Úrdráttur
Fór með mömmu, Erlu og Kjartani í gönguferð um Laugarnesið í dag. Þegar við komum að landareign Hrafns Gunnlaugssonar varð Kjartani starsýnt á herlegheitin og sagði: Þetta er ekki eins og íslenskt heimili.
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
Fór með mömmu, Erlu og Kjartani í gönguferð um Laugarnesið í dag. Þegar við komum að landareign Hrafns Gunnlaugssonar varð Kjartani starsýnt á herlegheitin og sagði: Þetta er ekki eins og íslenskt heimili.
Í kvöld sýnir RÚV gamanmyndina Down and Out in Beverly Hills. Sumarið 1987 eða 88 sá ég þessa mynd í Vopnafjarðarbíói með Erlu. Þar var samnýttur leikfimi- og bíósalur í Félagsheimilinu þannig að körfuboltakörfur og -spjöld héngu á veggjunum. Það þótti mér ákaflega draumkennt. Myndin var rosalega skemmtileg. Freyja er akkúrat komin á þann aldur að geta hlegið að svona myndum og í kvöld gistir hláturmild vinkona hjá henni, Angie; Erla horfir með og líka Kjartan. Ég vildi gjarnan vera hjá þeim. - En ég er staddur í vinnunni, aleinn. Skrapp á Súfistann áðan til að hrista af mér daginn en ég var ekki búinn að vinna fyrr en um 8-leytið. Var að koma þaðan. Ég er gríðarlega vel sofinn og ef ég ætla að skrifa eitthvað af ráði sit ég hér fram á nótt. Það er dálítið dapurlegt að geta ekki notið hamingjunnar af því maður er upptekinn af því að skrifa um óhamingjuna. Það væri nefnilega óskaplega gaman að vera heima í kvöld með Erlu og krökkunum. En þess í stað vakna ég þar ánægður í fyrramálið eftir vel heppnaðar skriftir í kvöld.
Mér tókst ekki að sofna upp úr miðnætti og fór því fram til að fá mér hnetur og kíkja í Blaðið sem ég hafði ekki lesið fyrr um daginn. Blaðið er ekkert allt of skemmtileg lesning (nema helst það sem Kolbrún Bergþórs birtir) en vekur alltaf upp vangaveltur um fjölmiðlalandslagið. Til skamms tíma gátu bara þrifist tvö dagblöð á Íslandi. Núna eru þau fjögur, þar af tvö þeirra ókeypis. Hvernig má þetta vera? Sumir segja að Baugsmenn eigi lítt arðbæra fjölmiðla til að geta stjórnað umræðunni um sig. En varla reka menn sjónvarpsstöð á borð við Sirkus til að stjórna þjóðfélagsumræðu. Eða Sýn og Bíórásina. - Þetta virðist að hluta til vera bardagi um auglýsingapláss. Grundvöllur að stofnun Blaðsins virðist hafa verið óánægja margra fyrirtækja með að þurfa að auglýsa í Fréttablaðinu. Menn vildu fá annað blað til að auglýsa vörur sínar. - Skjár 1 hefur held ég aldrei komist nálægt því að bera sig en er nú í faðmi Landssímans sem heldur honum uppi. Samkeppni símafyrirtækja virðist knýja sjónvarpsrekstur áfram og halda honum blómlegum. Auglýsingapláss fyrir stórar viðskiptasamsteypur er hvati að ókeypis dagblöðum. Og samt virðist Mogginn ætla að lifa þetta af.
Ég ætti að vera að fæla frá mér lesendur með sífelldum endurtekningum en svo virðist ekki vera. Ég held því bara áfram í sama stíl: Ég skokkaði tæpa 7 kílómetra í gær og fann fyrir töluverðri þreytu í útlimum eftir það enda búinn að stunda æfingar fjóra daga í röð. Sundið er að vísu bara hálft skokk, bara 20-25 mínútna æfing, en engu að síður, dag eftir dag er þetta mikið. Sundferðunum hafa auk þess fylgt töluverðar hjólreiðar.
Svona endaði ég kaflann í gærkvöld. Ég er hrifinn af sáraeinföldum setningum sem vekja eftirvæntingu.
Ég er í skemmtilegu verkefni í vinnunni sem krefst þess að ég grauti í gömlum ættjarðarljóðum. Ég er illa lesinn í þjóðskáldunum en í kvæðum þeirra má finna almælt orðatiltæki sem upphaflega voru ljóðatilvitnanir.
Miðvikudagskvöldið 24. ágúst:
Komin ný tilvitnum. Svo sem ekki margt um hana að segja nema kannski það að lífið getur verið einmanalegt, sérstaklega þegar maður er innan um annað fólk.
http://www.blog.central.is/amen?page=comments&id=841951 Hann segist vera hættur. Hvað segið þið um það?
http://www.visir.is/?PageID=495&NewsID=52003 Hér er að finna frámunalega heimskulega og illkvittna grein. Er þetta bara fljótfærni eins blaðamanns eða dæmi um e-k nútímaskoðun að ekkert sé ógeðslegra en náttúra miðaldra karlmanns? Er blaðamaðurinn að sleikja upp feminista eða einhver tepruviðhorf? Hvað gengur honum til?
