föstudagur, júlí 02, 2004

Hversu mikið á höfundur að móta af hugmynd sinni áður en hann byrjar að skrifa? Ég hef alltaf laðast að þeirri aðferð að halda út í óvissuna og sjá hvert mann ber niður. Að það örvi ímyndunaraflið og skáldagáfuna. En ég hef sjaldan eða aldrei verið í þessum sporum. Ég kem mér yfirleitt í þá aðstöðu að vera að skrifa "þetta" smásagnasafn sem ég ætla að ljúka fyrir "þennan" tíma og gefa út næsta haust. Nú hef ég tækifæri til að spinna í óvissu. Það er hins vegar nokkuð snúið því það er nánast ógjörningur að skrifa eitthvað af viti í hálfkæringi og í raun alltaf mikið átak og barátta við leti að koma góðum texta á blað.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Wannabe fékk ósveittan glaðning í pósti í gær: tvö höfundareintök af Uppspuna, úrvali íslenskra smásagna 1996-2003, útg. Bjartur, og digra ávísun frá forlaginu. Skv. bréfi frá Bjarti fer bókin ekki í dreifingu fyrr en í ágúst en hún er einkum ætluð til kennslu í framhaldsskólum.

Rúnar Helgi Vignisson á ásamt útgefendunum heiðurinn af framtakinu, þetta var hans hugmynd auk þess sem hann ritstýrði verkinu. Rúnar Helgi skrifar afbragðsgóðan eftirmála að bókinni og sögurnar eru vel valdar. Fyrir utan Hverfa út í heiminn eftir meistara formsins er m.a. þrælgóð saga eftir Rúnar Helga sjálfan, Dropinn á glerinu, alveg drepfyndin saga eftir Þorstein Guðmundsson sem heitir Rabbi, töfrandi örsaga eftir Óskar Árna Óskarsson, Ferðalög, og margar fleiri góðar.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Sat á Kaffisetrinu við Hlemmtorg úti við gluggann og borðaði eggjaköku þegar barnafylking fór framhjá. Lestina leiddi Kristinn Hafliðason, djúpur miðjumaður í KR. Hann var draghaltur. Ekki líst mér á það. Hann hefur barist eins og brjálæðingur í öllum leikjum og sé hann meiddur erum við fyrst í alvarlegum vandræðum.

Ég sá að Mogginn birti ritdóm um Tryggva Líndal í gær. Ef slíkt heldur áfram þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að ritdómar um bækur séu að falla út við samruna menningarsviða í blaðinu.

Í gær sá ég óorðaða klisju ljóslifandi fyrir mér: ég labbaði framhjá sjoppu og landsþekktur öryrki og baráttumaður sat þar í hjólastól við spilakassa með hálfa langloku uppi í munninum. Spilakassarnir eru skaðræði.

Ég las frétt á netinu um að lögreglan á Kýpur hefði upprætt 100 manna kynsvall á skemmtiferðaskipi. Fréttin er bæði á deiglan.com og The Guardian en hvergi kemur fram hver glæpurinn sé. Orgía um borð í skemmtiferðaskipi, so what? En auðvitað er það alltaf óþolandi þegar annað fólk skemmtir sér virkilega vel. Það er auðvitað glæpurinn. Annars ætti frekar að ráðast gegna spilakössum en kynsvalli.

Frelsi sumarsins er allsráðandi á heimilinu. Freyja gisti tvær nætur hjá Salvöru hans Jóns Óskars og þriðju nóttina gisti Salvör hjá okkur. Um eittleytið í nótt var Freyja að hlusta á Divine Comedy (hljómsveit sem allir í fjölskyldunni hafa gaman af) inni í stofu með okkur Erlu í stað þess að sofa. Síðan fékk hún að borða. Þetta er auðvitað ekkert uppeldi en 10 mánuði ársins er hún rekin á fætur fyrir átta, líka í svartasta skammdeginu. Þessi árstími er skemmtilega frjáls og oft skiptir engu máli hvað tímanum líður.

mánudagur, júní 28, 2004

Nú er Samkeppnisstofnun farin að hrella Frjálsíþróttasamband Íslands út af heimasíðu sambandsins. Samkeppnisstofnun hefur verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlaumræðu síðustu ára. Engu að síður hefur hún látið gríðarlega mikinn samruna á ýmsum sviðum viðskiptalífsins viðgangast. Og núna amast hún við einhverjum tittlingaskít í framsetningu upplýsinga á netinu hjá FRÍ. Hvílíkir kerfiskarlar!

Ég veit ekki hvort þið munið eftir því en í nokkur ár voru til stór dagblöð á Íslandi sem voru nánast algjörlega hlutlaus. Auglýsingaherferð DV árið 1997 skartaði m.a. fallexi og orðunum ... "og hlífir engum." - Og staðreyndin er sú að auglýsingin var sönn. DV hlífði engum hér áður fyrr og hallaði sér ekki að neinum. Á sama tímabili sneri Morgunblaðið baki við Sjálfstæðisflokknum og rak óháða ritstjórnarstefnu sem oft fór t.d. í taugarnar á Davíð Oddssyni sem þá var á sínu fyrsta kjörtímabili sem forsætisráðherra.

