föstudagur, júní 10, 2005

Feitur sigur

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=44438 Gefast betri tilefni til að linka?

Stillið viðtæki yðar ...

... á Rás 1 eða 2 um kvöldmatarleytið. Spegilinn hefst kl. 18.25.

Og nú veit ég ekki nema að bloggfærslan sem bíður verði útvarpspistill. Það fer eftir ýmsu, t.d. hvernig tiltekin mál æxlast á næstunni, hvort ég geti sannreynt að ég hafi rétt fyrir mér, hvort eitthvað sé úrelt eftir tvær vikur. Ef ég skrifaði þennan pistil í dag yrði hann býsna eldfimur. Frægur bissnissmaður sagði einu sinni: Sá kann allt sem bíða kann. - Þetta verður reyndar ekki löng bið, en það er gaman að doka við, ígrunda, hugsa sinn gang ...

og segja hm.

Ég fór út í dyr áðan og sá þéttvaxinn rauðklæddan mann skokka (það var ekki ég sjálfur) niður Bragagötu, framhjá Þvottahúsi A. Smith. Ég sneri aftur inn og hugsaði um færsluna/pistilinn eitt andartak. Fór aftur út í dyr og nákvæmlega sami maður kom aftur skokkandi nákvæmlega eins, niður Bragagötu, framhjá þvottahúsinu. Var ég að upplifa sama augnablik upp á nýtt eða fer maðurinn í svona litla hringi?

fimmtudagur, júní 09, 2005

Meira af frægu fólki og nú nafngreint

Friðrik Erlingsson hefur látið af störfum á Íslensku auglýsingastofunni. Mér skilst að hann hafi mörg járn í eldinum og e-ð af því á sviði ritlistar. Erpur Eyvindarson hefur hins vegar hafið störf á sama stað (en engan veginn í sama starfi og Friðrik). Sá piltur býður af sér góðan þokka. Ég hitti hann í dag þegar ég var nýkominn úr upptökunni uppi í Efstaleiti og bar pistlana og Spegilinn á góma. Erpur virðist ekki halda vatni yfir mótpistlahöfundi mínum: "Já, hann er alveg frááábær." Mér vafðist tunga um tönn: "ehemm, hm, já ... ööö ... ágætur."

Skrapp niður í Eymundsson undir kvöldið og mætti þar Elísabetu Ólafsdóttur, sem var að afgreiða. Ég heilsaði henni og hún tók hálfundrandi undir kveðjuna. Ég held hún hafi ekki haft hugmynd um hver þetta var. Hins vegar vissi ég ekki betur en hún væri byrjuð að vinna á auglýsingastofu og hef m.a.s. hlustað á skemmtilegar útvarpsauglýsingar eftir hana. Hvernig er það, er unga fólkið að vinna sér til óbóta í góðærinu?

Þessi stutta færsla þarfnast ekki ótal kommenta en þetta er frjáls veraldarvefur

Það gengur virkilega vel að skrifa í kvöld. Án þess að ég geti nokkuð um það fullyrt er þessi möguleiki kominn upp á borðið:

2 nóvellur = skáldsaga

Nokkuð alvöruþrungin og ósjálfhverf bloggfærsla bíður í drögum. Væntanlega klára ég hana fyrir helgi. Á hinn bóginn veit maður aldrei hvað verður um það sem liggur í salti.

Tók upp pistilinn áðan. Hann var fjórar og hálf mínúta. Hann var aldrei svo langur þegar ég tímamældi hann. Það var gaman að hitta Ævar Örn enda unnum við saman á Vísi fyrir nokkrum árum. Hann er kannski með bók í haust. Hvers vegna er ég alltaf að tala um Vísi? Hættur því. En held áfram að linka.

KKG - It´s party time!

http://www.visir.is/?PageID=91&NewsID=44251 Í vissum skilningi er það meira og skemmtilegra afrek að ná jafntefli í síðari leiknum gegn Svíum eftir að hafa unnið fyrri leikinn. Halda sér á jörðinni og halda dampi.

Mér þykir vissulega vænt um Vísi. Ég vann þar um skeið, oft á erfiðleikatímum í rekstri þessa fræga netmiðils og allan tímann gerði maður (og aðrir) sér grein fyrir möguleikunum sem fólust í honum, en það voru aldrei til peningar til að láta draumana rætast. Það er virkilega gaman að sjá hvernig hefur ræst úr.

miðvikudagur, júní 08, 2005

"Maturinn var volgur, hún hlaut að vera nýbúin að hita hann upp: pasta með ostasósu, skinku og salati. Hann borðaði í nokkrum flýti, ergilegur yfir heimsókninni. Valgerður var áfram á þönum. Hún opnaði hún bökunarofninn og tók út úr honum tvo brúna tertubotna. Hann hafði ekki hugmynd um tilefnið og vildi síst af öllu spyrja um það. "

Þetta var afrakstur kvöldsins. Hvað myndi Stephen King segja?

