föstudagur, september 01, 2006

Ég get ekki kallað það nostalgíu en fortíðarkenndin er nánast yfirþyrmandi í kvöld. Hóf skriftarströggl kvöldsins á Mokka með dálitlu vasabókarpári. Þar var ungur strákur að lesa Tómas Jónsson metsölubók. Þegar ég var á hans aldri (eða yngri? Mér er það sífellt erfiðara að sjá aldur á fólki sem er mikið yngra en ég; en mér fannst þessi ekki líta út fyrir að vera degi eldri en 19 ára) las ég þessa sömu bók og hékk á Mokka á kvöldin. Hann var raunar með kiljuútgáfuna en ég hafði á sínum tíma meðferðis innbundið eintak sem ég tók að láni á Íþöku, skólasafninu í M.R.

Hér á stofunni er síðan einn vinnufélaginn að spila nýlega sólóplötu með Dave Gilmour og hún hljómar eins og gömul Pink Floyd plata, músíkin sem maður lá í á þessum tíma.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

"Að okkar mati er smásagan eitt flottasta bókmenntaformið, hnitmiðað og afar áhrifamikið þegar vel tekst til. Smásagan er bókmenntaleg fullnæging. "
www.graenahusid.is

Þarna er brugðist við grein Ólafs Gunnarsson á jpv.is um stöðu smásögunnar á Íslandi. Ég held reyndar að Ólafur sé með smásagnasafn í haust. Það er spennandi.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1221134 Það er dálítið erfitt að ímynda sér að Bush geti líkað vel við Útlendinginn eftir Camus.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Eiður Smári er eins og barnalegur dagdraumur. En þetta er raunveruleiki.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Morgunblaðið hefur áhyggjur af umsvifum eignamanna hér á landi en veitir þeim síðan heilan kálf í blaðinu. Það er alveg ljóst hverjum blaðið hefur velþóknun á og hverjum ekki. Ég sæi þá í anda veita Jóni Ásgeiri viðhöfn sem þessa!

Einhverjir segja að ekki eigi að hjálpa náunganum sem situr í alræmdu brasilísku fangelsi, hann hafi kallað þetta yfir sig sjálfur. Þetta eru skammsýn og tilfinningalaus sjónarmið. Það á enginn skilið að sitja í ómannúðlegu fangelsi, slík fangelsi eiga ekki að vera til. Maður gæti af óþroskuðum hvötum óskað nauðgara eða barnaníðingi þess en aldrei dópsmyglara. Fangelsi sem kölluð eru "helvíti á jörðu" eiga ekki að þrífast og við viljum ekki að nokkur Íslendingu sitji í þeim, jafnvel ekki óforbetranlegir drullusokkar.