Ég las upp dálítinn kafla úr handritinu mínu í litlum vinahópi á föstudagskvöldið. Drakk þrjá bjóra og varð fullur svo ég þurfti að stramma mig af og fá mér vatn. Vanalega hef ég lesið upp fyrir þá margyfirfarnar og fínpússaðar smásögur, yfirlesnar af öðrum og tilbúnar til birtingar í TMM eða bók. Hef notið þess í hégóma mínum að láta dást að textanum enda virkar lestur á svona þrautunnu en óbirtu efni nokkuð tilkomumikill inni í hversdagslegri stofu yfir snakkskálum og bjórflöskum, svona eins og einhver tæki fram gítar og spilaði eins og Townshend. Mér hefur alltaf gengið hægt og illa fyrsta árið eftir útgáfuhaust en í smásagnasöfnunum hér áður fyrr voru þó alltaf einhverjar sögur klárar eftir eitt ár, nú eða þá ekki, þ.e. annahvort voru þær tilbúnar eða ekki. Með skáldsagnahandritum verður prósessinn ennþá langdregnari og maður veit ekkert hvort maður er að gera eitthvað af viti eða ekki. Auk þess virka afköstin skammarlega lítill. Ég las sirka fimm síður af efni sem mér finnst ég hafa skrifað í hálfkæringi ofan í netráp og fótboltapælingar og blogg. En kaflinn virkaði barasta mjög vel og vakti forvitni og eftirvæntingu. Síðan sagði ég þeim af söguþræðinum eins langt og hann er kominn í hausnum á mér. Ég gat nefnilega leyft mér að segja þeim frá þessu vegna þess að ég er ekki búinn að móta söguþráðinn nema að litlum hluta.
Þetta var mjög hvetjandi og uppörvandi fyrir mig. Í einverunni getur verið auðvelt að telja sér trú um að maður geti þetta ekki lengur, af því hægt gengur og enginn er til að bregðast við.
Annars er það athyglisvert að ég hef bara skrifað eina smásögu síðan árið 2004. Hún var skrifuð í júní 2007 og er hér:
http://blogg.visir.is/agustborgthor/2008/01/05/smasaga-sem-birtist-i-timaritinu-sky-si%c3%b0asta-sumar/Á newyorker.com/fiction er að finna smásögu eftir Alice Munro sem heitir "Free Radicals". Mér brá dáltítið við að lesa hana vegna þess að það er ekki hægt að flokka þetta undir neitt annað en glæpasögu. En hún er jafngóð fyrir því. Joyce Carol Oates hefur oft skrifað glæpasmásögur. Þær eru bara í sama kraftmikla raunsæisstílnum og aðrar smásögur eftir hana en efnisvalið, þ.e. hættulegt fólk og hættulegar aðstæður, gera þær að glæpasmásögum. Það sama má segja um þessa sögu Munro sem ég hvet alla til að lesa og látið ekki hæga byrjun blekkja ykkur, kellingin er við aldur og lengi í gang, henni liggur ekkert á, en þegar líður á söguna verður hún mjög mögnuð.