laugardagur, júní 19, 2004

Þýskaland vinnur Lettland á eftir 1-0. Ballack skorar markið. Svo gera mínir menn jafntefli við Tékka og dröslast upp úr riðlinum. Þeir verða slegnir út í undanúrslitum. Eða skyldu þeir komast í enn einn úrslitaleikinn?

Það verður gaman að fara á KR-Fram á mándudagskvöldið því leiktíminn er sögulegur, kl. 21 um sumarsólstöður. KR verður að vinna þennan leik, það er óþolandi að horfa upp á liðið í 6. sæti. Ég get ekki afborið það að KR verði aftur miðlungslið og veit að sem betur fer sættir enginn annar sig við það af þeim sem hafa með liðið að gera.

Merkisdagur í dag, 19. júní. Ekki hefði ég viljað vera uppi fyrir daga jafnréttis
kynjanna. Ef það væri árið 1950 þyrfti ég að vinna einn fyrir heimilinu og sjá um peningamálin og bílinn, nokkuð sem Erla gerir miklu betur. Ég myndi að vísu sleppa við húsverkin en hefði lítinn tíma til að skipta mér af krökkunum því ég yrði að vera í aukavinnu til að sjá fyrir okkur öllum. Ætli krakkarnir væru ekki dauðhræddir við mig, þeir sæju mig bara af og til um helgar, væru alltaf sofnuð þegar ég kæmi heim úr vinnuni á kvöldin. Og hvenær ætti ég sð skrifa? Jæja, eflaust hefði rithöfundurinn aðlagað sig þessu einhvern veginn en skelfilegt væri að fá þetta lífsmynstur skyndilega yfir sig eins og annað í fortíðinni.

Svo er náttúrulega spurning hvort jafnrétti ríki hjá okkur, hvort minn hagur sé ekki betri en hennar. En sé svo snýst sú niðurstaða um samninga okkar og togstreitu sem tveggja einstaklinga, þar sem annar er rithöfundur ofan á fullt starf, en kyn okkar eru þar ekkert atriði. En er annars eitthvað að því þó að hún nýti lausa stund til að þrífa gluggana en ég skrifi á meðan?

Mér hefur alltaf fundist jafnréttisbaráttan vera líka barátta fyrir betra mannlífi í heild, barátta fyrir réttindum barna og fyrir betri fjölskyldum. Aukin réttindi kvenna hafa ekki tekið neitt frá mér sem karlmanni heldur fært mér betra líf. Ég vildi gjarnan að launamisrétti kynjanna yrði endanlega þurrkað út, en ég ber enga sök á því og hef ekki hærri laun en konur í sambærilegum störfum. Ég hefði ekkert á móti því að konur væru yfirmenn í vinnunni, það skiptir mig bara engu máli. Vonandi eru flestir karlar farnir að hugsa svona, tel það reyndar líklegt.

En þar með sé ég enga ástæða til að líta á konur sem heilagar verur og að ekki megi setja út á þær, sem kyn og sem einstaklinga, rétt eins og karla. Vænisýki um karlrembu og annar pólitískur réttrúnaður minnig mig á kommúnistaofsóknir McCarthy´s og jafnvel galdraofsóknir þó að afleiðingarnar séu vitanlega saklausari.


Ég var að uppgötva mér til skelfingar að Beta Rokk grenjar yfir kvikmyndinni The Awakenings. Ég grenjaði yfir henni þegar ég sá hana með Erlu í Stjörnubíói um eða upp úr 1990. Ég vil helst ekki eiga neitt sameiginlegt með þessari stúlku og hún ekki með mér. Nú er ég búinn að lofa sjálfum mér að fara aldrei inn á síðuna hennar aftur. En þið sem eruð mikið á netinu þið þekkið það að maður skoðar þar allan fjandann, líka efni sem höfðar ekki til manns. Ég veit að fullt af fólki sem þolir mig ekki heldur áfram að skoða þessa síðu mína. Ég er t.d. alveg viss um að konan sem kastaði upp yfir kommentakerfið um daginn er enn að lesa færslurnar mínar.

