Vaknaði kl. 5 í morgun og byrjaði að hósta. Ég lýsi þeim hósta ekki, hann var ófagur og tók langan tíma. Missti þar að auki af morgunblundinum fyrir 10 því Erla hafði týnt veskinu sínu og allt fór í pat. Veskið fannst þó að lokum. Mætti með hor, hósta og 3ja tíma svefn í vinnuna. Þar voru engin grið gefin. Annars gekk lygilega vel. Það er svo ótrúlega misjafnt hvernig auglýsingatextar takast í fyrstu atrennu, oft fer það eftir því hversu vel maður hefur verið fóðraður um óskir viðtakandans. Ég gerði áhlaup að hálfvonlausu verkefni, alveg við það að leka út af, skrifaði nokkrar línur á örfáum mínútum og svarið var: YES! Frábær texti! - Ég sá það líka sjálfur þegar ég las yfir að þetta smellhitti. Yfirleitt eru auglýsingatextarnir mínir ekki nema sæmilegir vegna þess að mig skortir metnað. Ég held hins vegar að ég sé prófarkalesari langt yfir meðallagi, enda eins gott, því í hvert sinn sem finnst villa er eins og kviknað hafi í.
Ég þarf annars að fara að taka mig taki, fyrir utan það að láta mér batna. Aginn hefur verið lítill undanfarið og ég þarf að fara að nýta tímann vel aftur eins og ég hef svo oft gert. Það er líka stutt í útvarpspistlana. Er búinn að fá hugmyndir að tveimur en hef hvorugan skrifað. Kollegi er örugglega að rembast við að skera niður og stytta svo hann sprengi ekki tímaramann, hann á ekki í vandræðum með þetta sá.
Já, KR tapaði í Keflavík. Ég fór ekki þangað vegna heilsunnar. Liðið virðist langt frá því að smella saman. Gefum þeim tíma.
Blöðin eru byrjuð að sítera mig aftur. Freyja misskildi eitthvað Sandkornsgreinina í DV á mánudag, en hún og vinkona hennar ráku augun í þetta úti í bakaríinu á Fálkagötu. Freyja sagði grettin: "Það stóð í DV að þú værir að fara að ættleiða barn með einhverri Lilju Sæmundsdóttur."