föstudagur, janúar 14, 2005

Nú væri gott að grípa til Galdraskuggsjárinnar hans Hermanns Stefánssonar og setja á eins konar sjálfstýringu hér næstu vikuna, láta bara einhvern karakter taka við á meðan ég er ónettengdur í Mannheimum: T.d. unga reiða manninn: "Við erum öll dysfunctional fífl og þess vegna er verið að spila eighties-músík á öllum útvarpsstöðvum." - Eða functional ungu stúlkuna: "Borgin verður svo hrein og tær í snjókomunni og það heyrist hringla í bjöllum hreindýranna fyrir utan gluggann minn." - Eða eitthvað annað gott.

En þess í stað tekur hér við færslufrí frá og með þessari stundu og þar til eftir 23. janúar. Þá byrjar líka HM í handbolta í Túnis.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Þetta sem kemur á eftir er fyrir ÁBS-nördinn sem líklega er ekki til. Fyrir fólk sem er að læra að skrifa smásögur, t.d. á ritlistarnámskeiðum, væri samt ekki svo ýkja vitlaust að gerast ÁBS-nörd í nokkra mánuði. Sjálfur er ég mikill nörd á ýmsum afmörkuðum sviðum. Einu sinni kafaði ég lengi niður í útgáfusögu nokkurra platna sem upphaflega áttu að mynda verkið Låther með Frank Zappa, en sú plata var ekki gefin út fyrr en að honum gegnum. Fjórar plötur sem mynda hluta af verkinu voru hins vegar gefnar út í leyfisleysi. Zappa endurútgaf síðan þær plötur löngu seinna og eitt kvöldið var ég að grauta í því hverju hann hefði breytt frá upphaflegu útgáfunni, hvar hefði verið bætt við söng inn á áður instrúmental verk og hvar hefði verið bætt við lögum.

Einu sinni komst ég að því að saga eftir Alice Munro, Save the Reaper, hafði verið stytt verulega í annarri birtingu, þeirri sem ég las á undan. Ég las söguna semsagt upphaflega í Best American Short Stories 1999 og rakst síðan á hana í smásagnasafni höfundarins, The Love of a Good Woman, sem kom út árið 1998. Þá komst ég að því að upphaflega útgáfan var miklu lengri og lakari. Ég settist nú niður með báðar bækurnar og las útgáfurnar saman, hverju hafði höfundurinn sleppt og hvernig það hafði bætt söguna.

Áðan var ég að rifja upp birtingasögur smásagnanna minna. Ég held að þetta sé nokkurn veginn svona:

Fyrsta safnið, Síðasti bíllinn, kom út árið 1988. Árið 1987 birtist fyrsta sagan í bókinni, Saknað, í TMM. Á útgáfuárinu birtist Gildran í Vikunni og Mannins megin í Lesbókinni. Báðar síðarnefndu sögurnar eru vandræðalega lélegar en sú fyrsta stendur enn fyrir sínu.

Árið 1995 kom út Í síðasta sinn. Sagan Fljótið var lesin í útvarp haustið 1994. Mánudagur birtist í Afmælisbók Hressó, Ljóð og laust mál, alveg skelfilega lélegri bók troðfullri af viðvaningum. Hjónaherbergið birtist í Stefni, tímariti ungra Sjálfstæðismanna. Allt frekar góðar sögur.

Árið 1999 kom Hringstiginn út. Titilsagan birtist í TMM árið 1999, Framtíð drengsins var lesin í útvarp 1998, Afraksturinn birtist í Vikunni 1999 (varð í 2. sæti í smásagnasamkeppni) og síðan í þýska safnritinu Wortlaut Island. Allt fínar sögur. Nema hvað.

Árið 2001 kom Sumarið 1970 út. Hverfa út í heiminn birtist í TMM (1. sæti í smásagnasamkeppni Strik.is og TMM) árið 2001 og síðan í Uppspuna 2004 (Íslenskar smásögur 1996-2003), Bænheyrður birtist í Degi (2. sæti í smásagnasamkeppni MENOR).

