Það eimir alltaf dálítið eftir af menntaskólasálinni í manni, þ.e. að taka alvarlega það sem stórir rithöfundar segja. Þrennt sem Hallgrímur Helga hefur sagt, beint og óbeint, hefur alltaf vakið mér efasemdir um sjálfan mig sem rithöfund:
1. "Djobb er dauði listamanns." Þessi afstaða, að rithöfundur eigi ekki að gegna föstu starfi, er valid. Það myndi að vísu ekki henta mér að vera full-time rithöfundur en engu að síður var óþægilegt að lesa þessi ummæli hins mikla höfundar.
2. Alvöru bækur eru langar. Stutt smásagnasöfn les maður á 20 mínútum á Súfistanum. Bækurnar mínar eru rúmlega 100 síður en hans 400-600 síður. Það skeður að vísu næstum því alveg jafnmikið í bókunum mínum og hans en það er sagt frá því í færri orðum. En þó að maður mótmæli svona skoðunum jafnvel í heilu greinunum þá læðast efasemdirnar að manni og búa um sig í sálinni.
3. Að rithöfundur eigi alltaf að vera óflokksbundinn. Á tímabili Bláu handar greinarinnar lýsti Hallgrímur þessu yfir í viðtali. Rithöfundur ætti aldrei að styðja einn stjórnmálaflokk, það sæmdi honum ekki og skilyrti í raun málfrelsi hans. Eitthvað þannig. - Sjálfstæðismanninum mér, en jafnframt aðdáanda skáldsagna Hallgríms, var töluvert brugðið við þetta.
Mér var nokkuð létt þegar ég horfði á Silfur Egils um daginn og komst að því að þessum efasemdartilefnum hefur fækkað um eitt: Þriðja fullyrðingin er ekki í gildi lengur. Hallgrímur er nefnilega kominn í Samfylkinguna. Hann er giftur henni, á barn með henni og allt, og hann styður Dag B. Eggertsson til borgarstjóra. Hann segir m.a.s. hommabrandara um Sjálfstæðisflokkinn, að vísu óvenjulega auman á mælikvarða Hallgríms. - Hallgrímur Helgason hefur jafnmikinn rétt og aðrir til að skipta um skoðun og það hefur hann vissulega gert í þessu efni.