föstudagur, júní 23, 2006

Ég fer á Skagamótið á morgun, fótboltamót á Akranesi sem Kjartan tekur þátt í. Þar gisti ég og kem til baka á laugardagskvöld. Efast um að ég bloggi fyrr en á sunnudag eða mánudag. Ef Þjóðverjar tapa fyrir Svíum læt ég eflaust ekki heyra frá mér í nokkra daga. Nóg að umbera ósköpin hjá KR-ingum í kvöld.

Ég hef setið við skriftir og annað hangs fram á hálfrökkvaða fimmtudagsnóttina og satt að segja hefur mér gengið vel. Óneitanlega eru afköstin skammarleg frá degi til dags og nótt til nætur síðasta ríflega árið, en engu að síður miðar þessu alltaf í rétt átt að takmarkinu: góðri bók.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Ég sé ekki betur en bloggtakturinn hafi fundið mig aftur.

Þegar menn eru farnir að velta 100 milljörðum, beint eða óbeint, hvað eru þeir þá að jafnaði búnir að svala sér á mörgum vændiskonum? Hver er staðan á þessu þegar þeir eru komnir með 1 milljarð í hreina eign? 10 milljarða?

Þeir eru án nokkurs vafa búnir styrkja einhver baráttusamtök gegn kynferðislegu ofbeldi sem og almenn baráttusamtök feminista. Gera það ekki allir auðkýfingar nú til dags, ásamt ýmsum öðrum framlögum til góðra málefna? Hvert skyldi hlutfallið á milli slíkra styrkja og greiðslna til melludólga vera?

Hér er komið spennandi tölfræðilegt rannsóknarefni á auðkýfingum heimsins. En erfitt gæti reynst að afla nauðsynlegra upplýsinga í rannsóknina.

Ég er að fara upp á Hlemm í hádeginu, í klippingu hjá Torfa. Ég hef ekki komið þangað í marga mánuði. Einu sinni var Hlemmur aðalsvæðið mitt og hann kemur fyrir í mörgum sögunum mínum. Í seinni tíð er svæðið hins vegar afskaplega líflaust. Vonandi verður eitthvert lífsmark þarna í hádeginu.

Margir miðaldra karlmenn, kannski flestir, vinna svokallaða hvítflibbavinnu, eða white collar, á misjafnlega háu plani sem þeim eflaust leiðist misjafnlega mikið í eða skemmta sér konunglega. Vel má vera einhverjir þessarra manna þrái innst inni að vinna frekar verkamannavinnu. Ég efast þó um að þeir séu margir.

Það sem mér finnst hins vegar skrýtið er hve margir þessarra manna, vel menntaðir og andríkir, kjósa að eyða frístundum sínum og síðan öllu sumarfríinu sínu, í ólaunaða verkamannavinnu. Mála húsið, smíða sólpall og skjólvegg, slípa parkett, grafa upp garðinn sinn, smíða sumarbústað. Mörgum finnst þetta eflaust skemmtilegt en það sem mér þykir óskiljanlegt og sorglegt er að þeir sem í raun leiðist svona puð og taka út fyrir það, skuli leggja þetta á sig, skuli sóa svona ævinni, í einhverri misskilinni skyldurækni, til að þóknast eiginkonunni sem vill að allt sé jafn flott og hjá vinafólkinu eða nágrönnunum.

Þegar við erum komin yfir fertugt er staðan þannig að við eigum kannski bara 20 góð ár eftir. Eftir í síðasta lagi 20 ár fer a.m.k. að halla undan fæti. Á þessum árum á fólk að blómstra og gera það sem hugur þess stendur til. Ferðast, ef það vill ferðast. Spila golf ef það vill það, læra á hljóðfæri ef það hefur alltaf dreymt um það - nú eða skrifa smásögur.

Enginn skal neyða mig til eyða frístundum mínum í verkamannavinnu - aldrei nokkurn tíma, þó að ég verði þar með að teljast slæmur eiginmaður og letingi. Maður lifir bara einu sinni og aðrir láta drauma manns ekki rætast. Maður verður að gera það sjálfur.

Dvergurinn á herðum risanna

Áhrif frá Raymond Carver eru augljós þeim sem til þekkja í flestum smásögunum mínum. Nákvæmlega ein saga er þó undir mjög sterkum áhrifum frá Alice Munro þó að hún komist ekki á hálfkvisti við sögurnar hennar, nema kannski fyrstu verkin hennar sum hver. Þetta er sagan Afmælisgjöfin úr Tvisvar á ævinni. Þeir örfáu sem bæði hafa lesið Ágúst Borgþór og Alice Munro gætu spáð í þetta.

Maður fólksins

Alveg er makalaust að ein helsta goðsögn knattspyrnusögunnar, Maradonna, sé að góla með maurunum, íklæddur Argentínutreyjunni, í stað þess að sitja í fínni heiðursstúku sem knattspyrnuambassador. Þetta hlýtur að vera einsdæmi. Sumir trúa þessu ekki og halda að þetta sé tvífari hans.