Ég kláraði söguna We Don´t Live Here Anymore eftir Andre Dubus í hádeginu. Hún er 90 blaðsíður og fjallar um tvenn hjón sem verða skotin hvert í öðru eftir gagnkynhneigðum línum. Sagan er frá 8. áratugnum og mér finnst einhvern veginn að bandarísk verk frá þessum tíma endurspegli meiri lausung í hjónabandinu en nú tíðkast. Maður sér þetta sérstaklega í sögum eftir Annie Beattie þar sem allt fjölskyldumynstur hefur riðlast. Þó að framhjáhald sé eflaust jafnmikið eða meira núna þá trúir fólk meira á hjónabandið og hefðbundið fjölskyldumynstur í orði kveðnu en það virðist hafa gert upp úr 1970.
Andstyggð er norðanáttin (en ekki Hermann Stefánsson), kaldur íshafsblástur í fangið. Í norðanátt er dálítið eins og maður búi í Alaska eða á Grænlandi (þrátt fyrir snjóleysið). Einu sinni var mér alveg sama um veður, á þeim tíma hefði ég kafnað á Krít. Þetta eru ellimerki.
Mér finnst gott að nálgast tilveruna í tölum núna. Í gær skrifaði ég 500 orð og synti 800 metra.
http://music.aol.com/artist/main.adp?tab=songvid&artistid=5822&albumid=0 The Who flottir á Live-Aid.
Ég vaknaði klukkan 3 í nótt og borðaði sykurlaust skyr. Í morgun var ég 105 1/2 kg. Hvað á ég að gera? Segja við sjálfan mig að ég borði morgunmatinn snemma?
http://tjonbarl.blogspot.com/ Nýtt gáfumannablogg í ætt við Hermann Stefánsson. Topppenni.
Kvikmyndin We Don´t Live Here Anymore hefur ekki verið sýnd hér ennþá. Hún var gerð í fyrra og er byggð á þremur nóvellum eftir Andre Dubus. Myndin In The Bedroom, sem er að ég held frá 2002, er byggð á smásögu eftir Dubus. Sonur hans, Andre Dubus III, skrifaði hins vegar House of Sand and Fog, sem samnefnd kvikmynd var gerð eftir. - Dubus lést fyrir nokkrum árum en hann skrifaði gríðarlega mikið um hjónaband, framhjáhald og samvikusbit kaþólikka í nútímanum. Skrifaði raunsæisstíl í anda Carvers og fleiri. Verk hans eru ýmist smásögur eða stuttar skáldsögur.
Ungur bókmenntamaður hringdi í mig í dag og var að reyna að hafa upp á rithöfundi sem ég þekki. Ég reyndi að greiða götu hans en hafði bara netfang á hraðbergi, ekki GSM-númer. Ungi maðurinn sagði: "Ég er ekki vanur að vera þéraður." Ég svaraði: "Það er þá kominn tími til þess."
Ég vaknaði klukkan fjögur í nótt og úðaði í mig eins og fífl einni og hálfri skál af dísætu og baneitruðu múslí. Nokkur hundruð grömm af kolvetnum þar og ljóst að undirvitundin hefur ekki þolað velgengni helgarinnar. Ég brást við þessu með því að borða ekkert fyrr en um hádegi, en þá var ofnbakaður fiskur. Síðdegis fékk ég mér ávexti og í kvöldmatinn hrærði mér síðan fjögur egg á meðan liðið át pizzu í Gígaviku Dómínós. Þetta ætti því að sleppa. Ég þarf að passa mig rosalega á nóttunni, því ég get vaknað upp sem gamla átvaglið, spurning um að tala við sjálfan sig fyrir svefninn.
Hvaða kvikmynd er það sem byrjar á bílaþvottastöð? Myndavélin er inni í bílnum og maður veit ekki alveg hvað er að gerast, sér bara vatnsstrauminn á rúðunum. Svo ekur bíllinn undan burstunum og heldur út í kvikmyndina. Rosalega langt síðan ég sá þessa mynd.
Það er alltaf gaman að ná markmiðum sínum. Ég fór 1o kílómetrana á 58:55 og skildi rúmlega 50 hlaupara í mínum aldursflokki fyrir aftan mig. Um 150 voru hins vegar á undan. Erla varð ofarlega í sínum flokki, í 23. sæti af 120 konum á aldrinum 40-49, með glæsilegan tíma, 55:15.
Enn eru úrslitin í Reykjavíkurmaraþoni ekki komin svo ég veit ekki hvorum megin við 60 mínúturnar ég endaði, en það var örugglega tæpt. Erla fór þetta líklega á 56-57 mínútum. Það rættist mjög úr veðri á meðan hlaupinu stóð og satt að segja fundum við okkur bæði nokkuð vel, sérstaklega Erla. ´