Eyddi hádeginu í að semja fyrirsagnir fyrir IKEA. Núna eru tveir textagerðarmenn í sumarfríi og því nóg að gera. Mér er ekki að takast neitt sérlega vel upp með þessar fyrirsagnir. Eins gott að ég er ekki nýbyrjaður, þá gæti hitnað undir rassinum. Ég tók vinnupappírana með mér á upphaldshádegisstaðinn, Hlemm. Engu líkara en steikjandi sólarhitinn þurrki allt mannlíf af svæðinu. Það var að vísu slatti af aumingjum og hálfgerðum aumingjum. Allir skakkir og skældir og grettnir, í undarlegum fötum sem hefur gleymst að fleygja. Slíkt mannlíf getur ýmist látið mann verða ánægðari með sjálfan sig eða (og það er algengara) dregið fram veikari hliðar í hugskotið. Maður hugsar með sér hvað við erum öllu ófullkomin.
Grasekkilslífið er orðið undarlegt og heldur einmanalegt. Þó er nóg framundan um helgina. Fer á kráarrölt með Wannabeum í kvöld, á KR-Fylki á morgun með Kjartani og á Spiderman 2 með Kjartani á sunnudag. Erla kemur heim á mánudagskvöldið, Freyja verður eitthvað lengur.
Er að lesa Kynslóð kalda stríðsins eftir Jón Óskar. Við lesturinn verð ég þess áskynja að ég hef lesið bókina áður. Man ekki hvenær. Það kemur ekki að sök, hún þolir vel annan lestur.