Sko. Það þarf inngang að þessu. Lesendur þessarar síðu vita að ég er fremur hallur undir Sjálfstæðisflokkinn. Þeir vita líka að ég hef stundum minnst á það að mér þyki Fréttablaðið draga taum stjórnarandstöðunnar og Morgunblaðið taum Sjálfstæðisflokkins. Ég hef hins vegar aldrei kallað blaðamenn Fréttablaðsins leigupenna Baugs né nokkrum öðrum slíkum ónefnum enda þekki ég sumt af þessu fólki persónulega. Ég hef ekki talið mig geta tekið ákveðna afstöðu í svokölluðum Baugsmálum enda veit ég í raun ekki frekar en aðrir hver gerði hvað og svo framvegis.
Ég get hins vegar ekki gert að því en ég varð nánast miður mín af lestri Bakþanka hennar Sigríðar Daggar Auðunsdóttur í dag. Málflutningur hennar er í stuttu máli þessi: Sjálfstæðisflokkurinn ærðist vegna gagnrýni á ræðu DO á Landsfundi. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera lítið úr efnahagstillögum Vinstri grænna eftir landsfund þerira. Ergo: Sjálfstæðismenn eru ekki samkvæmir sjálfum sér.
Það sem Sjálfstæðismenn æstu sig hins vegar yfir, með réttu eða röngu, var fjölmiðlaumfjöllun um Landsfund þeirra: Annars vegar það að Fréttablaðið skuli birta sem forsíðufyrirsögn mjög gildishlaðna einkunn ISG á ræðu DO og hins vegar að Kastljósið hafi látið ISG ræðu DO í té áður en hún var flutt, svo hún gæti gagnrýnt hana nánast í sama mund og hún var flutt.
Með öðrum orðum: Með réttu eða röngu gagnrýndu Sjálfstæðismenn matreiðslu blaðamanna á ummælum andstæðinga þeirra um það sem fram kom á Landsfundinum. Auðvitað efast þeir hins vegar ekki um rétt þessara stjórnmálamanna til að gagnrýna það sem þar kom fram.
Að þessi gagnrýni feli í sér að stjórnmálamenn afsali sér réttinum til að gagnrýna tillögur og málflutning hvers annars eins og hann birtist á Landsfundi, er algjörlega absúrd. Þorgerður Katrín er ekki fjölmiðill, hún er stjórnmálamaður, og auðvitað er hún ekki ósamkvæm sjálfri sér þó að hún setji út á tillögur Steingríms Joð. Það er síðan fjölmiðlanna að setja fram og matreiða þau ummæli en ég minnist þess ekki að þau hafi birst gæsalappalaus sem forsíðufyrirsögn, líkt og ummæli ISG um ræðu DO.
Þetta er algjörlega ga-ga málflutningur. Það slæma við hann er að hann kemur úr penna blaðamanns sem skrifaði t.d. fréttir um Baugsmálið byggðar á tölvupóstum. Ennfremur aðrar afhjúpandi og fyrir ríkisstjórnina slæmar fréttir um sölu ríkiseigna. Auðvitað vilja allir trúa því að hlutlaus rannsóknarblaðamennska hafi þar ráðið för og vel má vera að svo hafi verið. En þess vegna er alveg skelfilegt að sjá hinn sama blaðamenn finna sér jafn aumt og rökþrota tækifæri til að kasta hnútum við Sjálfstæðisflokkinn - með grein sem er ekki betri en hvert annað píp og gagg.
Ég vildi óska þess að blessuð konan, sem vel má vera að sé stórgóður blaðamaður, hefði ekki birt þessa grein.