Annars er sorglegt að líklega mætast Þýskaland og Argentína í 8-liða úrslitum. Þá er annað þessarra liða úr leik. Ef Þjóðverjarnir vinna ekki Svía, þá er það í sjálfu sér ekki sorglegt að þeir detti út, því þá eiga þeir ekki skilið að komast lengra. En ef fer sem horfir, þá þurfa þeir að þrauka fram í vítakeppnina þar sem Lehmann tekur vítaskyttur Argentínumanna á taugum. Sorglegt að spilla þannig gleði goðsins Maradonna, ennþá sorglegra ef það tekst ekki.

En það er auðvitað engin spurning að Argentína vinnur Mexíkó. Og þó. Getur ekki allt gerst í knattspyrnu?

miðvikudagur, júní 21, 2006

Ég held að Þjóðverjar séu betri en Svíar en samt getur maður ekki verið viss því Þjóðverjar hafa ekki enn mætt almennilega sterku liði í keppninni.

Sagan mín er farin út til yfirlestrar hjá Comma Productions, forlagi sem ætlar að gefa út bók með 10 evrópskum smásögum í haust sem eiga að gerast í jafnmörgum borgum. Ég sendi söguna Fyrsti dagur fjórðu viku úr síðustu bók. Sagan verður fyrst og fremst metin út frá því hversu vel hún lýsir borginni. Sögurnar í væntanlegu hefti eiga öðrum þræði að vera ferðalög í gegnum viðkomandi borgir. Þó að sögurnar mínar fangi anga af reykvísku andrúmslofti er ég ekki viss um að þetta sé akkúrat það sem þeir eru að leita að. Hef satt að segja ekki hugmynd um það. Einnig má vel vera að Reykjavík sé bara einn af mörgum möguleikunum, a.m.k eru evrópskar borgir margfalt meiri en tíu. - Ég á því ekkert frekar von á því fá þessa birtingu en myndi annars bara líta á hana sem bónus. Aðalmarkmið mitt núna á bókmenntasviðinu er að senda frá mér góða, stutta skáldsögu haustið 2007 og raunar ætti verkinu að vera lokið upp úr áramótum. Snemma á næsta ári byrja ég síðan annaðhvort aftur að skrifa smásögur eða tek til við nýja nóvellu sem ég fékk hugmynd að um páskana.

http://www.commapress.co.uk/ Hér er vefur forlagsins.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Hálfleikur

Klose kominn með 4 mörk í tveimur og hálfum leik.

mánudagur, júní 19, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060619/LIFID01/60619038/1120 Frábært hjá Roger Waters.

sunnudagur, júní 18, 2006

Þjóðverjar taka leikinn við Ekvador á þriðjudag mjög alvarlega þó að þeir séu þegar komnir í 16-liða úrslit. Þeir vilja vinna riðilinn þar sem það eykur líkurnar á mótherjinn í 16-liða úrslitum verði Svíþjóð en ekki England. Ennfremur segja menn að liðið sé of ungt og reynslulítið til að geta leyft sér að slaka á í einum leik, það þurfi að vinna að því að bæta sig með hverjum leik og halda sigurgöngunni áfram.

Vonarstjarnan Podolski hefur fengið mjög harða gagnrýni en hann hefur ekki skorað ennþá. Klose er meðal þeirra sem gagnrýna hann hart. Podolski verður þó með gegn Ekvador en nú er þess krafist að hann láti meira að sér kveða í framlínunni og komi boltanum í markið.

Frakkar virðast afar bitlausir, ég sá þá missa unninn leik niður í jafntefli gegn S-Kóreu áðan. Englendingar spila leiðinlega en mér finnst þeir samt virka sterkir, aðallega út af vörninni. Mínir menn munu hins vegar vinna Svíþjóð naumlega og komast í 8-liða úrslit. Þar bíða væntanlega Argentínumenn en ég sé ekki hvernig Þjóðverjar eiga að slá þá út. Líklega verður leikskipulaginu breytt í þeim leik, ef af honum verður, og spilaður stífari varnarleikur. Ég læt mig dreyma um að Þýskaland slái Argentínu út í vítaspyrnukeppni eftir að hafa verið lakari aðilinn í leiknum.

Þrátt fyrir bloggandleysi hef ég fréttir að færa. Rúnar Helgi Vignisson var útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar og hélt ásamt Guðrúnu konu sinni huggulegt kaffiboð heima hjá sér í kvöld. Við Erla áttum góða stund þar.

Þegar heim kom beið síðan tölvubréf frá Skruddu vegna áhuga forlags í Manchester á sögunum mínum. Um er að ræða væntanlegt smásagnasafn með 10 sögum eftir evrópska höfunda. Sögurnar eiga með einhverjum hætti að endurspegla evrópskar borgir. Ég veit svo sem ekkert hvað kemur út úr þessu en er búinn að setja mig í samband við þessa útgefendur.