2004: Tvisvar á ævinni. Eiginkona þýskukennnarans í Nýju lífi 2003, Sektarskipti í sama blaði 2004, Mjólk til spillis í Lesbóki Mbl. 2003 og Afmælisgjöfin í 23. apríl, Gjafabók FÍB, 2004. Fyrsti dagur fjórðu viku í TMM 2003 og Heima er best 2003 (3. sæti í samsagnasamkeppni).

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Æ, æ, þá er búið að leggja niður Skonrokk. Aldrei gaf ég mér tóm fyrr en nú til að hrósa þeirri ágætu útvarpsstöð. Hver er það annars sem hefur borið ábyrgð á músíkmixinu þar? Þráinn eða Dr. Gunni. Altént upplifði ég með Skonrokki í fyrsta skipti á ævinni það að hlusta á fimm eða sex lög í röð á útvarpsstöð sem mér finnast öll skemmtileg. Þeir spiluðu m.a.s. Frank Zappa einstaka sinnum.

Horfði á Regnhlífarnar í New York. Afslappað og skemmtilegt sjónvarpsfólk, öll þrjú. Viðtalið við Hjálmar Jónsson þótti mér sérlega safaríkt, þar er á ferðinni dýpri maður en ég hafði gert mér grein fyrir. Hins vegar var dogma-viðtalið við námsmanninn erlendis ansi misheppnað enda kom hann nánast aldrei út úr sér heilli setningu og var afskaplega vandræðalegur í alla staði. - Skemmtileg heimsókn til Colettu Bührling, þýðanda Arnalds á þýsku, en óskaplega var myndatökumönnum í mun að sýna áhorfendum hvað þýðandinn reykir mikið.

Lengi hefur verið á dagskrá sjónvarpsins þáttur sem heitir Op. Af mínu alkunna fordómaleysi hef ég aldrei gefið honum sjens heldur afgreitt hann sem eitthvert táningadrasl. Í kvöld datt ég inn á atriði með grínaranum Jamie Kennedy þar sem honum var velt upp úr hörmulegum dómi sem sýning hans fékk í blaði hér á landi. Síðan kom Þorsteinn Guðmundsson og hélt stutt grínnámskeið fyrir Kennedy. Drepfyndið allt saman og krakkarnir sem stjórna þessu hafa góðan og lúmskan húmor.

Hvað verður um Tvíhöfða? Enda þeir sem statistar hjá Spaugstofunni eins og sjá mátti vísi að í Áramótaskaupinu? Eða verður þátturinn þeirra á annarri Norðurljósastöð?

Ísland æsku minnar var drullugra og lyktaði meira en nútíminn þó að ekki væru götur forarsvað líkt og í tíð forfeðra okkar. Þar sem Seðlabankinn er núna horfði ég á fólk verka fisk á meðan ég beið eftir strætó í Lækjargötu. Það hét Sænska frystihúsið og þótti nútímalegt vegna góðs aðbúnaðar. Þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka eru núna voru á sama tímabili verkuð svið. Peningaframleiðsla í stað matvælaframleiðslu. Eða framleiða menn ekki peninga?

Það var meira af erfiðisvinnumönnum í þá daga og þeir borðuðu þungan mat. Matarlyktin var þyngri og maturinn feitari þó að fólkið væri grennra. Á Svarta svaninum á Rauðarárstíg má fanga brot af hádegisverðarstemningu 8. áratugarins og eldri tíma. Þar stendur maður í biðröð og fær afgreiddan steiktan fisk og kjötbollur. Matarlyktin er gríðarlega þung og biðröðin löng. Glettilega margir erfiðisvinnumenn eru þar á meðal. En öryrkjar og nýbúar liggja í spilakössum, því miður ekki tíkallakössum eins og tíðkuðust áður heldur skemmtitækjum sem geta kostað þá aleiguna og gera það vafalítið.

