föstudagur, nóvember 12, 2004

Ég er á leiðinni að fá minn fyrsta slæma ritdóm í mörg ár og annan slæma ritdóminn á öllum ferlinum. Og það sem meira er, ástæðan fyrir slátruninnni verður sú að gagnrýnandinn er með flensu og er orðinn þreyttur á því. Ég rakst fyrir tilviljun á bloggsíðu nýjasta gagnrýnandans á Fréttablaðinu, það er ung stúlka sem ég held að sé nýútskrifuð úr bókmenntafræði. Hún er búin að dagfæra að hún sé að lesa bókina mína og núna er búin að játa að hún hafi verið orðin svo hrikalega pirruð á veikindunum sem hafa hrjáð hana undanfarið að hún hafi slátrað bókinni í fyrsta uppkasti. Hún vonar að hún verði búin að ná sér áður en hún hreinskrifar gagnrýnina, vonar það mín og sín vegna.

Þetta verður nokkuð söguleg stund og kemur sér eflaust ekki vel fyrir söluna. Á hinn bóginn hef ég kannski ekki gott af endalausu hrósi. Hins vegar verður þetta ennþá afdrifaríkara fyrir gagnrýnandann sem þar með dæmir sig úr leik, því hún er þegar búin að gefa það út opinberlega að mat sitt á bókinni hafi ekkert með bókina sjálfa að gera heldur hennar eigið heilsufar. Þetta er skelfileg byrjun á ferli gagnrýnanda og ég mun að sjálfsögðu gera mitt til að vekja athygli á þessum óheilindum. Ég efast um að þessi gagnrýnandi verði langlífur.

"Ég er með óráði. Er orðin svo pirruð á að vera lasin að ég slátraði gjörsamlega bókinni sem ég var að lesa. Vona okkar beggja vegna að ég verði hressari á morgun þegar ég endurskrifa. Skál fyrir enn einni andvökunótt!"

Þetta eru orð sem gætu orðið fræg. Ummælin sem dæmdu Melkorku Einhversdóttur úr leik sem gagnrýnanda, strax í þriðja ritdómi hennar á ferlinum.

Ég verð í Silfri Egils um helgina að fjalla um bók eftir annan höfund. Egill hafði samband við mig í gær út af þessu og þar sem ég þarf að þrífa íbúðina í kvöld og halda barnaafmæli á morgun (Silfrið er á sunnudaginn) vakti ég fram á nótt við að lesa bókina sem er doðrantur. Ég upplýsi ekki núna hvað bók þetta er.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Ég gleðst yfir ráðningu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í starf borgarstjóra, ég gleðst sem sá mótsagnakenndi feministi/karlremba sem ég er. Allt of oft eru tækifæri til að ráða konur í valdastöður látin ónotuð og þetta er gleðileg undantekning. Steinunn Valdís er áreiðanlega ekki minna hæf til að gegna þessu embætti en aðrir borgarfulltrúar, þó að ég hafi hingað til ekki haft neina sérstaka skoðun á henni sem stjórnmálamanni. Gangi henni vel.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ég snæddi morgunmat á Grandakaffi í morgun með mömmu. Það er mjög orgínal staður, gestirnir vinnandi fólk úr nágrennninu, veitingarnar í anda 7. áratugarins. Þá er heillandi að sjá tvistinn standa þarna á endastöðinni sinni, mig minnir að Óskar Árni hafi skrifað um það í prósaljóði frá 1999.

Konur geta verið óskaplega miklir hræsnarar þegar kemur að kynlífi. Á kvennavefnum femin.is er allt morandi í auglýsingum á kynlífshjálpartækjum, titrurum af öllum stærðum og gerðum, eggjum, unaðsolíum og öllum fjandanum. Á spjallþráðum femin.is ræða konurnar síðan oft fram og aftur um notkun þessara tækja. En inn á milli má þarna finna örvæntingarfullan reiðilestur frá konum sem hafa staðið eiginmenn sína að því að skoða klámmyndir í heimilistölvunni og jafnvel fitla við sig í leiðinni. Ein sagðist vera farin að vakta manninn þegar hann færi í bað til að koma í veg fyrir að hann fitlaði við sig undir vatnsborðinu. Yfirleitt fá svona innlegg samúðarfull viðbrögð og oftast nær er tekið undir með sjónarmiðunum, jafnvel í svarbréfum ráðgjafanna á vefnum, sem þó titla sig oft kynlífsfræðinga.

Það er vægast sagt undarlegt og mótsagnakennt að rekast á svo mikið frjálslyndi og svo mikið afturhald í sama málaflokknum á sama vefnum.

Eflaust hugsa margar konur með sér sem lesa þetta að höfundurinn hugsi með einu líffæri og það sé ekki heilinn. Það er partur af hræsninni. Ég kæri mig kollóttan um það. Ég ræði um það sem mér þykir vera mikilvægt og það eru ekki endilega málefni sem eru áberandi í fjölmiðlum og þau þurfa hvorki að snúast um peninga né stjórnmál.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Leiðinleg en gagnleg helgi að baki. Við máluðum stofuna hvíta. Það fór öll helgin í þetta og enn á eftir að bera megnið af dótinu aftur inn í stofu, eftir að gólfið var bónað í gærkvöld. Boring, boring, boooooooring. - Ég komst ekki að tölvunni heima fyrir drasli og bloggefni helgarinnar eru gufuð upp í kollinum. Gaf mér tíma til að lesa blöðin og rakst ekki á neitt um smásagnameistarann en öllu meira um metsölukanónurnar sem nú er búið að hlaða vel flestar. Er að manna mig upp í að halda smásagnaupplestur á Súfistanum í mánuðinum.