miðvikudagur, september 03, 2008

Ofmetnir breskir sakamálaþættir

Breskir sakamálaþættir eru betur leiknir og betur skrifaðir en bandarískir, svona alla jafna. En það þýðir ekki að þeir séu góðir, a.m.k. ekki að mínum dómi. Það er kannski ekki sanngjarnt að dæma það sem maður horfir bara á með öðru auganu, en það sem fyrir það ber er ósmekklegt melódrama sem tekur sjálft sig svo hátíðlega, yfirgengilega ósmekklegt ofbeldi, húmorsleysi og klisjur. Glæpasálfræðingur í stöðugri tilvistarkreppu og sálarangist, ráfandi um berfættur, ásakandi sig fyrir gömul mistök, í bland við subbuleg morðatriði (Illt blóð). Ekki frumlegt. Verði ykkur að góðu.

þriðjudagur, september 02, 2008

Bloggsvæði fjölmiðla eru vandræðaleg

Ritfærni krefst annars vegar skýrrar hugsunar og hins vegar getu til að koma henni í orð. Hjá bloggurum vantar stundum annað og stundum hvorttveggja. Það skiptir ekki máli í sjálfu sér, bloggheimurinn er vettvangur fyrir alls konar og afar misgóð skrif. Málið vandast þegar um er að ræða bloggsvæði sem hluta af vinsælum og virtum vefmiðlum. Moggabloggið og Vísisbloggið auka aðsókn á viðkomandi vefsvæði en um leið setur þessa fjölmiðla niður með þeim.

Moggabloggið er reyndar fullt af frambærilegum eða í það minnsta þolanlegum pennum. Vandræðagangurinn felst í bloggtengingum frétta. Það er hvimleitt og afkáralegt að rekast hvað eftir annað á smekklausar og frámunalegar heimskulegar bloggfærslur sem tengdar eru við alvarlegar og merkilegar fréttir. Þessar bloggtengingar eru oft áberandi lýti á fréttasíðu mbl.is, svona eins og subbulegt veggjakrot á fallegu húsi, munurinn er sá að þessi skemmdarverk eru í boði hússins.

Á visir.is er ekki fréttatengt blogg. Þar er bloggsvæðið hins vegar með nýjustu færslurnar í hliðarramma á forsíðu sem er mjög áberandi. Fyrir neðan fyrirsagnir frétta eru því á forsíðunni illa stafsettar og barnalegar fyrirsagnir bloggara á miðlinum. Töluvert ber á ljósbláu klámi meðal þessara bloggara. Klám á raunar fyllilega heima í bloggheiminum og hefur sinn sess þar. Nafnlaus blogg eru til dæmis kjörinn vettvangur fyrir skrif um kynóra. Málið vandast hins vegar þegar bloggið er partur af efnisvali víðlesins vefmiðils. Það er furðulegt og í hæsta máta vandræðalegt að vera vísað yfir í klámmyndband af tengli á forsíðu Vísis eins og gert er í dag.

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Kostirnir í pólitík

Við höfum ríkisstjórn sem gerir ekki neitt og talar ekki við þjóðina.

Við höfum þrjá flokka í stórnarandstöðu og tveir þeirra vilja meðal annars þetta:

Framsókn) Lækka skatta og hækka ríkisútgjöld.

Vinstri grænir) Hækka skatta og hækka ríkisútgjöld. Ekki virkja meira. Ekki meiri einkavæðingu og helst láta hana ganga til baka.

Þetta eru allt slæmir kostir. Skásti kosturinn er ríkisstjórnin sem gerir ekki neitt.

Feedback

Ég las upp dálítinn kafla úr handritinu mínu í litlum vinahópi á föstudagskvöldið. Drakk þrjá bjóra og varð fullur svo ég þurfti að stramma mig af og fá mér vatn. Vanalega hef ég lesið upp fyrir þá margyfirfarnar og fínpússaðar smásögur, yfirlesnar af öðrum og tilbúnar til birtingar í TMM eða bók. Hef notið þess í hégóma mínum að láta dást að textanum enda virkar lestur á svona þrautunnu en óbirtu efni nokkuð tilkomumikill inni í hversdagslegri stofu yfir snakkskálum og bjórflöskum, svona eins og einhver tæki fram gítar og spilaði eins og Townshend. Mér hefur alltaf gengið hægt og illa fyrsta árið eftir útgáfuhaust en í smásagnasöfnunum hér áður fyrr voru þó alltaf einhverjar sögur klárar eftir eitt ár, nú eða þá ekki, þ.e. annahvort voru þær tilbúnar eða ekki. Með skáldsagnahandritum verður prósessinn ennþá langdregnari og maður veit ekkert hvort maður er að gera eitthvað af viti eða ekki. Auk þess virka afköstin skammarlega lítill. Ég las sirka fimm síður af efni sem mér finnst ég hafa skrifað í hálfkæringi ofan í netráp og fótboltapælingar og blogg. En kaflinn virkaði barasta mjög vel og vakti forvitni og eftirvæntingu. Síðan sagði ég þeim af söguþræðinum eins langt og hann er kominn í hausnum á mér. Ég gat nefnilega leyft mér að segja þeim frá þessu vegna þess að ég er ekki búinn að móta söguþráðinn nema að litlum hluta.

Þetta var mjög hvetjandi og uppörvandi fyrir mig. Í einverunni getur verið auðvelt að telja sér trú um að maður geti þetta ekki lengur, af því hægt gengur og enginn er til að bregðast við.

Annars er það athyglisvert að ég hef bara skrifað eina smásögu síðan árið 2004. Hún var skrifuð í júní 2007 og er hér: http://blogg.visir.is/agustborgthor/2008/01/05/smasaga-sem-birtist-i-timaritinu-sky-si%c3%b0asta-sumar/

Á newyorker.com/fiction er að finna smásögu eftir Alice Munro sem heitir "Free Radicals". Mér brá dáltítið við að lesa hana vegna þess að það er ekki hægt að flokka þetta undir neitt annað en glæpasögu. En hún er jafngóð fyrir því. Joyce Carol Oates hefur oft skrifað glæpasmásögur. Þær eru bara í sama kraftmikla raunsæisstílnum og aðrar smásögur eftir hana en efnisvalið, þ.e. hættulegt fólk og hættulegar aðstæður, gera þær að glæpasmásögum. Það sama má segja um þessa sögu Munro sem ég hvet alla til að lesa og látið ekki hæga byrjun blekkja ykkur, kellingin er við aldur og lengi í gang, henni liggur ekkert á, en þegar líður á söguna verður hún mjög mögnuð.