Uppkast að litlum hliðarkafla
Æsa skrifaði ljóð og smásögur í vasakompur á kaffihúsum. Oft rissaði hún upp blóma- og andlitsmyndir í leiðinni. Hún naut þess að skrifa, stundum fylltist hún geðshræringu og táraðist, það kom fyrir að tár féllu á pappírinn. En á eftir fann hún fyrir miklum létti, hafði losað um einhverja af þessum óteljandi hnútum í sálinni.
Heima á kvöldin eftir að Mæja Sól var sofnuð hreinritaði hún stundum þessa texta í tölvunni, oft í veikri von um að hún væri með eitthvað í höndunum sem hægt væri að fá birt og þar með upphefja reynslu hennar og tilfinningar, færa þær í búning sem aðrir gætu notið.,
En á tölvuskjánum glataði textinn öllum þokka, var lítið annað en gegnsæ sjálfsvorkunn og værmni. Oftast eyddi hún skjölunum jafnóðum, það var helst að hún leyfði örfáum stuttum ljóðum að lifa.
Hún velti því fyrir sér hvort alvöru rithöfunda væru fólk sem ekki færði tilfinningar sínar í letur heldur fjallaði um uppdiktaðar tilfinningar á kaldhamraðan hátt. Þannig voru margar sögurnar hans Árna, stílllinn eitthvað svo einfaldur og laus við tilfinningasemi; en samt vakti lesturinn oft sterkar tilfinningar.
Þegar Æsa var orðin hrifin af Árna tóku sögur hennar og ljóð að snúast um hann og ástina á honum. Við það urðu skrifin sársaukalaus en afraksturinn var jafn klénn og áður. Allt þar til veruleikinn færði henni skyndilega snjalla og andstyggilega hugmynd að smásögu.