Kaflaskipti næstu skáldsögu:
2007
I
II
III
2007-2009
IV: 2007 2008 2009
___________
Ártölin eru kaflaheiti í IV. hluta en í hinum hlutunum eru kaflarnir aðgreindir með þessari viðkunnanlegu merkingu: ***
Ég er búinn að semja töluvert af efni inn í þetta skapalón (sem hefur tekið breytingum og ég tel mér trú um að hafi fengið lokamyndina núna). Tvær smásögur sem ég hef birt eftir að Hliðarspor kom út renna inn í þessa skáldsögu. Stolnar stundir (birtist í TMM haustið 2008) heldur bara áfram, teygir sig yfir á 50 blaðsíður eða meira. Skjólið (sem er hægt að finna á gamla Vísisblogginu mínu og birtist í Ský sumarið 2007) verður endurskrifuð inn í seinnipart bókarinnar. Það þarf reyndar að breyta töluvert um tón þar og samræma við annað í skáldsögunni. - Bókin mun bera keim af nokkrum samtengdun nóvellum, hlutarnir eru um margt sjálfstæðir. Ég veit hins vegar ekki hversu vel þeir myndu standa einir og sér og IV.hluti er framhald af hinu, gæti aldrei virkað einn og sér. Held ég.
Uppbyggingin er kannski ekki ósvipuð og í Hliðarspori og sú uppbygging er rökrétt framhald af ferlinum eftir fimm smásagnasöfn. Hins vegar verður þetta margslungnari, lengri og miklu betri bók en Hliðarspor. - Það er hins vegar erfitt að bera skáldsögur saman við smásagnasöfnin mín. En þau standa vel fyrir sínu.
Ég veit þetta segir ykkur ekki neitt. Ég er bara að þessu fyrir sjálfan mig (og ég hef ekki gefið mér tíma til að stofna Facebook-síðu, það kemur að því).
Og þó. Mig vantar að heyra í einhverjum sem er með tímasetningar á umfjöllun um Byrgismálið sæmilega á hreinu. Byrgismálið er aukaatriði en kemur fyrir og tímasetningar og samræmi þar að lútandi er mér mikilvægt. Ef einhver er vel að sér um þetta má mjög gjarnan senda mér póst á
abs14@hi.isAð einhverju leyti er þetta "fyrir og eftir hrun" bók. Að einhverju leyti. Innsti kjarninn í henni hlýtur samt að vera tímalaus. - Spái því að ég verði kominn mjög langt með hana í haust. Það er eins og þetta sé að springa út núna. Í haust verð ég að gera hlé. Finn mér síðan tíma (og fæ vonandi aftur starfslaun) til að klára hana fyrir haustið 2010.
Haustið 2010 kemur hún út og verður fyrsta bókin mín sem hreyfist í búðunum. Jafnvel þó að Hallgrímur verði búinn að reka Egil úr Kiljunni.
Þess má geta að ég var að fá sendingu frá Bókasafnssjóði. 2008 sló ég persónulegt met í útlánum.
En ég segi ykkur ekki töluna. Þá fara metsöluhöfundarnir að hlæja.