laugardagur, desember 30, 2006

Það er búið að skila hjólinu mínu aftur.

Á maður að segja takk?

Eða á einhver að segja takk fyrir lánið?

Verð ég áfram kærulaus eða læsi það inni hér eftir? Mannlegt eðli ...

"Verður þetta aldrei auðvelt" stundi Erla þegar puðuðum í suðvestanáttinni áðan. Hún hitti naglann á höfuðið því við höfum skokkað í meira en tvö ár en alltaf er þetta frekar erfitt, sérstaklega fyrri part dags. Líkaminn orgar á þessa hreyfingu 3var til 4um sinnum í viku en alltaf er maður þreyttur á eftir og slappur í löppunum. Framfarirnar sáralitlar hvað snertir hlaupaárangur en þolið engu að síður gott. Kannski kristallast í þessu munurinn á því að vera á fimmtugsaldri og þrítugsaldri, veit það ekki. Ég þekki þó eldri menn en mig sem skokka 30 kílómetra í einu. Það tekur mig tæpar tvær vikur að ná þeirri vegalengd.

Ég væri fyrir löngu hættur þessu ef löngunin væri ekki til staðar í skrokknum. En hann heimtar þetta. Samt er maður ekki sprækari en þetta þegar byrjað er að puða.

Írakar tryggðu okkur heimsviðburð réttum megin við áramótin. Óskaplega eru hengingar og önnur mannsmorð viðurstyggileg, hver sem á í hlut.

Annars tek ég þátt í áramótaspjalli á Rás 2 á morgun upp úr klukkan þrjú. Hef ekki hugmynd um hvað ég á að segja en væntanlega ræðst það á staðnum. Vona að ekki andi köldu frá Þórdísi Gíslasdóttur fyrir að ég gerði mig að fífli á bloggsíðunni hennar í haust. Stemningin þarf að vera þægileg við svona aðstæður. Annars er þetta tekið upp á Kaffi Viktor og bjór í boði. Um að gera að skella einhverju í sig fyrir útsendingu enda svífur fljótt á mig.

föstudagur, desember 29, 2006

Framhald af bókmenntapexi

Þegar og ef sænska akademían verður farin að hugsa eins og aðrir sem fjalla um bókmenntir, eins og almenningur, í stíl við umfang fjölmiðlaumfjöllunar um bókmenntir og eins og sumar aðrar verðlaunanefndir, má búast við eftirtöldum Nóbelsverðlaunahöfum í bókmenntum:

Dan Brown
Stephen King
Hari Murakami
Paulo Cohello
Ian McEwan
JK Rawlings

Einhverjir á þessum lista ættu verðlaunin hugsanlega skilið. En hvað þætti raunverulega bókmenntafólki um að listi næstu ára yrði nákvæmlega svona?

Í mjög mörgum tilvikum kannast fáir við Nóbelsverðlaunahafa áður en þeir eru tilnefndir. Þeir hljóta sumir heimsfrægð í kjölfarið og flestum sem kynnast verkum þeirra þykir tilnefningin þá verðskulduð. - Hver vissi um Halldór Laxness áður en hann fékk verðlaunin?

Ég skrifaði bók en kláraði hana ekki.

Halldór Ásgrímsson hætti.

KR varð í öðru sæti.

Íslendingar slógu út Svía í forkeppni HM í handbolta.

Það kom út ný Who-plata.

Sjálfstæðismaður varð borgarstjóri.

Ég fór á Zappa-tónleika.

Saddam Hussein var dæmdur til dauða.

Flóð á Suðurlandi sem kannski hefðu orðið mannskæð annars staðar í heiminum. Veit það einhver?

Ég fór til Darmstadt, Manchester og München.

Það var birt eftir mig smásaga á Englandi.

Kynlífshneyksli í Byrginu.

Skelfilegur harðstjóri, fjöldamorðingi og pyntingameistari - Augustu Pinochet - lést.

Það var þýdd eftir mig saga á þýsku af þýskum íslenskunema.

Freyja flutti inn í hjónaherbergið; hjónin fluttu inn í barnaherbergið.

Kjartan keppti oft í fótbolta.

Freyja keppti oft í fimleikum og sýndi dans.

Ég og Erla kepptum í Reykjavíkurmaraþoni, 10 kílómetrum; hún varð langt á undan mér.

Margir blaðamenn skiptu um störf og enginn man lengur hver var hvar.

Bragi gaf út fantagóðan Sendiherra, Óskar Magnússon og Ólafur Jóhann gáfu út fín smásagnasöfn; Sigurjón Magnússon skrifaði góða nóvellu. Ég las Óvini ríkisins og byrjaði á Skáldalífi. EÖN gaf út mjög áhugaverða skáldsögu sem ég er á blaðsíðu 117 í. Margar fleiri bækur komu út sem ég á aldrei eftir að lesa.