Til skamms tíma mátti finna á Svarta svaninum eintak af Lögreglublaðinu frá árinu 1968. Eða var það frekar þannig að grein frá 1968 var endurprentuð í nýlegu Lögreglublaði? Man það ekki. Allt um það kvartar greinarhöfundur undan drykkjumönnum í bænum og næturslarki þeirra sem haldið geti vöku fyrir erfiðisvinnumönnum er þurfi að vakna fyrir allar aldir.
Þetta ár, 1968, voru framin 4 morð og/eða manndráp á landinu, þar á meðal óhugnanlegt morð á leigubílustjóra, glæpur sem aldrei hefur verið upplýstur. Sumir segja að íslenskir rannsóknarlögreglumenn hafi verið ólýsanlegir aular á þessum árum. Um það get ég ekki dæmt. Hins vegar hljóta rannsóknarmenn í Geirfinns- og Guðmundarmálum að hafa verið aular. - DV veltir því fyrir sér fyrir stuttu hvort 5 morð/manndráp á síðasta séu til vitnis um nýja tíma og nýtt glæpamynstur. Mér virðast þetta allt vera tilviljanir.

Um hvað var ég aftur að tala?

Fyrir tveimur árum var það þannig að þó að ég fengi Fréttablaðið frítt var alltaf forgangsmál að lesa Moggann því ég vildi lesa almennilegt dagblað, ekki bara einhverjar instant hraðfréttir og linnulaus leiðaraskrif GSE um DO. Auk þess fannst mér Fréttablaðið þá vera hálfgert stjórnarandstöðublað. Mér fannst að vísu dapurlegt hvað Mogginn var orðinn eindregið stjórnarblað en það var þó mótvægi.

Núna er staðan þessi: Ég fæ Fréttablaðið og DV í hendurnar á morgnana en Mogginn gleymist oft þó að gjarnan komist ég yfir hann þegar líða tekur á daginn. Hann er hins vegar engin nauðsyn lengur. Fréttablaðið er orðið hlutlaust hvað varðar pólitísk efnistök en auk þess hefur blaðinu farið gríðarlega fram í öllum efnisþáttum. Mogginn hefur kannski ekkert versnað en Fréttablaðið er einhvern veginn ferskara. - DV er auðvitað furðulegt með sínar áherslur en því má ekki gleyma að þættir eins og íþróttir og menning hafa stóreflst líka þar í blaðinu.

Það er í rauninni stórmerkilegt að Mogginn skuli ekki lengur vera í fyrsta sæti hjá blaðalesanda af mínu tagi. Að vísu fékk ég æðiskast út af sniðgöngu blaðsins á mér sem rithöfundi fyrir jólin en trúið mér að slíkt rennur af manni um leið og jólabókaflóðið er búið og hefur ekkert með þetta að gera.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=7629 Borgar Þór Einarsson fjallar á Deiglunni um Guantánamo-fangabúðir Bandaríkjamanna á Kúbu sem núna eru orðnar þriggja ára gamlar.
Ennfremur má lesa um vítaverða meðferð Bandaríkjamanna á þessum meira og minna saklausu eða lítt hættulegu föngum í bók Davids Rose sem kom út á íslensku fyrir jólin, Guantánamo - herferð gegn mannréttindum. David Rose sem er breskur blaðamaður, er fremur hægrisinnaður og var í upphafi fylgjandi innrásinni í Írak, nokkuð sem gerir bók hans enn meira sláandi en ella og trúðverðugri - hann er enginn Michael Moore.

mánudagur, janúar 10, 2005

Þegar þekkt fólk er rekið úr áberandi störfum er það oft látið líta út sem samkomulag beggja aðila, einhver lætur af störfum o.sfrv. - Sigríður Árnadóttir var hins vegar hreint og beint rekin eins og hver annar undismálsmaður úr starfi sínu á Stöð 2. Einhverjar skýringar á því? Að vísu var uppsögn Sigurðar G. ekki ósvipuð, það var einfaldlega ekki pláss fyrir hann í nýju skipuriti. Vill einhver sem þekkir til tjá sig um málið og þá helst á ekki of óábyrgan hátt?

