laugardagur, desember 31, 2005

Krakkarnir skokkuðu með okkur í dag. Um er að ræða tæplega 7 kílómetra leið eftir Ægisíðustígnum, út í Nauthólsvík og til baka. Börnin stóðu sig ótrúlega vel þó að óneitanlega hafi þeim þótt þetta hin mesta þrekraun. Spurning hvort þeim takist eitthvað að vaka á nýársnótt eftir þetta.

Það er alveg óskaplega fyndin skopteikning í Blaðinu í dag, um samskipti kynjanna. Gæti orðið mér efniviður í næsta pistil.

Gleðilegt nýtt ár!

föstudagur, desember 30, 2005

Ég hlýt að líta um öxl á síðasta vinnudegi ársins þó að það sé nokkuð erfitt vegna skammdegisværðarinnar sem er yfir mér.

Árið 2005 er líklega ekkert tímamótaár í lífi mínu. Reynum samt að rifja upp eitt og annað.

Á árinu sem er að líða náði ég betri tökum á mataræði mínu en ég hef gert undanfarin ár. Einnig tókst mér að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á innan við klukkustund. Enn er ég þó ekki orðinn grannvaxinn og veit ekki hvort ég verð það.

Ég hóf ritun skáldsögu sem enn er óvíst um hvernig mun reiða af.

Ég fór til Mannheim í Þýskalandi og dvaldist þar í viku.

Ég fór í fyrsta skipti til Tékklands (Prag) á árinu og til Grikklands, þ.e. Krítar.

Drengurinn minn hóf að æfa knattspyrnu með KR.

Konan mín varð fertug.

Kötturinn minn skeit í sófann. Oft. Hann hefur ekki gert það síðan ég minntist á það hér síðast.

Ég hef ekki skrifað eina einustu smásögu á árinu. Langt er síðan það hefur hent, líklega hef ég skrifað einhverjar smásögur á hverju ári allar götur síðan 1993.

Ég gerðist pistlahöfundur á árinu, alvöru pistlahöfundur sem fær greitt.

Ég keypti flauelsjakka og nýtt reiðhjól.

Ég hlýt að vera að gleyma einhverju. Það rifjast þá upp síðar.

Ég þakka öll góð samskipti á árinu og óska öllum sem ég þekki gleðilegs nýárs.

fimmtudagur, desember 29, 2005

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1176049 Þá liggur það fyrir og nú myndi ég vilja sjá dagskrána.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20051229/FRETTIR01/51229059/1091 Rétti staðurinn fyrir hægri krata, eins og áður hefur verið drepið á.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Keypti annað hefti Þjóðmála í hádeginu. Þetta er alveg einstaklega læsilegt rit og virðist mér þetta hefti ennþá betra en það fyrsta. Ekki spillir fyrir að greinarnar eru gagnorðar og hæfilega stuttar, þannig að maður geymir sér þær ekki og klárar svo aldrei. Las tvær til enda í hádegishléinu. Mæli eindregið með þessu tímariti.

Ég er með eindæmum slappur í dag. Ég borðaði að vísu þungan mat eins og allir um jólin en gætti engu að síður óvenjumikils hófs. Er með dálítið kvef en er vonandi ekki kominn með pest.


Í apríl verða liðin 20 ár síðan ég hitti þessa konu.

sunnudagur, desember 25, 2005

Ég fann nýja smásögu eftir Alice Munro á netinu. Nú kappkosta ég aftur að lesa það sem höfðar mest til mín sem rithöfundar. Jólabókaflóðið breytir dálítið lestrarvenjum. Ég er að hugsa um að næla mér í Sólskinshestinn milli jóla og nýárs. Vel má vera að hún falli undir þetta. Ég er aftur byrjaður að lesa Brooklyn Follies eftir Paul Auster, en ég lagði hana frá mér þegar jólabækurnar byrjuðu að koma út.

Við sváfum til hádegis og fórum síðan út að labba í rigningunni. Á eftir er hangikjöt hjá mömmu. Ég er búinn að opna söguhandritið sem hefur verið óhreyft í jólastressinu. Ég þyrfti að skrifa mig einhvern veginn að endinum áður en ég byrja á versjón 2 í Darmstadt.