Það er óhugnanlegur leikur að taka öfga í pc-viðhorfum (pólitískri rétthugun -flathyggju) og ýkja þá pínulítið. Það er gert í þessari frönsku skáldsögu, Litla stúlkan og sígarettan. Höfundur leikur sér með tvennar pc-öfgar, annars vegar hernaðinn gegn reykingum (og tengir hann líka við umhverfisverndarhyggju), hins vegar dýrkun og upphafningu á börnum. Hvorttveggja mjög áberandi í samtímanum. Barnakarlinn ég, sem er alltaf að leika við strákinn minn, gisti með honum í fótboltaferðum úti á landi og er bekkjarráðsfulltrúi hjá stelpunni í Hagaskóla, ég hef hvað eftir annað geðvonskast á þessu bloggi yfir hjárænulegri og falskri barnadýrkun sem veður uppi í samfélaginu, engum til góðs og börnunum örugglega ekki. Ég skelli upp úr þegar ég les þetta sama óþol fyrir upphafningu barnsins í hugskoti aðalpersónu bókarinnar.
Í sögunni skellur tveimur meginþráðum saman: 1) Dauðadæmdur fangi krefst þess að fá að reykja síðustu sígarettuna sína áður en hann er tekinn á lífi. Annars vegar hefur hann lagalegan rétt á því, hins vegar er bannað að reykja í fangelsinu. Úr þessu verður mikið mál sem fer til Hæstaréttar. Þá kemur til sögunnar þriðji meginþáttur í háðsádeilu bókinnar: raunveruleikasjónvarp og auglýsingamennska samtímans. Með fjölmiðlaskrumi er fanginn gerður að þjóðhetju og loks náðaður af forsetanum.
2) Á sama tíma gerir borgarstarfsmaður sig sekan um að reykja sígarettu inni á klósetti í ráðhúsi borgarinnar. Hann gleymir að læsa að sér og lítil stúlka kemur að honum reykjandi. Ekki er þverfótandi fyrir börnum í ráðhúsinu enda hefur borgarstjórinn látið útbúa þar stórt dagvistarheimili og börnum vaða uppi, dýrkuð af borgarstarfsmönnum og njóta ávallt forgangs.
Aðalpersónan þolir hins vegar ekki börn og segir telpunni að drulla sér burtu. Hann er hins vegar sakaður um að hafa leitað á stúlkuna og lokkað hana með sér inn á klósett. Stuttu síðar er hann brennimerktur sem barnaníðingur og allar varnir gegn þessum fáránlega áburði virðast vonlausar.
***
Það sem hefur alltaf hrifið mig við frjálshyggjuna er einstaklingsfrelsið, ekki peningarnir og hagfræðin. Mér hefur alltaf þótt frjálshyggjumenn leggja áherslu á frelsi einstaklingsins á meðan vinstri menn leggja áherslu á velferð og forgang hópa (konur, börn, svartir, samkynhneigðir, vændiskonur). En ef allir eru jafnfrjálsir þarf ekki að berjast fyrir réttindum hópa enda hættir slíkri baráttu alltaf til að vera á kostnað réttinda einstaklinga sem standa utan hópanna.
Frjálshyggjan er að klikka úti um allan heim vegna þess að hið taumlausa fjármálafrelsi gekk ekki upp. Hér á landi blæðum við skelfilega fyrir það að bankarnir fengu að vaxa ríkinu margfalt yfir höfuð, fjárplógsmenn sem ættu í raun bara að reka súlustaði keypti hverja tuskubúðakeðjuna af annarri og fengu lánað úr sjóðum sem geymdi sparifé sem átti að vera ávaxtað án áhættu. Svo fátt eitt sé nefnt.
Við þessu verður að bregðast með heiftarlegri miðstýringu. Við erum að hverfa aftur til blandaða hagkerfisins á sjöunda og áttunda áratugnum, vonandi ekki enn lengra aftur.
En á þeim tíma gat fólk eins og mamma mín rekið sjoppur og litlar matvöruverslanir. Öll viðskipti hér á landi hafa undanfarin ár verið á hendi örfárra risastórra viðskiptablokka. Þegar við jöfnum okkur eftir hrunið gætu skapast splunkuný viðskiptatækifæri fyrir venjulegt fólk, það verður miklu meira pláss á markaðnum. Þannig veitir blandaða hagkerfið sumpart meira frelsi því það þrífst ekki eins mikil samþjöppun á markaðnum í því; í blandaða hagkerfinu hefur ríkið sjálft verið óþarflega fyrirferðarmikið, ekki viðskiptablokkir.
En mun miðstýringin verða til þess að virðingin fyrir einstaklingsfrelsinu þverr aftur? Myndast opnari sóknarfæri fyrir sósíalfasismann sem svo sannarlega hefur látið bera á sér undanfarin ár, en hefur alltaf verið í minnihluta? Árið 1999 las ég frumvarpsdrög frá Vinstri grænum um bann við kynlífsþjónustu. Sum ákvæði frumvarpsins voru þannig að þau fóru mjög nálægt því að banna sjálfsfróun karlmanna. Í það minnsta var þar hægt að fá eins árs fangelsisdóm fyrir að kaupa sér klámblað eða brása pornó á vefnum.
PC-fasismi hefur lengi vaðið uppi en kannski mun kreppan og breytingarnar sem hún veldur færa honum alræðisvald.
Mér er þegar farið að hrjósa hugur við öllu réttsýna fólkinu er sem nú er byrjað að tala um að hefja þurfi til vegs og virðingar sannari og fegurri gildi en frjálshyggjan hélt á lofti. Mér hrýs hugur við öllu presta-, feminista- og félagsfræðingastóðinu sem gæti fyllt mannlífsbótanefndir með valdheimildir næstu árin. Feministastrákarnir eru byrjaðir að veifa sínum bleiku bókum, Páll Skúlason heimspekingur mætir í hvert viðtalið af öðru og prestarnir blogga sem aldrei fyrr.
Allir að níða niður frjálshyggjuna því nú er lag fyrir forræðishyggju.