föstudagur, júlí 09, 2004

Eyddi hádeginu í að semja fyrirsagnir fyrir IKEA. Núna eru tveir textagerðarmenn í sumarfríi og því nóg að gera. Mér er ekki að takast neitt sérlega vel upp með þessar fyrirsagnir. Eins gott að ég er ekki nýbyrjaður, þá gæti hitnað undir rassinum. Ég tók vinnupappírana með mér á upphaldshádegisstaðinn, Hlemm. Engu líkara en steikjandi sólarhitinn þurrki allt mannlíf af svæðinu. Það var að vísu slatti af aumingjum og hálfgerðum aumingjum. Allir skakkir og skældir og grettnir, í undarlegum fötum sem hefur gleymst að fleygja. Slíkt mannlíf getur ýmist látið mann verða ánægðari með sjálfan sig eða (og það er algengara) dregið fram veikari hliðar í hugskotið. Maður hugsar með sér hvað við erum öllu ófullkomin.

Grasekkilslífið er orðið undarlegt og heldur einmanalegt. Þó er nóg framundan um helgina. Fer á kráarrölt með Wannabeum í kvöld, á KR-Fylki á morgun með Kjartani og á Spiderman 2 með Kjartani á sunnudag. Erla kemur heim á mánudagskvöldið, Freyja verður eitthvað lengur.

Er að lesa Kynslóð kalda stríðsins eftir Jón Óskar. Við lesturinn verð ég þess áskynja að ég hef lesið bókina áður. Man ekki hvenær. Það kemur ekki að sök, hún þolir vel annan lestur.

Sé í Mogganum í dag að Guðni rektor í MR er dáinn. Blessuð sé minning hans.

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Erla er í göngu úti á landi fram á mánudag og Freyja er líka í sveitinni. Ég er því einn heima með Kjartan. Var að rísla í skrifborðsskápnum í gærkvöld og komst að því að ég á heilar 9 klámspólur. Ég hélt að þær væru bara þrjár eða fjórar. En þetta hefur safnast upp á nokkrum árum. Djöfulsins öfuguggi! Látið hirða manninn!

Talandi um það. DV skýrir frá því í dag að Fannar körfuboltamaður sé saklaus af ákærum um kynferðislega áreitni. Maður vissi það allan tímann, það skein í gegnum upphaflegu fréttirnar um ákæruna á hendur honum fyrir nokkrum mánuðum. En virðingarvert að slá þessu upp líka. DV gerir margt ágætlega burtséð frá pistli mínum í gær. Fréttir af mannshvarfinu eru ítarlegri og betri þar en í öðrum blöðum og samt ekki verið að fara með fleipur. En blaðið er við sama heygarðshornið í pólitíkinni. Illugi þarf heila síðu í dag í reiðilestur um Davíð. Held það hafi reyndar ekkert með Baug að gera, bara skoðanir Illuga sjálfs.

Ég fór með leiðrétt handritið í vinnuna í gær, ætlaði að færa inn leiðréttingarnar og steypa sögunum saman í eitt skjal. En þá brá svo við að það varð allt í einu allt vitlaust að gera í prófarkalestri og textagerð. Kemst kannski í þetta í dag. Held að ef ég geng svona frá þessu þá geti ég frekar slegið striki yfir bókina í huganum og byrjað á nýju verki. Mínir sveittu félagar vilja ekki sjá þetta strax, eru á kafi í að setja upp viðameiri bækur.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Hef ekki lesið DV í nokkra daga. Leiðarinn í dag er helgaður baráttunni gegn fjölmiðlalögunum hinum síðari og í Fyrst og fremst er Snorri Már Skúlason tekinn á beinið fyrir óvönduð ummæli um Baug. "Í fyrsta lagi kemur upplýsingafulltrúa Þjóðminjasafnsins ekkert við hvaða vörutegundir Bónus er með í hillum sínum." - Afgangurinn af blaðsíðunni fer síðan í að taka Björn Bjarnason fyrir.

