Getraun helgarinnar og fleira
Grillveislunni á Íslensku var aflýst. Eftir að hafa skúrað íbúðina (til að fá útivistarleyfi) og garfað í þvottahúsinu skrapp ég með vinum á kráarölt. Á leiðinni frá Oliver að Ölstofunni mætti ég ungum rithöfundi og hann slóst í för með okkur. Ungi maðurinn var heillandi, fullur af eldmóði og lifandi áhuga á lífi og listum. Hann flutti fyrirlestra um gítarsmíði, sjómennsku og ótal fleira. Eitt sinn báðu konur á næsta borði um eld tendraðan í vindlinga sína og á sama andartaki og ég var búinn að taka upp minn kveikjara af borðinu hafði ungi maðurinn tendrað tvo vindlinga með sínun kveikjara og lagt hann frá sér að nýju; ekki í daðursskyni heldur til þess eins að fá frið til að halda ræðu sinni áfram.
Hver var ungi maðurinn geðþekki?
Erla var að kíkja á bloggið áðan. "Hvað ert þú að daðra við einhverjar stelpur um að þær séu sveittar í bikini?" - Ég hló að því. En síðan kom öllu alvarlegri athugasemd: "Ertu ekki búinn að fara á bókasafnið síðan 13. maí? Hvað heldurðu að það sé komin mikil sekt á þetta. Nú hringir þú og gengur frá þessu máli."
Samkvæmi og ritstörf munu einkenna helgina í bland. Freyja er í sumarbúðum og allt miklu rólegra og næðissamara en vanalega.
Athugið:
vindlingur=sígaretta
smávindill er smávindill, ekki vindlingur.