Sirka viku hlé vegna anna.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
fimmtudagur, ágúst 10, 2006
Í greinarkorni um Camus í Mogganum gerir höfundur sérkennileg mistök: hann gerir ráð fyrir því að allir lesendur greinarinnar þekki til kenninga og hugmynda Camus. Eflaust gildir það um marga þeirra, hinir fletta framhjá. Hins vegar er þetta dagblað ætlaði almenningi og því klaufalegt að eyða ekki nokkrum orðum í að fjalla um kjarnann í kenningum Camus, enda eru þær umræðuefnið - þ.e. spursmálið hversu mikið erindi þær eiga núna í því samhengi að velt er vöngum fyrir vinsældum Camus í Frakklandi núna.
miðvikudagur, ágúst 09, 2006
Hverfisgatan er að verða klám- og tattoogata sem er svo sem ekki illa við hæfi. En hvað er Laugavegurinn? Hann er ekki það sem hann var, því hluti af því sem hann var eru Kringlan og Smáralind núna. Verður Laugavegurinn smám saman minning um sjálfan sig eins og sum sjávarþorp á landsbyggðinni? Verða einhvern tíma sett upp verslunarsöfn á Laugaveginum innan um kaffihúsin og veitingastaðina?
þriðjudagur, ágúst 08, 2006
Párað út í móa
Fann gamlar skissubækur. Ég notast miklu meira við tölvu en handskrift en þó gríp ég stundum til pennans og kompunnar. Það sem vakti athygli mína við þetta brot er að textinn er svo órafjarri því sem birtist í sögunni. Ég var að glíma við Afmælisgjöfina, sögu sem hefur birst í tveimur bókum og var býsna erfið viðureignar. Þetta brot sýnir hvað maður getur lent á miklum villigötum við að semja eina sögu. Sé smellt á myndina stækkar hún og þá á að vera hægt að lesa párið. Í sjálfu sér alls ekki merkilegur texti en áhugaverður fyrir þá sem hafa lesið Afmælisgjöfina.
Það er bannað að hlekkja sig við vinnuvélar í mótmælaskyni.
Það er líka bannað að berja niður friðsöm og lögleg mótmæli almennings.
Skv. fréttum virðist löggan fyrir austan ekki geta gert greinarmun á friðsömum mótmælum og ólöglegum aðgerðum. Sumir segja að ordrurnar komi að sunnan en ég heyrði líklegri skýringu í gærkvöld á þumbaraskapnum: menn ganga svona fram til að geðjast yfirboðurum sínum; óvíst er svo hvernig yfirboðurunum líkar.
mánudagur, ágúst 07, 2006
Stuttur listi
Ég les margt og dáist að mörgu en það eru aðeins örfáir höfundar sem ég leita til þegar mikið liggur við:
Alice Munro
Raymond Carver
Richard Ford
Joyce Carol Oates
Andre Dubus
Ég held að listinn sé ekki lengri, ekki þeirra allra mikilvægustu. Kjell Askildsen væri kannski á honum ef það væri meira til eftir hann á íslensku. Ég get ekki farið að lesa norskan höfund á ensku. Annaðhvort les ég höfunda á frummálinu eða íslensku. Ég er ekki að segja að ég verði ekki fyrir áhrifum frá öðrum höfundum en þessum, ég hef líklega orðið fyrir áhrifum af fjölmörgum innlendum og erlendum höfundum, en í seinni tíð standa þessir alltaf upp úr. Tobias Wolff ætti síðan að vera þarna, ef ég væri að miða við síðustu tíu árin en af einhverjum ástæðum hef ég ekki lesið hann nokkuð lengi. Áhugasamir geta síðan googlað, jafnvel lesið - eða hafa þegar gert það.
sunnudagur, ágúst 06, 2006
KR og Laugardalsvöllurinn
(Dálítill hvatningarpistill sem einnig er birtur á krreykjavik.is)
Laugardalsvöllurinn hefur oft verið kallaður annar heimavöllur okkar KR-inga. Ástæðan eru margir glæstir sigrar sem unnist hafa á þessum velli á síðustu 10-12 árum. Hæst ber þar 4-0 sigurinn gegn Víkingum árið 1999 sem tryggði okkur langþráðan Íslandsmeistaratitil og síðan bikarúrslitaleikirnir 1994, 1995 og 1999, sem allir unnust. Einnig hefur okkur KR-ingum almennt gengið afskaplega vel á síðustu árum á Laugardalsvellinum gegn þeim liðum sem hafa átt völlinn að heimavelli hverju sinni. Til dæmis hafa unnist margir góðir sigrar gegn Fram og Þrótti og sumir þessara leikja verið frábærlega skemmtilegir. Eftirminnilegastur þeirra er mér 4-2 leikurinn gegn Fram árið 2002 þegar KR-liðið átti í tvísýnu einvígi við Fylki um Íslandsmeistaratitilinn. KR-ingum líður vel á Laugardalsvellinum og við höfum líka verið svo klókir að tala upp þennan bónus sem við teljum völlinn vera okkur og þar með fest hann í sessi í vitundinni sem hagstæðan völl.
Þessi orð eru skrifuð nokkrum vikum fyrir undanúrslitaleik okkar í bikarkeppninni gegn Þrótti, en sá leikur fer einmitt fram á Laugardalsvellinum, eins og menn vita. Takist okkur vel upp í þeim leik bíður okkar bikarúrslitaleikur á þessum sama kæra velli. Eftir nokkuð magra tíð undanfarið eygjum við möguleika á fyrsta stóra titlinum í þrjú ár. Þá er tilvalið að minna okkur á að Laugardalsvöllurinn er "okkar" völlur, rétt eins og KR-völlurinn sjálfur, og sanna það fyrir sjálfum okkur og öðrum með góðri frammistöðu í bikarbaráttunni, jafnt leikmanna sem stuðningsmanna.
Miðvikudaginn 9. ágúst tökum við hins vegar á móti Keflvíkingum á KR-velli, andstæðingi sem hefur verið okkur erfiður undanfarin ár. Núna er rétti tímapunkturinn til að sýna það með eftirminnilegum hætti að Keflvíkingar eru síður en svo ósigrandi. Sigur í þessum leik stóreykur möguleika okkar á góðu sæti í deildinni, en ekki síður er vert að hafa í huga að þessi tvö lið gætu hæglega mæst í úrslitaleik bikarkeppninnar. Þá yrði gott að vera búnir að snúa við blaðinu gegn Keflavík.
ÁBS
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060805/FRETTIR01/108050045/1091 Ég kannast við þessa konu, þekki hana aðeins af hófstillingu og á erfitt með að trúa að hún fari með fleipur. Löggan virðist eitthvað hafa spilað út þarna fyrir austan án þess ég vilji leggja of mikinn dóm á ryskingarnar undanfarið.