Morgunblaðið merkir aprílgabbsfréttina sína í dag sem aprílgabb. Er þá gabbið það að það sé raunverulega fullt af sjampóbrúsum niðri í fjöru?
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, apríl 01, 2005
Síðbúinn Amazon-glaðningur beið mín heima seint í gærkvöld: Divine Comedy Live at Palladium og Runaway eftir Alice Munro. Ég fékk gæsahúð af tónleikunum og táraðist pínulítið. Þarna er fegurðin ofar öllu.
Aftan á bókarkápu Runaway er tilvitnun í Sunday Times: "One of the two or three best writers of fiction (of any length) now alive."
fimmtudagur, mars 31, 2005
Ég sendi fréttamönnum RÚV baráttukveðjur og skora á aðra bloggara að gera slíkt hið sama.
P.s. Legg til að stofnuð verði ný staða sölustjóra hjá RÚV til að leysa málið.
Eins og flestir sem áhuga hafa er ég hundóánægður með knattspyrnulandsliðið og þjálfara þess. Ég hef hins vegar á tilfinningunni eftir markalaust jafntefli gegn Ítölum í kvöld að liðið sé örlítið að rétta úr kútnum. Vissulega er sorglegt að Ísland sé að sóa frábærum úrslitum í vináttuleiki við Ítali þegar þess á milli skíttapast allir leikir sem skipta máli en engu að síður er þetta vísbending um að þeim sé að lánast að binda vörnina saman á ný og loka fyrir færi. Það var ætlunarverkið gegn Króötum sem klikkaði en nú hefur vörnin smollið saman gegn Ítölum. - Nú þarf að halda áfram að byggja á varnarleiknum og ekki gera sér of miklar væntingar. Það þarf að hala inn stig gegn Möltu, Ungverjalandi og Búlgaríu í sumar og svo þarf að halda andlitinu í síðari leikjunum gegn Króatíu og Svíþjóð. - Ef betur fer að ganga aftur, sem ég spái, þá bið ég menn um að hætta þessu helvítis bulli sem vaðið hefur uppi í mörg ár um að Ísland eigi að stefna á sæti í lokakeppni HM eða EM. Hvílíkt vitleysa. Höldum áfram að spila harðan varnarleik, loka svæðum og berjast og þoka okkur sem næst miðlungsklassa. - Lengra er ekki hægt að ná í svo stóru sporti. - Möguleikarnir fyrir Ísland liggja hins vegar sem fyrr í handboltanum. - Þar þarf líka að taka til hendinni í varnarleik.
miðvikudagur, mars 30, 2005
Um aldamótin fór meistarinn mikinn við smásagnaborðið og afraksturinn varð sögurnar í bókinni Sumarið 1970. - Margar þeirrar eru rómaðar í litlum hópi en sagan Hvar er Fischer núna? vakti þó ekki sömu hrifningu og sumar þeirra. Ég hef engu að síður alltaf gaman af þeirri sögu. Hún gerist árið 1972 þegar Einvígi aldarinnar stóð yfir og segir frá strák sem býr í útjaðri borgarinnar sem smám saman er að verða hluti af borgarmenningunni; hann er með handbolta og skák á heilanum eins og margir jafnaldrar hans á þessum tíma. - Tilvitnunin hér að ofan er úr þessari sögu.
Finnið páskablað DV. Þar sakar Salvör Gissurardóttir sjávarútvegsráðherra um kvenfyrirlitningu og fleira skylt, réttara sagt er vitnað til ummæla Salvarar á spjallvef. Hugur minn tók strax að hrapa að ályktunum um pólitískan réttrúnað og fleira en svo las ég brandarann sem Árni á að hafa sagt á skemmtikvöldi og varð nánast miður mín. Ef þetta er rétti brandarinn. Annað eins hefur svo sem skolast til. Ósmekklegt er eiginlega ekki rétta lýsingarorðið, heldur dapurlegt. Ég á ákaflega erfitt með að ímynda mér Árna Mathiesen sem illmenni en kannski er þetta víti til varnaðar þeim ófyndnu: Ekki reyna að vera fyndnir. Útkoman getur orðið skelfileg.
