fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Þetta vill stór hluti Sjálfstæðismanna

Seðlabankastjórnina burt

Aðildarumsókn að ESB með stefnu á upptöku evru. Ekki gengið frá aðildarsamningi fyrr en viðunandi lending næst í fiskveiðimálum.

Ef þetta tvennt nær ekki fram að ganga munu þessir Sjálfstæðismenn snúa baki við flokknum.
Skila auðu í næstu kosningum eða ganga til liðs við Samfylkinguna.

Þetta eru viðhorf sem meðal annars ég skrifa undir.

Grein Benedikts - Kastjósviðtal Davíðs

http://heimur.is/heimur/pistlar/details1_pistlarsida/?cat_id=28418&ew_0_a_id=315898

Geysilega áhugaverð grein eftir klassískan eðalsjálfstæðismann. Hlýtur að vera sterk vísbending um hvert straumarnir liggja í Sjálfstæðisflokknum.

Að sjálfsögðu eigum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við eigum hins vegar ekki að skrifa undir aðildarsamning fyrr en samið hefur verið um fiskveiðimálin á viðunandi hátt. En yfirlýsing um aðildarumsókn og umsóknin í kjölfarið - þetta mun strax hafa jákvæð áhrif, þar með talið á fleytingu krónunnar, að því tilskildu að þessi vilji sé látinn í ljósi nógu snemma.

-------

Eftir lestur greinarinnar varð mér hugsað til Kastljósviðtalsins við Davíð Oddsson fyrr í haust og hvað í ljósi framhaldsins hann hefur villst illilega af leið, getur ekki lengur verið leiðarljós þjóðarinnar heldur villuljós. Hann sagði að Íslendingar borguðu ekki erlendar skuldir óreiðumanna. Þar með myndu erlendar skuldir þjóðarinnar lækka stórkostlega. Smám saman myndi umheimurinn átta sig á þessari stöðu Íslands og við það myndi krónan styrkjast. Þar með væri Ísland komið með mikla viðspyrnu.

Þetta hljómaði alveg yndislega í mínum viðvaningseyrum á sínum tíma. En reyndist hreinasta firra, hefði aldrei gengið upp. Afneitun á innstæðuskuldum hefði á endanum leitt til uppsagnar EES-samningsins. Að hafna IMF-aðstoð og neita að borga gjaldfallnar skuldir leiðir til algjörrar einangrunar landsins um ókomin ár.

Þessi sýn Davíðs var hreint rugl. Og hann er Seðlabankastjóri þjóðarinnar. Hann er okkar Alan Greenspan.

Þetta gengur ekki.

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Tvær áhugaverðar frá Skruddu












Innlendir skáldsagnahöfundar hjá Skruddu, mínu forlagi, virðast vera tveir á þessari vertíð, Ólafur Haukur Símarsson með bókina Fluga á vegg og Gunnar Gunnarsson með spennusöguna Af mér er það helst að frétta. Ég fékk eintök af báðum bókunum í morgun og er byrjaður að kíkja í þær. Bók Ólafs Hauks er æskusaga hans í skáldsagnaformi þar sem hann blandar saman veruleika og skáldskap eins og við á. Sögusviðið er fyrst og fremst Vesturbærinn í Reykjavíku á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Bókin hefur fengið mjög góðar viðtökur það sem af er enda dregin upp lifandi mynd af fortíð og umhverfi sem margir þekkja.

Bók Gunnars segir frá fréttamanni sem ratar í mikil fjárhagsvandræði en fær tækifæri til að koma sér út úr þeim með því að fremja glæp. Þetta virðist vera glæpasaga án hins klisjukennda og þreytandi rannsóknarlögregluteymis, sem margir lesendur þó elska. Gunnar er mjög lipur penni og lúnkinn stíllisti og ég er forvitinn að sjá hvernig honum hefur tekist upp.

Annars er ég farinn að lesa heimspeki af krafti og undirbúa BA-ritgerð sem ég klára líklega skömmu eftir áramót. Skáldsagan mín virðist vera að leysast upp í safn af löngum smásögum. Ég held að kreppan hafi slátrað skáldsagnahugmyndinni. Það verður að minnsta kosti ein hreinræktuð kreppusaga í bókinni en síðan eru nokkrar hjónabands- og ástarsögur úr góðærinu, um vel megandi millistéttarmenn sem þjakaðir eru af pólitískum réttrúnaði sem umlukti líf okkar þegar við þurftum ekki að hafa áhyggjur af fjármálum.

Spennandi tímar framundan hjá mér og líklega ekki erfiðir nema það verður erfitt að upplifa það ástand sem þjóðin er að ganga í gegnum.

Ég er byrjaður að fá lausaverkefni en fleiri eru vel þegin. Þýðingar, textagerð, prófarkalestur, pr-vinna. Skjót og góð vinnubrögð, lágur taxti. Ég þarf að búa til mátulega stóran verkefnapakka meðfram náminu.








þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Ummæli sem Davíð og Geir geta ekki sniðgengið

"Það er ekki hlutverk seðlabankastjóra að flytja pólitískar varnarræður", sagði Jón Daníelsson í grein síðasta föstudag.

Þetta er svona pars pro toto - dæmigert fyrir það ástand að formaður bankastjórnar Seðlabankans er alls ekki réttur maður á réttum stað, hann er að troða sína frábæru pólitísku arfleið í svaðið.

Það er með ólíkindum að hann sjái þetta ekki sjálfur. Eins og mér þótti maðurinn gáfaður einu sinni ...

Stól fyrir Björgúlf, stól fyrir Hannes, stól fyrir ...

Ég fylgdist með Borgarafundinum í Háskólabíói í sjónvarpinu; hann var frábær. Frábært framtak.

Gestir næsta fundar skilst mér að séu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins.

En hvenær verður borgarafundur með sjálfum útrásarvíkingunum? Hann hlýtur að verða. Ég trúi því ekki að þeir sem að þessu standa átti sig ekki á því að mikil ábyrgð hvílir á fjárglæframönnunum. Hvar er réttlætiskenndin ef þeir eiga að sleppa við að gera grein fyrir sínu máli?

Nafnmerktir stólar eru frábær hugmynd. Ef gaurarnir mæta ekki munu auðir stólar með nöfnum þeirra blasa við fundargestum og sjónvarpsáhorfendum.

Þannig komast þeir ekki hjá því að tjá sig - ef þeir mæta ekki tjá þeir sig með fjarvistinni og þögn þeirra verður æpandi.

mánudagur, nóvember 24, 2008

Grafalvarlegar ásakanir

http://www.vb.is/frett/1/50107/markmid-davids-oddssonar-var-ad-grafa-undan-rikisstjorninni

Ef þessi ásökun Þorsteins Pálssonar er rétt þá er hverju mannsbarni ljóst að það gengur varla deginum lengur að hafa sömu stórn yfir Seðlabankanum og nú er.

Það er afar ólíkt Þorsteini Pálssyni að fara með fleipur. Væri hann að því í þessu tilviki væri það grafalvarlegt fyrir fjölmiðlun á Íslandi.

Ég trúi honum. Davíð Oddsson verður að víkja. Best ef hægt væri að finna friðsamlega lausn og hann gæti kvatt með reisn.

Á hinn bóginn hafði hann líklega rétt fyrir sér með fjölmiðlafrumvarpið. Það er að vissu leyti tilviljununum háð að Jón Ásgeir sé ekki þegar orðinn eigandi að Mogganum auk Fréttablaðsins. Það er a.m.k. eitthvað sem vel hefði getað gerst núna nýlega. Ef svo væri, þá hefði grein Agnesar Bragadóttur um vafasamar lánveitingar Glitnis ekki birst í Mogganum um helgina. - Hve margar eldfimar greinar eru óskrifaðar vegna þess eignarhalds á fjölmiðlum?

Eignarhald á fjölmiðlum hefur leitt til gagnrýnislausrar umræðu um fjármálalífið undanfarin ár. Engin veit hvað sá skortur á aðhaldi hefur átt stóran þátt í hruninu.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Hver ætlar að segja af sér í lögreglunni?

Að handtaka lykilmótmælanda daginn fyrir mótmæli vegna sektargreiðslu er í senn fasískir tilburðir og frámunaleg heimska. Skýringar á athæfinu og hinni meintu tilviljun er varla hægt að kalla annað en ósannindi. Sjö þúsund manns er almenningur - ekki óæskilegur hópur sem lögreglan á að líta á sem óvini og standa í skæruhernaði við.

En svo er það með mótmælin sjálf og aumingja eins og mig sem fá sig ekki til að taka þátt. Samkvæmt einum ræðumanni var fólk þarna meðal annars samankomið til að mótmæla láninu frá IMF. Erum við á móti því láni?

Hjá öðrum ræðumanni snýst allt um að fá konum stjórnartaumana. Ástæðan fyrir því hve fáar konur eru ábyrgar fyrir hruninu er hve fáar konur hafa ítök í fjármálalífinu og stjórnmálum. Þar sem þær á annað borð koma við sögu eru þær hins vegar engan veginn með hreinan skjöld. Er það til dæmis nokkuð annað en spilling og mútur hjá fyrrverandi forstjóra FL Group að láta borga sig út úr starfinu og þegja síðan um aldur og ævi yfir þeim vinnubrögðum sem henni misbauð svo að hún lét af störfum? - Þá er annar nýju kvenbankastjóranna í vandræðum vegna afskrifta á hlutabréfaskuld hennar. - Þetta snýst ekki um kyn. Konurnar eru engu betri, þær hafa bara ekki haft jafnmikil tækifæri til spillingar og fjárglæfra.

Hvaða ruglfréttir eru þetta frá Þýskalandi? Er enn einu sinni verið að halda leyndum fyrir okkur óþægilegum staðreyndum um samningana við Holland, Bretland og Þýskaland?