Eða var það örugglega kona? Var það kannski strákur í bleikum bol sem búinn er að læra að sjá karlrembu út úr öllum fjandanum, rétt eins og heittrúarmenn sjá djöfulinn alls staðar?

föstudagur, júní 18, 2004

Norðannepjan farin í dag og veðrið milt í hádeginu. Það er víst oftast nær skást að hafa sólarlaust í Reykjavík því sólinni fylgir oftar en ekki ísköld hafgola. Ég er farinn að bregða mér upp á Hlemm í hverjum hádegismat þó að það taki of langan tíma. Ef rólegt er í vinnunni stel ég nokkrum mínútum framan og aftan af matartímanum. Ég fékk mér ommelettu á Kaffisetrinu og þar var Íslendingur eitthvað að eiga við passa og dvalarleyfi ungra Austurlendinga. Gaf betlara tvö hundruð kall á horni Rauðarárstígs og Laugavegar. Hann var ekkert yfir sig hrifinn. Á hverju átti hann von? Þúsundkalli? - Á Kaffi Roma fékk ég mér mér latte. Það mætti fara að skipta um myndlistarsýningu þar, stóru olíumálverkin hafa hangið þarna í 3 ár. Og þó. Ekki viss um að ég sé enn orðinn leiður á þeim. Þetta eru risastórar andlitsmyndir í anda ofurraunsæis. Mér skilst að málarinn sé lítt þekkt stúlka. Gaman að sjá alvöru talent í ungu fólki, ekki bara einhver græn strik á gangstéttirnar eða plastfiska og fíflalæti við Ægisíðu og úti í Nauthólsvík.

Ástæðan fyrir því að ég minnist yfirleitt á þetta hádegishlé er þó enn ónefnd. Ég átti leið framhjá höggmyndagarðinum við Freyjugötu og það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei stigið inn í hann. Sá nokkra túrista í gegnum garðshliðið. Ég hugsaði með mér og eflaust réttilega að ef ég væri ekki Íslendingur heldur erlendur túristi með Erlu og krökkunum hér í Reykjavík (segjum að við værum frá Hildesheim í Þýskalandi) þá værum við líklega búin að fara oftar ein einu sinni í þennan garð. Kannski að túristar kynnist ýmsum hliðum á Reykjavík sem ég sé aldrei? Ég hef a.m.k. aldrei sofið á gistiheimili við Snorrabraut. Það væri örugglega sérstök tilfinning.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Fyrir mörgum árum gekk um götur borgarinnar maður sem sagt var að ferðaðist með vindáttinni. Það voru reyndar vinir mínir, Jón Óskar (Sólnes) og Kári, sem gáfu honum þessa umsögn, þegar við höfðum mætt honum á Skólavörðustígnum á miðjum níunda áratugnum. Ég ætlaði að fara að segja þeim að ég þekkti til mannsins en eins og vanalega hlustuðu þeir ekkert á mig.

Ástæða þess að maðurinn var sagður ferðast með vindáttinni var holdafar hans. Hann var ákaflega grannholda og bar þess sérstaklega merki í kinnfiskasognu andlitinu. Ég hafði haft kynni af honum sirka 12 árum áður, síðvetra 1973, og hann hafði ekkert breyst síðan þá. Hann var kennari minn í 11 ára bekk Landakotsskóla þann vetur, þá kornungur maður. Hann var ekki prestur en samt hluti af þessu leiðinlega, kaþólska, guðstalandi, ásakandi og stranga presta- og nunnusamfélagi sem tengdist öllu þessu dóti á Túngötunni, Landakotskirkju, -spítala og -skóla. Ekkert var eins öfundsvert og unglingar og ungt fólk þegar ég var 11 ára, enda fengu ungmenni að láta hár sitt vaxa, héngu á sjoppum, óku bílum og skellinöðrum, hlustaðu á gaddavírsrokk, keluðu og drukku brennivín í kók. Svo fór reyndar að fátt af þessu vakti áhuga minn þegar ég hafði aldur til, en það er önnur saga.

Kennarinn grannholda lifði hins vegar ekki í þessum ungmennaheimi. Hann var snöggklipptur og gamaldags í klæðaburði, honum stökk aldrei bros, fálátur og prúður, en of huglaus til að vera strangur. Það var erfitt að ímynda sér hann eiga einkalíf sem tilheyrði fullorðnum, mér fannst hann ekki geta átt kærustu, drukkið áfengi, reykt, farið í bíó eða hvaðeina sem virtist spennandi. Hann leit út fyrir að gera ekki annað en kenna, lesa biblíuna, fara í kirkju og borða dálítinn hafragraut (en væntanlega mjög lítið af honum miðað við holdafarið).

Þennan vetur var ég í sérstæðu vinasambandi við strætisvagnastjóra sem bjó heima hjá okkur um skeið en var hvorki faðir minn sé stjúpfaðir. Sá maður hefur væntanlega verið um þrítugt þennan vetur. Ég fór stundum með honum á strætóvaktirnar, hékk frammi við bílstjórasætið og við töluðum um fótbolta, handbolta og bíómyndir. Kvöld eitt bauð hann mér í ellefubíó í lok vaktarinnar. Ekki veit ég hvers vegna hann var laus af kvöldvakt til að komast í ellefubíó en þannig var það, ég man m.a.s. að þetta stóð tæpt og við komum aðeins of seint á myndina. Ennfremur að myndaúrvalið var slakt í bænum þetta kvöld og það eina sem kom til greina var mynd um fjölbragðaglímukappa sem sýnd var í Laugarásbíói og var bönnuð innan 12 ára. Við hefðum frekar kosið að sjá almennilega karatemynd eða glæpamynd með Charles Bronson en þetta varð að duga. Myndin stóð reyndar fyrir sínu og einn fjölbragðaglímukappinn lét lífið í hringnum.

