laugardagur, apríl 25, 2009

Samfylkingin þarf að vinna stórsigur

Fyrir nokkrum árum hefði mér þótt þessi fyrirsögn á bloggi eftir mig sérkennileg framtíðarsýn.

En það hefur allt breyst. Það hefur allt snúist á hvolf.

Ef Ísland sækir ekki um aðild að ESB strax í sumar og stefnir að upptöku evru þá stefnum við ekki út úr því öngstræti sem við erum stödd í.

Ef Vinstri grænir verða jafnstórir og Samfylkingin þá hefur síðarnefndi flokkurinn ekki styrk til að halda þessari kröfu til streitu. Samfylkingin þarf að verða langstærsti flokkurinn og geta myndað stjórnir í allar áttir.

Ég vildi miklu frekar vera að fara að kjósa Sjálfstæðisflokk sem stæði styrkum fótum siðferðilega, ætlaði að sækja um aðild að ESB og hefði síðan þor til að fara í sársaukafullan en áhrifaríkan og tímabundinn niðurskurð ríkisútgjalda.

En þessi kostur er ekki fyrir hendi.

Þess í stað er það þjóðarnauðsyn að kjósa Samfylkinguna í dag. Líklega mikilvægasta atkvæðið sem ég hef gefið á ævinni.

föstudagur, apríl 24, 2009

Skil ekki Sigmund Davíð

Var meginfréttin sú að eignir þrotabúa bankanna væru 1-2 þúsund milljörðum lakari en var áætlað? Hvað þýðir það? Að minna verður hægt að setja í nýju bankana en menn ætluðu. Munar svona mikið um þessa 1-2 milljarða að það framkallar annað hrun? Eða meinti hann að þetta væri lýsandi dæmi um stöðu bankanna og endurspeglaði stöðu sem þýddi nýtt hrun? Að fólk gæti ekki staðið í skilum við bankana upp á þessa upphæð samanlagt? Og ætti þess vegna að fá niðurfellingu - annars nýtt hrun.

Það væri gaman að geta hætt að hugsa um mál sem maður hefur ekki vit á. Ef ég bloggaði um smásögur hérna allan daginn þá gæti ég verið besserwisser?

Er Sigmundur í örvæntingu að reyna að tala upp fylgi Framsóknar eða bíður nýr og sótsvartur veruleiki handan við hornið? Brennur spariféð mitt upp í Landsbankanum og Íslandsbanka næstu daga? Fer fólk að éta upp úr öskutunnunum í sumar?

Eða er Sigmundur bara í ósmekklegum kosningaham.

Ég átt annars eftir að lesa almennilega færsluna hans. Er að klára BA-ritgerðina mína í kvöld og ætlaði að skila henni í fyrramálið. Ef allt er hvort eð er að fara til fjandans þá get ég alveg eins lesið Sigmund.

miðvikudagur, apríl 22, 2009

Erum við á leiðinni inn í ESB?

Ég hef sterklega á tilfinningunni að lögð verði inn aðildarumsókn í sumar?

Hvað haldið þið?

þriðjudagur, apríl 21, 2009

xS

Ég er kominn að niðurstöðu.

Samfylkingin er eini flokkurinn með það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB næsta sumar og lýsa yfir vilja til að taka upp evru.

Hún er með öðrum orðum eini flokkurinn með framtíðarstefnu í gengismálum.

Þetta ræður úrslitum um mitt atkvæði.

Þar sem aðrir flokkar hafa þetta ekki á stefnuskrá sinni er nauðsynlegt að Samfylkingin vinni mjög stóran kosningasigur á laugardaginn svo þetta mál fá aukið vægi í stjórnarmyndunarviðræðum.

Þeir sem voru á móti EFTA og EES-samningnum á sínum tíma geta síðan kosið eitthvað annað.