laugardagur, maí 07, 2005

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1137305 Mig er farið að gruna að karlinn sé saklaus. Ekki saklaus af því að vera sjúkur furðufugl sem elur upp börn sín á afbrigðilegan hátt (lætur þau ganga með grímur á almannafæri), afgvegaleitt og hálfsjúkt stórt barn, - en saklaus af því að vera barnaníðingur. Allt ferlið í réttarhöldunum, eins og ég hef upplifað það í gegnum fréttir, bendir til að hann sé saklaus. En auðvitað veit maður það ekki fyrir víst.

föstudagur, maí 06, 2005

Ég var rétt í þessu að heyra ferska kjaftasögu um Björn Inga framsóknarmann: Í núverandi eða fyrri Afríkuferð sinni hafi honum ekki litist á matinn sem frumbyggjar báru á borð fyrir hann, brett upp ermarnar og ákveðið að kenna þeim að búa til hvítlauksbrauð!

Ekki fylgir sögunni hvernig þetta matreiðslunámskeið lukkaðist.

http://www.visir.is/?PageID=90&NewsID=40315 Óskaplega virkar fræga fólkið oft barnalegt, sérstaklega tónlistarmenn og leikarar. Eins og það sé allt undir meðalgreind.

Ef ég á að segja alveg eins og er þá finnst mér bloggið ekkert hafa versnað hjá mér í fyrstu bindindisvikunni. Jafnvel að meistarinn sé bara líkari sjálfum sér svona. Auk þess er ekki skynsamlegt að sanka endalaust að sér óvinum.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Einn vinnufélagi minn, náungi að detta í fimmtugt, en lítur út fyrir að vera nokkrum árum yngri, er afskaplega rólegur og laus við streitu. Þó mæðir sérlega mikið á honum á vinnustaðnum enda gegnir hann mörgum hlutverkum. Hann er svo afslappaður að hann smitar frá sér róseminni og dregur þannig úr streitunni á staðnum þegar mest þarf á að halda.

Leyndarmálið á bak við jafnaðargeðið, sem fæstir halda á stað sem þessum, þar sem sífellt koma upp ágreiningsefni og kapphlaup verður við tímann, er nokkuð sérstakt: Á nóttunni dreymir hann að hann myrði fólk. Oft er um að ræða aðila sem fara í taugarnar á honum, en hann neitar því að vinnufélagar komi fyrir í þessum draumum. Það allra besta er að drápin fremur hann alltaf í sjálfsvörn, hann drepur fólkið til að bjarga eigin lífi. Hins vegar verða þetta oft afar blóðugir hildarleikir, stundum kviðristir hann óvinina með hníf. Hann vaknar síðan hæstánægður með að hafa bjargað eigin lífi og með hreina samvisku þess sem varist hefur í nauðvörn.

Síðan mætir hann sallarólegur í vinnuna.

Hefði skítkastarinn sagt að síðgelgjan myndi kalla þetta kröfuspjöld dauðans?

Á forsíðu Moggans 2. maí er mynd frá "kröfugöngu" á 1. maí. Algengasta áletrunin á kröfuspjöldunum er: "Höldum í 1. maí." - Er þetta nú alveg nógu beinskeytt? Þeir sem vilja halda í 1. maí hljóta væntanlega að meina að þetta eigi áfram að verða kröftugur baráttudagur. En eru "kröfur" á borð við þessa einmitt ekki lýsandi dæmi um hvað dagurinn hefur glatað lit sínum og tilgangi?

Ávextir bindindis?

Hallgrímur Helgason hefur heilsað mér úti á götu í mörg ár, mér til gleði og heiðurs. Í hádeginu mætti ég honum fyrir utan Hótel Holt og hann heilsaði mér glaðlega og vingjarnlega. Hádegiskveðjur hans á förnum vegi undanfarin misseri hafa mér virst svipdaprar, ég hef lesið bloggfærslurnar úr augnaráðinu, kannski þessa hugsun: "Sorglegt hvað drengurinn er mikill vitleysingur, ég hélt hann væri betri en þetta."