Fyrir framan mig okkur í bíóinu sat maður sem virtist annaðhvort vera tvífari kennarans eða kennarinn sjálfur. Hann var með nákvæmlega eins hárgreiðslu og þegar sýningu lauk sá ég að hann var í eins fötum, köflóttum jakka og rauðum rúllukragabol og andlitið var nauðalíkt. Lengi vel velti ég því fyrir hvort þetta væri virkilega kennarinn. Hárfínn en afar mikilvægur munur var þó á þessum mönnum, þessum tvíförum: Maðurinn í bíóinu var ekki grindhoraður þó að hann væri grannur, hann var ekki einn heldur með konu sér við hlið og hann skellihló stundum yfir myndinni auk þess að háma í sig sælgæti. Ekkert af þessu gat átt við kennarann grannholda.

Ég gat samt aldrei losnað við þá tilfinningu að þessi maður væri með einhverjum hætti kennarinn, á einhvern þann hátt sem aðeins getur þrifist í röksamhengi draumsins. Hugmyndin var af meiði tvífaraminnisins í bókmenntunum þó að ég hefði enga hugmynd um það þá. Með öðrum orðum gat ég ekki losað mig við þann grun að kennarinn ætti sér annað sjálf sem væri miklu skemmtilegra en það sem blasti við mér í skólanum, en frá hans sjónarhóli væntanlega hin myrka og djöfullega hlið á honum sjálfum.



þriðjudagur, júní 15, 2004

Hvers vegna finnst manni konur alltaf vera betri en karlar? Þær eru það ekki en manni finnst það alltaf og dæmir þær alltaf vægar. Er það partur af arfleið karlaveldisins, hin hliðin á þeim peningi? Er það áróður feminista? - Hér kemur dæmi. Í morgun las ég á vef Bild Zeitung að 26 ára gömul kona hefði verið ákærð fyrir að misnota 13 ára strák. Bild er að vísu DV Þýskalands en staðreyndir málsins virðist þó vart hægt að véfengja enda er þetta dómsmál. Konan hellti drenginn fullan, flekaði hann og ofsótti hann síðan eftir það, sem og barnunga kærustu hans. Skynsemin og dómgreindin segja að þetta sé alvarlegur glæpur en eitthvað í manni ypptir öxlum og minningin um eigin unglingsár öfundar drenginn. En hefði þetta verið 26 ára gamall karlmaður og 13 ára stelpa þá fyndist manni maðurinn vera ófreskja.

Hér heima var maður tekinn af lífi dag eftir dag á forsíðu DV fyrir að totta 15 ára strák. Það liggur ekki einu sinni fyrir að þetta sé lögbrot. Ekki myndi ég vilja að sonur minn legðist með þrítugum karlmanni þegar hann verður 15 ára, en væri ég samkynhneigður, nei segjum frekar: þegar ég var 15 ára, hefði þrítug kona tottað mig þá, hefði mér fundist það svo slæmt? Væri minningin slæm? - Þessar vangaveltur breyta ekki því að fullorðið fólk á að láta börn og unglinga í friði þegar kemur að kynlífi. En málin eru engu að síður misalvarleg.

Þegar móðir myrðir barnið sitt að nóttu, atburður sem minnir á hryllingsmynd, þá fer hið annars óvægna og dómharða DV um hana silkihönskum. Og það sama gerir maður sjálfur ósjálfrátt. Áherslan er á orðið "harmleik" og maður hugsar um ógæfu og sjúkleika konunnar fremur en annað. En hefði karlmaður gert þetta þá sæi maður umfram allt fyrir sér djöful í mannsmynd.


mánudagur, júní 14, 2004

Utanlandsferða nýtur maður löngu eftir að heim er komið. Þær valda því að Reykjavík er ekki lengur þreyttur staður með götum sem maður þekkir of vel til að hafa gaman af þeim og kaffihúsum sem eru orðin leiðingjarnari en eldhúsið heima. Eldhúsið heima hættir m.a.s. að vera leiðingjarnt. Eftir að hafa gengið um stóra og litla staði í Kalíforníu og Arizona, merkilega og ómerkilega, og snætt á alls kyns veitingastöðum, þá fer ég að skynja Reykjavík líka sem borg í heiminum, með sinn framandleika. Smáatriðin öðlast líf. Át eggjaköku á Ítalíu í hádeginu og þar er viðarbrún vifta í loftinu og viftan speglast í glerborðplötunni. Tvær stúlkur koma inn, önnur ófrísk. Ég góni á þær. Ég góni á fólk sem heldur að ég sé kynóður eða að ég telji mig þekkja það, en aumingja fólkið veit ekki að meistari smásögunnar er alltaf í leit að efni.

