laugardagur, nóvember 18, 2006

Brjálað föstudagskvöld

kl. 20.15 OA-fundur

kl. 21.30 Kaffi og kakó með Erlu á Súfistanum

kl. 23.00 Einfaldur Jack Daniels; nýja Who-platan á fóninn og lagið Mirror Door (soldið hátt en samt passa upp á nágrannana)

föstudagur, nóvember 17, 2006

Ég er ekki viss um að ég kaupi þessa Baugs samsæriskenningu Arnars Jenssonar. Tilefni skrifa Blaðsins er nefnilega augljóst: Hugmyndir sem uppi eru um að veita lögreglu auknar heimildir til óhefðbundinna rannsókna. - Af þessu tilefni rifjar Blaðið upp gömul mál um óhefðbundnar og vafasamar aðferðir lögreglunnar. Ég læt hins vegar öðrum eftir að meta sanngildi skrifa Blaðsins um þetta.

Nú er ég búinn að fá þrjár jólabækur sendar frítt til mín, smásagnasöfnin eftir Óskar Magnússon og Ólaf Jóhann og Sendiherrann eftir Braga Ólafsson. Er búinn með Óskar og langt kominn með Ólaf Jóhann.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hvernig getur samband við konu á fertugsaldri verið kynlífshneyksli?

Bifröst er ekki M.R. og því síður Hagaskóli.

Bifröst er vinnustaður með fullorðnu fólki.

Um daginn hélt ég því fram að málflutningur Frjálslyndra væri ekki rasismi heldur fullkomlega eðlilegur. Ég átti hins vegar algjörlega eftir að gera upp við mig hvort ég væri sammála þeim.

Ég er það ekki.

Vel má vera að einhver af þeim vandamálum sem þeir hafa bent á séu fyrirsjáanleg. Ég sé hins vegar ekki að þau geri frjálst flæði vinnuafls ótækt.

Atvinnuleysi hér er 1% sem er ekki neitt. Útlendingar halda hér uppi hagvexti að einhverju leyti, taka að sér störf sem Íslendingar vinna ekki eða leggja e.t.v ekki nógu hart að sér í þeim. Ef þeir taka störf frá Íslendingum þá verður svo að vera. En það er a.m.k. ekki atvinnuleysi hér. Ef þeir lækka launin þá verður einnig svo að vera, en hér eru lögvernduð lágmarkslaun. Menn vinna síðan fyrir þau laun sem þeir sætta sig við.

Ef það verður til lágstétt illa menntaðrar og illa íslensku talandi nýbúa þá er það slæmt en þó getur maður hugsað sem svo: Einhver verður að vera á botninum.

Ekkert bendir til þess að íslamskir öfgamenn festi hér rætur í náinni framtíð. - Vel má vera að efla þurfi löggæslu en það er þá af öðrum ástæðum.

Það eru tækifæri fyrir alla í þessu landi. Það er líka hægt að læra íslensku þó að hún sé erfið. Þeir duglegu komast áfram.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Ég hitti Bjarna Klemenz á Iðu í kvöld. Hann var ekkert alltof sáttur við ritdóma sem þeir Nýhilbræður hafa fengið en samt frekar bjartsýnn. Mér finnst heldur þægilegt að vera í hlutverki lesandans í jólabókaflóðinu. Samt stefnum við nú alltaf á þessi ósköp, rithöfundarnir.

Er kominn með smásagnasafn TM-forstjórans í hendur og líst bara nokkuð vel á það sem ég er búinn að lesa. Fæ hinn smásagnaforstjórann fljótlega. Það er þarf stórlaxa til að halda uppi merki smásögunnar þetta árið og ekki er það verra.

Sjálfur skrifaði ég 700 orð í kvöld, þokkalegasta texta, og er ekkert endilega búinn.

Það er skokkdagur á morgun og spáð 7 stiga frosti. Spurning hvernig maður tæklar það. Hvernig er annars veðurspáin á fimmtudaginn? Það er óneitanlega skemmtilegra að skokka á sumrin.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Mylsnustund

Það voru fáir á ferli og nánast allir sem hann sá voru erlendir ferðamenn. Það jók á einmanaleikann og af einhverjum ástæðum kvíðann sem magnaðist eftir því sem hann nálgaðist áfangastaðinn.
Hann hikaði lengi fyrir utan bókabúðina, skraufþurr í hálsinum, heitur í vöngum og með hraðan hjartslátt. Horfðist í augu við spegilmynd sína í búðarglugganum: hann leit út eins og taugastrekktur táningur; gluggaglerið afmáði hrukkulínur og önnur blæbrigði skýrrar nærmyndar og svo var hann unglegur fyrir; en glerið huldi engan veginn taugaóstyrkinn sem skein úr augunum.

http://www.vettvangur.net/ Menning, pólitík og þjóðfélagsmál held ég að sé inntak þessa nýja vefjar sem mér hefur verið boðið að skrifa á. Nú þarf ég að láta mér detta eitthvað í hug.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Ég las fyrstu söguna í nýju smásagnasafni Ólafs Jóhanns, Aldingarðinum, í hádeginu. Mér fannst hún ljómandi góð og væri alveg til í að lesa alla bókina. Þetta er vænt safn, 12 sögur og hátt í 300 blaðsíður.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Skrapp í Eymundsson í dag og hitti þar fyrir Ívar úr Skruddu og Ævar Örn Jósefsson, báða spræka í nýbyrjuðu jólabókaflóðinu. Bók Ævars Arnar er óneitanlega feitur biti fyrir útgáfu Kristjáns Kristjánssonar á Akranesi, Uppheima.

Ég fékk mér síðan kaffi á nýju kaffistofunni sem opnuð hefur verið í Eymundsson. Hún er alltof lítil og skyndibitaleg til að geta keppt við Súfistann í Máli og menningu en engu að síður skemmtileg viðbót.