Samfylkingin þarf að vinna stórsigur
Fyrir nokkrum árum hefði mér þótt þessi fyrirsögn á bloggi eftir mig sérkennileg framtíðarsýn.
En það hefur allt breyst. Það hefur allt snúist á hvolf.
Ef Ísland sækir ekki um aðild að ESB strax í sumar og stefnir að upptöku evru þá stefnum við ekki út úr því öngstræti sem við erum stödd í.
Ef Vinstri grænir verða jafnstórir og Samfylkingin þá hefur síðarnefndi flokkurinn ekki styrk til að halda þessari kröfu til streitu. Samfylkingin þarf að verða langstærsti flokkurinn og geta myndað stjórnir í allar áttir.
Ég vildi miklu frekar vera að fara að kjósa Sjálfstæðisflokk sem stæði styrkum fótum siðferðilega, ætlaði að sækja um aðild að ESB og hefði síðan þor til að fara í sársaukafullan en áhrifaríkan og tímabundinn niðurskurð ríkisútgjalda.
En þessi kostur er ekki fyrir hendi.
Þess í stað er það þjóðarnauðsyn að kjósa Samfylkinguna í dag. Líklega mikilvægasta atkvæðið sem ég hef gefið á ævinni.