Svokallaðar ad hominen rökfærslur eru mjög algengar þegar Íslendingar takast á með orðum, hvort sem fólk er að rífast munnlega eða stendur í ritdeilum. Ef maður er að rífast við manneskju og segir að einhver tiltekin ummæli hennar séu kjánaleg er hún vís með að segja að maður hafi kallað sig kjána. Eitt þekktasta dæmi um ad hominen rökfærslur í þjóðmálaumræðu síðari ára var þegar Davíð Oddsson var þráfaldlega sakaður um að hafa kallað Jón Ásgeir götustrák. Núna rifja ég þetta dæmi ekki upp til að endurvekja gatslitna umræðu um þau viðskipti heldur vegna þess að þetta er svo gott dæmi um rökvillur af þessu tagi. Í sjónvarpsþætti voru þau ummæli Jóns Ásgeirs borin undir Davíð að Jóni Ásgeiri fyndist vera kominn tími til að hvíla þjóðina á Davíð sem forsætisráðherra. Eitthvað á þessa leið. Davíð reiddist þessum ummælum fullmikið, eins hans er nú oft von og vísa, en svaraði svona: "Ef hann vill tala svona eins og götustrákur, þá er það hans mál." - Hann kallaði hann ekki götustrák heldur réðst hann að tilteknum ummælum og sagði að þau líktust götustrákatali, hvað sem það nú er.

Mig undrar stundum hvað fólk á erfitt með að aðgreina málflutning og persónur og þetta góða dæmi er eitt af óteljandi.

Mig langar til að leiðrétta hugsanlegan misskilning í tveimur hlutum.

a) Þegar ég tala um að eitthvað sé "háskólanemalegt" þá er ég að fíflast. Auðvitað er það skemmtilegur bónus af fíflalátunum ef mér tekst að fara í taugarnar á einhverjum í leiðinni. En þetta er algjörlega merkingarlaust og fólk sem vill lesa úr þessu merkingu gerir það á eigin ábyrgð.

b)Varðandi kommentaspjall okkar Ljúfu um helgina: Ég geri ekkert tilkall til þess að teljast merkilegri bloggari en Beta. Þó að ég sé enginn aðdáandi hennar þá verð ég að viðurkenna að svo lengi sem maður lítur á bloggfærslur sem sjálfstætt ritform þá veldur Beta því mjög vel og betur en ég. Ég hef ekki mikinn áhuga á því sem hún er að skrifa en verð að viðurkenna (af því ég er svo hryllilega sanngjarn) að á vissan hátt skilar hún sínu mjög vel. Þetta er hennar form og verði henni að góðu. Ég met sjálfan mig sem frambærilegan rithöfund og höfund nokkura afbragðsgóðra smásagna og margra þokkalegra. Ég er hins vegar ekki að keppa við neinn í bloggskrifum. Ég veit að sumt sem ég skrifa hérna er skemmtilegt af því ég er góður penni, annað er mjög misheppnað og sumt er hvorki gott né slæmt, það bara er.

Þó að ég geti verið barnalega sjálfhælinn þá vil ég samt ekki eigna mér meira en það sem mér ber.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Veigar Páll má ekki fara í Val. Ég skil vel að það standi í stjórn KR að kaupa aftur leikmann sem fór frá félaginu fyrir ekki neitt, en það bara kemur ekki til greina að sjá þennan dreng í liði andstæðinganna. Guðmundur Ben. og Sigþór mega alveg fara í Val, maður þakkar þeim góð störf fyrir KR en þessir leikmenn eru augljóslega ekki á hátindi ferils síns. Hvað er hægt að gera í þessu?

