Ef marka má reglulega umfjöllun vandaðra blaða og tímarita um heimilisofbeldi mætti ætla að það væri aðeins af tvennum toga: líkamlegt ofbeldi eiginmanna gagnvart eiginkonum sínum og kynferðislegt ofbeldi feðra, stjúpfeðra, bræðra og ættingja gagnvart stúlkubörnum. Undanfarin misseri hafa vakið athygli mína ýmis óskyld dæmi um líkamlegt ofbeldi mæðra gegn börnum sínum. Ég velti því fyrir mér hvort um sé að ræða tilviljanir eða toppinn á einhverjum ísjaka sem ekki fær litið dagsins ljós í umræðunni.
Fyrir tveimur árum kyrkti móðir 9 ára gamla dóttur sína í Breiðholti. Síðastliðið vor myrti móðir í Vesturbænum dóttur sína í svefni og lagði til sonar síns með sama hnífi.
Fyrir nokkrum misserum las ég sannsögulega bók, Undir köldu tungli, sem lýsir skelfilegu og skefjalausu ofbeldi móður gagnvart dóttur sinni árum saman. Frægar eru jafnframt sjálfsævisögur Dave Pelzers um sama efni. Í bandarískum sjónvarpsþáttum sem fjalla um sannsöguleg sakamál eru morð mæðra á börnum sínum reglulegt umfjöllunarefni og raunar eru slíkar fréttir almennt nokkuð tíðar.
Ég veit að þetta er hvorki fagleg né vísindaleg upptalning. Ég velti því samt fyrir mér hvort stór hluti af heimilisofbeldi liggi í þagnargildi. Þegar ég ræði þessar óljósu vangaveltur mínar við konur er það viðkvæði algengt að umrædd dæmi séu undantekningartilvik og almennt séu karlar margfalt ofbeldisfyllri en konur. En auðvitað er þetta vitleysa. Ofbeldi á sér stað í fjölskyldum sem eru laskaðar á einhvern hátt og samskipti óheilbrigð. Þar tel ég að sá líkamlega sterkari beiti hinn veikari ofbeldi og kyn gerenda sé aukaatriði. M.ö.o.: ofbeldi er þegar sá sterkari neytir aflsmunar gagnvart hinum minnimáttar. Oftast eru karlar sterkari en konur og konur sterkari en börn.
Í stórum vinahópi mínum fyrirfinnst ekki alkóhólismi, framhjáhald né skilnaðir og almennt virðist fjölskyldulíf í þessum hópi gæfuríkt. Þegar ég leiði hugann að þessum vinum mínum á ég afar erfitt með að sjá að karlarnir í hópnum sé á nokkurn hátt ofbeldisfyllri eða líklegri til að beita ofbeldi. Þetta er einfaldlega hópur karla og kvenna sem ekki eru ofbeldisfull.
Skiljiði hvað ég er að fara? Fyrir nokkrum áratugum lá umræða um kynferðisofbeldi gagnvart börnum í þagnargildi og það var eins og það væri ekki til. Nú vita allir betur.
Skyldi það sama gilda um annars konar ofbeldi, t.d. ofbeldi mæðra gegn börnum? Er ekki mikilvægt að beina athyglinni að öllum fórnarlömbum heimilisofeldis og hífa umræðuna upp úr femínískum farvegi?
Konuhvarfið í Stórholtinu og gæsluvarðhald yfir ofbeldisfullum sambýlismanni og væntanlega morðingja konunnar hefur vakið upp á ný umræðuna um heimilisofbeldi, þ.e. umræðu á hefðbundnum nótum, um ofbeldi karla gegn konum. - Ofannefnd barnsmorð mæðranna tveggja hafa hins vegar ekki kallað fram neina umræðu af slíku tagi.
Þessi málflutningur minn snýst ekki um það að vera á móti konum. Mér finnst bara að í umræðu um ofbeldi megi engin saklaus fórnarlömb gleymast, ekki heldur börnin sem eru svo ólánsöm að eiga brjálaðar mæður. Síst af öllu mega þau gleymast vegna villuhugmynda um algæsku kvenna að feminískrar hugmyndafræði.
Og þar sem sumir lesendur mínir eru ekki á nægilega háu plani í rökræðum ætla ég að forðast ad hominem komment með því að taka fram að móðir mín var mér alltaf góð og beitti mig aldrei ofbeldi.