þriðjudagur, mars 29, 2005
Hverjir voru hvar? Lenti fremur óvænt á Kormáki og Skildi í gærkvöld. Þar voru rithöfundar, kvikmyndagerðarmenn, leikarar og rafvirkjar. Af þessum starfsstéttum ber ég mesta lotningu fyrir rafvirkjum enda það starf af þessum upptöldum sem vonlausast væri fyrir mig að tileinka mér. Ég gerði þá skyssu að spyrja rafvirkjana út í starfið og var fljótur að missa þráðinn í útskýringunum. Meðal gesta var fallegasti kvenrithöfundur landsins, sú þekkir annan vina minna sem voru meðferðis og kynnti hann mig fyrir henni. Hún heilsaði mér með handabandi. Sem betur fer er ég nánast náttúrulaus þessa dagana, annars hefði ég kafroðnað. Minna fór fyrir kurteisi hjá frægu ungskáldi sem ég heilsaði með kurteislegu vinki og fékk að launum hæðnishlátur en enga kveðju. Viðkomandi gaf frá sér eitthvað af góli sínu og gargi sem er eitt af vörumerkjum hans á börum. Hann sannaði endanlega fyrir mér að sífellt tal hans um að hann búi á landsbyggðinni er lygi. Ég sé hann nefnilega oftar í miðbænum en fólk sem býr þar og ég er m.a.s. farinn að sjá hann uppi á Hlemmi. Líklega býr hann í leiguherbergi fyrir ofan skrifstofur Eddu á Suðurlandsbraut, og hefur aðgang að kaffistofu fyrirtækisins og örbylgjuofni. Spennandi verður að sjá hvort lesendur kannast við manninn en ég gef ekki upp meira nema að líklega er hann um 1,95 á hæð með hattinum og vegur rúm 60 kg.
mánudagur, mars 28, 2005
Dvölin á Eyrarbakka var ánægjuleg og árangursrík. Töluvert skrifað og þó var þetta fjölskylduferð. Fór í Húsið og skoðaði hænsnabú hinum megin við götuna. Ég las skemmtilegt viðtal við þekktan forleggjara. Klaufalegur endir á því skrifast hins vegar á blaðamann. Þar er viðmælandinn látinn fara með þetta heldur ófrumlega spakmæli: "Hamingjan býr ekki í sjálfsblekkingu heldur innri ró." - Í þokkabót var spekin síteruð í kynningu á blaðinu. Nú hefur Jóhann Páll eflaust látið þessi orð út úr sér en blaðamaður á að fanga vitsmunastig og persónuleika viðmælandans og þessi viðmælandi hefur örugglega ekki séð fyrir sér að þessi hálfgerða klisja yrði nánast að uppslætti.
Ég hlustaði á þátt um Frank Zappa með Sverri Tynes og Lísu Pálsdóttur. Um nóttina dreymdi mig að mér stæði til boða öll föt snillingsins. Maður í dökkgráum jakkafötum tók á móti mér í stórum kjallara þar sem fatasafnið var staðsett. Hann líktist gömlum skólafélaga úr M.R., þ.e. Pétri Gunnarssyni hjá SP-fjármögnun. Þegar ég leit fyrsta Zappa-jakkann augum rann upp fyrir mér að auðvitað kæmist ég ekki í fötin hans enda miklu sverari og eflaust töluvert hávaxnari líka. - Það var ekkert óþægilegt að vakna af þessum draumi þrátt fyrir augljós skilaboðin. Það fer auðvitað enginn í fötin hans Zappa og síst af öllu ég enda enginn tónlistarmaður. Heldur leiðinlegra ef þetta hefði verið fataskápur Raymonds Carver (þ.e. og fötin líka of lítil) og ekki hefði ég viljað reyna að troða mér í kjól af Alice Munro í draumi.
Börnin lifðu sig inn í Fischer-málið í sjónvarpinu eins og ævintýramynd. Þetta er auðvitað ólgeymanlegur atburður og allur hringur atburðarrásarinnar, allt frá 1972. Hef samt ekki meira um það að segja.