föstudagur, maí 19, 2006

Lokað

Ég hef látið ótal blogghugmyndir undanfarna daga óskrifaðar. Veit ekki hvers vegna. En hvers vegna ætti ég svo sem að halda fólki úti í bæ uppi á ókeypis lestrarefni? - Nú verður öllu lokað í nokkra daga vegna Münchenar-ferðar. - Góðar stundir þangað til.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Zappa plays Zappa túrinn er byrjaður og fær frábæra dóma fyrir tónleika í Amsterdam. Ég vona að mætingin verði þokkaleg hér og allir með viti sjái ógleymanlega tónleika.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Jón Óskar gaf mér hrikalega flotta, græna adidastreyju í hádeginu með mynd af Franz Beckenbauer framan á. Varla er hægt að hugsa sér heppilegri klæðnað í München enda er Beckenbauer Bæjari.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Planið í München í grófum dráttum

Skoða Sendling, hverfið sem er skammt utan við miðbæinn. Fara í Aberlestrasse þar sem ég bjó forðum. Kíkja á litla markaðstorgið í Harras þar rétt fyrir ofan.

Fara mikið í Enska garðinn, labba um og drekka bjór.

Skoða Allianz Arena, leikvanginn þar sem opnunarleikur HM fer fram.

Skoða gamla Olympia Stadium.

Vera í miðbænum og fara í háskólahverfið. Stunda kráarlífið á því svæði.

Erla vill síðan skoða söfn og kirkjur og fara í búðir. Við gerum það líka.

Það eimir alltaf dálítið eftir af menntaskólasálinni í manni, þ.e. að taka alvarlega það sem stórir rithöfundar segja. Þrennt sem Hallgrímur Helga hefur sagt, beint og óbeint, hefur alltaf vakið mér efasemdir um sjálfan mig sem rithöfund:

1. "Djobb er dauði listamanns." Þessi afstaða, að rithöfundur eigi ekki að gegna föstu starfi, er valid. Það myndi að vísu ekki henta mér að vera full-time rithöfundur en engu að síður var óþægilegt að lesa þessi ummæli hins mikla höfundar.

2. Alvöru bækur eru langar. Stutt smásagnasöfn les maður á 20 mínútum á Súfistanum. Bækurnar mínar eru rúmlega 100 síður en hans 400-600 síður. Það skeður að vísu næstum því alveg jafnmikið í bókunum mínum og hans en það er sagt frá því í færri orðum. En þó að maður mótmæli svona skoðunum jafnvel í heilu greinunum þá læðast efasemdirnar að manni og búa um sig í sálinni.

3. Að rithöfundur eigi alltaf að vera óflokksbundinn. Á tímabili Bláu handar greinarinnar lýsti Hallgrímur þessu yfir í viðtali. Rithöfundur ætti aldrei að styðja einn stjórnmálaflokk, það sæmdi honum ekki og skilyrti í raun málfrelsi hans. Eitthvað þannig. - Sjálfstæðismanninum mér, en jafnframt aðdáanda skáldsagna Hallgríms, var töluvert brugðið við þetta.

Mér var nokkuð létt þegar ég horfði á Silfur Egils um daginn og komst að því að þessum efasemdartilefnum hefur fækkað um eitt: Þriðja fullyrðingin er ekki í gildi lengur. Hallgrímur er nefnilega kominn í Samfylkinguna. Hann er giftur henni, á barn með henni og allt, og hann styður Dag B. Eggertsson til borgarstjóra. Hann segir m.a.s. hommabrandara um Sjálfstæðisflokkinn, að vísu óvenjulega auman á mælikvarða Hallgríms. - Hallgrímur Helgason hefur jafnmikinn rétt og aðrir til að skipta um skoðun og það hefur hann vissulega gert í þessu efni.

Eyþór Arnalds er slyngur. Eftir að hafa komið sér í vægast sagt vonda og vandræðalega stöðu eru öll viðbrögð hans úthugsuð, skynsamleg og já, líklega heiðarleg. En mikið má hann samt vera ergilegur, maðurinn stefndi í að verða bæjarstjóri.

Það styttist heldur betur í München, við fljúgum til Friedrichshaven á laugardagsmorguninn (gaman verður að sjá þá borg) og tökum lestina þaðan samdægurs. Það er gott veður þarna eins og hér, bara hlýrra. Við hlökkum mikið til bæði enda skipar München sérstakan sess í ævisögu minni eins og ég hef áður greint frá. Erla kvíðir hins vegar líka fyrir fluginu. Það geri ég nú ekki enda flughræðsla mér óskiljanleg rétt eins og ofátssýki er henni óskiljanleg.

Mig langar síðan að fara til Bonn eða Ulm í júlí og sá The Who live! en það er dálítið erfitt að fá fararleyfi, ekki síst þar sem ég hef tekið illa í landsbyggðarferð í júlí eða ágúst vegna þess að ég hef möguleika á að klára bókina fyrir haustið ef ég held mig að verki.

sunnudagur, maí 14, 2006

Miðbæjarljósmyndirnar sem nú er búið að koma upp niðri á Lækjartorgi eru feikiskemmtilegar. Ekki spillir fyrir lipur og fróðlegur textinn sem fylgir þeim. Ég get illa skilgreint þá nautn sem fylgir því að komast með þessum hætti í tæri við fortíðina en sú nautn er áþreifanleg og inspírandi.

Þórir Bergsson - aka - Þorsteinn Jónsson var flottur náungi. Sveitapiltur sem gerðist kontóristi í Reykjavik og gutlaði við viðskipti í hjáverkum og skrifaði síðan haug af merkilegum smásagnasöfnum sem seldust upp á augabragði. Blandaði geði við fáa, síst listamenn og það þurfti að ganga á eftir honum til að fá hann til að birta fyrstu sögurnar og gefa út fyrstu bókina. Þið ættuð að lesa sögurnar hans, þær eru margar góðar.