Margir miðaldra karlmenn, kannski flestir, vinna svokallaða hvítflibbavinnu, eða white collar, á misjafnlega háu plani sem þeim eflaust leiðist misjafnlega mikið í eða skemmta sér konunglega. Vel má vera einhverjir þessarra manna þrái innst inni að vinna frekar verkamannavinnu. Ég efast þó um að þeir séu margir.
Það sem mér finnst hins vegar skrýtið er hve margir þessarra manna, vel menntaðir og andríkir, kjósa að eyða frístundum sínum og síðan öllu sumarfríinu sínu, í ólaunaða verkamannavinnu. Mála húsið, smíða sólpall og skjólvegg, slípa parkett, grafa upp garðinn sinn, smíða sumarbústað. Mörgum finnst þetta eflaust skemmtilegt en það sem mér þykir óskiljanlegt og sorglegt er að þeir sem í raun leiðist svona puð og taka út fyrir það, skuli leggja þetta á sig, skuli sóa svona ævinni, í einhverri misskilinni skyldurækni, til að þóknast eiginkonunni sem vill að allt sé jafn flott og hjá vinafólkinu eða nágrönnunum.
Þegar við erum komin yfir fertugt er staðan þannig að við eigum kannski bara 20 góð ár eftir. Eftir í síðasta lagi 20 ár fer a.m.k. að halla undan fæti. Á þessum árum á fólk að blómstra og gera það sem hugur þess stendur til. Ferðast, ef það vill ferðast. Spila golf ef það vill það, læra á hljóðfæri ef það hefur alltaf dreymt um það - nú eða skrifa smásögur.
Enginn skal neyða mig til eyða frístundum mínum í verkamannavinnu - aldrei nokkurn tíma, þó að ég verði þar með að teljast slæmur eiginmaður og letingi. Maður lifir bara einu sinni og aðrir láta drauma manns ekki rætast. Maður verður að gera það sjálfur.