laugardagur, september 18, 2004

Býsna veglegur myndskreyttur ritdómur um Uppspuna í Lesbók Morgunblaðsins í dag.

föstudagur, september 17, 2004

(Meira fortíðargrínbull)


Gott og vel, Úrval er létt aflestrar, en þetta er fjandakornið ekkert sorprit. Þarna eru fræðandi og vel skrifaðar greinar í aðgengilegum búningi. Þegar menn eru búnir að strita á skrifstofunni allan liðlangan daginn eru þeir einfaldlega of þreyttir til að leggjast í lestur þungra fræðirita. Mér þykir afskaplega notalegt að fá mér sæti í húsbóndastólnum eftir kvöldmat og útvarpsfréttir, láta konuna færa mér kaffibolla, troða mér í pípu, og opna nýjasta heftið af Úrvali. Svo les maður um væntanlegar uppgötvanir vísindanna í framtíðinni, tölvur og önnur furðufyrirbæri sem munu jafnvel leysa skrifstofuritvélar af hólmi, og þykkur pípureykurinn liðast um loftið á meðan frúin prjónar eða saumar í bólstruðum stofusófanum. Þetta eru friðsælar og ég vil meina uppbyggilegar stundir.

Með kveðju
ÁBS

16.09.1961

Nú fer aftur að sjást einhver þjóðmálaumræða í sjónvarpi. Silfur Egils byrjar um helgina og framundan er nýr pólitískur þáttur á Skjá einum. Í þeim þætti er lagt upp með að stjórnendur séu ekki hlutlausir og er teflt saman stjórnendum sem eru á öndverðum meiði. Annars vegar eru það Illugi Gunnarsson (hægri) og Katrín Jakobsdóttir (vinstri). Ég hef ekki mikið séð til Illuga í opinberri umræðu og í fljótu bragði séð gæti hann farið halloka fyrir Katrínu sem er lífleg og fjölmiðlavæn en Illugi frekar stirður. Ég segi þetta þó með fyrirvara, Illugi er kannski nokkuð óskrifað blað í sjónvarpi þrátt fyrir að hafa verið aðstoðarmaður forsætisráðherra í nokkur ár.

Enn meira gæti þó hallað á annan aðilann í síðara parinu: Ólafur Teitur Guðnason (hægri) og Guðmundur Steingrímsson (vinstri). Þar sé ég nú ekkert annað fyrir mér en slátrun. Ólafur Teitur er alveg gríðarlega rökfastur, harðskeyttur en málefnanlegur og setur sig af krafti inn í mál, er með allar upplýsingar á hreinu. Laufléttur og meinlaus húmor Guðmundar má sín þarna lítils, ég sé hann hreinlega ekki eiga breik í Ólaf Teit. Ekki nema Guðmundur komi á óvart og sýni á sér nýjar hliðar.

fimmtudagur, september 16, 2004

Núna ætla ég að bulla. Er hann ekki alltaf að bulla? gæti einver sagt. En burtséð frá því. Ímyndum okkuar að í dag sé 15. september, ekki árið 2004 heldur t.d. árið 1961. Þannig gæti afturhaldssamur, vinstri sinnaður menningarviti skrifað á slíkum degi:


Við lifum á öld ritvélarinnar. Taktfastur sláttur skrifstofustúlkna í steinbáknum borgarinnar er undirspilið við sálarlíf nútímamannsins sem stritar ekki lengur í svita síns andlit á bleikum kornökrum heldur er tannhjól í sjálfvirkri auðvaldsvélinni. Í frítíma sínum sækir nútímamaðurinn sér ekki andlega upplyftingu heldur er þræll nautna og mötunar: dagblaða, reyktóbaks, sætabrauðs og útvarpsfrétta.

Eftirminnilegasta minningin sem ég á um Davíð Oddsson lætur lítið yfir sér. Það var í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 1991. Ég hafði eins og öll mín kynslóð alist upp við stöðugan efnahagsvanda og tilveru sem maður vissi ekki hvort ætti að flokka sem allsnægtir eða basl, því fátækt og ríkidæmi eru svo afstæð. - En það sem maður alltaf gat gengið að vísu voru innantómir frasar stjórnamálamanna, endalausar staðlaðar klisjur. Þær má reyndar heyra ennþá. Þekktustu klisjurnar heyrast þegar niðurstöður skoðanakannana eru bornar undir stjórnmálaforingja en þá reyna þeir alltaf að snúa tapi sér í vil, jafnvel fylgishruni. Á slíku hafði einmitt gengið hjá mörgum í kosningabaráttunni þetta árið (mig minnir að kosningarnar hafi verið í skammdeginu, því auðvitað sprakk stjórnin á undan eins og aðrar vinstri stjórnir, þetta mun hafa verið sú síðasta til þessa). Einhvern tíma á leiðinni verður niðursveifla í fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnun DV. Niðurstöðurnar eru bornar undir Davíð sem segir þungur á brún að þetta séu alvarlegar fréttir, við þessu verði að bregðast og herða róðurinn í kosningabaráttunni. Síðan útlistaði hann afleiðingarnar af því ef ný vinstri stjórn settist að völdum.

Nákvæmlega í þessu litla atriði endurspeglast munurinn á Davíð Oddssyni og flestum öðrum íslenskum stjórnmálamönnum: Hann talar ekki í klisjum og hann hugsar ekki í klisjum, hann segir það sem hann meinar og meinar það sem hann segir, og lætur verkin taka.

