föstudagur, september 10, 2004

Hvað er skemmtilegra en gamlar bækur? Keypti tvö gömul smásagnasöfn eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson hjá Braga og Ara Gísla í gær. Á spássíu einnar síðu annarrar bókarinnar hefur verið skrifað mikið á máli sem virðist vera esperanto. Líklega hefur lesandinn freistað þess að þýða textann á síðunni yfir á þetta mál frekar en að um bókmenntalegar skýringar sé að ræða. Hvað ætli sé langt síðan þetta krot átti sér stað? 30 ár? 40 eða 50?

Samkvæmislíf með fræga fólkinu blasir við í dag. Í hádeginu hitti ég Rúnar Helga á kaffistofu Þjóðminjasafnsins og í kvöld ætla ég að drekka bjór með hinum eina og sanna Valdimar Tómassyni, skáldi, útgefanda, plakatálímara, vini rithöfunda, flogaveikisjúklingi og sveitapilti.

fimmtudagur, september 09, 2004

Ég hlýt að vera einhver heilbrigðasti offitusjúklingur landsins. Ég verð 42 ára eftir tvo og hálfan mánuð. Ég er 190 sm á hæð og veg 114 kg. Þessi 114 kg eru eina slæma talan í heilsufari mínu. Ég get nú eftir fjögurra vikna þjálfun skokkað 10 kílómetra á vel innan við klukkustund. Ég hef aldrei nein eftirköst af hlaupunum, fæ ekki í bakið, fæ ekki hálsríg, er hvergi aumur og á hlaupum fæ ég aldrei hlaupasting.

Áðan var ég að gefa blóð eins og ég geri á þriggja mánaða fresti. Við mælingu í Blóðbankanum reyndist blóðþrýstingurinn vera 75-130 sem er optimal og púlsinn milli 60-70 slög á mínútu.
Allt nema þyngdin er á æskustigi. Óneitanlega væri skemmtilegt að ná henni niður, nokkuð sem hefur veist mér erfiðara en nokkuð annað. En spurning hvort ég springi úr heilbrigði ef það tekst.

Þurfa allir að skipta um þjálfara núna? KR, handboltalandsliðið og fótboltalandsliðið. Það er ekki öfundsvert að vera þjálfari en ljóst að það er hægara að skipta um þjálfara en lið. Ég styð þjálfaraskipti hjá KR og handboltalandsliðinu en gefum Ásgeiri og Loga nokkur tækifæri í viðbót.

Einhver maður er búinn að safna saman haug af bloggsíðum, þar á meðal minni. Ég sker mig nokkuð úr hópnum og virðist hafa lent þarna vegna stjórnmálaskoðana þó að aldrei hafi ég verið virkur í flokkstarfi. Flest hitt fólkið er meðlimir í ungmennadeildum Sjálfstæðisflokksins, háskólanemar á þrítugsaldri. Fólkið virðist vandað, heilbrigt og vel gefið, en það er sama hvað ég reyni, ég get ekki látið eitt einasta orð á bloggsíðunum þess vekja mér áhuga. Og þar með á ég auðvitað erfitt með að trúa því að nokkur geti haft áhuga á því að lesa þessa síðu mínu, enda eru lesendurnir vafalaust ekki margir.

Hvers vegna er þetta ekki áhugavert? Þetta eru lýsingar á hversdagslegu lífi og ég er rithöfundur sem legg mikið upp úr lýsingum á hversdagslífi og ég er gluggagægir að eðlisfari. En málið er það að bloggsíður eru ekki fyrir gluggagæja, þær eru óáhugaverðar fyrir rithöfund vegna þess að viðfangsefnið sjálft ræður ferðinni. Þegar fólkið sjálft hefur yfirhöndina og stjórnar sýningunni á sér þá er það ekki spennandi. Allt annað mál að hlera rifrildi þess eða fylgjast með því þegar það skoðar sjálft sig í spegli án þess að hafa hugmynd um að nokkur sé að fylgjast með því. Eða að fá einfaldlega að leggja fyrir það nokkrar spurningar sem það er ekki búið undir.

miðvikudagur, september 08, 2004

Í Viðskiptablaðinu í dag er ritdómur um bók sem kom út árið 1985. Dögg Hjaltalín skrifar um bókina Reynir Pétur og Íslandsgangan eftir Eðvarð Ingólfsson. Fyrir neðan eru allar þessar upplýsingar sem fylgja ritdómum: Titill, höfundur, útgefandi, útgáfuár. - Mig er ekki að dreyma, ég er staddur í vinnunni. Furðuleg smáfyndni þetta í Viðskiptablaðinu, hálfgerður Tvíhöfðahúmor.

þriðjudagur, september 07, 2004

Ég hef hvað eftir annað hikað við að skrifa færslur undanfarið. Ástæðan er sú að líf mitt er mjög leiðinlegt þessa dagana, þ.e. skemmtilegt fyrir mig en leiðinlegt fyrir lesendur. Hver hefur áhuga á því að ég hafi farið í tvö matarboð um helgina, skokkað með konunnni og mér hafi liðið vel? Boring. Því miður, ég er ekki nógu óhamingjusamur til að líf mitt geti orðið áhugavert. Lesið frekar sögurnar mínar. Þær eru á bókasafninu og ein kemur í bókabúðir fyrir lok október.

Eitt smáatriði stendur þó upp úr og er þess virði að skýra frá. Við höldum húsfund í kvöld vegna steypuviðgerða. Um helgina dreifði ég miðum með fundarboðum í nágrannalúgurnar. Kjallarabúinn á lítinn bolabít, meinlausan en fjörmikinn og kom geltandi á móti mér þegar ég birtist fyrir framan dyrnar. Ég smeygði blaðinu inn um lúguna en hundurinn hremmdi það með kjaftinum og tuggði það. Ég lét mig hverfa og vissi ekki hvort hann hefði gleypt blaðið. Núna megið þið teikna og lita mynd af hundinum að borða fundarboðið frá mér.

sunnudagur, september 05, 2004

Í Lesbókinni um helgina er fjallað um útgáfubækur haustsins. Ekkert er þar minnst á meistara smásögunnar en það stendur til bóta síðar. Einnig er ekkert minnst á skáldsögu Gerðar Kristný en þó var farið yfir listann hjá Máli og menningu. En það sem vekur mesta athygli mína og eftirvæntingu er söguleg skáldsaga Þórarins Eldjárns um barón þann sem Barónsstígur er kenndur við. Ég las dálítið um þann náunga í ævisögu Einars Ben. eftir hinn eina og sanna Guðjón Friðriksson og það verður virkilega gaman að sjá fortíðina á Barónsstíg lifna við á síðum Þórarins. Þetta er pottþétt afmælisgjöfin mín 19. nóvember. Þórarinn er lunkinn og slípaður stílisti og það fer raunar alltaf eftir efninu sem hann velur sér hvernig honum tekst upp. Þar er hann ekki mjög vandlátur. Sumar smásögurnar eru ansi góðar, t.d. Eins og vax, en aðrar nauðaómerkilegir fimmaurabrandarar um hland í sundlaug eða eldhúsáhöld. Ég er viss um að skáldsaga um baróninn svíkur ekki.