laugardagur, júní 25, 2005

Getraun helgarinnar og fleira

Grillveislunni á Íslensku var aflýst. Eftir að hafa skúrað íbúðina (til að fá útivistarleyfi) og garfað í þvottahúsinu skrapp ég með vinum á kráarölt. Á leiðinni frá Oliver að Ölstofunni mætti ég ungum rithöfundi og hann slóst í för með okkur. Ungi maðurinn var heillandi, fullur af eldmóði og lifandi áhuga á lífi og listum. Hann flutti fyrirlestra um gítarsmíði, sjómennsku og ótal fleira. Eitt sinn báðu konur á næsta borði um eld tendraðan í vindlinga sína og á sama andartaki og ég var búinn að taka upp minn kveikjara af borðinu hafði ungi maðurinn tendrað tvo vindlinga með sínun kveikjara og lagt hann frá sér að nýju; ekki í daðursskyni heldur til þess eins að fá frið til að halda ræðu sinni áfram.

Hver var ungi maðurinn geðþekki?

Erla var að kíkja á bloggið áðan. "Hvað ert þú að daðra við einhverjar stelpur um að þær séu sveittar í bikini?" - Ég hló að því. En síðan kom öllu alvarlegri athugasemd: "Ertu ekki búinn að fara á bókasafnið síðan 13. maí? Hvað heldurðu að það sé komin mikil sekt á þetta. Nú hringir þú og gengur frá þessu máli."

Samkvæmi og ritstörf munu einkenna helgina í bland. Freyja er í sumarbúðum og allt miklu rólegra og næðissamara en vanalega.

Athugið:
vindlingur=sígaretta
smávindill er smávindill, ekki vindlingur.

föstudagur, júní 24, 2005

Pistill í Speglinum í dag.

KR vann Þrótt og vinnur Val í næsta leik.

Grillveisla á Íslensku í kvöld ef það rignir ekki.

Gott að hafa tvær sögur að skrifa til skiptis, vitandi að þær verða ein á endanum. Ég skrifa of lítið samt.

Þetta er skyldufærsla sem ber með sér að ég nenni ekki að blogga í dag.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Hvað á ég að gera með vindlana? Ef ég er að smella í einhvern geðveikan heilsugír þá passar ekki að reykja. Vil samt ekki fara fram úr sjálfum mér. Ég er að hugsa.

Varúð - knattspyrna

http://kr-ingar.spjall.is/ Ný spjallsíða fyrir KR-inga.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Geirlaugur Magnússon skrifar afar lofsamlegan dóm um ljóðabók eftir kornungan höfund í nýjasta hefti TMM. Því miður vill höfundurinn ekki láta nefna sig á nafn á þessari síðu en þið getið tékkað á þessu í TMM. Geirlaugur sparar yfirleitt hrósið eins og flestir vita.

Ég var að klára næsta útvarpspistil og tek hann upp á morgun. Ég hef ekki eytt mikilli vinnu í hann en engu að síður hefur hugmyndin verið að gutla í mér lengi, hef ekki klárað hann fyrr vegna leti. Ef einhverjum þótti síðasti pistill húmorslítill þá get ég lofað því að þessi pistill verður algjörlega húmorslaus. Stíllinn hæfir þar efninu. Grafalvarlegur.

Næsti pistill verður hins vegar líklega fremur ljóðrænn og pínulítið fyndinn.

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=45696 Bíddu nú við. Er þetta ekki blaðamaður? Var þetta örugglega ekki upplýsingaöflun?

Húsgagnasali sveif á mig uppi á Hlemmi í hádeginu og sagði mér algjörlega formálalaust að hann hefði skrifað smásögur alla ævi og fengi aldrei neitt birt. Þetta var eins og áhugagítarleikari væri að tala við Jimi Hendrix. Við kvöddumst með handabandi.

Varúð - knattspyrna

Keppa Argentína og Þýskaland til úrslita um heimsmeistaratitilinn næst?

