fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Ég má til með að mæla með feikilega skemmtilegri myndlistarsýningu á Mokka. Um er að ræða litaðar teikningar eftir Tómas Ponsai (eða Ponzi, er ekki með nafnið á hreinu) af stemningunni á kaffihúsinu og gestum staðarins. Myndirnar hefur hann flestar rissað upp á staðnum. Hann hefur síðan litað þær með trélitum, telaufi og kaffikorg. Virkilega skemmtilegar myndir sem umfram allt fanga djúpa og íhugla einveru frekar en einsemd.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Konan mín þjáist af flughræðslu og það mikilli. Þið getið rétt trúað hvort Bandaríkjaferðin í vor hafi ekki reynt á þolrif elskunnar enda hátt í tíu tímar í flugi báðar leiðir. Í dag þurfti hún að fljúga til Akureyrar vegna vinnunnar og hafði kviðið fyrir því síðan um helgina. Ég benti henni á að hvað flugtíminn væri miklu styttri en í vor og hún gat vissulega huggað sig við það. Málin björguðust síðan alveg aðra leiðina með því að hún fékk að sitja frammi í flugstjórnarklefanum. Með því að horfa á hverja einustu hreyfingu flugmannana og vita nokkurn veginn nákvæmlega hvað þeir eru að gera minnkar óttinn til muna. Svo virðist vera að eina leiðin fyrir hana til að losna algjörlega við þessa fóbíu sé sú að hún einfaldlega læri flug, jafnmótsagnakennt og það hljómar. Það vill líka svo til að meðfram þessum ótta bærist undarlegur áhugi á flugi.

Er einhver með fóbíu hérna? Sjálfur gæti ég líklega flokkast sem einhvers konar matarfíkill (fyrir utan það að vera fádæma heimskur, fullkomlega siðlaus og meistari smásögunnar, hehe). Ég hef t.d. haft þolanlega stjórn á átinu í nokkrar vikur núna vegna þess að ég hef ekki snert hvítan sykur. Ég veit af reynslunni að eitt súkkulaðistykki eyðileggur sjálfsstjórnina. Fíkn er hins vegar held ég flóknara fyrirbæri en árátta og fóbía. Ég hef a.m.k. ekki náð að setja mig í spor konunnar minnar en fanga það bara með skynseminni að þetta flokkast að einhverju leyti undir þörf fyrir það að hafa fullkomna stjórn á aðstæðunum.

Fæ Baróninn frá höfundar hendi í heimsendingu í kvöld. Ég nenni ekki að skrifa neitt um hana, ætla bara að njóta lestursins, mig hefur lengi langað til að fræðast meira um þennan karakter. Gæti jafnvel hugsað mér þetta sem jólalesningu ef ég get beðið svo lengi. Hef lofað hriflu um Lömuðu kennslukonurnar hans Guðbergs, mér líst sem betur fer vel á hana, JPV-veldið virðist ekki mega við meiri fnyk úr þessari holu.

Er farinn að huga að ferð eftir áramótin. Alvörurithöfundar dveljast langdvölum erlendis við skriftir en ég hef haft þann sið að skreppa til Þýskalands annaðhvert ár og vera þar í eina viku, helst í einhverjum lítið þekktum borgum, skrifa og grufla. Að öðru leyti verður maður bara að láta Hlemminn og Kaffisetrið duga ásamt tölvunni.

Ég á líklega ekki mikið inni í kynningarmálum frekar en fyrri daginn, en þó eitthvað. Viðtal í Víðsjá er garanterað og líklega í Mogganum. Ég hlýt að fá ritdóm í Mogganum sem ég veit ekki hvernig verður og svo fæ ég líklega slæman dóm í Fréttablaðinu.

Nú, einn upplestur hjá Benna í desember og kannski tvær auglýsingar í viðbót frá Skruddu.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Sat á Hressó í hádeginu og las TMM. Þarna er ansi fín spennusaga eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Ég er farinn að halda að Laxness hefði skrifað eitt stykki glæpasögu væri hann uppi núna. Þetta er trendið. Ég spjallaði við Sigurð Pálsson annan daginn í röð en við sátum við sömu borðin og í hádeginu í gær. Um tíma var músíkin bæði hávær og leiðinleg og við báðum um að því yrði kippt í lag. Stuttu síðar hljómaði frekar lágt ljúf melódía með the Verve frá 1997. Okkur þótti það mikil bót og Sigurður sagði: "Segðu svo að skáldin hafi engin áhrif." Og við hlógum menningarlega: ohohohohohohohoho.... Ég hugsaði með mér hvað ég væri orðinn gamall. Á menntaskólaárunum hékk ég líka á kaffihúsum og las m.a. ljóð Sigurðar Pálssonar og vildi ólmur komast í hóp skálda og sitja e.t.v. með þeim á Hressó og hlæja að menningarlegum bröndurum.

