fimmtudagur, september 14, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060914/LIFID01/109140012/1120 Er þetta listrænn gjörningur eða bara vinnan hans? Eða hvorttveggja? Sumir listamenn eru svo lagnir að koma sér í fjölmiðla að þeir gera það að listgrein í sjálfu sér.

miðvikudagur, september 13, 2006

Varist eftirlíkingar

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1223485 Alvöru rokk. Ekkert supernóva eftirlíkingakjaftæði.

þriðjudagur, september 12, 2006

Ein athugasemd um Tom Cruise málið

Man einhverri eftir þeirri hugmynd að það að vera listamaður feli í sér að gera það sem manni sýnist, vera einkennilegur og sérvitur og kæra sig kollóttan um almenningsálit? Og almenningsálitið fyrirgefi listamönnum allt ef listin er góð? - Já, man einhver eftir þeirri hugmynd að alvöru listamenn séu hreint út sagt geðveikir?

mánudagur, september 11, 2006

Á þessum degi fyrir 5 árum horfði ég á flugvélarnar lenda á Tvíburaturnunum í beinni útsendingu á sjónvarpsskjá; það var líklega opið fyrir CNN þegar þetta gerðist. Þetta var á fréttastofu Vísis.is sem hrundi sjálfur í þeirri mynd nokkrum mánuðum síðar. Það var mikið havarí í kópí og peisti, þýðingum og jafnvel fréttaskrifum þann dag á netmiðlinum, og menningarskríbentinn var ekki heldur undanþeginn þeim verkum. Ég tók hlýðinn við fyrirmælum frá Eiríki Hjálmarssyni en auðvitað man ég lítið eða ekkert eftir verkefnunum.

Eitthvað breytist lestrarplanið. Ég stóðst ekki mátið og keypti Carol Shields smásagnadoðrantinn í dag, tæpar 600 síður. Muriel Spark bókinni verður líklega skilað ólesinni á safnið aftur, en ég les Anne Tyler skáldsöguna, sem mér líst mjög vel á, og þar sem Alice Munro getur tæpast skjátlast, mun ég líklega liggja í þessum sögum eftir Carol Shields í allan vetur. - Greinarnar í Hug ætlaði ég alltaf að lesa betur en líklega verður ekki af því fyrr en í næstu sumarbústaðarferð, eða sólarlandaferð anno 2007. - Þetta er raunsæi.

sunnudagur, september 10, 2006

Við reynum að búa okkur til kreppur fyrst engin alvöru vandamál herja á okkur. Staðreyndin er sú að Erla er ekki fullkomlega ánægð á Tómasarhaganum. Sjálfur verð ég að viðurkenna að af vinum okkar eigum við ljótasta heimilið. Hjá öðrum er meira pláss og allt er nýrra og ferskara. Við reifuðum þetta í heimsókn í gær og Erla sagði eitthvað á þessa leið: Ég vil hafa minn eigin garð, ég er bara sveitastelpa og náttúrubarn og vil geta gengið út á morgnana og haft gras undir fótunum. - Ég ranghvolfdi í mér augunum en svo fékk ég móral.

Fyrir utan einkagarðleysið eru barnaherbergin mjög lítil og eldra barnið er farið að kvarta daglega undan þrengslum. Og af því við höfum aldrei ákveðið hvort við ætlum að búa þarna um ókomna framtíð eða ekki þá gerum við ekkert fyrir húsnæðið. Eldhúsinnréttingin er gömul og allar hurðir sjúskaðar og ljótar. Gólfin eru fín, baðherbergi nýlegt, rafmagnið gamalt að hluta.

Lítið mál væri að kljúfa raðhús eða lítið einbýli í viðbjóðslegum hverfum (engin nöfn nefnd) eða stöðum sem eru of langt í burtu (Hafnarfjörður). Hvorki ég né Freyja gætum hugsað okkur að flytja svo langt frá núverandi heimahögum og Erla áttar sig á því að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur þegar enginn Ægissíðustígur er í augsýn. Í mínum huga koma nokkur önnur hverfi en Vesturbærinn til greina en þau hverfi eru eiginlega alveg jafndýr. Ég er t.d. mjög hrifinn af Seltjarnarnesinu, ekki er mikið úrval af hæfilega litlu húsnæði þar, en þó eitthvað.

Við náðum ágætri lendingu í morgun: að stefna á rað, par eða lítið einbýli eftir sirka þrjú ár. Þá væri ákveðnum sparnaðarmarkmiðum náð og í versta falli gætum við endað á því að skulda 20 milljónir eða þar um bil. Síðan er að reikna hvað þetta þýddi mikla greiðslubyrði.

Altént er málið komið í hægan en öruggan farveg. Ég átti frumkvæðið að því að höggva á hnútinn og kaupa mér frið. Allt var þetta þó sagt í einlægni og ég minnti hana á að tvisvar áður hefðum við haft sambærileg markmið, tekið höndum saman og allt lukkast vel: Fálkagatan og Tómasarhaginn.

Ég hitti sjálfstæðismann í dag, ekki þekktan eða mjög virkan, en afar sannfærðan, sem vildi losna við stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn eftir næstu kosningar. Hann vildi helst að Sjálfstæðisflokkurinn næði lendingu með Vinstri grænum. Ástæðan: Framsóknarflokkurinn væri harðari á stóriðjustefnunni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Hér að neðan er síðan tengill á grein úr ungliðahreyfingunni (og enga fordóma þó að greinarhöfundur líti út fyrir að vera 12 ára á myndinni):

http://www.frelsi.is/greinar/nr/3998

Er ágreiningur í Sjálfstæðisflokknum um framtíð þessara mála? Og hvernig mun þeim ganga að móta og kynna hægri-græna stefnu? Verður ágreiningur milli stjórnarflokkanna? Vill einhver endalausa fjölgun og stækkun álvera? Vilja framsóknarmenn það og engir aðrir?

Mig langar í heildarútgáfu á smásögum Carol Shields. Bókin er til í Eymundsson. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hana en ástæðan fyrir þessum áhuga er einfaldlega sú að Alice Munro dásamar sögurnar í tilvitnun á kápunni. Erfitt að finna betri meðmæli með smásagnasafni.