laugardagur, maí 28, 2005

Síðasta blogg fyrir helgi

Þetta fer inn til að forðast misskilning: Færslan að neðan, sem átti að vera kveðja mín inn í helgina, hefur ekkert að gera með vísnagerð og innlegg lesenda minna undanfarið. Ég hef ekki fundið fyrir óvild í þeim skrifum og þessi færsla snerist heldur ekki um að ég kveinkaði mér undan óvild í minn garð. - Á fögru vorkvöldi kom hins vegar ýmis konar gamalt hnútukast upp í hugann, sumt tengist óbeint bæ fyrir vestan, annað kann að tengjast enn óbeinna borginni Brüssel. Svona hugrenningar í rökréttu framhaldi af vel heppnuðu bindindi í vor.

Ekki meira um það.

Nú fer ég í ótengdu tölvuna.

Góða helgi.

föstudagur, maí 27, 2005

Ég vildi að ég gæti sæst við alla óvini mína. Þeir eru fáir og af svo ómerkilegum tilefnum. Ekkert í spilinu sem verðskuldar raunverulega óvild, dramatíska óvild. En maður vill hafa borðið alveg hreint í staðinn fyrir næstum hreint.

Ég veit ekki einu sinni hvort þeir eru til, raunverulegir óvinir. Skilgreiningaratriði.

Hvað hefur komið fyrir/yfir manninn?

Góða helgi.

Ég er að hugsa um að vera offline um helgina og blogga ekki neitt. Það bíða verkefni sem þarf að fara að einbeita sér að. Á mánudaginn set ég væntanlega áminningu inn á mína eigin síðu sem bloggvörður. En hvernig er það, hvenær opnar Tumi sína síðu?

fimmtudagur, maí 26, 2005

Vaknaði kl. 5 í morgun og byrjaði að hósta. Ég lýsi þeim hósta ekki, hann var ófagur og tók langan tíma. Missti þar að auki af morgunblundinum fyrir 10 því Erla hafði týnt veskinu sínu og allt fór í pat. Veskið fannst þó að lokum. Mætti með hor, hósta og 3ja tíma svefn í vinnuna. Þar voru engin grið gefin. Annars gekk lygilega vel. Það er svo ótrúlega misjafnt hvernig auglýsingatextar takast í fyrstu atrennu, oft fer það eftir því hversu vel maður hefur verið fóðraður um óskir viðtakandans. Ég gerði áhlaup að hálfvonlausu verkefni, alveg við það að leka út af, skrifaði nokkrar línur á örfáum mínútum og svarið var: YES! Frábær texti! - Ég sá það líka sjálfur þegar ég las yfir að þetta smellhitti. Yfirleitt eru auglýsingatextarnir mínir ekki nema sæmilegir vegna þess að mig skortir metnað. Ég held hins vegar að ég sé prófarkalesari langt yfir meðallagi, enda eins gott, því í hvert sinn sem finnst villa er eins og kviknað hafi í.

Ég þarf annars að fara að taka mig taki, fyrir utan það að láta mér batna. Aginn hefur verið lítill undanfarið og ég þarf að fara að nýta tímann vel aftur eins og ég hef svo oft gert. Það er líka stutt í útvarpspistlana. Er búinn að fá hugmyndir að tveimur en hef hvorugan skrifað. Kollegi er örugglega að rembast við að skera niður og stytta svo hann sprengi ekki tímaramann, hann á ekki í vandræðum með þetta sá.

Já, KR tapaði í Keflavík. Ég fór ekki þangað vegna heilsunnar. Liðið virðist langt frá því að smella saman. Gefum þeim tíma.

Blöðin eru byrjuð að sítera mig aftur. Freyja misskildi eitthvað Sandkornsgreinina í DV á mánudag, en hún og vinkona hennar ráku augun í þetta úti í bakaríinu á Fálkagötu. Freyja sagði grettin: "Það stóð í DV að þú værir að fara að ættleiða barn með einhverri Lilju Sæmundsdóttur."

Hver er ljóðskáldið sem neitaði að borga rauðvínsflöskuna og taldi sig hafa samið um að greiða fyrir hana með ljóðakveri? Sagður um þrítugt? Einhver sem ég þekki? Nýhil? Lafleur-útgáfan?
Veit einhver hver maðurinn er?

miðvikudagur, maí 25, 2005

Ég tók minn fyrsta veikindadag á Íslensku í gær eftir mikil og ærandi hóstaköst nóttina á undan. Þetta er ekki komið í lungun en ég verð að fara varlega næstu daga. Kemst ekki á leikinn í Keflavík annað kvöld og skokk er út úr myndinni. Mikið að gera í vinnunni og lítið bloggað.

