laugardagur, janúar 17, 2009

Hvað sætta sjálfstæðismenn sig við til að vera áfram sjálfstæðismenn?

Óbreytta Seðlabankastjórn?

Óbreytta yfirstjórn FME?

Áframhaldandi linkind við fyrrverandi útrásarvíkinga, þ.m.t. engar ákærur?

Að þessum málum verði áfram svo skipað að útlendingar telji að hér hafi ekkert breyst og landinu og bönkunum sé áfram stjórnað af óreiðumönnum?

Ef þetta breytist ekki, hvaða sjálfstæðismenn ætla þá áfram að vera sjálfstæðismenn?

Ekki ég.

föstudagur, janúar 16, 2009

Fullbókað en örvæntið ekki

http://mimir.is/index.php?option=com_attend_events&Itemid=420&task=view&id=290

Það er kominn biðlisti á smásagnanámskeiðið. Ef hann verður nægilega langur endurtek ég námskeiðið um leið og því er lokið. Það skiptir ekki öllu máli hvort fólk lærir að skrifa smásögur í febrúar eða mars. Námskeiðið verður í gangi svo lengi sem eftirspurn er til staðar.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Hillir undir útgáfu í Englandi

Commapress á Englandi, sem einu sinni birtir eftir mig smásögu, var að senda mér og Skruddu tölvupóst og biðja um útgáfurétt af Tvisvar á ævinni, smásagnasafni eftir mig sem kom út árið 2004. Þeir biðja um eintak af bókinni til að nota sem gagn í umsókn um þýðingarstyrk.

Commapress er frekar low-profile forlag sem sérhæfir sig í smásögum en nýtur mikillar virðingar. Alveg eins má búast við að svona bók seljist ekki nema í 500 eintökum á Englandi. Einn verulega góður ritdómur í virtu blaði getur hins vegar tosað söluna upp í 2000 eintök.
Þannig að þetta verður á lágu nótunum en samt skemmtilegt.

Ég held að bókamarkaðurinn í Þýskalandi sé mun betri, miklu meiri sala á þyngra efni. Ég er raunar að glíma dálítið við það mál en engar fréttir enn að hafa.

Þess má geta að ég plöggaði ekkert sjálfur um þetta Manchester-mál sem segir manni að kannski á ekkert að vera að rembast, þetta kemur bara til manns eða ekki.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Enginn akkur í því að losna við Björn

Því er víða og stöðugt mótmælt að enginn hafi sagt af sér í kjölfar bankahrunsins, ekki ráðherrar, ekki Seðlabankastjórar og ekki forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fyrirhugaðar breytingar á ríkisstjórn hafa ekkert með bankahrunið að gera.
Þannig er um líklega útskiptingu Björns Bjarnasonar. Hann stendur sig mjög vel á margvíslegan hátt og það væri verra að missa hann úr ríkisstjórn. Óvinsældir hans meðal almennings (sem kunna að vera ýktar) stafa af áralangri fjölmiðlaumfjöllun, þessum sömu straumum og lágu með útrásaraðlinum, nýríku og málvilltu óreiðumönnunum, straumnum sem ekki var hægt að synda gegn án þess að vera úthrópaður eða marklaus, fjölmiðlakúltúr sem er ein af ástæðum hrunsins.

Björn hættir (ef hann hættir) væntanlega af eigin vilja og vonandi gegnir hann einhverju mikilvægu hlutverki í kerfinu eftir það.

Það er sami fjölmiðlakúltúr sem afneitar því að minnihluti Sjálfstæðisflokksins hafi komið í veg fyrir REI-hneykslið og reynir að eigna það þeim sem gerðu ekki betur en að sitja hjá.

Reynum að eigna mönnum bæði klúðrið þeirra og góðu verkin. Rétt skal vera rétt.

Viðtal í Fréttablaðinu í dag

Í bleiku námskeiðablaði í Fréttablaðinu í dag er fínt viðtal við mig um smásagnanámskeiðið. Í raun er þarna sumpart ágætislýsing á námskeiðinu. Ég tek að vísu undir það með blaðamanni að það sé leiðinlegt að lesa smásögur á þann hátt að skanna þær, finna út hvernig höfundurinn fór að. Það er bölvuð vitleysa þó að ég kunni að hafa misst það út úr mér. Mér finnst mjög gaman að lesa sögur með þeim hætti og það varnar því ekki að ég geti inn á milli gleymt mér í þeim.

Nú þegar er ég með ákveðnar hugmyndir um hvaða smásögur ég ætla að láta fólk lesa og hvað það á að athuga í þeim, hvaða tæknibrögð ég bendi á í sögunum. Ég held að það verði lærdómsríkt og skemmtilegt.

mánudagur, janúar 12, 2009

Busi

Í Fréttablaðinu í dag sá ég að fyrrverandi fréttastjóri er að fara í háskólanám í guðfræði. Hann hefur úr hærri söðli að falla en ég. Og er á svipuðum aldri.

Ég hef lengi óttast að ég yrði næstelsti nemandinn í HÍ á þessu misseri. Umkringdur smákrökkum sem góna á mig og spyrja: "Hvað er hann að gera hérna?"

Sá elsti er þá fyrrverandi vinnufélagi minn sem er yfir fimmtugt.

Ég vinn út þennan mánuð og eins og vanalega á mánudögum förum við í fótbolta í hádeginu. En strax eftir fótboltann þarf ég að mæta í forspjallsvísindin, fíluna. Í heimspekinni átti ég nefnilega bara eftir þennan byrjendakúrs og síðan BA-ritgerðina sem ég er kominn nokkuð áleiðis með nú þegar. Mér virðist að á vefsvæðinu mínu á Háskólavefnum sé allt námsefnið sem ég þarf að lesa í kúrsinum í pdf-fælum. Öðru máli gegnir um þýskuna sem ég byrja að stunda á morgun. Þar renni ég nokkuð blint í sjóinn nema ég veit að ég er þokkalegur í þýsku og ætti að standa vel að vígi.

Þá skilst mér að kennd verði eftir mig smásaga í bókmenntakúrsi núna á vormisseri. Það hefði verið fyndið að skrá sig í það og skrifa ritgerð um eigin sögu. En það verður ekki.

Það eru að opnast gáttir í nýju bókinni minni. Ég sé fyrir mér að vera búinn með hana í lok sumars. Það er þá bara spurning hvernig útgáfumálin standa. Næsta vetur hef ég líklega ekki tíma til að gera neitt nema stunda nám því þá verð ég bæði í uppeldis- og kennslufræðum og í þýsku, ætla að útskrifast með BA og kennsluréttindi vorið 2010.

47 ára gamall framhaldsskólakennari - ef allt fer að óskum.