Útlandatilfinning greip mig líka í fótboltaferðinni um helgina. Eftir leikinn í Garði snæddum við á veitingastað í Keflavík og horfðum þar á Portúgal - Grikkland á breiðtjaldi. Lítill veitingastaður, ungur stimamjúkur strákur afgreiddi okkur. Regnið lamdi gluggana og geðvonskulegar trjáhríslur voru á iði. Og mér fannst ég vera á ferðalagi í Bandaríkjunum, t.d. í einhverjum smábæ eins og Bolder City. - En auðvitað passaði veðrið ekki. En það er líka rigning víða í útlöndum. Kannski fannst mér ég vera í Kanada, þangað sem ég hef aldrei komið.

Enn gengur mér erfiðlega að fá áhuga að lesa skáldsögur svo ég tók tvö smásagnasöfn á Borgarbókasafninu í dag. Eina eftir O. Henry og aðra eftir Katherine Mansfield. Mansfield er án efa að mínu skapi og skrýtið að ég hafi ekki lesið hana fyrr, ekki nema eina eða tvær sögur. Ég hef líka furðulítið lesið eftir O. Henry, sem ætti í rauninni að hljóma álíka undarlega og að ég hefði aldrei farið á KR-völlinn. Ég ætla umfram allt að spá í endana hjá honum og uppbygginguna yfirleitt. Ég hef ekki verið maður óvæntra enda en það kann að vera að breytast. Staðreyndin er sú að ég hef hæfileika í að skapa einföld en snjöll plott og maður þarf að nýta það sem maður kann. Furðulegar tilviljanir og óvænt endalok samrýmast ekki raunsæisástríðu minni en það kann að vera þröngsýni. Smásagan var einu sinni nokkuð öflugt afþreyingarform og ég má alveg við því að auka afþreyingargildið hjá mér í framtíðinni. - Sem minnir mig á það að ég og útgefendurnir höfum orðið ásáttir um að næsta bók verði eiginlega að ná 300 eintökum í sölu ef við viljum halda þessu áfram. Hugsunin er sú að skrifa mikið og gefa út nokkuð ört næstu árin og smástækka þannig lesendahópinn því staðreyndin er sú að mínum fáu lesendum fækkar ekkert, það þarf bara að fá fólk til að byrja, svo bætist bara í.

Hefur einhver hér lesið þessa höfunda, O. Henry og Mansfield?

Það fór víst eitthvað á milli mála hjá eldheitum aðdáanda mínum í kommentakerfinu um daginn svo ég verð víst að kveða upp úr um þetta: Ég er kominn með útgefanda og sá útgefandi er ekki Ágúst Borgþór Sverrisson. Og hann heitir ekki heldur Benedikt Lafleur. Þetta er fyrirtæki með starfsmönnum (reyndar ekki mörgum) og bókum á lager og allt það. En ég hef samt ekki skrifað undir samninginn og ekkert er því útilokað í þessum efnum. Maður getur ekki verið viss um að útgefandi gefi út bók fyrr en hún er komin í prentun og auk þess eru aðrir möguleikar ekki alveg úr sögunni. Get ekki farið meira út í þetta. Ég er því í þeirri eftirsóknarverðu aðstöðu að vera að fínpússa handrit og þurfa að skila því af mér. Það verk (sem ég vonaðist eftir og hlakkaði til á meðan ég var í USA) er samt kannski ekki alveg eins skemmtilegt og ég hélt. Eitthvert eirðarleysi tefur mig sem og löngunin til að byrja á alveg nýrri bók, hafa óskrifað blað og frelsi til að velja nýtt efni. En það verður að bíða í einn til tvo mánuði. Verð að gera þetta eins vel úr garði og hægt er. Þetta verður lengsta bókin mín til þessa en þó varla meira en 150 blaðsíður. Ég er að reyna að setja kjöt á bein sögunnar Sektarskipti og er það helsta verkefnið sem eftir er, hitt er meira og minna bara yfirlestur. Gengur hægt en gengur þó.

Nú og svo er von á Uppspunanum frá Bjarti á næstunni. Úrval íslenskra smásagna 1996-2003. Og auðvitað á viss aðili sögu þar, hvernig væri annað hægt.