Á leiðinni upp í vinnu sá ég Erík Örn Norðdahl. Það vantaði á hann hattinn. Hann er varla hálfur maður án hans.

Nýtt TMM er komið út. Þar er einkar skemmtileg grein eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson um endalok DV í þeirri mynd sem það var áður en Baugur keypti það í fyrra. Ég starfaði nokkuð lengi í FF samsteypunni sem lenti í náskyldu gjaldþroti skömmu áður og því þykir mér þetta stórfróðleg lesning.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Það kallar á viðbrögð að tjá sig hispurslaust. Davíð Oddsson mátti til skamms tíma ekki opna munninn og tjá sig utan línu pólitísks rétttrúnaðar án þess að hver einasti dálkahöfundur vinstra megin við miðju og allir helstu kjaftaskar stjórnmálanna þeim megin væru búnir að henda á lofti meginsetninguna og smjatta látlaust á henni og snúa út úr. - Engu að síður var vaxandi sjálfsritskoðun í samfélaginu oft rakin til stjórnarhátta forsætisráðherrans.

En litlir kallar fá líka á baukinn fyrir að halda ekki kjafti. Og ekki halda að ég sé þar með að líkja mér við DO (þó að ég sé betri smásagnahöfundur en hann). Hófsemdarleg umsvif mín síðustu misseri hafa kallað á ummæli eins og: útbrunninn egóisti, stóra steikin, eitt stórt djók og eitthvað í svipuðum dúr. Þarna hafa hins vegar ávallt átt í hlut einhverjir vesalingar sem ná ekki máli og myndu fæstir hafa skrifað nokkuð opinberlega ef netið væri ekki komið til sögunnar. - Núna hefur hins vegar þjóðþekktur rithöfundur kallað mig fádæma heimskan og fullkominn siðleysingja. Það er ekki laust við að ég finni dálítið til mín, að ég hafi þrátt fyrir allt orðið nokkurs heiðurs aðnjótandi.

Sjálfur hef ég síðan bætt um betur og kallað sjálfan mig feitan og sjálfhælinn. Til að vega upp á móti því hef ég líka kallað mig meistara smásögunnar og snemma í haust tók gagnrýnandi í útvarpi upp á því að gera slíkt hið sama og líkti mér í þokkabót við Raymond Carver.

Allt hnjóðið stend ég auðveldlega af mér. Ástæðan er sú að fólk gefur sjaldan frat í sögurnar mínar. Raunar er það yfirleitt svo að menn einfaldlega steinþegja um skáldskap minn og láta eins og hann sé ekki til. Því er það nú svo, og ég viðurkenni það fúslega, að mér er mikill styrkur í jákvæðum ritdómum. Líklega mun dómur Páls Baldvins Baldvinssonar í DV í síðustu viku verða mér mikil hvatning í áframhaldandi skrifum.
Það eru ekki bara hrósyrðin sem gleðja heldur líka hitt að Páll Baldvin skilur greinilega bókina og fangar kjarna hennar í örfá orð:

"Ágúst skrifar stíl sem er hversdagslegur á ytra borði, hann rekur örugglega framþróun persónunnar án þess að láta of mikið uppi, lætur skína í hið óyfirstíganlega, örlögin sem lesandi, höfundur og persóna sætta sig á endanum við. Hann er laus við allar öfgar og stæla, trúr söguefninu sem oftast er sótt í hvunndag karlmanna, sígandi þroska og þekkingu þeirra á aðstæðum sem þeir vildu ráða en geta litlu ráðið um."

Naglinn á höfuðið.

Mér hefur lengi fundist ég vera á hárréttri leið í smásagnaskrifum. Ég hef skynjað að ég nálgast tóninn sem ég vil ná og sá tónn er sannur. En ég hef líka orðið þess áskynja að ég gæti náð listrænum markmiðum án þess að það skipti nokkurn einasta mann máli. Ég gæti átt eftir að skrifa góð verk nánast út í tómið. - Síðan fylgir þessu vesen og streð, það þarf að finna tíma utan vinnudagsins, fórna öðrum áhugamálum, semja við konuna, leggja álag á heimilið og draga úr eigin svefni. Án þess að bera nokkurn veginn eina krónu úr býtum fjárhagslega og án þess að nokkur hafi áhuga á afurðunum.

