fimmtudagur, mars 09, 2006

Ég er að drukkna í vinnu á stofunni þessa dagana. Þið heyrið meira frá mér síðar.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Það stefnir allt í flug til Friedrichshaven og lest þaðan til München, einhvern tíma í maí. Lífið er of gott, það er ekki sanngjarnt að ég siji að öllum þessum lífsins gæðum á meðan aðrir eru í tómu tjóni. Ég ræddi heillengi við sauðdrukkna og atvinnulausa konu á Hressó áðan (vona að enginn hafði misskilið neitt þegar hún umfaðmaði mig hvað eftir annað) sem einhvern tíma hafði líklega verið glæsileg, fyrirmyndareiginkona. Ég hvatti hana tíu sinnum til að fara í meðferð og byrja í AA, eflaust hafði það lítil áhrif.

Eftir einhvern tíma, kannski 2-3 mánuði, ef ég verð duglegur og heppinn, get ég sagt ykkur hvernig bókin mín er að þróast og hvernig München kemur þar við sögu.

Eiginkona þýskukennarans

Við förum til München vegna þess að við verðum að fara þangað. Helst í maí. Þetta er farið að snúast um bókina og bókin er að breytast. Þetta er stefnumót við fortíðina og upphaf sambands míns við Erlu árið 1986.

Hressilegur jarðskjálfti í dag.

Ég hitti Hildi á Hressó á sunnudag, eins og hún sjálf hefur minnst á, og eitt umræðuefnanna var leiðakerfi strætó. Ég sagði enn ekki hafa komist leiðar minnar með strætisvagni eftir breytinguna og væri fyrir löngu búinn að afgreiða þennan fararmáta úr myndinni. Hildur er hins vegar latari að labba en ég, þó að hún hafi líklega innan við helming þyngdar minnar að bera, og hefur því lært eitthvað á kerfið, en þó lítið. Við veltum upp þeirri hugmynd að fara í gegnum kunnáttu hennar hér í kommentakerfinu, þannig að ég vissi nokkrurn veginn hvernig ég ætti að komast um bæinn með strætisvagni.

Ég er ekki að skrifa skáldsögu.

Ég er að skrifa bók.

Ég veit ekki hvenær hún kemur út.

Hún verður góð.

Ég lenti í þungu "copy" í vinnunni í dag og skrifaði langt fram á kvöld um hluti sem ég veit ekkert um. Ég er glettilega laginn við slíkt.

sunnudagur, mars 05, 2006

Það er eitthvað algjörlega nýtt að gerast í mínum skáldskap þessa dagana og þetta hökt sem gengið hefur í eitt ár með nokkrum leiftrandi köflum af og til, er nú á enda. Niðurstaðan verður líklega bæði kunnugleg og nýstárleg í senn. Ég veit ekki hvort ég verð með bók í haust, það skýrist eftir sirka þrjá mánuði.