Við fórum á Tapasbarinn í gækvöld til að halda upp á brúðkaupsafmælið og borðuðum haug af gómsætum smáréttum. Ég var eins og forsetaframbjóðandi í tauinu enda um að gera að slíta eitthvað þessu dóti sem ég keypti í USA, var í dökkbláum teinóttum jakkafötum og með rautt bindi. Á eftir skruppum við á sumarhátíðina uppi í Íslensku á Laufásvegi. Þar voru allir úti í garði, ýmist að búsa eða spila blak. Erla sagði að stemningin minnti sig á Atlavík um Verslunarmannahelgina í gamla daga. Við löbbuðum heim í yndislegu veðri. Á leiðinni spurðu þrír unglingsstrákar okkur til vegar og urðu síðan samferða okkur. Þeir voru á leiðinni í partí á Kvisthaga og virtust aldrei áður hafa komið í Vesturbæinn.
Í dag fór ég með ungum frændum mínum, Sæma og Simma, á bikarleik KR gegn Víði í Garðinum. Þar var brjálað slagveður allan tímann en KR marði þetta, 3-1. Í hálfleik fengum við þær fréttir að HK hefði slegið Skagann út úr bikarnum og vöktu þau tíðindi kátínu. Menn veltu því fyrir sér hvað Óli Þórðar hefði sagt eftir leikinn.
Ég er búinn að horfa á tvo fyrstu leikina á EM í dag, þannig að fótboltinn er að fá sitt núna. Á eftir þykist ég ætla að vinna við handritið enda vel útsofinn.