Það gengur illa að finna myndina American Splendor á myndabandaleigum. Hún vakti töluverða athygli þegar hún var sýnd í bíó en ég ætlaði að geyma mér hana þar til hún yrði gefin út. En leigurnar vilja hana ekki af því það eru engin áhættuatriði í henni. Þetta ríka þjóðfélag verður sífellt plebbalegra í menningarmálum. Áður hef ég kvartað undan því að ekkert úrval af erlendum bókmenntum er lengur að finna í bókaverslunum hérlendis og síst þeirri sem kennir sig við mál og menningu. Reyndar er ósköp einfalt að halda úti bókaverslun núorðið og mæta algengustu kröfum: Hafa Harry Potter, Da Vinci lykilinn, Arnald Indriða og haug af tískublöðum til sölu. Það þarf ekki meira. Og ekki misskilja: Arnaldur er fínn höfundur (og eflaust hitt líka, hef ekki lesið það), en einhæfnin, maður! Í rauninni er þetta miklu skárra í músíkinni, poppáhugafólk hefur miklu fjölbreyttari smekk en margir sem telja sig vera bókmenntalesendur.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, ágúst 20, 2004
Fer á Lou Reed tónleika í kvöld. Mér fannst hann bæði tilgerðarlegur og hrokafullur í sjónvarpsviðtali í gærkvöld en það skiptir í sjálfu sér engu máli. Ég þekki tónlistina hans ekki nema miðlungi vel og skemmtilegra væri að hafa kynnt sér hana betur. Nokkur lög eru hins vegar í miklu uppáhaldi og án efa verður gaman að heyra þau í kvöld.
fimmtudagur, ágúst 19, 2004
Í hádeginu las ég smásögu eftir William Trevor frá 8. áratugnum um lauslæti skrifstofufólks, gifta menn á mínum aldri sem leggjast á ungar og saklausar skrifstofustelpur, ljúga að þeim og konunum sínum, fleka þær fyrrnefndu. Ég varð dapur af lestrinum og fylltist söknuði til konunnar. Ekki það að ég sé einhver engill og hugsi ekki syndsamlegar hugsanir en svona var nú tilfinningalífið áðan. Konan var hins vegar upptekin þegar ég náði í hana svo ég verð að úthella ástarjátningum mínum síðar í dag, ef allt verður ekki kólnað þá.
Ég hef verið að skokka undanfarið ásamt eiginmanni frænku Erlu og Erlu sjálfri. Stefnan hjá okkur öllum er sett á hálfmaraþon sumarið 2005. Ég hef að mestu hlíft lesendum þessarar síðu við offituvandamáli mínu en staðreyndin er sú að ég er allt of þungur til að eiga að geta skokkað greitt langar vegalengdir. Mesta furða er hins vegar hvað þetta gengur vel, ég virðist búa að gömlu sprikli frá léttari árum. Í gærkvöld fór ég 10 kílómetra og var mestallan tímann töluvert á undan hinum tveimur þó að eiginmaður frænkunnar hafi pínt sig fram úr mér í lokin enda yngri og miklu léttari. Ég var hins vegar í óheppilegum stuttbuxum í gærkvöld og hægri nárinn ná mér logar ennþá allur eftir núningssár sem líkist helst bruna eftir gervigras. Á hlaupunum var sársaukinn bara notalegur og mig grunaði ekki hvað þetta var orðið skelfilegt. Einhver masókismi fer af staði í manni eftir sirka 5 kílómetra.
Í vetur skipti ég um peru í skrifborðslampa í vinnunni. Um daginn virtist peran farin aftur. Vinnufélagi minn sagði að þetta gæti ekki staðist, svona perur ættu að endast í mörg ár. Þá kom í ljós að lampinn var einfaldlega farinn úr sambandi, borðið þrýstir klónni úr innstungunni. Væntanlega hefur þetta líka verið raunin fyrr á árinu. - Er hægt að skrifa um eitthvað fáfengilegra en þetta? Væri samt gott atriði í sögu, það eru einmitt svona atriði sem setja kjöt á beinin.
miðvikudagur, ágúst 18, 2004
Fékk yfirlesna próförk að handritinu í morgun og við ákváðum kápumyndina, höfðum úr fimm versjónum að velja. Það lítur út fyrir að bókin verði rúmlega 130 síður. Er þá ekki verið að teygja úr og notast við vandræðalega stórt letur. Bókin mun heita Tvisvar á ævinni og í henni eru 9 mislangar smásögur. Útgefandi er Skrudda. Já, hlæið bara að því, eða ekki. Þarna verða ekki ómerkari menn en Flosi Ólafsson, Ólafur Haukur Símonarson og Ian Rankin í haust. Það hefur verið stefna mín að vaxa á markaði með nýju og vaxandi forlagi. Stóru forlögin hafa takmarkaðan áhuga á manni sem orðinn er þekkt stærð (eða þekkt smæð) sama hvað hann skrifar vel, annaðhvort þarf fólk að vera þekktar gullkistur eða uppgötvun snillinganna í útgáfustjórninni. Þetta gæti lukkast þokkalega, mér virðist minni rolugangur vera þarna en á ýmsum öðrum smáum útgáfum, eiginlega enginn. Bókin á að koma út seinnipartinn í október.
þriðjudagur, ágúst 17, 2004
Funda með sveittum í fyrramálið um kápu, titil á bók og fleira. Ætla m.a. að koma upplýsingum með mynd inn á vefinn þeirra. Ég geri mér vonir um að þessi kápa verði sterkari en kápur síðustu bóka minna þó að þær hafi allar verið smekklegar. Við stefnum mjög meðvitað að því að auka eitthvað söluna hjá mér með ódýrum aðgerðum. Það verður forvitnilegt að sjá hvort það tekst.
mánudagur, ágúst 16, 2004
Þá er líklega síðustu ferðahelgi minni á þessu mikla ferðasumri lokið, en það hófst með 4 vikna dvöl í Bandaríkjunum í maí, í kjölfarið hafa fylgst langar og stuttar helgar víðs vegar um landið. Að þessu sinni var dvalist á ættarmóti í Miðfirði. Um er að ræða móðurætt mína úr Mið- og Hrútafirði en forfeðurnir bjuggu á Bessastöðum í Hrútafirði. Þar er nú rekið blómlegt stórbýli en sérkennilega afskekkt, langan veg frá þjóðveginum og næstum niðri í flæðarmáli við fjörðinn.
Aðalskemmtikvöldið var í félagsheimilinu Ásbyrgi, í einstaklega sjarmerandi sal. Þar gefur að líta lítið leiksvið og er áreiðanlega langt síðan fyrsta leiksýningin var færð þar upp. Afkomendur létu ljós sitt skína á palli gegnt sviðinu, þar las ég upp úr væntanlegu smásagnasafni og eignaðist e.t.v. nokkra kaupendur að bókinni.
Ferðalagið endaði uppi á Skaga í gær á leik ÍA-KR, daufleg vonbrigði sá leikur eins og allt keppnistímabilið.