laugardagur, maí 13, 2006

Það er búið að vera allt vitlaust að gera í vinnunni í vikunni, ég lenti t.d. í yfirvinnu fram yfir miðnætti á miðvikudagskvöldið. Mín verkefni hafa verið allt frá því að prófarkalesa kosningaauglýsingar upp í að skrifa útvarpsauglýsingar um Landsbankadeildina upp í að finna fyrirtækjum gildi í orðum, og ýmislegt þar á milli. Ég er á virkilega góðu róli með bókina og er loks farinn að skrifa texta sem gæti staðið fyrir sínu á prenti. Að því leyti er þessi vinnutörn ekki heppileg en maður verður að taka því. - Á sunnudaginn mæti ég með Kjartan á KR-FH með viðkomu í Landsbankahófi upp úr kl. 6 í KR-heimilinu. Þar verður eitthvað snætt og horft á auglýsingar. Ég spái því að leiknum á sunnudag lykti með jafntefli, 1-1.

föstudagur, maí 12, 2006

Snilldin í bestu dægurlögunum er oft fólgin í einfaldleikanum. Ef lagið I´m Free með The Who væri að koma fram núna, gæti það þá unnið Eurovision? Eða kæmist það ekki upp úr undankeppninni?

Ætlaði bara að setja inn þessa mynd af stelpunni minni en veit ekki hvers vegna hún er tvöföld.

Mamma (Freyja Jónsdóttir) var að fá birta smásögu í væntanlegu árlegu smásagnahefti Nýs lífs. Sagan sem hún birtir þar kom mér töluvert á óvart en helsti kostur hennar er hvað lesandinn á gott með að setja sig í spor aðalpersónunnar. Mamma byrjaði að dútla við skriftir um sextugt og hefur síðan þá aðallega fengist við blaðamennsku. Hún hefur þó aðeins spreytt sig á smásögum. Oft hefur mig grunað að sagnahæfileikar mínir séu komnir frá henni en ég hef einfaldlega ræktað þessa hæfileika miklu lengur og meira. Það er ekkert auðvelt að fá birt í þessu smásagnahefti og miklu af efni er hafnað, þannig að þetta er vel af sér vikið hjá þeirri gömlu sem er sléttum 30 árum eldri en ég.

Þegar ég var að bíða eftir Erlu fyrir utan vinnustaðinn seint í dag greip mig hamingjutilfinning yfir því að vinna á Íslensku auglýsingastofunni. Nokkrir samverkandi þættir gera að verkum að þessi vinnustaður færir mér hamingju: Staðsetningin er stórkostleg, sunnarlega í Þingholtunum, fallegasta stað í Reykjavík; starfið er ekki of krefjandi fyrir mig og gefur svigrúm til skrifta; fyrirtækið gengur vel og manni finnst maður vera öruggur með starfið; mórallinn er frábær, skemmtilegir karakterar og almennt umburðarlyndi gagnvart sérvisku, geðvonsku og sérkennilegum húmor, sem kemur sér vel fyrir mig.

Ánægjulegustu minningarnar frá þessum stað eru um skriftir á sumarkvöldum og sumarnóttum. Síðasta sumar var að vísu ekki mjög gjöfult en sumrin þar áður skrifaði ég þarna sögur úr síðustu bók og allt bendir til að skriftir þetta sumarið uppi á Laufásvegi verðir mjög gjöfular.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Einu sinni þegar ég var í Landakotsskóla sendi ein kennslukonan mig út í búð fyrir sig. Hún bað mig um að kaupa fyrir sig appelsín og prinspóló. Ég misskildi hana hins vegar eitthvað og kom til baka með prinspóló og appelsínu. Þá var hlegið. Hún var feit, þ.e. kennarinn. Mig minnir að hún hafi verið ágæt, man það samt ekki. Hef ekki hugmynd um hvers vegna þessi minning skaut upp kollinum.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Það er fáránlegt auglýsingaskrum að halda því fram að Reykjavík sé ein fallegasta borg í Evrópu, eins og gert er í einni exbé auglýsingunni. Þetta er bara bull. Þó að mér þyki vænt um Reykjavík og vilji helst hvergi annars staðar búa er hún ekki falleg. Ég held mig raunar bara á skástu stöðunum, í Vesturbænum og miðbænum og vildi frekar búa úti á landi en í sumum úthverfanna. Þýskar smáborgir á borð við Darmstadt og Hildesheim, jafnvel iðnaðarborgin Mannheim sem þykir einstaklega óspennandi, - allar eru þær miklu fallegri en Reykjavík. Sem segir mér að líklega eru allar borgir í Norður-Evrópu og víðar, stærri en 100 þúsund, fallegri en Reykjavík. Og þegar hafðar eru í huga þær höfuðborgir í Evrópu sem ég hef komið til þá blygðast ég mín eiginlega af samanburðinum.

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1200680 Sumar þjóðir virðast eiga erfitt með að skilja þau augljósu sannindi að kynlíf er einkamál fólks. Bandaríkjamenn og Bretar virðast sérlega slæmir hvað þetta snertir, þeir eiga m.a.s. til lagaákvæði sem brjóta gegn þessari friðhelgi.

Árið 2002 varð KR Íslandsmeistari og Þýskaland í 2. sæti á HM, Vizeweltmeister. Ég sé þetta ekki endilega endurtaka sig í sumar, bæði liðin líta dálítið verr út en þá. Samt eru þau líka með vissum hætti óskrifuð blöð.