Nú kann þetta að vera ímyndun, einhvers konar jákvætt ofsóknaræði. Kannski hittu kveðjurnar í vetur á þunga þanka hans um eitthvað mér óskylt. Kannski hafði hann lokið við frábæran sögukafla þegar hann mætti mér léttstígur í dag og var þess vegna í góðu skapi. Kannski oftúlkaði ég eldri svipbrigði.

Og kannski skrifa ég þetta umfram allt sem dálítinn skyndibita fyrir kvartandi kommentara. Ég er því miður á kafi í vinnu fyrir Landsbankann í kvöld og veit ekkert í minn haus lengur.

miðvikudagur, maí 04, 2005

http://www.bjartur.is/?i=2&f=2&o=704 Mér líst nokkuð vel á þennan höfund (og það er ekki út af bindindinu mínu). Hef lesið dálítið eftir hann. Ég hafði ekki alveg þolinmæði eða tíma til að lesa allt í greininni, getið þið séð af henni hvort þetta er ljóðabók eða skáldsaga?

þriðjudagur, maí 03, 2005

http://www.visir.is/?PageID=495&NewsID=40115 Menn eiga að hætta að tala niðrandi um handboltann og reyna að sameinast um að rífa hann upp. Ef Íslendingar eiga einhvers staðar sjens í hópíþrótt þá er það í handboltanum.

mánudagur, maí 02, 2005

Mér líst bara vel á þá áætlun mína að venja mig samtímis af skítkasti og neyslu hraðvirkra kolvetna. Spurningin er sú: Hvort missi ég fyrr, blogglesendur eða fitu? Missi ég hvorugt, hvorttveggja eða annaðhvort?

Vorið er tími áramótaheita.

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=40084 Til hvers yfirleitt þarf að vera að stytta framhaldsskólann? Svo ég taki þá umræðu upp aftur. Algjörlega tilgangslaust og gerir ekkert nema að rýra framhaldsnámið.

http://www.bjorningi.is/ Ég var rétt í þessu að taka pólitískt próf hjá Birni Inga framsóknarmanni. Þetta er spurningalisti þar sem spurt er um skoðanir er tengjast efnahagsmálum annars vegar og siðferðislegum álitamálum hins vegar (trú, kynferðismál o.fl.). Samkvæmt niðurstöðunni er ég nákvæmlega á miðjunni í efnhagsmálapólitík og mjög frjálslyndur þegar kemur að siðferðismálum. Kannski er þetta amerískt próf og ég þar með orðinn demókrati þar í landi. Hins vegar virðist markmið Björns Inga með linknum vera það að gera alla lesendur sína að framsóknarmönnum.

framhald

Who Are You er svo auðvitað í C.S.I.

Leiðrétting - háskóla

Baba O'Riley (Teenage Wasteland) með Who er í Pöddulífi en ekki Shrek.

Nærfataskúffuskýrsla

Klukkan er 11:19
Bindindin bæði hafa haldið
Það er rólegt að gera og ég er að hugsa um hvaða veitingastað ég á að fara á í hádeginu
Ég er staddur í miðri sögu eftir Barry Hannah um ævisöguritara sem nýtur þess að skjóta á fólk með loftriffli án þess að það sjái til eða hafi hugmynd um hvað hafi gerst - tek bókina með mér á veitingastaðinn
Ég verð frameftir í kvöld að skrifa. Var aftur grasekkill um helgina og lítið gekk en útlitið er samt gott.
Það er blettur í jakkanum mínum en hann sést ekki mikið
Ég fékk útborgað áðan - vantar nýja reikningsnúmerið hjá Erlu til að leggja inn hjá henni
KR-vorfiðringurinn er að byrja að hríslast um mig. Í haust verður KR kannski Íslandsmeistari á sama degi og ég lýk við uppkast að bókinni og kem henni í yfirlestur.
Ætla að sjá Chelsea og Liverpool á morgun ef Jón Óskar hefur samband. Nenni ekki að fara einn.

