laugardagur, júní 13, 2009

Kúnstir

http://www.dv.is/frettir/2009/6/13/segir-lanid-bera-merki-um-mistnotkun-adstodu/

Hinn útbelgdi reikningsmeistari og skóladúx virðist hafa gleypt lífeyrissjóð. Eða hann gleypti gullpening sem bólgnaði svona inni í honum.

Það er alltaf verið að segja mér hvað hann sé gáfaður og flínkur að reikna. Ég er alltaf að hugsa með mér hvað þessar gáfur hafa komið þjóðinni vel.

Eða að ég hugsa að sjónarhorn okkar á hugtakið gáfur sé allt of þröngt.

Work in progress

Kaflaskipti næstu skáldsögu:

2007

I
II
III

2007-2009

IV: 2007 2008 2009

___________

Ártölin eru kaflaheiti í IV. hluta en í hinum hlutunum eru kaflarnir aðgreindir með þessari viðkunnanlegu merkingu: ***

Ég er búinn að semja töluvert af efni inn í þetta skapalón (sem hefur tekið breytingum og ég tel mér trú um að hafi fengið lokamyndina núna). Tvær smásögur sem ég hef birt eftir að Hliðarspor kom út renna inn í þessa skáldsögu. Stolnar stundir (birtist í TMM haustið 2008) heldur bara áfram, teygir sig yfir á 50 blaðsíður eða meira. Skjólið (sem er hægt að finna á gamla Vísisblogginu mínu og birtist í Ský sumarið 2007) verður endurskrifuð inn í seinnipart bókarinnar. Það þarf reyndar að breyta töluvert um tón þar og samræma við annað í skáldsögunni. - Bókin mun bera keim af nokkrum samtengdun nóvellum, hlutarnir eru um margt sjálfstæðir. Ég veit hins vegar ekki hversu vel þeir myndu standa einir og sér og IV.hluti er framhald af hinu, gæti aldrei virkað einn og sér. Held ég.

Uppbyggingin er kannski ekki ósvipuð og í Hliðarspori og sú uppbygging er rökrétt framhald af ferlinum eftir fimm smásagnasöfn. Hins vegar verður þetta margslungnari, lengri og miklu betri bók en Hliðarspor. - Það er hins vegar erfitt að bera skáldsögur saman við smásagnasöfnin mín. En þau standa vel fyrir sínu.


Ég veit þetta segir ykkur ekki neitt. Ég er bara að þessu fyrir sjálfan mig (og ég hef ekki gefið mér tíma til að stofna Facebook-síðu, það kemur að því).

Og þó. Mig vantar að heyra í einhverjum sem er með tímasetningar á umfjöllun um Byrgismálið sæmilega á hreinu. Byrgismálið er aukaatriði en kemur fyrir og tímasetningar og samræmi þar að lútandi er mér mikilvægt. Ef einhver er vel að sér um þetta má mjög gjarnan senda mér póst á abs14@hi.is

Að einhverju leyti er þetta "fyrir og eftir hrun" bók. Að einhverju leyti. Innsti kjarninn í henni hlýtur samt að vera tímalaus. - Spái því að ég verði kominn mjög langt með hana í haust. Það er eins og þetta sé að springa út núna. Í haust verð ég að gera hlé. Finn mér síðan tíma (og fæ vonandi aftur starfslaun) til að klára hana fyrir haustið 2010.

Haustið 2010 kemur hún út og verður fyrsta bókin mín sem hreyfist í búðunum. Jafnvel þó að Hallgrímur verði búinn að reka Egil úr Kiljunni.

Þess má geta að ég var að fá sendingu frá Bókasafnssjóði. 2008 sló ég persónulegt met í útlánum.
En ég segi ykkur ekki töluna. Þá fara metsöluhöfundarnir að hlæja.

föstudagur, júní 12, 2009

Sprengja frá Hallgrími

Auðvitað átti Egill að lesa bókina hans Hallgríms fyrir síðustu jól. Hann gæti afsakað sig með að hann kæmist ekki yfir allt. En hann er auk þess með tvo lesara í þættinum.

Kiljan er skemmtileg og hún er mjög vinsæll þáttur og það er engan veginn sjálfgefið að halda úti bókmenntaþætti í sjónvarpi meiripart ársins sem heldur vinsældum sínum.