Ég var að verða mjög vinsæll pistlahöfundur þegar ég var rekinn. Síðan er annar hver Íslendingur orðinn pistlahöfundur og lítill vegsauki að titlinum. Verstir eru blaðamenn að skrifa um hvað þeir horfðu á í sjónvarpinu.

Margt gerðist sem ég er búinn að gleyma. Allt er í einum hrærigraut.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Jólamylsnan yðar

Daníel snarþagnaði og horfði flóttalega í kringum sig eins og hann væri fyrst að uppgötva núna að þeir væru ekki staddir tveir einir í hljóðeinangruðu herbergi. Skrýtna konan var að tala við sjálfa sig og virtist ekki vita af þeim. Hún hreyfði munninn ótt og títt í óskiljanlegu tauti. Tælendingarnir ungu úti í horni risu skyndilega á fætur og við það varð skvaldrið næstum óbærilega hávært. Árni og Daníel horfðu sviplausir og þöglir á ungmennin, dálítið eins og hestar eða kýr að líta upp úr beit og fylgjast með mannfólki. Síðan fóru allir út nema tvær stelpur sem settust aftur og kveiktu sér í sígarettum. Þær voru einstaklega smágerðar, eins og leikfangaútgáfur af táningsstelpum, dúkkur keyptar í tælenskri dótabúð.
Einn piltann rak handlegginn í gluggann þegar þeir gengu framhjá húsinu. Það vakti upp óskylt æskuatvik í huga Árna. Vinur hans hafði vakið hann með því að banka í herbergisgluggann og síðar sama dag gaf eldri bróðir hans honum 500-kall, ljósgrænan seðil með mynd af Hannesi Hafstein. Hann ætlaði í bíó fyrir peninginn og var að missa af vagninum, hljóp að stoppistöðinni með strætómiða milli fingranna og 500-kallinn í rassvasanum. Hann náði vagninum, settist og rak augun í vininn sem hafði vakið hann um morguninn. Hann bankaði í rúðuna til að vekja athygli hans og varð hugsað til þess að vinurinn hefði bankað í gluggann hjá honum. Vinurinn tók ekki eftir honum og vagninn brunaði niður í bæ. Ólýsanleg hamingjutilfinning gagntók hann, dýpri og óræðari en einskær bíógleði. Árna fannst að hann myndi þetta fáfengilega atvik svona vel út af þessari tilfinningu. Hann velti því fyrir sér hvort allar mestu og sönnustu hamingjustundir hans á ævinni hefðu verið upplifaðar í einrúmi og hvort sú staðreynd gerði hann á endanum einmana og óhamingjusaman.

sunnudagur, desember 24, 2006

Mér líka rauð jól en rokið er óþarfi. Náði hins vegar í prýðilega Þorláksstemningu í gærkvöld en þá var góðviðri á Laugaveginum. Í gær kom Munro-bókin sem ég var búinn að panta á Amazon. Svo undarlega brá við að mér líkaði ekki fyrsta sagan í henni. Einhvern tíma í gær, rétt áður en við fórum að útrétta, en ég var að bíða eftir Erlu, greip ég Dauðann í Feneyjum úr bókaskápnum og las fyrsta kaflann. Ég átti hana alltaf eftir en er alveg kominn á bragðið núna. Hún togar í mig.

Ég er ekki búinn með Óvini ríkisins
Ég er ekki búinn með Eitur fyrir byrjendur (sem ég held að sé merkileg saga og nútímaleg í allra besta skilningi)
Ég er nýbyrjaður á Brekkunni
Ég veit að ég fær Skáldalíf í jólagjöf en ég varð hugfanginn af fyrsta kaflanum
Munro
Dauðinn í Feneyjum

Síðan stóð alltaf til að lesa smásögur Carol Shields og Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur.

Staðreyndin er sú að í seinni tíð les ég ekkert mikið. Þetta er öngþveiti og einhverju þarf að fórna.

Í Þýskalandi mun ég fyrst og fremst skrifa en væntanlega taka Munro með mér og ætti því að spara hana núna; Skáldalíf er ansi þung í farangri. Auk þess mun ég lesa eitthvað á þýsku, t.d. Der Spiegel. Þar að auki mun ég fá mér bók eftir Larissu Böhning en ég kynntist henni lítillega á bókmenntahátíðinni í Manchester. Ég les varla meira en það í þeirri ferð.

Ég ætlaði að skrifa um jólin. En þetta snýst allt um bækur. Ég fæ rjúpur í kvöld og geri Waldorf-salat.

Gleðileg jól.