Ég má rífa kjaft við Kristjón Kormák og það er ekki bindindisrof. Ég veit að það gleður hann.

Barnaland

Það getur stundum verið einfalt að vera pabbi. Erla var búin að snúast töluvert í kringum Kjartan í kvöld en ég var annars hugar út af sögunni sem ég á að vera að skrifa núna en ekki þessa bloggfærslu. Erla hæddist dálítið að mér fyrir sljóleikann og ég vissi upp á mig skömmina. En ég veit líka hvað slær öllu við, svo ég byrjaði að yggla mig og stappa niður fótum og drengurinn hljóp skríkjandi inn í rúm. Hann vissi að það var að byrja bardagi. Hann öskraði af tilhlökkun þegar hann heyrði mig þramma inn í herbergið. Svo byrja hin ógnvænlegu átök, honum er haldið uppi í loftinu, hann er kreistur og honum er fleygt niður á rúmdýnuna. Hann fær jafnvel létt karatehögg á hálsinn og bakið. Ég gæti þess að gefa hæfilega eftir á köflum (en ekki of mikið né of lengi) og emja undan höggunum frá honum og spörkunum. Ég held að hann trúi því virkilega að hann eigi í fullu tré við mig. Ég ætlaði aldrei að losna en veitti honum a.m.k. korterslöng slagsmál með hléum. Hann hefði verið til í að halda áfram í alla nótt.

Þannig að ef maður nennir ekki að hlusta á börnin sín eða tala við þau þá er bara að slást við þau. Þeim finnst það miklu skemmtilegra, a.m.k. fimm ára strákum.

Við tölum reyndar mikið um handbolta og fótbolta og ýmis heimspekileg málefni en ég held aldrei athyglinni þegar hann fer að lýsa tölvuleikjum eða júgeóköllum. Hann verður að lifa við það.

Stelpan fékk miklu hærri einkunnir en vonast var til, reyndar alveg prýðilegar. Ég sagði henni að ég væri stoltur af henni. Hélt að málið væri þar með úr sögunni en stuttu eftir hrósyrðin afhenti hún mynd: áletruð ástarjátning og stórt bleikt hjarta.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Ákveðinn vandi varðandi skipulag ritstarfa í vikunni kom til umræðu áðan. Fjármálastjóri fyrirtækisins hæddist mjög að áhyggjum mínum. Ég viðurkenni að þær eru ekki miklar á heimsvísu. Ég er búinn að semja við Erlu um tvö kvöld að heiman í vikunni og vil raunar ekki vera meira í burtu. Annað var gærkvöldið. En ég skrifaði bara hálfa síðu í gærkvöld, sem er arfalélegt. Datt í sjónvarpshandboltann og fleira. Erla leggur til fimmtudagskvöldið og það er raunar óhjákvæmilegt því þá verður haugur af vinkonum hennar heima að æfa atriði fyrir stúdentsafmæli á Akureyri síðar í mánuðinum. Gallinn er sá að nú er tiltektarvika í vinnunni og henni lýkur með e-k hátíð á fimmtudagskvöld. Ég get því valið á milli fertugra píkuskrækja heima eða fyllerísláta í vinnunni þetta kvöld og hvorugt virkar vel fyrir skriftir. Þá eru það kaffihúsin, fartölva og hégómi. Kannski. En maður veit aldrei hversu mikið næði er á slíkum stöðum.

Eins og fjármálastjórinn segir: Margir vildu skipta á vandamálum við mig.

Það er að mörgu leyti furðuleg tilfinning að vera ekki lengur átvagl þó að það hafi bara staðið yfir í fimm vikur. Frá upphafi bindindisins hef ég ekkert skeytt um að skera niður magn heldur lagt alla áherslu á að útiloka ákveðnar fæðutegundir og neyta annarra. Undanfarið hefur hins vegar slegið mjög á græðgi og lyst. Stundum líður mér eins og ég hafi glatað einhverju, sem er furðulegt, því það er einskis að sakna.

Ég get varla beðið eftir því að komast á stíginn og skokka. Absúrd. Er ég að breytast í viðundur?

