föstudagur, desember 09, 2005

Hægri kratar sem sífellt eru að kalla eftir endurkomu Jóns Baldvins, eiga þeir bara ekki prýðilega heima í Sjálfstæðisflokknum? Og sumir komnir þangað. Væntanlega fer vel um þá þar og þeir hafa líka góð áhrif á flokkinn.

Annars er allt gott að frétta

Ég þarf að láta svæfa köttinn. Hann er farinn að sækja í að skíta inni, kemur inn beinlínis til þess að skíta í gamla sófann í vinnuherberginu. Ég þurfti að þrífa viðbjóðinn í morgun og var að verða of seinn í vinnuna þegar ég uppgötvaði það.

Á stígnum í Hljómskálagarðinum féll ég síðan kylliflatur af hjólinu. Stígurinn allur svellaður. Það var nokkuð sárt en ekkert brotnaði eða skemmdist.

Darmstadt er að hafa það

Á meðan þýsk bókaforlög berjast blóðugri baráttu um útgáfuréttinn að bókum íslenskra reyfarahöfunda þá berjast þýskar borgir álíka hatrammri baráttu um að hýsa smásagnameistarann og nóvellubyrjandann. Darmstadt hefur lagt sig mest fram, sent mér meil og þakkað fyrir vingjarnlega fyrirspurn, stært sig af því að vera borg júgendstílsins og nánast grátbeðið mig um að heiðra sig með 10 daga vist í janúar. Þriggja stjörnu hótel í miðbænum þar býður mér 10 daga gistinguna á 50 þúsund kall. Hildesheim, Mannheim, Heidelberg og Frankfurt mæna líka á mig vonaraugum en líklega verða Þarmastaðirnir ofan á. Ég mun líklega skreppa eina ferð til Heidelberg og í gamla miðaldabæinn í Frankfurt, Römerberg, en annars halda mig í miðbæ Þarmastaða og skrifa þar vonandi um 50 blaðsíður, kannski meira. Aðalhasarinn nú er að klára uppkastið áður en ég fer og líklega tekst það á síðustu stundu. Spennandi verður að sjá hvernig önnur umferð gengur, eftir hana liggur það fyrir hvort þetta er að lukkast með haustið 2006 í huga.

Ég er illa að mér um þýskar nútímabókmenntir. Gaman væri ef einhver gæti stungið upp á lesningu við mitt hæfi - síðast keypti ég smásagnasafn eftir Judith Hermann og las jafnt og þétt á meðan dvölinni stóð, gaman væri að kaupa eitthvað líka í þetta skiptið sem hentar mér jafn vel.
Má vera hvort sem er smásagnasafn eða skáldsaga. Vonandi er einhver tillögufær hér.

Þegar Halldór Laxness leit inn á Tómasarhaganum

Freyja: Heyrðu, kom hann ekki einu sinni til þín, þessi Eldjárn, Þórarinn Eldjárn?
ÁBS: Jú, í fyrrahaust, hann kom og gaf mér bókina sína.
Freyja: Vá, æðislegt, þú þekkir svona fræga kalla. Hann var að lesa upp í skólanum hjá okkur og allt.
ÁBS: Við þekkjumst ekki mikið, hann kom bara til að gefa mér bókina sína og ég gaf honum mína, svona skipti.
Freyja: En þá hélt ég að hann héti Halldór Laxness. Svo ég sagði stelpunum að Halldór Laxness hefði heimsótt þig. En er hann nokkuð dáinn?
ÁBS: Ja, hérna, sagðirðu að Laxness hefði heimsótt pabba þinn? Jú, hann er dáinn fyrir nokkrum árum og var örugglega dáinn þegar Þórarinn Eldjárn kom og gaf mér bókina sína.

fimmtudagur, desember 08, 2005

http://www.thorsteinnj.is/index.php/id/1865/video/2015 Hérna er býsna gott viðtal við EÖN. Það minnti mig eilítið á sjónvarpsefni sem oft vakti áhuga minn á unglingsaldri og framundir þrítugt. En í seinni tíð er nánast útilokað að rekast á svona menningarefni í Ríkissjónvarpinu.

Það var kaldavatnslaust heima í morgun, bara brennheitt vatn í boði. Ég þurfti því að fara skítugur í vinnuna. Samt trylltist ég ekki. Það er þroskamerki.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Það er líklega hárrétt umsögn hjá Össuri Skarphéðinssyni að kalla bókina Völundarhús valdsins "pólitískan reyfara". Ég settist með þessa bók á Súfistann áðan og átti erfitt með að slíta mig frá lestrinum þó að ég hefði vart tíma til hans. Ég held að tvennt valdi þessu: Annars vegar hef ég mikinn áhuga á efninu og tímabilinu en hins vegar er höfundur bókarinnar einfaldlega virkilega góður penni sem virðist hafa það í sér að skrifa æsispennandi texta um eitthvað sem fyrirfram telst varla efniviður í spennusögu. - Allt um það má segja að mitt eigið vald í samfélaginu hafi nú náð hámarki: fæ ég sent frítt eintak af bókinni frá útgefanda sem væntanlegur álitsgjafi um hana en ég hef hugsað mér að fjalla meira um bókina á næstunni. Lengra nær þessi alþýðudrengur tæpast í samfélaginu og leiðin getur bara legið niður á við úr þessu.



