Í Fréttablaðinu í dag sá ég að fyrrverandi fréttastjóri er að fara í háskólanám í guðfræði. Hann hefur úr hærri söðli að falla en ég. Og er á svipuðum aldri.
Ég hef lengi óttast að ég yrði næstelsti nemandinn í HÍ á þessu misseri. Umkringdur smákrökkum sem góna á mig og spyrja: "Hvað er hann að gera hérna?"
Sá elsti er þá fyrrverandi vinnufélagi minn sem er yfir fimmtugt.
Ég vinn út þennan mánuð og eins og vanalega á mánudögum förum við í fótbolta í hádeginu. En strax eftir fótboltann þarf ég að mæta í forspjallsvísindin, fíluna. Í heimspekinni átti ég nefnilega bara eftir þennan byrjendakúrs og síðan BA-ritgerðina sem ég er kominn nokkuð áleiðis með nú þegar. Mér virðist að á vefsvæðinu mínu á Háskólavefnum sé allt námsefnið sem ég þarf að lesa í kúrsinum í pdf-fælum. Öðru máli gegnir um þýskuna sem ég byrja að stunda á morgun. Þar renni ég nokkuð blint í sjóinn nema ég veit að ég er þokkalegur í þýsku og ætti að standa vel að vígi.
Þá skilst mér að kennd verði eftir mig smásaga í bókmenntakúrsi núna á vormisseri. Það hefði verið fyndið að skrá sig í það og skrifa ritgerð um eigin sögu. En það verður ekki.
Það eru að opnast gáttir í nýju bókinni minni. Ég sé fyrir mér að vera búinn með hana í lok sumars. Það er þá bara spurning hvernig útgáfumálin standa. Næsta vetur hef ég líklega ekki tíma til að gera neitt nema stunda nám því þá verð ég bæði í uppeldis- og kennslufræðum og í þýsku, ætla að útskrifast með BA og kennsluréttindi vorið 2010.
47 ára gamall framhaldsskólakennari - ef allt fer að óskum.