Bloody Sunday

Já, ég veit ég er dálítið seinn með að tala um þessa mynd, en ég sá hana loksins í kvöld í sjónvarpinu. Hvernig er það, hafa Englendingar enn þann daginn í dag ekki gengist við þessum glæpum? Segir myndin sannleikann um atburðina?

Ég googlaði innlendri umræðu um þessa mynd upp í kvöld (Hún var sýnd á kvikmyndahátíð fyrir tveimur árum) og þar er víða kvartað undan dogma-stílnum á kvikmyndatökunni, sem og hægri atburðarás framan af. Hvorttveggja finnst mér vera algjörlega út í loftið. Hafi þessi stíll í kvikmyndatöku einhvern tíma átt við þá er það í þessari mynd. Kannski er þetta fyrsta "dogma"-myndin sem er algjörlega laus við tilgerð (Já, ég veit þetta er ekki þvottekta dogmamynd). Varðandi tempóið á atburðarásinni þá er það líka fyllilega viðeigandi. Það er eins og það þurfi hvað eftir annað að benda fólki á það í dag að það er ekki alltaf verið að skemmta því þegar það les bók eða horfir á kvikmynd. Stundum eru mikilvægari hagsmunir í húfi.

Við Kjartan skruppum á KR-Breiðablik í undanúrslitum Deildabikarsins í Egilshöll í kvöld. Leikurinn fór 3-0 fyrir KR. Menn voru frískir og börðust vel. Ansi líst mér vel á Færeyinginn Rógva og Bjarnólf Lárusson úr Vestmannaeyjum. Eitilharðir leikmenn og Færeyingurinn er mjög skynsamur og útsjónarsamur. Hann var færður aftur í vörnina vegna leikbanns Tryggva Bjarnasonar. Mikil barátta líka í Garðari Jóhannssyni sem greinilega ætlar að sanna sig í sumar. Sigurvin Ólafsson, Sölvi Davíðsson og Gunnar Kristjánsson skoruðu mörkin. - Í hinum undanúrslitaleiknum vann Þróttur ÍA 2-1 eftir framlengingu.

sunnudagur, maí 01, 2005

http://www.islenska.is/default.asp?Sid_Id=16890&tid=2&fre_id=21586&meira=1 Hér er mjög lifandi umfjöllun um 25 ára starfsafmælið hjá einum eiganda Íslensku á föstudaginn. Fyrir neðan kvæðið er linkur á myndir, mjög skemmtilegar myndir af nokkrum starfsmönnum. Meistarinn er á einni en heldur hlédrægur enda er ég í aukahlutverki í þessum ágæta bransa.

Nýjasta tilvitnunin er úr sögunni Viðvaningar sem ég skrifaði árið 1997 og birtist í smásagnasafninu Hringstiginn sem kom út árið 1999. Mér fannst þetta ægilega fyndin saga en það fannst engum öðrum þó að flestum þætti hún góð. Frekar að fólki liði illa af að lesa hana. Hún fjallar um viðvaningssaurlífissegg og viðvaningsmellu. Já, þetta var þegar ég var ungur og dónalegur.

Það var smásaga í Lesbókinni í dag eftir Ólaf Gunnarsson. Ansi stutt. Hún var allt í lagi en ekkert sérstök, ekki miðað við hann. Það loðir stundum við mikla skáldsagnahöfunda að þegar þeir spreyta sig á smásögum þá er metnaðurinn gjarnan í lágmarki, þetta er bara léttur leikur fyrir þá, afgangshugmyndir. - Þó má segja að Ólafur hafi skrifað nokkrar ansi góðar smásögur áður en hann sló í gegn með Tröllakirkju, en það fer eftir því hvað maður kallar smásögur og hvað nóvellur. Ég er hér að tala um Gaga og sögurnar tvær í Sögur úr Skuggahverfi. Ég hafði unun af að lesa þær allar en þær voru líklega um 20 þúsund orð hver. Fyrri sagan úr Skuggahverfisbókinni, Rússneska pönnukakan, er hreinasta afbragð.