Eða eru Þjóðverjarnir nógu góðir? Fæstir efast um getu Argentínumanna nú um stundir. Ég sá ekki leikinn í gær en menn segja að bæði liðin hafi spilað gríðarlega vel.

http://www.eyvindurkarlsson.com/ Eyvindur skrifar um Michael Jackson málið fyrir stuttu. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvort Jackson er barnaníðingur eða ekki en hafi hann misnotað þennan dreng þá hafa móðir drengsins og saksóknari heldur betur brugðist fórnarlambinu því skv. nánast öllum fréttum sem maður fékk af málinu var málatilbúnaðurinn með ólíkindum og ég er reyndar steinhissa á að kviðdómurinn hafi ekki sýknað Jackson á fimm mínútum í stað viku.

Ég hef ekki farið á bókasafnið síðan föstudaginn 13. maí. Er kominn í skuld með bækur en það hefur ekki gerst lengi. Ég nenni samt ekki að fara fyrr en í næstu viku.

Fannst ykkur ekki gott að fá að vita þetta?

þriðjudagur, júní 21, 2005

Vígbúist, fitubollur!

Að skrúfa fyrir neyslu á sykri, hveiti og geri er líkt og að fara inn í aðalstöðvar matarfíknarinnar með sleggju og mölva þar allt mélinu smærra. Hafðu þetta fíkill! Krassbamm!

Þannig virkar það a.m.k. í 8. viku, hvað sem síðar verður.

Háskóla - miðaldra

Er að hlusta á Roundabout með Yes.

Prófarkalestrarenskuslettuvænisýki

Ég hef verið að telja mér trú um að ritháttur á borð við "minn bíll" eða "þín ánægja" væri hálfgerð enska en "bíllinn þinn" og "ánægja þín" góð íslenska. Og ég hef verið að reyna að leitast við að snúa þessu á betri veginn í auglýsingatextum. Síðan var ég að glugga í Land og syni eftir Indriða G. um helgina (skólaútgáfa með svakalega leiðinlegum verkefnum eftir hvern kafla sem gjörsamlega eyðileggja lestraránægjuna) og greip niður í samtöl bænda og þeir segja: Minn bíll og minn hestur og mín jörð o.s.frv.

Nærfataskúffa - mikilla tíma!

Kuldaviðbjóðurinn sem setti í mig hóstann í vor kominn aftur. Ég fór þess vegna í bol í morgun undir hvítu skyrtuna og svörtu jakkafötin. Ég fann engan hvítan bol lausan við áletrun en valdi á endanum gamlan bol af Erlu og sneri honum öfugt, þannig að framhliðin er hvít eins og á nærbol. Gangi ég jakkalaus um hér má hins vegar lesa greinilega af baki mínu: My sister went to Spain and all I got was this lousy t-shirt!

Jón Andrésson í Háskólabíói í haust. Spennandi. Ég held mikið upp á Yes en einhvern veginnn gæti þetta orðið dálítið píkulegt ef hann er þarna án þeirra. Vil a.m.k. fá að vita hljóðfæraskipan áður en ég kaupi miða.

Tékkið á Viðhorfsgrein Kristjáns G. Arngrímssonar í Mogganum í dag. Feministar - gætið ykkar á klisjunum ef þið viljið vera í snertingu við sannleikann. Það besta sem börn geta fengið er uppeldi tveggja skikkanlegra foreldra af gagnstæðu kyni. Er ég núna að falla í klisjurnar? Tja, mín börn eiga foreldri sem hlustar á þau af þolinmæði og elju sama hvað þau hafa að segja, annað foreldri sem þau hlýða á stundinni þegar nóg er komið, foreldri sem slæst við þau og leikur, foreldri sem kennir þeim, sem spilar fótbolta við þau, sem spáir í músík með þeim, sem lætur of mikið eftir þeim, sem lætur of lítið eftir þeim. Einhvern veginn virkar blandan mjög vel, held ég.

Vinnufélaginn sem ég særði í gær meldar sig veikan í dag.

BE A MAN!

