föstudagur, nóvember 18, 2005

Uppkast að litlum hliðarkafla

Æsa skrifaði ljóð og smásögur í vasakompur á kaffihúsum. Oft rissaði hún upp blóma- og andlitsmyndir í leiðinni. Hún naut þess að skrifa, stundum fylltist hún geðshræringu og táraðist, það kom fyrir að tár féllu á pappírinn. En á eftir fann hún fyrir miklum létti, hafði losað um einhverja af þessum óteljandi hnútum í sálinni.
Heima á kvöldin eftir að Mæja Sól var sofnuð hreinritaði hún stundum þessa texta í tölvunni, oft í veikri von um að hún væri með eitthvað í höndunum sem hægt væri að fá birt og þar með upphefja reynslu hennar og tilfinningar, færa þær í búning sem aðrir gætu notið.,
En á tölvuskjánum glataði textinn öllum þokka, var lítið annað en gegnsæ sjálfsvorkunn og værmni. Oftast eyddi hún skjölunum jafnóðum, það var helst að hún leyfði örfáum stuttum ljóðum að lifa.
Hún velti því fyrir sér hvort alvöru rithöfunda væru fólk sem ekki færði tilfinningar sínar í letur heldur fjallaði um uppdiktaðar tilfinningar á kaldhamraðan hátt. Þannig voru margar sögurnar hans Árna, stílllinn eitthvað svo einfaldur og laus við tilfinningasemi; en samt vakti lesturinn oft sterkar tilfinningar.
Þegar Æsa var orðin hrifin af Árna tóku sögur hennar og ljóð að snúast um hann og ástina á honum. Við það urðu skrifin sársaukalaus en afraksturinn var jafn klénn og áður. Allt þar til veruleikinn færði henni skyndilega snjalla og andstyggilega hugmynd að smásögu.

Tilvitnun

Ég handskrifaði upphafið að nýjum kafla með blýanti á Súfistanum í hádeginu. Blábyrjunin birtist hér að ofan.

Heyrðu. Partý hjá Benna í kvöld niðri á Granda. Það gerist varla heitara. Við hittumst síðan öll á Ölstofunni.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Meðal frægra

Á einum sólarhring: Kaffihúsafundur með Þráni Bertels; Ævar Örn sendir mér nýju skáldsöguna sína og Benni Lafleur býður mér í partí. Hvar endar þetta eiginlega?

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Mér finnst gaman að hlusta á Yes.

Ég hitti Hildi í hádeginu. Hún var lítil og krúttleg eins og dóttir mín á fullorðinsaldri - sem er ekki til. Fyrr eða síðar verður Freyja stelpa sem ég gæti hitt á Hressó, þar sem hún er í pásu frá skólaritgerðarsmíð. En þá verð ég kominn á sextugsaldur. Hildur verður staðgengill hennar þangað til.

Það er alvarlegt ef valdamenn hafa beitt sér gegn Jóni Ólafssyni og fyrirtækjum hans. Dæmið sem komið hefur fram er hins vegar ekki trúverðugt: að skattrannsóknarstjóri hafa stært sig drukkinn af aukafjárveitingu í því skyni að rannsaka fyrirtæki Jóns. Síðan kemur á daginn að sá maður hefur verið í bindindismaður í 30 ár. - Við munum öll eftir tekjunum sem Jón gaf upp þegar hann barst hvað mest á: 60 þús. á mánuði og þess háttar. Gramdist það mörgum. Held ég að réttlætinu hafi verið fullnægt með skattrannsókninni enda reyndist hann skulda á endanum 600 milljónir í skatta.

Dylgjur um meinta eiturlyfjasölu hans eru hins vegar þreytandi enda ekkert sem styður þær.

Ég er að fara að hitta sjálfan Þráinn Bertelsson á Súfistanum í hádeginu á morgun. Velti því fyrir mér hvernig ég eigi að svala forvitni minni á svo fróðum og mér eldri manni; þegar við hittumst í Prag snerist samtalið aðallega um þá borg en hann ætti að vita eitt og annað um baksvið stjórnmála og viðskipta.

Félaginn, Eyvii og fleiri verða þarna í dagdraumum sínum, bitrir og grænir af öfund.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Fyrst ég er á annað borð byrjaður að birta myndir frá haustfagnaði stofunnar get ég ekki stillt mig um að birta þessa af Ragga, einum af yngri starfsmanni stofunnar. Hann á heiðurinn af nokkrum auglýsingaherferðum sem borið hefur fyrir augu landsmanna.

Í gleðskap með vinnufélögum í haust. Nýlegar myndir af mér eru til vitnis um að ég er að grennast. Nokkurra ára gamlar ljósmyndir eru margar hverjar óþægilegar hvað það snertir.

Það er grein eftir mig í Blaðinu í dag.

Þorsteinn Guðmundsson var frábær á Edduverðlaunum.

Silvía Nótt er líka drepfyndin.

Hitti Kristjón Kormák og Hrafn Jökulsson frænda hans í MM í hádeginu. Rætt var um útreið Eiríks Bergmanns hjá gagnrýnendum. Kristjón var drjúgur með sig enda gengur honum lygilega vel með bókina sína sem hann gaf út sjálfur.

Ég er farinn að tapa fyrir báðum krökkunum í FIFA-leiknum í Playstation. Þau fá að vaka lengur en vanalega svo þau geti spilað við mig.

Það er mikið að gera í vinnunni. Í kvöld er það OA-fundur en skriftir á undan og eftir.

mánudagur, nóvember 14, 2005

http://www.graenahusid.is/pages/frettir.htm Það er mikið af litlum en góðum forlögum núna og þeim fer sífellt fjölgandi. Hér er það nýjasta.

Það er afar misjafnlega mikið að gera í vinnunni, stundum er allt brjálað og stundum er rólegra. Ég leysi yfirleitt öll verkefni hratt og vel. Núna stefnir í einn af þessum steindauðu mánudögum og satt að segja líkar mér það prýðilega. Þó að ég sé duglegur til verka er ég samt latur að eðlisfari. Auðvitað væri skelfilegt ef allir dagar væru svona en einn og einn dauður dagur er stórfínt.

"Vilhjálmur er no nonsens frambjóðandi og hann mun sækja inn á lendur miðjunnar, til almennings - til Samfylkingarinnar. " - Þetta segir Guðmundur Andri í nýrri grein.

Ég er sjálfur að berja saman nýja grein í Blaðið. Hef ég verið beðinn um að fjölga þeim.

Ég horfði á knattspyrnuæfingu hjá Kjartani í gær í ausandi rigningu. Sú þrautseigja skilaði sér því undir lok æfingarinnar skaut markvörðurinn boltanum í hann og þaðan fór hann inn í markið.

Á eftir skokkaði ég í rigningunni. Ég varð því tvisvar gegnblautur. Í nótt var farið að örla á hósta í mér en vonandi verður ekkert framhald á því.

Veðrið er fallegt núna í stillunni. Dauf vetrarsólin glampar á húsvegg fyrir utan gluggann. Eftir hádegið fer að rökkva.