Kiljan er fyrsti íslenski sjónvarpsþátturinn um bókmenntir sem ekki er fullkomlega misheppnaður. Litróf var ömurlegur menningarþáttur með ennþá ömurlegra bókmenntahorni. Regnhlífarnar í New York var yfirborðsmennskan ein.

Og hvað sem hver segir þá er minni dilkadráttur í Kiljunni en tíðkast hefur á bókmenntavettvangi. Það er farið nokkuð vítt yfir það sem skiptir máli eða skiptir bara hugsanlega máli. Hér áður fyrr komu góðir höfundar að lokuðum dyrum ef þeir voru ekki í tísku.
Kiljan hefur hins vegar leitt af sér að áður ósöluvænlegar bækur hafa slegið í gegn. Hún hefur opnað bókmenntaheiminn fyrir almenningi.

Kiljan er Egill Helgason. Tillaga um að skipt verði um þáttarstjórnanda er bara bull. Ef Egill myndi hætta þá myndi Kiljan hætta og nýr þáttur taka við (eða enginn). Ég gef mér ekki fyrirfram að sá þáttur væri misheppnaðar eins og bókmenntaþættir undanfarinna ára en það hlýtur að vera eðlilegt að grípa þar til orðatiltækis á ensku: If it works don´t fix it.

fimmtudagur, júní 11, 2009

Reynt að sparka í þá sem eiga það skilið

Nýjasti Pressupistillinn

http://pressan.is/Pressupennar/Lesagrein/hvers-spyrja-thau-kennarann/

mánudagur, júní 08, 2009

Snuff-myndir í Lesbók

Ég veit ekki hvers vegna Þröstur Helgason var rekinn af Lesbókinni. Mér finnst líklegt að það hafi einfaldlega verið sparnaður, þetta var djobb sem hægt var að skera niður. Ég get samt ekkert fullyrt, hef engar innanbúðarupplýsingar. Þröstur gerði margt gott á Lesbókinni, birti mikið af góðu efni og gerði bókmenntum hátt undir höfði. Hann rak hins vegar mjög ákveðna póstsmóderníska ritstjórnarstefnu sem sumpart var góð og sumpart slæm. Ég var oft að rífa kjaft á bloggi út af Lesbókinni en gleymdi kannski að þakka fyrir það sem vel var gert. Fyrir utan birtingar á efni sem ég sendi Þresti sjálfum en hann birti allt efni sem ég sendi honum og greiddi fyrir það. Það var samtals þetta: Ein smásaga (Mjólk til spillis), grein um Alice Munro og grein um Who´s Next plötuna.

Nú virðist Lesbókin nokkurn veginn ritstjórnarlaus. Það getur vel gengið. Það vekur hins vegar athygli mína að einhver náungi (barnabókahöfundur) er sífellt að birta þarna myndskreytta langhunda um einhverjar jaðarhryllingsmyndir, hann hefur mikið dálæti á pyntingum á fólki og alls kyns grafískum óþverra og dásamar þetta efni með einhverju póstmódernísku frasakjaftæði.

Það er allt í lagi að hafa áhuga á svona myndum og það mætti jafnvel birta eina grein um þær í Lesbókinni. En hvers vegna svona greinar eru birtar þar sem lykilefni og taka yfir heilu opnurnar tvær helgar í röð (er kannski von á meiru?) þykir mér bera vitni um algjört ritstjórnarlegt stjórnleysi. Svona efnisáherslur passa engan veginn við Lesbók Morgunblaðsins.

Er ekki hægt að láta Kollu Bergþórs - eða getur ekki bara ritstjórinn sjálfur fylgst aðeins með þessu og haft uppi lágmarksritstjórn?

Besta hugsanlega Lesbókin myndi liggja einhvers staðar mitt á milli Þrastar og Gísla gamla málara. Gott aktúelt bókmennta- og menningarefni í bland við þjóðlegan fróðleik, rokk- og poppklassík má fljóta með.

Lesbók Morgunblaðsins er ekki neðanjarðarblað.

Pressupistill númer 3

http://pressan.is/Pressupennar/Lesagrein/i-bodi-landsbankans/

Tvinna saman persónulega bloggstílnum og formi dálkahöfundarins. Kallinn er með þetta.
Þið getið kommentað hér.