Ef Ágúst Ólafur getur ekki farið í meiðyrðamál við DV út af því sem birtist þar um hann í dag, og unnið málið, þá ætti hann að segja af sér sem varaformaður Samfylkingarinnar.

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=42541 Viljum við skipta á þessu og samræðustjórnmálum og systralagi í bland við Vinstri græna? Til hvers?

þriðjudagur, maí 24, 2005

Erla er loksins komin á nýja bílinn, Hondujepplinginn CVR. Gréta í vinnunni keypti Toyotuna.
Ég er ekki ennþá kominn með bílpróf. Mér fannst ég dálítið einkennilegur í dag þegar Erla var að vígja nýja bílinn og ég ekkert að spá í þetta. Ég aðstoðaði hana þó töluvert við að selja Toyotuna, fann m.a. kaupandann þó að það hafi verið dálítil KR-heppni.

Bloggvörðurinn

Ég hef útnefnt sjálfan mig bloggvörð og ætla að fylgjast með því að fólk uppfæri bloggsíðurnar sínar reglulega.

Rosalega held ég að það geri mig vinsælan. En það er innan marka bindindis.

Háskóla light

Það er þáttur um Brian Wilson og Smile í sjónvarpinu á miðvikudagskvöld. Man ekki alveg klukkan hvað. Tékkum á því.

mánudagur, maí 23, 2005

Ég er með mikinn og djúpan hósta þessa dagana og svefninn er vel hormettaður og snörlandi. Ég hef verið að viðhalda þessum hálfgildingsveikindum með skokki í norðanrokinu og leiknum í gærkvöld þar sem veðrið var skelfilegt. Engu síður er ég ansi brattur. Ég kláraði nýlega langþráðan kafla í handritinu og hef ekki almennilega byrjað á þeim næsta (sem ég á reyndar uppkast að, ágætis vinnugagn en ekki boðlegur texti). Gaman væri að komast dálítið af stað með kaflann í kvöld. Ég yrði sáttur við eina góða síðu, 450 orð.

Heyrðu, ég veit ekki ennþá alveg um hvað þessi síða mín er en kurteisi er í seinni tíð eitt af markmiðunum og henni má ekki gleyma:

Þess vegna óska ég Ingibjörgu Sólrúnu til hamingju með glæsilegan stórsigur í formannskjörinu í Samfylkingunni og Ágústi Ólafi til hamingju með varaformanninn.

Fór með allri vísitölufjölskyldunni á KR-FRAM í kvöld. Vantaði ekkert nema köttinn. Skítabrjálæðiskuldi en góður sigur og hörkufín stemning. Erla og jafnvel Freyja voru alltaf að hasta á mig, náðu ekki upp í nefið á sér yfir munnsöfnuðinum og öskrunum í manninum. "Hey, konur, má maður ekki lifa sig inn í leikinn", segi ég. Kjartan, 5 ára, nam hvert einasta atriði í leiknum frá upphafi til enda. Ef drengurinn reynist ekki hafa næga knattspyrnuhæfileika, nokkuð sem ég hef enga hugmynd um, þá á hann örugglega eftir að verða íþróttafréttamaður. Hann er farinn að stúdera boltaleiki með fullri einbeitingu út í gegn.

Leikurinn fór semsagt 1-0 og kannski má segja að við höfum aftur verið dálítið heppnir. Og þó. Þetta var naumur baráttusigur. Mér sýnist Frammararnir ekki vera neitt lélegir lengur (þó að ég hafi látið þannig í stúkunni) og gæti trúað því að þeir hristi af sér fallbaráttuna í ár.

Yndisleg stemning í KR-heimilinu fyrir leik þar sem fólk mætti tímanlega. Mörg kunnugleg andlit sem alltaf er gaman að sjá á hverju vori. KR-samfélagið er engu líkt.

sunnudagur, maí 22, 2005

Það fór hrollur um mig við að fylgjast með Elínu G. Ólafsdóttur í Silfri Egils áðan. Er mikið af svona fólki í Samfylkingunni? Ótakmarkað yfirlæti í búningi mannúðar, sjúkleg persónudýrkun, þokukenndur málflutningur sem á sér upptök einhvers staðar hátt uppi í skýjunum þegar maður er búinn að horfa lengi á sólina og er þar að auki milli svefns og vöku þar sem maður liggur í grasinu; fyrirlitning á stjórnmálamönnum (saltstólpar og pokar sem hafa ekkert að segja), karlfyrirlitning, öfgafullur feminismi. Athyglisvert í þessum þætti þar sem menn eru gjarnir á að grípa frammi hver fyrir öðrum svo oft heyrast ekki orðaskil langtímum saman: Það sló vandræðalega þögn á alla í hvert skipti sem þessi foringjadýrkandi hafði mælt.

Mér leið illa.