föstudagur, október 31, 2008

Úr öskunni í eldinn?

Ég get alveg skilið það að fólk kæri sig ekki um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana og óski honum út í hafsauga.

Ég held engu að síður að við verðum ekki betur sett með Steingrím Joð og kó yfir landinu. Ef frjálshyggjan er búin að vera má alveg minna á að sósíalisminn kláraði sig á undan.

Hugmyndafræðileg gerjun hlýtur að vera framundan en ég get engan veginn áttað mig á því hvað kemur út úr henni. Þeir straumar eiga líka eftir að fara um útlönd áður en þeir liggja hingað.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki spennandi kostur án endurnýjunar í forystu, án þess að nýtt fólki láti meira að sér kveða og taki frumkvæði. - Stjórnarandstöðuandlitin eru bara alls ekki spennandi kostur heldur. Það þarf endurnýjun í öllum stjórnmálaflokkum.

Samfylkingin hossaði útrásinni meira en Sjálfstæðisflokkurinn. Það breytir því ekki að Samfylkingin komst ekki til valda fyrr en vorið 2007 og ber því litla ábyrgð á ástandinu. Evrópustefna flokksins er auk þess skýr og á sér marga fylgjendur.

Úr öskunni í eldinn? kallaði ég þessa færslu. Ég er reyndar alls ekki sannfærður um þann titil. Einhver gæti spurt mig: Getur þetta versnað? Svar mitt er það að ég hef engu meiri trú á Vinstri grænum, Framsókn og Frjálslyndum en þeim sem nú fara með völdin.

þriðjudagur, október 28, 2008

Mál og menning kl. 18.15

Einhvern veginn virðist mér það lenska þessa dagana hjá þeim sem eru að senda frá sér menningarafurðir, sérstaklega skáldsögur, að segja að út úr þeim megi lesa spásögn um bankahrunið núna í haust. Í viðtali við Sigurð Pálsson um nýtt leikrit hans virtist mér ansi langt seilst í þessu tali. Stefán Máni, höfundur Ódáðahrauns, getur hins vegar stært sig af því að bókin hans fjallar í raun og veru um þetta. Þar tengist verðbréfabrask fíkniefnaheiminum. Ég er kominn á blaðsíðu 134 eftir lestur á kaffistofunni í M&M. Mér finnst bókin skemmtileg og held að Páll Baldvin hafi gefið henni allt of harðan dóm í Fréttablaðinu um daginn.

Þá er komin út ný skáldsaga eftir Ólaf Gunnarsson, Dimmar rósir. Hún byrjar inni í Glaumbæ árið 1969 svo varla getur hún þóst fjalla um bankahrunið núna.

Nýja Ísland - listin að týna sjálfum mér, eftir Guðmund Magnússon, virðist mér vera mjög forvitnileg bók. Mun örugglega lesa hana.

Enn einn góður höfundur, Auður Jónsdóttir, er með skáldsöguna Vetrarsól sem kemur út á fimmtudaginn. Ég hitti Auði hérna rétt áðan og við röbbuðum um efnahagsástandið. Okkur þótti báðum að allt sem við hefðum trúað á væri hrunið. Hún sagði að þetta væri eins og að verða fullorðinn aftur. Maður hættir að trúa á jólasveininn og svo neyðist maður til að hætta að trúa á útrásina, hætta að trúa því að allt verði alltaf í lagi og að hægt sé að búa til peninga úr engu. Ég þarf þó örugglega að éta meira ofan í mig en hún enda verið miklu lengra til hægri í skoðunum. - Við minntumst ekkert á íslam og ég bað að heilsa Tóta Leifs.

Heima í rúminu á kvöldin er ég að lesa Pálsbók Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Ég átti alltaf eftir þessar sögur hans um Pál blaðamann, hef bara lesið Hreiðrið og haug af smásögum eftir Ólaf Jóhann. Gangvirkið er frábær lesning, hrein unun, og eflaust gefur Seiður og hélog henni ekkert eftir.

Eins og ég minntist á um daginn þá var ég síðast þegar ég vissi með bók í smíðum, skáldsögu eða 3-4 tengdar nóvellur, það fer eftir því hvernig öllu verður raðað saman á endanum. Bókin fjallar um þrjá vini og hjónabandsvesen þerrra. Hún hefst í miðju bullandi góðæri en síðan áttu mennirnir að fara í gegnum dálitla kreppu, kannski einn þeirra að missa vinnuna. Þó átti það að vera aukaatriði. En þetta ástand sá ég auðvitað ekki fyrir enda ekki sami snillingurinn og allir hinir rithöfundarnir sem þykjast hafa spáð fyrir um þessa ofsakreppu. Af þessum sökum hef ég ekkert getað skrifað í 10 daga en nú verð ég að fara að rjúfa vítahringinn, þoli þetta ekki lengur. Spurning um einhverja freestyle-hugleiðslu. Eða fá sér tölvu með ekkert netkort. Það er bara svo ferlega leiðinlegt að skrifa ef maður getur ekki þvælst um vefinn þess á milli eða bloggað.

Þess má geta að ég verð með smásögu í næsta TMM sem mér hefur verið tjáð að sé núna í umbroti. Tímaritið kemur út í næsta mánuði. Sú saga er sniðin út úr þessu bókarhandriti sem er í smíðum.