Þessi fallega stúlka sér ekki sólina fyrir mislyndum og þéttvöxnum föður sínum. Þegar ég spyr hana hvers vegna getur hún ekki svarað því.

Kom við hjá Skruddu í morgun og sníkti af þeim Glapræði og Afmarkaða stund. Þeir voru brattir eins og vanalega. Mamma var með mér og fékk Rainkin. Ég sagði þeim að þeir fengju að kíkja á handritið hjá mér í vor. Hugsaði með mér að kannski verði þetta fyrsta bókin mín sem selst eitthvað. Og kannski selst hún ekki neitt. Það á eftir að koma á daginn.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Ég sat á bakaríscafé við Lækjargötu í hádeginu. Þar heilsaði upp á mig kona sem ég vann með á kleppi um miðjan 9. áratuginn. Stuttu síðar staldraði Eyvindur Sólnes við borðið mitt. Hann er 32 ára gamall lögfræðingur og tveggja barna faðir en ég sá hann fyrst 7 ára gamlan í Kaupmannahöfn árið 1980. Á meðan ég talaði við hann rifjaðist það atvik upp.

Hvað eru gömlu dagarnir og hvað ekki. Skammdegissíðdegi á Seltjarnarnesinu árið 1970, ég hangi í einhverjum leikleiðindum í herberginu, með dót sem ég er orðinn leiður á, bróðir minn að hamast eitthvað úti og mamma að vinna?

Eða eru gömlu dagarnir við Eiríkur Norðdahl að skiptast á draumum hvor um annan og skítkasti?

Kleppskonan, sem er 52 ára, sagði að ég væri að upplifa bestu ár ævinnar núna og hvatti mig til að nýta þau. Ég tek hana á orðinu. Skrifa skáldsögu. Fer til Darmstadt. En í dag er ég bara eitthvað svo latur og værukær.

http://www.bjorgvin.is/01grein.cfm?pis=370 Þessi grein Björgvins Sigurðssonar kom mér dálítið á óvart. Einhvern veginn átti ég ekki von á þessum málflutningi úr þessari átt. Ég man að ég fékk einhverja klígjutilfinningu þegar ég sá ljósmynd af fínu körlunum við hliðina á Vigdísi Finnbogadóttur en ég leyfði mér ekki að segja neinum frá því.

Ég sé að við menningarvitar höfum naumlega misst af frumraun nýjustu bókmenntastjörnu Kristjáns B. Jónassonar. Í september eða október mun Eddan hafa byrjað að bera víurnar í Gillzenegger og hann tók sig síðan til og skrifaði bókina sína á þremur vikum. Hann byrjaði hins vegar of seint á verkinu og því tókst ekki að koma bókinni út fyrir jólin, en stefnt mun vera á útgáfu í janúar. Væntanlega verður Gillzenegger þá á forsíðu Lesbókar Morgunblaðsins, það væri a.m.k. í takt við tíðarandann í menningarlífinu núna.

Kristjón Kormákur fær góða dóma hjá Jakobi Bjarnari í dag, 4 stjörnur af 5. Ég man ekki eftir því að það hafi gerst áður að óþekktur höfundur gefi sjálfur út skáldsögu sem vekur svona mikla athygli og fær svona góða dóma. Samt hef ég engan sérstakan áhuga á henni en það segir væntanlega meira um mig en bókna.

Óttaleg skammdegisværð er í manni. Nýti tímann illa síðustu sólarhringana vegna leti. Langar mest til að sofa fram á vor. En hvern fjandann kemur ykkur það við?

mánudagur, desember 05, 2005

Það er grein eftir mig í Blaðinu í dag.

Inn af matsalnum í kjallaranum er lítið fundarherbergi fyrir innanhússfundi hugmyndasmiða. Ég heyrði á tal tveggja manna þar rétt áðan og sparkaði upp hurðinni. Rosalega brá þeim. Rosalega getur verið gaman að vera barnalegur.

sunnudagur, desember 04, 2005

Ég skemmti mér á vernduðu svæði í gærkvöld: Jólahlaðborð Íslensku auglýsingastofunnar í Stélinu, starfsmannasal Flugleiða, í Síðumúla. Og fór ekkert út á meðal ribbalda. Eina hættan á slagsmálum stafaði af Sigtryggi Magnasyni. Hann var ræðumaður kvöldsins (Sigtryggur hefur starfað hérna í einn eða tvo mánuði) og var svo fyndinn að ég óttaðist að hann hefði slegið við ræðu minni við sama tækifæri í fyrra. Sigtryggur er hins vegar bæði of viðkunnanlegur og of horaður til að ég geti lagt á hann hendur.