Tíminn, maður!
Rétt áður en ég gat út fyrstu bókina mína, smásagnasafnið Síðasti bíllinn, árið 1988, fékk ég birt viðtal við mig í Vikunni. Viðtalið var býsna ríkulegt og langt en ég naut þess þá að hafa skrifað heilmikið fyrir blaðið það sumar fyrir lítinn pening. Viðtalið var skreytt ljósmyndum sem vinur minn tók. Bókina gaf ég út sjálfur og hún var frekar slök en enginn skandall fyrir mjög ungan mann. Svo var í henni ein ansi góð saga sem ég hafði áður fengið birta í TMM.
Hinn eiginlegi reglubundni bókmenntaferill hófst hins vegar ekki fyrr en 1995 þegar út kom smásagnasafnið Í síðasta sinn hjá Skjaldborg. Miklu betri bók sem fékk góða dóma en seldist ekki neitt. Á lokasprettinum þurfti ég að frumsemja 3 nýjar smásögur (ca. 40 bókarsíður af 120) sem áttu að falla inn í heildarkonseptið (fíkn). Það tókst afbragðsvel. Ég hafði hins vegar bara tvo mánuði í þetta verk en bókin átti að fara í prentun að mig minnir í S-Ameríku í júníbyrjun þetta ár. Ég var þá í fullu starfi hjá fyrirtæki sem heitir og hét Miðlun og var staðsett við Ægisgötu. Á kvöldin og fram á nótt var ég að vinna við bókina þessa tvo mánuði en heima var Erla með nokkurra mánaða gamalt barn, Freyju, sem var fermd í fyrra.
Um helgar sat ég þarna líka og hamaðist við að klára bókina. Í matartímanum skrapp ég niður á Tryggvagötu í sjoppu sem hét Stélið. Stél flugvélar skagaði út úr risi hússins. Þessi sjoppa er núna horfin. Þarna át ég hamborgara og drakk kaffi og hvíldi mig örstutta stund á smásögunum.
Auk þess blaðaði ég í eldgömlum tímaritum sem þarna lágu frammi. Meðal annars var þar að finna 7 ára gamalt tölublað af Vikunni með viðtali við ungan rithöfund sem var að gefa út fyrstu bókina sína. Það var nokkuð skemmtileg tilviljun að rekast á þetta gamla viðtal við sjálfan mig um fyrstu bókina á meðan ég var að klára bók númer tvö.
- - - -
Í jákvæðum ritdómi um bókina á Rás 1 fjallaði ritdómari um fíknina og neyslubrjálæðið. Í gamni eða alvöru sagðist hann í lok dómsins ætla að fara að horfa aftur á gervihnattasjónvarpið sitt eða fjölvarpið. Það var tákn um neysluna þá, að hafa haug af erlendum sjónvarpsstöðvum. Löngu síðar varð flatskjárinn að þessu tákni.
Pólitíkin þá? Við vorum að sigla út úr kreppu með DO og JBH í sinni Viðeyjarstjórn og EES-samningnum. Ég var að breytast í þann grjótharða hægri mann sem nú þarf að endurskoða pólitísk viðhorf sín.
Skáldsögur þurfa að taka mið af samtíma sínum en höfundar geta ekki fest sig í einhverju sem hljómar algjörlega úrelt nokkrum árum seinna. Þeir geta t.d. ekki verið að velta sér upp úr gervihnattasjónvarpi eða flatskjám. Þeir geta oft algjörlega sniðgengið pólitíkina og heimsviðburði á sögu- og ritunartíma verka sinna enda leitast þeir við að einbeita sér að því tímalausa.
En suma viðburði er ekki hægt að sniðganga ef maður skrifar samtímasögu. Ef maður er með persónur sem lifa og starfa yfir tímabilið 2007-2009 er tæpast hægt að sniðganga bankahrunið. En það er heldur ekki hægt að fara að skrifa sögu sem fjallar um það ef upphaflega sagan átti ekki að gera það. Og það þarf að passa sig að festast ekki í einhverjum þáttum þessara viðburða sem koma ekki til með að skipta miklu máli síðar.
Það þarf að finna flötinn sem hefur langa og víðtæka skírskotun. Mannlegan, almennan flöt.
Ég held ég sé búinn að tækla þetta. Bókin gæti verið orðin klár í haust.