þriðjudagur, september 14, 2004

Ef ég hnýti aftur í DV hér þá hlýt ég að teljast mikill hræsnari. Blaðið var uppurið í vinnunni í dag, en þar er ég vanur að lesa öll dagblöð. Það togaði svo mikið í mig að ég keypti mér eintak í hádeginu. Eitthvað hljóta þeir að vera að gera rétt, DV-menn. Það vakti líka athygli mína um helgina að helgarblaðið var allt í einu orðið eins og það var allra best hér áður fyrr, óvenjulega þykkt og fjölbreytt.

Þung skylda (heavy duty) í vinnunni núna, allt brjálað að gera og haugur af krefjandi verkefnum sem eru leyst með glæsibrag. Ég vildi bara óska að þetta gæfi mér meira, að ég þráði þetta jafn mikið og skáldskapinn og upphefðina í honum. En því fer víðs fjarri.

Súrrealísk ljóðagerð í fyrirsagnagerð DV í dag:

Endaþarmsboxarinn játaði í jakkafötum.


Ég er ekki að ljúga. Þetta er fyrirsögn í DV í dag.

Fletti nafninu mínu upp á leitarvél í dag og komst þannig að því fyrir tilviljun að einhver, sem kennd er við rokk og orðuð er við blogg, einhver sem er komin í nám og skemmtanalíf í útlöndum, - er þrátt fyrir þessi viðbrigði ekki búin að gleyma rithöfundi sem viðkomandi þekkir ekki í sjón, samkvæmt uppdiktaðri frásögn viðkomandi um að ég hafi gefið sig á tal við hana fyrir framan afgreiðsluborð í Eymundsson.

Er ég virkilega svona eftirminnilegur? Að ég rata inn minningar, ímyndanir og hálfdreymi fólks sem ég þekki ekki?

mánudagur, september 13, 2004

Nokkrar spennandi bækur í haust:

Truflanir í vetrarbrautinni eftir Óskar Árna Óskarsson. Ég hef vonir um að þessi nýja smáprósabók Óskars Árna sé ein sú alskemmtilegasta sem hann hefur skrifað, a.m.k. eftir að hafa kíkt á kynninguna inni á Bjartsvefnum.

Baróninn - söguleg skáldsaga eftir Þórarinn Eldjárn. Frábærlega skemmtilegt efni sem ég býst við að Þórarinn geri góð skil: Baróninn franski sem var í slagtogi við Einar Ben. og rak mjólkurbú þar sem nú er Barónsstígur.

Ný skáldsaga eftir Braga Ólafsson. Hef alltaf hrifist af ritstíl Braga.

Stutt skáldsaga eftir Jón Atla Jónasson. Efnið er forvitnilegt miðað við þjófstartkynningu í fyrra en þá var útgáfunni frestað. Jón Atli hefur tekið mið af bandarísku raunsæi í sínum sögum. Leikritin hef ég ekki séð sem er skömm.

Ferða- og endurminningabók eftir Einar Kárason. Þar held ég að sé forvitnilegur texti á ferðinni, m.a. leiðangur höfundar með föður sínum eftir sígarettum í verkfallinu mikla haustið 1984.


sunnudagur, september 12, 2004

Föstudagskvöldið á Kormáki og Skildi, þeirri indælis eðalkrá, var hið líflegasta. Ég hitti fleiri kunningja úr hópi smárra skálda en ég átti von og þar að auki einn þekktan sem hefur sagt mér að nefni ég hann á nafn á þessari síðu muni hann aldrei tala við mig framar. Það er því ekki mjög fýsilegt að gera grein fyrir kvöldinu þegar eitt nafn af fimm vantar því við vorum allir í einum hóp. Þrátt fyrir ágætan félagsskap var þó bjórinn líklega eftirminnilegastur, en ég hef nú uppgötvað tegund sem er mér mjög að skapi: Dökkur Erdinger frá þýskalandi. Hann bragðast eins og Egils Malt með aðeins minni sykri og töluvert meira alkóhólmagni. Alveg lygilega bragðgóður andskoti. Ég drakk fjóra þetta kvöld og reykti alltof marga vindla.

Ég er búinn að skokka tvisvar um helgina og synda einu sinni. Því miður hef ég líka étið of mikið eins og vanalega. Áðan sá ég KR bjarga sér úr fallbaráttu og skjótast upp í 5. sæti með heimasigri á KA. Nú bíða menn bara eftir hreinsunum og nýrri blómatíð.

Ég hef á tilfinningunni að það verði mjög erfitt að fá bókina mína kynnta í haust. Tilraunir mínar til að taka þátt í þessari hálfgerðu forkynningu sem hefur verið að skjóta upp kollinum í blöðunum, hafa verið með öllu árangurslausar. Í hvert sinn sem ég sendi frá mér bók rekst ég á einhvern heilalausan vegg í fjölmiðlum þar sem bókmenntaleg gæði skipta engu máli. Þar ræður ríkjum fólk sem hefur líklega aldrei lesið staf eftir mig, telur sig þess umkomið að dæma hvað er bókmenntalega fréttnæmt, og hefur ákveðið að mín verk teljist ekki til þess án nokkurrar bókmenntalegrar ástæðu. Ég er algjörlega undir þetta búinn núna og læt það ekki á mig fá. Veit sem fyrr að ég held áfram að vaxa í áliti þeirra sem slysast til að lesa bókina.