Á Háaleitisbraut er undarleg bensínstöð. Í stað þjónustumiðstöðvar og greiðasölu við bensíndælurnar er þar pizzustaður sem enginn virðist sækja. Ekkert annað en pizzur er þar til sölu. Á planinu er bifreið með sprunginn hjólbarða og hefur staðið þar óhreyfð í sex mánuði. Nú á tímum er erfitt að ímynda sér nokkurn verslunarmann í Reykjavík láta slíkt viðgangast á svæði sínu. Erfitt er að sjá hvernig starfsemin getur borið sig - nema eitthvað annað búi að baki en það sem blasir við augum. Eða bensínið sé svona drjúgt.

Ég veit ekki. Kannski eru þeir nýbúnir að opna. En þetta virkar undarlega á mig.

Stundum, kannski ekki oft, en stundum skortir á kurteisi í samskiptum bloggara og netverja almennt. Af því tilefni legg ég til að tekinn verði upp dagur þérunar og herrunar/frúunar/frökenunar meðal íslenskra bloggara. Gaman væri ef þessi dagur yrði haldinn hátíðlegur fyrir sumarlok.

Ég særði vinnufélaga í dag. Hann gerði dálítil mistök og ég sagði hann hefði verið valinn heimskasti starfsmaður stofunnar. Þetta átti að vera meinlaust grín en reyndist ekki vera það. Hann meðtók afsökunarbeiðni mína en sagði: Gætið tungu yðar, herra. Kannski ekki alveg orðrétt, en eitthvað í þessa veru.

mánudagur, júní 20, 2005

Strandfiðringur hinna miðaldra og feitu

http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=44783 Skiljiði mig núna? Egill er á Krít og ég er að fara þangað 11. júlí. Það eru ekki bara konurnar sem hafa útlitskomplexa.

Krít er annars málið í mínum kreðsum. Jón Óskar Sólnes er þar líka (þeir ættu nú aldeilis að geta lyft sér upp núna, hann og Egill), Kári vinur minn fer þangað í ágúst eða september.

Ég kom frá Skagafirði snemma í gærkvöld. Ferðin heppnaðist ansi vel. Ég klúðraði þremur dauðafærum í stöðunni 9-9 í fótboltaleik helgarinnar, hafði verið í markinu framan af en lenti fyrir slysni í framlínunni, þar sem ég á ekki heima og eyðilagði þar með sigurinn og við töpuðum 9-10. Á kvöldvökunni var ég hins vegar afar óvænt heiðraður fyrir að stuðla að knattspyrnuiðkun í árlegum helgarferðum hópsins.

Ýmislegt fleira bar til tíðinda, m.a. það að á laugardeginum sat ég þrjá tíma við fartölvuna í veitingasal í Varmahlíð á meðan liðið fór á hestbak og varð bara ansi mikið úr verki.

Við gistum annars í Keldudal, sem er í um 15 km fjarlægð frá Sauðárkróki. Veðrið var ekkert sérstakt miðað við höfuðborgina en þó sást oft til sólar.

Stelpurnar endurfluttu fyrir okkur atriði sem hafði slegið í gegn hjá þeim á stúdentaskemmtuninni á Akureyri tveimur dögum áður. Í millikaflanum var afar lostafullur dans. Þær höfðu fengið mikið feedback frá salnum á Akureyri en uppskáru núna bara undrunarfulla þögn og voru ekki alveg sáttar við það.

Í hádeginu núna á eftir verður mér afhent nokkuð sérstæð og merkileg gjöf: Ensk þýðing sögunnar Hverfa út í heiminn. Líklegt er að ég prófi að fá hana birta í e-u erlendu tímariti, svona aðallega til gamans og láti þá eins og sagan sé ný enda er hún alveg tímalaus. Reyndar þarf ég að byrja á því að láta fara yfir þýðinguna. Þetta er svo sem ekki efst í forgangsröðinni þessa dagana heldur eru það skáldsagan og pistlarnir. En fljótlega kíki ég á þetta mál. Þetta er annars gott dæmi um hvað ég á góða lesendur þó að þeir séu kannski ekki ýkja margir.

Já og núna eru sjö kíló farin.