Ég vaknaði hálfslappur í morgun, eins og ég hefði verið of hress í gær og það þyrfti að jafna þetta út. En morgnarnir hafa svo sem aldrei verið minn tími.

mánudagur, júní 06, 2005

Ísland - Svíþjóð 36-32

Mjög gaman og ekki orð um það meir.

http://www.visir.is/?PageID=90&NewsID=43903 Þessi linkur er tileinkaður Kristjóni Kormáki.
Konan á auðvitað allan minn stuðning, það er tilefnið. Hvernig er það með hið hræsnisfulla almenna siðgæði, er mottóið "Einu sinni klámstjarna, alltaf klámstjarna"? Má þetta fólk ekki breyta um starfsvettvang? Er það ekki einmitt það sem siðferðispostularnir vilja?

Útvarpspistillinn sem ég skrifaði í síðustu viku er frekar snjall en engin meistarsmíð. Gæti vakið hæfilega umræðu á ákveðnu sviði. Hann mætti ekki vera styttri, tekur sléttar fjórar mínútur í flutningi. Ég veit ekki hvort ég bæti inn í hann nokkrum setningum, á eftir að kanna hvort hann þolir það.
Pistillinn hans EÖN var líklega í það lengsta, þó tímamældi ég hann ekki. - Ég var búinn að skrifa drög að fleiri pistlum en ákvað síðan að bíða með að klára þá og láta smá deadline spennu hleypa í þá krafti. Þetta er líka ekki nema hálfsmánaðardæmi og óþarfi að gera þetta að of miklu puði.

Sló garðinn í kvöld og málaði og skrapaði í dag. Erla er þó búin að gera miklu meira eins og svo oft áður. Ég klíndi á mig málningu áðan, eftir að ég var búinn að skipta um föt og þurfti að fara með terpentínu á belti og gömlu gráu jakkafötin. Mikið er annars gaman að vera með bloggsíðu. Hvergi annars staðar gæti maður fundi tilefni til að segja frá svona smámunum. Annars er ég búinn að vera óttalegur klaufi við þessi verk, líkt og oftast áður, mundi t.d. ekki hvernig átti að starta sláttuvélinni. Nágrannarnir hlæja að mér og vorkenna Erlu.

Þyngdartapið, vellíðan af breyttu mataræði og skokki, ásamt sólbrúnku, hefur bætt útlit mitt, eflt hégómaskap og viðheldur hæfilegum skammti af ljósgráum fiðringi. Jón Óskar sagði á laugardaginn að ég hefði sjaldan litið betur út. Hann lítur reyndar ansi vel út sjálfur, kallinn, eftir mikla golfiðkun í góða veðrinu undanfarið. Sem betur fer erum við báðir giftir og gagnkynhneigðir, svo þessir gullhamrar höfðu ekkert vafasamt í för með sér.

Ég fór í fjölskylduafmæli í dag upp í Bryggjuhverfi og reytti af mér brandara. Veislan var afar skemmtileg þó að mér þyki hverfið allt hið viðbjóðslegasta. Ekki spillti fyrir að gestgjafarnir
voru með mikið af kolvetnasnauðum mat á boðstólum.

Skrapp niður í vinnu núna í kvöld eftir ekki-Sartre-puðið heima og er að glugga í handritið. Svaf til hálfellefu í morgun svo ég ætti að geta komist eitthvað áleiðis. En þá þýðir ekki að vera að blogghangsi.

Sjáumst á morgun.

sunnudagur, júní 05, 2005

Helgin fer mikið til í málningarvinnu, garðslátt og annan smáborgaralegan viðbjóð sem Jean Paul Sartre hefði aldrei snert á. Nánast ekkert skrifað. Ég fæ líklega tvö kvöld frameftir í vikunni (og ætla rétt að vona að þau verði ekki eyðilögð með aukavinnu) og svo ætla ég að vera röskur heima seint á kvöldin og á næturnar. Ég þarf að skrifa ca. 20 síðna kafla sem leyniyfirlesarinn vill fá 20. júní. Pressa getur verið nauðsynleg. Í rauninni hef ég varla skrifað staf síðan ég kláraði fyrsta kaflann um miðjan maí. Nú tek ég annan sprett.

Annars er allt gott að frétta. Skrapp með Jóni Óskari á landsleikinn í blíðviðrinu í gær. Við fórum fótgangandi frá Miklubraut og löbbuðum til baka niður á Hlemm. Það var dálítið eins og að hverfa 20 ár og þar yfir aftur í tímann enda fórum ansi oft saman á Laugardalsvöllinn í gamla daga.

Er að fara út að skokka með Erlu eftir smástund. Þið ættuð öll að fara út að sprikla og reyna að skara fram úr svo Þorgrímur Þráins verði ánægður með ykkur.

Það eyddist færsla um föstudagskvöldið. Ég nenni hreinlega ekki að endurskrifa hana. Kvöldið heppnaðist vel.