Þetta verður viðamikið fótboltasumar. Þar sem möguleikar mínir á útgáfu í haust eru orðnir raunhæfir þarf ég að halda vel á spilunum og ekki sóa of miklum tíma í fótboltagláp. Ég var að fá frábæra umsögn á hluta af handritinu hjá vel metnum aðila í gær.

Engu líkara en menn séu að skrifa Stuð milli stríða fullir. Annar furðupistillinn birtist þar í gær. Annars sérkennilegt að fá leynileg skilaboð úr stærsta blaði landsins. Ég sæi ekki blaðamann á Mogganum fá að nota blaðið á þennan hátt. Getur maðurinn ekki bara farið að blogga aftur og svarað fyrir sig þar?

Gærdagurinn var dagur hroka og monts. Gott og vel: ég get skrifað sögur og pistla en það gerir ekkert fyrir mig að básúna ágæti mitt í þeim efnum. Þetta er bara gamall veikleiki. Nú kemur tilraun til montbindindis. Sjáum hvernig það gengur.

þriðjudagur, maí 09, 2006

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1200449 Hvernig tilfinning ætli það sé að hafa lært einhverja listgrein, verða frægur, ríkur og vinsæll og uppgötva síðan að aðdáendur manns eru fábjánar. Þetta hefst upp úr því að helga afþreyingarefni hæfileikum sínum. Annars hef ég ekki hugmynd um hvort þessi kona kann nokkuð að leika og eflaust er hún bara hæstánægð enda moldrík. En mér þætti aumt ef mínir örfáu lesendur væru vangefnir.

Ég hef alltaf hreykt mér mest af smásögunum mínum og það var út af umfjöllun minni um þær sem ég fékk á mig montstimpilinn, mikilmennskubrjálæðisáruna, hálfnaívíska hrokagikkssniðið, útbrunna egóistaálitið, og allt það. - En ég var að opna usb-lykil áðan, til að flytja gögn á milli heimilis- og vinnutölvu, eins og ég geri svo oft, en núna veitti ég því skyndilega athygli að nánast allir pistlarnir mínir eru á þessum lykli, bæði útvarpið og Blaðið. Ég las mig í gegnum nokkra pistla og niðurstaðan var alltaf sú sama: Ég er líka fjandi góður pistlahöfundur, stundum fáránlega góður, en alltaf afslappaður og lúnkinn. Ég get ekki gert að því, ég er bara góður í þessu. En ég er lélegur í fótbolta ef það er huggun fyrir einhvern.

mánudagur, maí 08, 2006

Auðveld myndagetraun. Fríðari útgáfa af ábs, hvar er hún staðsett á myndinni? Hér eru síðan fleiri myndir eftir sama ljósmyndara frá þessum viðburði, þ.e. KFC-fótboltamóti sem haldið var í Víkinni um helgina: http://sje.ljosmyndun.is/main.php?g2_itemId=8848

Fyrir stuttu lýsti ég því tákni um sumarkomuna að ég hefði fjarlægt upprennda fóðrið úr svörtu úlpunni minni. Mér var kalt í marga daga á eftir. En í dag ( í gær? klukkan er eitt að nóttu) þreifaði ég eftir úlpunni á stólbaki á Súfistanum en greip í tómt. Gleymdi því eitt augnablik að ég hafði ekki farið í hana, ég var bara í jakkafötunum og yfirhafnarlaus. Þannig að það er víst komið sumar, ekki bara úlpufóðurlaust vor heldur úlpulaust sumar. - Þetta er jafnvel hversdagslegra en sultur í München.

sunnudagur, maí 07, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060507/SKODANIR04/105070017/1128
Mjög góð grein eftir Illuga Gunnarsson.

Eins og allir vita getum við ekki tileinkað okkur lýtalausan framburð á erlendri tungu, ekki nema við lærum hana sem börn. Það sem mér þykir hins vegar áhugavert markmið er að geta talað íslensku eins og útlendingur. Auðvitað getur það verið fyndið og er eflaust útjaskað grínefni en það er líka spennandi viðfangsefni að tileinka sér þessa kunnáttu, jafnvel með vísindalegum aðferðum. Því ekkert er eins skemmtilegt og það sem er fáránlega gagnslaust. Ég miða við Þjóðverja sem hefur búið lengi á Íslandi en staðnað í íslenskukunnáttu sinni. Framburðarhljóð og hæfilega mikið af beygingarvillum eru grundvöllurinn. Ég spreyti mig stundum á þessu en þó að það hljómi vel veit ég að ég er víðsfjarri markmiðinu. Ég hef þó náð töluverðri leikni í orðinu "texti", í mínum meðförum verður það "díjekstí". Einhvern veginn þannig. - Þeir sem vilja spreyta sig á þessu geta t.d. haft í huga að Þjóðverji mun aldrei nokkurn tíma geta borið rétt fram orð eins og "gull" og "tuttugu". Þeir geta ekki borið fram h-hljóðið sem fylgir t-unum tveimur og gull segja þeir einhvern veginn svona: "g-ud-l" - með röddun á alltof löngu l-hljóðinu í lokin.

Í dag er hátíðisdagur fyrir innipúka. Það er aldrei eins skemmtilegt að sitja inni við skriftir og þegar sólin skín úti. Í alvöru talað, þá finnst mér blíðviðri vera inspírandi ef ég er inni og veit af hitanum úti og sólin skín inn um gluggann.

Mér þótti Bakþankapistillinn hans Guðmundar Steingrímssonar um verðtrygginguna verulega lunkinn. Raunar var hann skólabókardæmi um velheppnaða pistlagerð. Hann þykist ekkert vit hafa á þessu en kemur með skemmtilega sláandi en þó svo einfalda líkingu og eftir stendur sterkur rökstuðningur.