Ég hlýt að líta um öxl á síðasta vinnudegi ársins þó að það sé nokkuð erfitt vegna skammdegisværðarinnar sem er yfir mér.
Árið 2005 er líklega ekkert tímamótaár í lífi mínu. Reynum samt að rifja upp eitt og annað.
Á árinu sem er að líða náði ég betri tökum á mataræði mínu en ég hef gert undanfarin ár. Einnig tókst mér að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á innan við klukkustund. Enn er ég þó ekki orðinn grannvaxinn og veit ekki hvort ég verð það.
Ég hóf ritun skáldsögu sem enn er óvíst um hvernig mun reiða af.
Ég fór til Mannheim í Þýskalandi og dvaldist þar í viku.
Ég fór í fyrsta skipti til Tékklands (Prag) á árinu og til Grikklands, þ.e. Krítar.
Drengurinn minn hóf að æfa knattspyrnu með KR.
Konan mín varð fertug.
Kötturinn minn skeit í sófann. Oft. Hann hefur ekki gert það síðan ég minntist á það hér síðast.
Ég hef ekki skrifað eina einustu smásögu á árinu. Langt er síðan það hefur hent, líklega hef ég skrifað einhverjar smásögur á hverju ári allar götur síðan 1993.
Ég gerðist pistlahöfundur á árinu, alvöru pistlahöfundur sem fær greitt.
Ég keypti flauelsjakka og nýtt reiðhjól.
Ég hlýt að vera að gleyma einhverju. Það rifjast þá upp síðar.
Ég þakka öll góð samskipti á árinu og óska öllum sem ég þekki gleðilegs nýárs.