Þetta sem kemur á eftir er fyrir ÁBS-nördinn sem líklega er ekki til. Fyrir fólk sem er að læra að skrifa smásögur, t.d. á ritlistarnámskeiðum, væri samt ekki svo ýkja vitlaust að gerast ÁBS-nörd í nokkra mánuði. Sjálfur er ég mikill nörd á ýmsum afmörkuðum sviðum. Einu sinni kafaði ég lengi niður í útgáfusögu nokkurra platna sem upphaflega áttu að mynda verkið Låther með Frank Zappa, en sú plata var ekki gefin út fyrr en að honum gegnum. Fjórar plötur sem mynda hluta af verkinu voru hins vegar gefnar út í leyfisleysi. Zappa endurútgaf síðan þær plötur löngu seinna og eitt kvöldið var ég að grauta í því hverju hann hefði breytt frá upphaflegu útgáfunni, hvar hefði verið bætt við söng inn á áður instrúmental verk og hvar hefði verið bætt við lögum.
Einu sinni komst ég að því að saga eftir Alice Munro, Save the Reaper, hafði verið stytt verulega í annarri birtingu, þeirri sem ég las á undan. Ég las söguna semsagt upphaflega í Best American Short Stories 1999 og rakst síðan á hana í smásagnasafni höfundarins, The Love of a Good Woman, sem kom út árið 1998. Þá komst ég að því að upphaflega útgáfan var miklu lengri og lakari. Ég settist nú niður með báðar bækurnar og las útgáfurnar saman, hverju hafði höfundurinn sleppt og hvernig það hafði bætt söguna.
Áðan var ég að rifja upp birtingasögur smásagnanna minna. Ég held að þetta sé nokkurn veginn svona:
Fyrsta safnið, Síðasti bíllinn, kom út árið 1988. Árið 1987 birtist fyrsta sagan í bókinni, Saknað, í TMM. Á útgáfuárinu birtist Gildran í Vikunni og Mannins megin í Lesbókinni. Báðar síðarnefndu sögurnar eru vandræðalega lélegar en sú fyrsta stendur enn fyrir sínu.
Árið 1995 kom út Í síðasta sinn. Sagan Fljótið var lesin í útvarp haustið 1994. Mánudagur birtist í Afmælisbók Hressó, Ljóð og laust mál, alveg skelfilega lélegri bók troðfullri af viðvaningum. Hjónaherbergið birtist í Stefni, tímariti ungra Sjálfstæðismanna. Allt frekar góðar sögur.
Árið 1999 kom Hringstiginn út. Titilsagan birtist í TMM árið 1999, Framtíð drengsins var lesin í útvarp 1998, Afraksturinn birtist í Vikunni 1999 (varð í 2. sæti í smásagnasamkeppni) og síðan í þýska safnritinu Wortlaut Island. Allt fínar sögur. Nema hvað.
Árið 2001 kom Sumarið 1970 út. Hverfa út í heiminn birtist í TMM (1. sæti í smásagnasamkeppni Strik.is og TMM) árið 2001 og síðan í Uppspuna 2004 (Íslenskar smásögur 1996-2003), Bænheyrður birtist í Degi (2. sæti í smásagnasamkeppni MENOR).
2004: Tvisvar á ævinni. Eiginkona þýskukennnarans í Nýju lífi 2003, Sektarskipti í sama blaði 2004, Mjólk til spillis í Lesbóki Mbl. 2003 og Afmælisgjöfin í 23. apríl, Gjafabók FÍB, 2004. Fyrsti dagur fjórðu viku í TMM 2003 og Heima er best 2003 (3. sæti í samsagnasamkeppni).