honum og líklega á svipuðum aldri og pilturinn er núna, þ.e. eitthvað yfir þrítugt. Maðurinn virtist að auki kannast við mig og horfði töluvert lengi á mig í fyrstu en heilsaði þó ekki. Síðast en ekki síst minnti röddin mig á piltinn. Þessi maður var vel klæddur (þó ekki jakkafatamaður) og ræddi viðskipti við borðfélaga sinn. Ég hugsaði með mér í dálitla stund: Getur það virklega að drengurinn hafi tekið þetta risastökk í þroska? Ný geðlyf? En auðvitað stóðst það ekki. Þetta var ekki hann, ég sannfærðist eftir því sem ég skoðaði manninn betur. En gæti þetta verið bróðir hans?

miðvikudagur, mars 16, 2005

Gegnir: 27

Hvað segja menn um efnahagstillögur Vinstri grænna? Umræðan um skattalækkanir á tímum mikilla fjárfestinga og umsvifa hefur ekki verið fyrirferðarmikil undanfarið en hlýtur að vera aktúel núna. Ég hef ekkert vit á þessu en mér þætti gaman að heyra í einhverjum sem hefur það.

Eins og fram kom í gær mætti ég til vinnu með eins klukkustundar svefn í hausnum. Núna hefur þetta snúist við. Líklega svaf ég í um 9 tíma í nótt og morgun. Það er öllu þægilegra.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Meistarinn stendur tæplega undir nafni í dag enda var rútínu hans raskað með afdrifaríkum hætti. Ég er vanur að sofa frá sirka 2-4 á nóttunni til 9-9.30 á morgnana, góðum djúpum svefni. Í gærkvöld var hins vegar hringt í mig og ég beðinn um að mæta í vinnuna kl. 8 í morgun. Ég lagðist því til svefns heldur fyrr en vanalega með þann ásetning í huga að vakna kl. 7.30. Niðurstaðan var sú að ég sofnaði fyrst kl. 6.30 og fór í vinnuna með klukkustundarsvefn í hausnum.

Athyglisvert?

Veit ekki. Þetta er nú einu sinni bloggsíða og ég er syfjaður.

mánudagur, mars 14, 2005

Er Ásdís Halla Bragadóttir lykillinn að stórsigri Sjálfstæðisflokksins í næstu alþingiskosningum? Er það of snemmt eða verður hún einfaldlega ekki á lausu til slíkra metorða?

sunnudagur, mars 13, 2005

Eitthvað það alflottasta við hina frábæru Smile er hvernig hann fer úr einu í lagi í annað, tengingar á milli laganna eru eiginlega sjálfstæður listrænn þáttur í verkinu. Enginn hefur farið jafnglæsilega úr einu lagi og í annað og Frank Zappa, fyrir utan Brian Wilson á þessari plötu.

Ég var á tónleikum skólahljómsveitar Mela- og Hagaskóla í Neskirkju í gær. Sveitin skiptist í þrennt, yngstu sveit, miðsveit og elstu sveit. Freyja mín spilar í miðsveitinni. Síðasta lag yngstu sveitarinnar var We Will Rock You með Queen, lag sem allir þekkja, þar á meðal trommusláttinn í upphafi: bammbamm-bamm-bammbamm-bamm-bammbamm-bamm-bammbamm-bamm - Stjórnandinn, Lárus Grímsson, bað gesti um að stappa þennan takt með fótunum vegna þess að teppi var undir krökkunum í sveitinni og þau gátu því ekki náð nógu háværu trampi. Á meðan þessu stóð fór gamall skammdegisdagur um hugskotið, nánar tiltekið 19. nóvember árið 1977 en þá átti ég 15 ára afmæli. Eldri bróðir minn vann á smurstöð og bauðst til að gefa mér andvirði hljómplötu í afmælisgjöf (mig minnir að það hafi verið 1500 gamlar krónur, gæti vel verið misminni, kannski var það finmþúsund kall með mynd af Einari Ben utan á). Ég fór með peningana frá honum úr Smurstöðinni við Tryggvagötu yfir í tónlistardeild Karnabæjar í Austurstræti og keyptu nýju Queen-plötuna, News of the World: Grænt umslag með mynd af risastóru vélmenni með hljómsveitarmeðlimi sundurkramda í lófanum. Sérkennilegt til þess að hugsa að einhvern tíma hafi ég hlustað í fyrsta skipti á þessi tvö fyrstu lög plötunnar, We Will Rock You og We Are the Champions, sem fyrir svo óralöngu eru orðin að gömlum lummum sem allir kunna; en það gerði ég þennan dimma nóvemberdag. Miðaldra stappa ég niður fótunum í kirkju á meðan litlir krakkar spila þessa músík á klarinettur og trompet.

Tónleikarnir voru alveg svakalega góðir, svo góðir að þeir komu eiginlega öllum í opna skjöldu. Yngsta hljómsveitin var að vísu augljóslega með byrjendur innanborðs sem stóðu sig samt mjög vel. Þegar að miðsveitinni og sérstaklega elstu sveitinni kom var maður hins vegar kominn á tónleika sem hægt var að njóta sem slíkra, án aumingjagæsku til barna: þetta var einfaldlega flott og lygilegt hvað hægt er að ná miklu út úr börnum og unglingum, en það er svo sem ekki ný saga; þau eru svo dugleg og klár þessir krakkar þegar þau fá ekki að liggja óáreitt í ómennsku yfir tölvuleikjum og ljósbláum tónlistarmyndböndum heldur eru látin stæla sig.

Til að fullkomna smáborgarafærslu dagsins er ekki úr vegi að hrósa Mogganum fyrir afbragðsgóðan leiðara í vikunni um útvarpsráð og fréttastjóraráðninguna. Þar undirstrikaði Mogginn sjálfstæði sitt óháð flokkslínum.