Tími flokksblaðanna var liðinn og menn héldu að þetta væri framtíðin: hlutlaus dagblöð.

Annað hefur komið á daginn. Morgunblaðið hefur aftur hallað sér að Sjálfstæðisflokknum og Fréttablaðið hefur alla tíð frá endurreisn sinni verið í harðri stjórnarandstöðu. Þegar þetta er borið upp á blaðamenn Fréttablaðsins verða þeir ævareiðir. Margir þeirra eru kunningjar mínir og ég man sérstaklega eftir reiðikasti eins þeirra þegar við ræddum um bolludagsbombuna í fyrra. Málið er ekki svo einfalt að blaðamenn Fréttablaðsins mæti til vinnu með það í huga að grafa undan ríkisstjórninni. Í fyrsta lagi ráða blaðamennirnir ekki ritstjórnarstefnunni og það getur enginn velkst í vafa um hvar afdráttarlausar skoðanir ritstjórans liggja. Fréttamatið litast af þessu og auk þess hefur ritstjórinn skrifað ótal leiðara gegn ríkisstjórninni og forsætisráðherra en ekki einn einasta hliðhollan þessum aðilum. Sárafáar ef nokkrar fréttir, hvað þá leiðaraskrif, hafa birst í blaðinu þar sem ráðist er að stjórnarandstöðunni. - Þá bætir örugglega ekki úr skák að forsætisráðherra hefur veist harkalega að blaðinu og þar með má ímynda sér að "við-þeir" andrúmsloftið sé nokkuð ráðandi meðal blaðamannanna án þess að þeir geri sér fulla grein fyrir því.

Ekki réttir það af myndina að sjálfstæðismenn eru tregir til viðtala við Fréttablaðið og skrifa aldrei greinar í það. Sú undarlega staða er því uppi að þó að viðhorfsgreinar eftir marga og ólíka aðila um margvísleg efni birtist í Fréttablaðinu þá verða þar aldrei ritdeilur og engu er líkara en allt þetta fólk sé í sama stjórnmálaflokknum. Sem betur fer er þó litrófið eðlilegra í viðhorfsgreinum í Morgunblaðinu.

Eigendur Fréttablaðsins eru orðnir svo gríðarlega umsvifamiklir í þjóðfélaginu að óhjákvæmilegt er að líta á þá sem umdeilt afl í samfélaignu, rétt eins og ráðamenn og stjórnmálaflokka. En það liggur í hlutarins eðli að neikvæð skrif um þessa viðskiptasamsteypu hafa aldrei og munu ekki að óbreyttu birtast í Fréttablaðinu.

sunnudagur, júní 27, 2004

Aftur kem ég með tilkynningu um að ég sé búinn að klára bókina. Og það er satt. Tómleikatilfinningin er nokkur. Hvað ég ég að gera núna? Nú vildi ég að jólabókaflóðið væri búið og ég á kafi í næstu bók. Annars þurfa Sveittur og Wannabe að funda aftur fljótlega og útfæra hernaðaráætlunina. Ég á bara eftir að lesa dótið yfir og leita að villum og svo kemur í ljós hvað Rúnar Helgi hefur fram að færa en hann er að lesa þetta yfir núna.

Fór í stórt matarboð á föstudagskvöldið. Gestgjafi var Martin Eyjólfsson, Malli, sem fyrir tíu árum bjargaði ÍBV tvisvar í röð frá falli með mörkum á 11. stundu. Hann sýndi mér grínmyndband sem hann hafði soðið saman í boltanum á sínum tíma. Það var sérkennilegt að hverfa aftur til sumarsins 1995 sem oftast er í þoku í huganum á meðan maður er kominn með fókus á eldri fortíð. Engu að síður rifjaðist allt upp við að sjá ÍBV og KR þess tíma sprikla á skjánum. Ég sá sjálfan mig fyrir mér, töluvert grennri og sætari, en algjörlega óþekktan, að vinna niðri í Miðlun og á Stöð 2 og að skrifa sögurnar í Í síðasta sinn. Freyja nýfædd og við Erla á Fálkagötunni.

Fórum í smá göngutúr í Elliðaárdalnum. Þá uppgötvaði ég að ég var með nýju Sam Shepard bókina á mér og engan lokanlegan vasa. Ég hef keypt samtals þrjú smásagnasöfn eftir Shepard og því öðru í röðinni týndi ég í ferðalagi til Ólafsfjarðar árið 2000. Þetta var dálítil hópferð á leik Leifturs og KR. Við flugum til Akureyrar og tókum rútu þaðan. Mér finnst eins og ég hafi lagt bókina á rútuþakið. A.m.k. hef ég ekki séð hana síðan. Í dag var ég dauðhræddur um að týna þessari í Elliðárnar og hélt fast um hana.

Nú þarf ég að fiska nýjar hugmyndir en mér finnst ég ekki almennilega geta byrjað fyrr en ég er búinn að ganga frá þessu til prentunar. Þarf að flýta því ferli.