Besti vinur lata og sjálfselska mannsins í húsverkum er vasageislaspilarinn. Við ryksug, þvotta, uppvask, ofl. - Yfirleitt mjög hátt stillt, ekki síst þegar þarf að yfirgnæfa ryksuguna. Og hér kemur smá "háskóla": Besta músíkin í húsverkin finnst mér annars vegar vera Odds and Sods með The Who, plata sem ég hef verið að blaðra um hér undanfarið; og síðan Riot Act með Pearl Jam. Það er reyndar virklega góð plata sem stenst tímans tönn, hef hlustað á hana með hléum frá 2002. Pearl Jam er uppáhaldshljómsveit bandaríska rithöfundarins Russells Banks. Hann er ekki mjög þekktur hér á landi en þó kannast kannski einhverjir við kvikmyndirnar The Sweet Hereafter og Affliction (Nick Nolte og James Coburn) en þær eru gerðar eftir skáldsögum hans.
Banks hefur skrifað haug af skáldsögum og smásögum (og auðvitað hef ég mest lesið smásögurnar). Sögurnar hans eru drungalegar og hlaðnar óblíðum örlögum og lífsskilningi. Russell Banks, sem er milljón sinnum betri en breski kaldhæðni nafni hans, Iain Banks, segir að ritstörf hafi forðað honum frá glæpabrautinni á sínum tíma. En þessi náungi, sem er að nálgast sjötugt, á allar Pearl Jam plötur, kaupir og hlustar á allt sem hljómsveitin sendir frá sér.

Þessi færsla er fyrir svo mikið innvígða að ekki er víst að þeir séu til, hugsanlega í einu eða tveimur eintökum. Það geta hins vegar allir komist í hópinn með því að bregða sér á bókasafnið nokkrar ferðir. Ég hef áhuga á því að koma úrvali af smásögunum mínum út í einni bók, pappírskilju sem kæmi út að vori, helst í Viku bókarinnar. Möguleikarnir á þessu í augnablikinu eru fremur góðir ef miðað er við stöðuna á mínum nýju útgefendum og velvild þeirra í minn garð.
Ég sæi fyrir mér að þessi bók kæmi út vorið 2006. Ekkert er öruggt í þessum efnum en þetta er fremur líklegt. Ég hef lengi haft það sem hobbí að bræða með mér hvaða sögur ættu að vera í þessari bók. Niðurstaðan í augnablikinu er eftirfarandi. Innan sviga er ritunartími hverrar sögu, ekki birtingarár.

Úr bókinni Síðasti bíllinn sem kom úr 1988:

Saknað (1987)

Úr bókinni Í síðasta sinn sem kom út 1995:

Fljótið (1993)
Mánudagur (1994)
Batavegur (1995)

Úr bókinni Hringstiginn sem kom út 1999:

Viðvaningar (1997)
Hringstiginn (1998)
Afraksturinn (1998)

Úr bókinni Sumarið 1970 sem kom út 2001:

Bænheyrður (1999)
Hverfa út í heiminn (2000)
Sumarið 1970 (2000)
Við mamma erum ekki líkar (2001)

Úr bókinn Tvisvar á ævinni sem kom út 2004:

Mjólk til spillis (2003)
Eiginkona þýskukennarans (2003)
Eftir sumarhúsið (2003)
Sektarskipti (2004)

Bókin á að heita Hverfa út í heiminn. Undirtitill: Sögur 1987-2004
Ég spái því að útgáfuferill minn á næstu misserum verði þessi, já og meira en spái því, ef Skruddan blífur og salan á mínum bókum heldur áfram að skána, þá skulum við bara segja að þetta séu markmið mín á næstu árum:

Vorið 2006 - Úrvalssögur í kilju
Haustið 2006: Skáldsaga
Haustið 2008: Smásagnasafn










Hættu nú að vanda þig drengur, þú hefur nógan tíma og þú ert ekki að skrifa smásögu. Er búinn með tæplega 10 blaðsíður af handritinu, afar varlega skrifaðar, plús eitthvert hliðarriss. Nú þarf ég einfaldlega að leyfa mér að skrifa það sem er í kollinum til þess að kynnast persónunum og átta mig á því hvernig þær eiga að vera. Spennitreyja smásögunnar er búin til úr vana, um leið og texti hættir að vera þéttur missi ég áhugann. En andrúmsloftið má koma seinna, þetta er ekki smásaga, láttu það flakka ... Og áfram.