Ég er á leiðinni að fá minn fyrsta slæma ritdóm í mörg ár og annan slæma ritdóminn á öllum ferlinum. Og það sem meira er, ástæðan fyrir slátruninnni verður sú að gagnrýnandinn er með flensu og er orðinn þreyttur á því. Ég rakst fyrir tilviljun á bloggsíðu nýjasta gagnrýnandans á Fréttablaðinu, það er ung stúlka sem ég held að sé nýútskrifuð úr bókmenntafræði. Hún er búin að dagfæra að hún sé að lesa bókina mína og núna er búin að játa að hún hafi verið orðin svo hrikalega pirruð á veikindunum sem hafa hrjáð hana undanfarið að hún hafi slátrað bókinni í fyrsta uppkasti. Hún vonar að hún verði búin að ná sér áður en hún hreinskrifar gagnrýnina, vonar það mín og sín vegna.
Þetta verður nokkuð söguleg stund og kemur sér eflaust ekki vel fyrir söluna. Á hinn bóginn hef ég kannski ekki gott af endalausu hrósi. Hins vegar verður þetta ennþá afdrifaríkara fyrir gagnrýnandann sem þar með dæmir sig úr leik, því hún er þegar búin að gefa það út opinberlega að mat sitt á bókinni hafi ekkert með bókina sjálfa að gera heldur hennar eigið heilsufar. Þetta er skelfileg byrjun á ferli gagnrýnanda og ég mun að sjálfsögðu gera mitt til að vekja athygli á þessum óheilindum. Ég efast um að þessi gagnrýnandi verði langlífur.
"Ég er með óráði. Er orðin svo pirruð á að vera lasin að ég slátraði gjörsamlega bókinni sem ég var að lesa. Vona okkar beggja vegna að ég verði hressari á morgun þegar ég endurskrifa. Skál fyrir enn einni andvökunótt!"
Þetta eru orð sem gætu orðið fræg. Ummælin sem dæmdu Melkorku Einhversdóttur úr leik sem gagnrýnanda, strax í þriðja ritdómi hennar á ferlinum.