En að vita af einum lesanda af þessu kaliberi, sem bíður eftir næstu bók, skilur hvað ég er að gera og kann að meta það - það léttir róðurinn við ritun þeirrar bókar.












Ég er svo vitlaus að ég kann ekki að búa til link hér né setja upp tenglakerfi. Samt vann ég á Visir.is í tvö ár og lærði þetta allt saman og meira til. Sem nú er gleymt. Ástæðan fyrir því að ég hef orð á þessu er sú að mig langar að benda ykkur á feykilega góða grein eftir Sigurð Hólm á www.skodun.is um Gunnar í Krossinum. Sigurður Hólm er geysiskarpur hægri krati, góður penni og öflugur blaðamaður sem fjölmiðlar ættu fyrir löngu að vera búnir að taka meira í þjónustu sína en orðið er.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

(Hrifla fyrir kistan.is)
Slarkfær reyfari
Dauðans óvissi tími eftir Þráinn Bertelsson


Skáldsaga er tæplega góður miðill til að draga nýjar, beinharðar og hættulegar staðreyndir fram í dagsljósið. Skáldsaga þykist ekki vera sönn og því er hæpið að trúa henni. Skáldsaga Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími, vísar áþreifanlega og síendurtekið í nýliðna viðburði í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi sem og raunveruleg afbrot sem hér hafa verið framin. Efnisatriðum bókarinnar má skipta í þrennt: Alkunnar staðreyndir færðar í afar gegnsæjan dularbúning, augljóslega skáldaðir atburðir sem umfram allt þjóna spennusögunni og atburðir sem gefið er í skyn að hafi gerst.

Það síðastnefnda hefur á sér kjaftasögu- og dylgjublæ. Ef það vakir fyrir höfundi að telja lesendum trú um að þekktir íslenski kaupsýslumenn hafi framið vafasama gjörninga í Rússlandi og komist í slagtog við glæpasamtök þar í landi, þá er lesandinn svo sem engu nær um það, því þetta er sett fram innan umgjarðar bókar sem öðrum þræði er lygilegur reyfari. Því síður getur lesandinn ályktað af lestri bókarinnar að peningaþvætti hafi í raun átt sér stað innan íslenskra fjármálafyrirtækja. Hann er engu nær um það, ekki frekar en höfundurinn.

Besti hluti bókarinnar er saga tveggja æskuvina sem fremja bankarán í útibúi á Vesturgötu. Þar er nýlegt og alþekkt sakamál rakið en prjónað við það morð og þessir kaflar vekja upp óþægilega spurningar. Bankarán hafa nánast komist í tísku á Íslandi síðustu árin. Hvenær fer eitt slíkt úrskeiðis og hvaða afleiðingar hefur það?

Skáldsögur geta á hinn bóginn verið góður miðill til að lýsa hinu ýmsu þjóðfélagssviðum með áherslu á hið dæmigerða. Forvitnilegt væri að lesa vandaða skáldsögu sem lýsir íslensku viðskiptalífi á almennan hátt. En þessi bók er svo bundin við raunverulega atburði að ekkert í henni nær því að hafa almennt gildi. Sagan festist í því að dylgja um þekkta atburði og nær því aldrei að segja okkur neitt um þennan þátt þjóðfélagsins á almennan hátt.

Sem skáldsaga er sanngjarnast að meta bókina eftir spennugildi, skemmtigildi og uppbyggingu því höfundur leggur auðsjáanlega hvorki áherslu á góðan stíl né djúpa persónusköpun. Um þessa þætti er það að segja að sagan er að mörgu leyti vel uppbyggð og flóknir þræðir hennar eru vel fléttaðir saman. Þegar á líður vekur frásögnin eftirvæntingu.

Á hinn bóginn eru leiðir smíðagallar á sögunni sem augljóslega eiga sér orsök í hröðum ritunartíma hennar: stöðugar endurtekningar þreyta lesandann. Alþekkt er að áhorfanda að spennumynd eða lesanda spennusögu er hlíft við því að upplifa sama atburðinn oftar en einu sinni, ekki nema að endurtekningin hafi sérstakt listrænt gildi og varpi nýju ljósi á atburðinn. Stöðugar endurtekningar atburða í formi samtala í þessari sögu virðast hins vegar eiga sér þá einu ástæðu að ekki hafi gefist tími til að endurskrifa nægilega oft og skera niður.

Eftir stendur þolanlegur reyfari sem undarlegt má heita að vakið hafi jafnmikla athygli og raun ber vitni. Markaðssetning á þar væntanlega allan heiðurinn, nokkuð sem má kalla dæmigert fyrir jólabókaflóðið og við eigum vafalaust eftir að þurfa búa við um ókomin ár.