Dálítið horn er byrjað að vaxa út úr enninu á mér. Þar sem mitt áður dásamlega útlit er hvort sem er farið í hundana hef ég litlar áhyggjur af þessu haft. Áhyggjur af öðrum toga vegna þessa hafa hins vegar sótt á Erlu og eftir að mamma hafði útlistað fyrir henni mögulegar skýringar á þessu lýti var þess krafist að ég færi til læknis strax í dag. Ég sagðist aldrei hafa heyrt talað um krabbamein í enni en ekki var hlustað á slík rök ef rök er hægt að kalla. Læknirinn úrskurðaði hins vegar á augabragði að hér væri um stíflaðan fitukirtil að ræða og þar sem hann væri framan í mér en ekki annars staðar treysti hann sér ekki til að framkvæma hina einföldu aðgerð og vísaði mér á lýtalækni. Hann opnar fyrir, fjarlægir hnúðinn og sendir sýni til ræktunar og endanlegrar staðfestingar á orsökinni.
Jafnlöng sambands- og hjónabandssögu okkar Erlu er saga af misheppnuðum lygahrekkjum okkar. Allt frá því ég fékk bróður minn til að hringja í hana árið 1989, breyta í sér röddinni og þykjast vera ofsareiður raftækjasölumaður að nafni Viggó Jósafatsson sem sakaði hana um útgáfu innistæðulausra ávísana, höfum við Erla aldrei getað platað hvort annað í síma. Ég átti því ekki von á að Erla tryði neinu þegar ég sagði henni að lækninum hefði ekkert litist á blikuna og vísað mér í krabbameinsrannsókn, bjóst ég við að hún tæki því sem dæmigerðum og ekkert allt of góðum gálgahúmor. Sem hún virtist gera í fyrstu en sagði þó reiðilega: "Þú ert að fíflast." - Ég sagði "nei", að mér fannst fremur ósannfærandi en samt með þeim árangri að skelfingin gagntók hana eitt andartak. Síðan brast á með hlátri en sá hlátur var ekki í víðóma heldur uppskar ég áskell og þurfti að hringja aftur og biðjast afsökunar. Fljótlega fór þó allt í ljúfa löð.