Ég velti því fyrir mér hvort blaðamenn á DV og Fréttablaðinu fái aldrei óbragð í munninn af því vinna á áróðursneplum. Svo virðist ekki vera. Langar íslenska blaðamenn ekki lengur til að vera hlutlausir, segja fréttir, leita sannleikans og hlífa engum?

Núna er ég líklega búinn að eyðileggja möguleikann á bókarkynningu í þessum blöðum í haust en það verður að hafa það. Það er ekki hægt að taka þessu þegjandi.

mánudagur, júlí 05, 2004

Þegar ég gekk í vinnuna í morgun mætti ég Guðna Elíssyni fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna. Hann ýtti á undan sér barnakerru í og í henni sat ung dóttir hans. Við röbbuðum stutta stund um markaðs- og kynningarmál rithöfunda. Þegar ég kvaddi hann sótti á mig sú tilhugsun að þetta lítilfjörlega atvik gæti í hugum einhverra verið hluti af fyrirbærinu elítu, eða a.m.k. bókmenntaheiminum: tveir menn um fertugt að rabba í léttum dúr um bókmenntalífið úti á götu í Vesturbænum, á milli þess sem en þeir krota í texta með blýanti eða rauðum kúlutússpenna. Birta af og til greinar fyrir smápeninga eða ókeypis. Bókmenntaheimurinn er blessunarlega tilkomulítill. Það eru engir peningar að heitið getur í bókaútgáfu, þetta eru fátæk fyrirtæki sem reyna að forðast það að fara á hausinn. Ég hef verið viðstaddur samkomur á borð við Hin íslensku bókmenntaverðlaun og get fullyrt að það eru látlausar og hógværar samkomur. Og þó að vissulega skipti það ýmsa höfunda máli að fá starfslaun eða ekki starfslaun þá er allur þessi frami óttalegur barnaleikur miðað við öll önnur viðskipti í samfélaginu, sérstaklega það sem gerist í fjármálafyrirtækjunum. Á endanum eru þetta bara einhverjir náungar að skrafa saman í sólskini rétt hjá Hringbrautinni.

Um daginn fékk ég óvænta tækifærisgjöf. Ég get ekki skýrt frá nafni gefandans. Þetta er snotur borðlampi, silfurlitaður. Ég var að setja hann upp á skrifborðinu í vinnuherberginu heima og velti fyrir mér hvort hann marki upphafið að nýrri bók.

Gráu hárin hafa gerst þvílíka árás á höfuð mitt bara allra síðustu daga að fólk hefur orð á breytingunni. Þar með fjúka síðustu leifarnar af unglegu útliti. Því minni ástæða til að láta sjá sig úti á götu og því meira tilefni til að loka sig inni við skriftir.

Gott þol getur farið einkennilega saman með að öðru leyti slæmu líkamsástandi. Ég fór í fótbolta með unglingum á Flúðum um helgina. Ég er yfir 20 kílóum of þungur, klaufskur, seinn og grófur, en þolið er ennþá nokkuð gott og þess vegna entist ég lengi í boltanum, kannski samanlagt 2 eða 3 tíma. Daginn eftir var ég með svo skelfilegar harðsperrur að ég átti erfitt með að hreyfa mig úr stað. Harðsperrurnar eru enn ekki farnar.

Við tjölduðum eina nótt og það voru mikil mistök. Leikið var á gítara og sungið í þremur hópum á svæðinu fram eftir allri nóttu og umgangur mun meiri en yfir daginn. Svo vaknaði maður eftir einhvers konar blund um morguninn og tjaldið allt blautt. Eftir að taka allt draslið saman og henda inn í bíl. Allur sveittur og skítugur og illa til reika. Engin kaffihús, engin menning, bara gróður, fellihýsi og plebbahjörð. Hryllilegt líf.

Er sem betur fer kominn til borgarinnar aftur en er í hálfgerðu tómarúmi, þ.e. milli bóka.